No translated content text
Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2011, þriðjudaginn 31. maí kl. 12.00 var haldinn 83. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Ráðhúsi Reykjavíkur, borgarráðsherbergi. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Páll Hjaltason, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Guðmundur B. Friðriksson, Kolbrún Jónatansdóttir, Gunnar Hersveinn, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Örn Sigurðsson og Þórólfur Jónsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Opnun Laugavegar fyrir gangandi vegfarendur.
Lagt fram bréf Íbúasamtaka miðborgar dags. 25. maí 2011, Miðborgarinnar okkar ásamt undirskriftarlistum dags. 26. maí 2011, móttillaga stjórnar Miðborgarinnar okkar og álit Öryrkjabandalags Íslands dags. 30. maí 2011,
Umhverfis- og samgönguráð samþykkti einróma eftirfarandi tillögu sem lögð var fram ásamt greinargerð :
Umhverfis- og samgönguráð leggur til að bílaumferð á Laugaveginum frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg verði takmörkuð á tímabilinu 1. júlí til 1. Ágúst næstkomandi. Aðgengi verði fyrir þjónustubifreiðar kl. 8-11, aðgengi verði inn á bílastæði baklóða og aðgengi verði fyrir neyðarumferð lögreglu og slökkviliðs. Að tveggja vikna tíma liðnum er sviðinu falið að meta stöðuna og kalla til fundar með ráðinu ef mælikvarðar sýna að tilraunin stenst ekki væntingar borgarinnar. Umhverfis –og samgönguráð hefur þá heimild til að falla frá takmörkun á umferð.Umhverfis- og samgönguráð leggur jafnframt til að ítarlegar mælingar verði gerðar fyrir, eftir og á meðan takmörkun stendur. Þætti sem þarf að skoða er fjöldi vegfarenda og fjöldi innstiga í verslanir, viðhorf vegfarenda, íbúa og rekstraraðila og nýtingu göturýmisins yfir daginn. Alla þessa þætti þarf að greina út frá utanaðkomandi þáttum eins og veðri. Aðgengi fatlaðra verði jafnframt skoðað og unnið að því í samráði við ferlifulltrúa frá ÖBÍ.
Fulltrúi VG lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði telur að lokun Laugarvegar frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg sé tilraunarinnar virði. Tekið er undir það að tilraun sem þessi verður varla marktæk nema að hún standi yfir í mánuð að lágmarki. Komi í ljós að hún hafi skaðleg áhrif á þá sem þarna búa og eða stunda verslun eða annan rekstur ætti það að koma fyllilega til greina að mætast á miðri leið með vistgötuhugmyndum, “shared space” (samnýttu rými), takmarkaðri umferð, lokun skv. dagatali og/eða tímum dags, Laugavegs-Hverfisgötu létt-strætó, endurhönnun og rýmismyndun o.fl. Eigi tilraun sem þessi að vera marktæk þarf að kanna ýmsa þætti sem koma umhverfinu við á tilraunatímanum. Mælingar verða að taka til alls sólahringsins og taka til kosta og galla. Slíkar mælingar gætu verið á eftirfarandi hátt:
1. Viðhorfskönnun fyrir breytingar, á reynslutíma og/eða fljótlega eftir það (staðlaður spurningalisti og/eða stuttar viðtalskannanir) - hagsmunaaðilar (grunnbreytur: aldur, kyn, menntun, búseta, þjóðerni).
a) íbúar við Laugaveg og í næsta nágrenni. b) rekstraraðilar. c) aðrir notendur (gangandi, hjólandi, akandi). Athuga að það þarf að gera samanburðarkönnun fyrir og eftir breytingar og ná þannig einnig til þeirra sem hugsanlega koma ekki vegna breytinganna (t.d. vegna skerts aðgengis, fötlunar, aldurs o.fl.).
2. Notkunarmynstur eftir:
a) tíma sólarhrings b) dögum vikunnar. c) sérstöku viðburðum. d) veðurfarsþáttum.
3. Talningarkerfi viðskiptavina (innskref) í verslunum og veitingahúsum.
4. Mæla breytingar í veltu verslana og veitingahúsa.
5. Breytingar í flæði gangandi og hjólandi umferðar á tilraunasvæðinu.
a) athuga hvar helsta virknin er og hvar í göturýminu fólk heldur sig einna helst.
6. Breytingar í umferðarflæði, akstursmynstri, notkun bílastæða og bílageymsluhúsa í nágrenninu.
7. Kostnaður við götuþrif.
8. Breytingar á notkun göturýma og aðliggjandi almenningsrýma (gerð, fjölbreytileiki, tíðni)
a) skrið verslana og veitingahúsa út í göturýmið. b) breytingar í tíðni og gerð ýmissa uppákoma (skiplagðar og óskipulagðar).
9. Lýðheilsusjónarmið (félagslegir þættir, samfélagslegir, líkamlegir, andlegir)
10. Breytingar í atferlismynstri (gerð og tíðni)
a) jákvæðar t.d. jákvæð samskipti, aukin þátttaka (mannlíf, vellíðan, borgarbragur o.fl - flókin mæling). b) neikvæðar t.d. ónæði, slysatíðni, ofbeldi (bera saman fyrir og eftir breytingar)
11. Aðrar breytur sem mætti hafa í huga til lengri tíma eru: fasteignaverð, leiga/kaup á íbúðar-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
Fulltrúi VG vill að öðru leyti ítreka þá skoðun að full ástæða er til að nýta betur torg borgarinnar til fegurra mannlífs og tími er kominn til að skoða það alvarlega að loka Austurstræti öllu og Pósthússtræti að Hafnarstræti. Jafnframt þessu ætti að loka götunum í kringum Ingólfstorg og opna torgið ( með tilheyrandi niðurryfi og tilfærslum húsa) út í Fógetagarð.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tímabundna takmörkun á bílaumferð á Laugaveginum í samvinnu við kaupmenn, veitingamenn og íbúa á svæðinu. Það er ósk okkar að tilraunin verði lyftistöng fyrir verslun og mannlíf á Laugaveginum og að með henni náist að skapa fagurt og líflegt borgarumhverfi. Eftirtalda áherslupunkta vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka:
- Mikilvægt er að ákvörðunin verði endurskoðuð eftir 2 vikur eins og kaupmenn leggja til, og horfið frá tilrauninni, ef gestum miðborgarinnar fækkar.
- Mikilvægt er að gera nákvæmar talningar á innstigum í verslanir, fjölda fólks í götunni osfrv bæði fyrir og eftir lokunina.
- Mikilvægt er að tryggja aðgengi fatlaðra og annarra sem eiga erfitt um gang. Hugsanlega leyfa þeim að aka inn á svæðið.
- Á tilraunatímanum þarf borgin að standa þétt við bakið á Laugaveginum, t.d. með aukinni hreinsun, hafa #EFKhúsverði#EFK á ferðinni allan daginn og gott upplýsingaflæði til kaupmanna um hvernig gengur.
- Borgin þarf að standa við bakið á Miðborginni okkar og styrkja margvíslegar uppákomur sem draga fólk í miðbæinn.
Fulltrúar meirihluta í Umhverfis- og samgönguráði lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sambest fagna því að Umhverfis- og samgönguráð hafi stigið þetta mikilvæga skref og sett þannig sitt mark á sögu Reykjavíkurborgar á jákvæðan hátt. Það er trú fulltrúa Sambest að þessar breytingar á Laugaveginum muni efla mannlíf og verslun. Fulltrúar Sambest leggja áherslu á mikilvægi þess að standa í mikilli og góðri gagnasöfnun, líkt og kemur fram í tillögunni, svo að hægt verði að læra sem mest af þessari tilraun.
2. Sorpmál.
Staða mála við undirbúning innleiðingar 15 metra reglu kynnt og drög að verklagsreglum lögð fram.
Fulltrúi VG lagði fram eftirfarandi bókun:
Á fundi ráðsins 26. 4 sl. var frestað til 1. júní gildistöku hinnar svokölluðu 15. metra reglu hvað varðar aukagjald. Í bókun meirihlutans segir að maímánuður verði „ notaður til að skoða hvort og þá í hvaða tilfellum verði veittar undanþágur frá 15 metra þjónustunni.” Nú á aukafundi ráðsins, 31. maí eru lagðar fram tillögur um undanþágur fyrir suma borgarbúa og jafnvel heilan borgarhluta sem íbúum annarstaðar þykir sjálfsagt ósanngjarnar og ógna jafnræðisreglunni. Jafnframt er meiningin að gefa enn meiri frest þar til rukkað verður viðbótargjald og fresturinn verði um óákveðinn tíma. Meginröksemdin fyrri 15 metra reglunni var mengunarbótareglan – þ.e. þeir borgi sem menga. Í þessu tilfelli eigi íbúar Reykjavíkur að greiða í samræmi við þá fyrirhöfn sem sorphirða við heimili kostar. Bent hefur verið á þann galla að þeir sem eru með sínar tunnur innan við 15 metra frá sorphirðustað borga ekki aukagjald en þeir sem eru með tunnurnar í yfir 15 metra fjarlægð, greiða sama gjaldið hvort sem um er að ræða 16 metra eða 60. Rök fyrir mengunarbótakröfunni verða vafasöm í þessari útfærslu. Íbúar hafa ennfremur áhyggjur af nýsamþykktri 10 daga sorphirðu og það verður að bregðast við í sumar, þegar hitnar í veðri, verði lyktarvandarmál á einhverjum stöðum til óþæginda eða heilsuspillandi aðstæður skapast jafnvel af sorpi. Megin atriði þessa málaflokks snýr þó að mótun á stefnu Reykjavíkurborgar um að draga úr úrgangi, auka flokkun og endurvinna úrgang sem fellur til í borginni. Sorphirðan er mikilvægur hluti grunnþjónustu borgarsamfélagsins og hana verður að leysa af hendi með hagsmuni íbúanna í huga. Fulltrúi Vinstri grænna í umhverfis- og samgönguráði áréttar það að öryggi og hagkvæmni verður best tryggt með rekstri almannafyrirtækis á borð við Sorpu bs. en ekki með útvistun eða einkavæðingu. Reykjavíkurborg hlýtur að stefna ótrauð að flokkun og endurnýtingu allra verðmæta jafnframt því sem áhersla verður lögð á metangas og moltugerð úr öllum lífrænum úrgangi sem ekki mun aðeins færa borgarbúum góða mold og vistvænna eldsneyti heldur um leið minnka stórlega útblástur gróðurhúsaloftegunda frá urðunarstöðum.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði telja að hverfa eigi frá innleiðingu svokallaðrar 15-metra reglu að svo komnu máli. Hugmyndafræðin á bak við regluna er skiljanleg og jákvætt er að leitað skuli leiða til að sorphirða standi undir sér á sanngjarnan hátt. Sanngjarnt er að þeir sem valda auknum kostnaði við sorphirðu umfram aðra, hafi val um að annað hvort bregðast við til að lækka þann auka kostnað, eða greiða fyrir hann. Slíkar leiðir eru sanngjarn kostur í staðinn fyrir að sé sett flöt gjaldheimta á alla borgarbúa. Ef fara á í slíkar aðgerðir er hins vegar nauðsynlegt að gætt sé að jafnræði, sanngirni og góðu samstarfi við borgarbúa. Því miður hefur ekki tekist að tryggja að útfærsla reglunnar uppfylli þessi skilyrði.
Fundi slitið kl. 15.20
Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Hjálmar Sveinsson
Páll Hjaltason Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir Þorleifur Gunnlaugsson.