Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð

Ár 2010, þriðjudaginn 9. mars kl. 14.00 var haldinn 46. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Hofi að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Gísli Marteinn Baldursson, Brynjar Fransson, Áslaug Friðriksdóttir, Dofri Hermannsson, Margrét Sverrisdóttir og Hermann Valsson. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Stefán Agnar Finnsson, Kolbrún Jónatansdóttir, Rósa Magnúsdóttir, Árný Sigurðardóttir, Guðmundur B. Friðriksson, Þórólfur Jónsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fylkisvegur 6, íþróttasvæði Fylkis, deiliskipulag, grasæfingasvæði.
Lagt fram á ný bréf Skipulags- og byggingasviðs dags. 10. desember 2009. Lögð fram á ný greinargerð og tillaga um 100 metra helgunarsvæði áa og vatna í Reykjavík.
Lögð fram á ný umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 26. janúar 2010.
Málinu var frestað og því beint til Skipulags- og byggingasviðs að endurskoða tillöguna í samráði við stjórn Fylkis.

Ólafur F. Magnússon, kom á fundinn kl. 14.20.

2. Tillögur Stekkjarbrekkna ehf. (SMI) v/vegtenginga við Korputorg.
Lögð fram bókun hverfisráðs Grafarvogs dags. 8. febrúar 2010. Lagt fram til kynningar bréf Íbúasamtaka Grafarvogs dags. 18. febrúar 2010.

3. Hljóðmön við Sæbraut.
Lögð fram orðsending skrifstofu borgarstjóra dags. 2. mars 2010.
Umhverfis- og samgöngusviði falið að gera greinargerð um málið.

4. Safnstæði leigubíla við Hafnarstræti.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 25. febrúar 2010.
Umhverfis- og samgöngusviði falið að gera greinargerð um málið.

5. Kynntar niðurstöður samráðsfunda í hverfum borgarinnar vegna endurskoðunar Aðalskipulags Reykjavíkur.
Haraldur Sigurðsson, Skipulags- og byggingasviði, kom á fundinn.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:
Í niðurstöðum samráðsfunda með íbúum í hverfum borgarinnar vegna endurskoðunar Aðalskipulags Reykjavíkur kemur skýrt fram vilji íbúa til að draga úr óæskilegum áhrifum umferðar. Skipulag verslunar og þjónustu í göngufæri í hverfum borgarinnar, betri almenningssamgöngur og samræming frístunda- og skólastarfs barna er einnig rauður þráður. Fyrir Umhverfis- og samgönguráð sem fer með stefnumótunarvald í samgöngumálum borgarinnar eru þetta skýr skilaboð um að ráðið verði hluti af ákvörðunum í upphafi skipulagsferilsins. Ella verður ráðið sífellt dæmt til að bregðast við umferðarvanda sem vanhugsað skipulag veldur.

6. Þjónustusamningur og þjónustustig við rekstur gatna og opinna svæða.
Lagt fram yfirlit um þjónustustig skv. samningi fyrir árið 2010, ásamt útskýringum á því, hvað í þjónustustigi felst.
Sighvatur Arnarson og Guðbjartur Sigfússon, Framkvæmda- og eignasviði, komu á fundinn.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi bókun vegna snjóhreinsunar göngustíga:
Í þeirri ófærð sem verið hefur í borginni undanfarnar tvær vikur hefur glöggt komið í ljós að það fjármagn sem ætlað er til snjóhreinsunar í borginni er aðeins helmingur af því sem það þyrfti að vera. Við afgreiðslu á fjárhagsáætlun lofaði meirihlutinn að sparnaður á þessu sviði myndi ekki koma niður á þjónustu við borgarana. Ljóst er að það hefur engan veginn staðist. Sérstaklega hefur þetta komið sér illa fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem þó hafa ákaft verið hvattir til að leggja bílnum og ferðast um borgina með umhverfisvænum hætti.

Fulltrúar meirihlutans í ráðinu lögðu fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmda- og eignasviði borgarinnar sem sér um snjómokstur, hafa kvartanir frá borgarbúum vegna moksturs ekki verið fleiri í vetur en fyrri ár. Bendir það til þess að þjónustustigið sem sambærilegt við það sem verið hefur. Hitt er rétt að hagræða hefur þurft í þessari þjónustu eins og annarri, enda er það stefna meirihlutans að hagræðing og sparnaður sé betri leið á þessum erfiðu tímum, en að velta vandanum yfir á almenning með hækkunum á gjöldum og sköttum. Samstaða hefur verið um það milli meirihluta og minnihluta að aukna áherslu skuli leggja á mokstur og hreinsun göngu- og hjólreiðastíga. Þrátt fyrir að heildarlengd hjólreiðastíga hafi aukist verulega á þessu kjörtímabili, hefur tekist að viðhalda háu þjónustustigi á þeim eins og öðrum stofnbrautum borgarinnar, þó vissulega megi alltaf gera betur.

7. Framtíðarskipan sorphirðu í Reykjavík.
Umræðu var frestað til næsta fundar.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:
Óheppilegt er að Sorpa bs skuli ekki hafa framtíðarsýn sem samrýmist stefnu Reykjavíkurborgar um skipan sorphirðu í Reykjavík. Ánægjulegur er sá samhljómur sem ríkt hefur í Umhverfis- og samgönguráði um stefnu Reykjavíkur í þessum málum þvert á flokkslínur. Hann hlýtur að leiða til þess að Sorpa bs breyti áformum sínum ella hlýtur Reykjavíkurborg að velja sér annað fyrirtæki til að framfylgja stefnu sinni.

8. Náttúruskólinn – ársskýrsla.
Lögð fram til kynningar.
Helena Óladóttir, verkefnisstjóri Náttúruskóla Reykjavíkur, kom á fundinn og kynnti starfsemi liðins árs.

9. Virði Heiðmerkur – rannsóknarverkefni.
Kynning.
Kristín Eiríksdóttir, doktorsnemi, kom á fundinn og kynnti verkefnið.

10. Fundargerðir.
a. Lagðar fram til kynningar 132., 133. og 134. fundargerð stjórnar Strætó bs.
b. Lögð fram til kynningar 270. Fundargerð stjórnar Sorpu bs.

11. Fuglalíf Tjarnarinnar árið 2009.
Lögð fram á ný skýrsla Ólafs K. Nielsen og Jóhanns Óla Guðmundssonar, desember 2009.
Lagt fram minnisblað Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 8. Mars 2010.
Ráðið þakkar minnisblað garðyrkjustjóra og treystir því að unnið verði í samræmi við þær tillögur, sem þar koma fram.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja til að Umhverfis- og samgöngusvið bjóði Kvennaskólanum og Menntaskólanum í Reykjavík samstarf um vöktun og rannsóknir á lífríki Tjarnarinnar.
Frestað.

12. Samantekt af vinnufundi atvinnumálahóps – atvinnumál 13 -18 ára.
Lögð fram til kynningar orðsending skrifstofu borgarstjórnar dags. 19. febrúar 2010.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar þakka fyrir samantekt atvinnumálahóps um atvinnumál ungs fólks í borginni. Ljóst er að þar eru margar góðar hugmyndir sem æskilegt hefði verið að tillit hefði verið tekið til við afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Furðu vekur að það hafi ekki verið gert þar sem fundur atvinnumálahóps um þetta mál fór fram 22. október.

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 16.50

Gísli Marteinn Baldursson
Brynjar Fransson Áslaug Friðriksdóttir
Dofri Hermannsson Margrét Sverrisdóttir
Hermann Valsson Ólafur F. Magnússon