Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2024, miðvikudaginn 2. október, kl. 9:04 var haldinn 321. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Geirdís Hanna Kristjánsdóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram fundargerð skipulagsfulltrúa dags. 26. september 2024. USK22120094
Fylgigögn
-
Leiðrétt bókun frá fundi umhverfis- og skipulagsráðs dags. 18. september 2024, liður 5, um breytingu á deiliskipulagi, Starhagi 11.
Rétt bókun er:
Samþykkt með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. USK24050167
Fylgigögn
-
Bókanir við kynningu á niðurstöðum hugmyndaleitar fyrir Ægisíðu 102 vestur færð úr trúnaðarbók umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. apríl 2024 þar sem aflétt hefur verið trúnaði um hugmyndaleit.
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Við þökkum kynningu á tillögum hugmyndaleitar um þróun reitsins á Ægisíðu 102. Þær sýna að á þessu gamla bílaplani er hægt að skapa rými fyrir íbúðaklasa og þjónustu og um leið umgjörð fyrir vistvænt og aðlaðandi umhverfi. Enginn vafi er á að þarna verður eftirsótt að búa. Tillögurnar sýna líka að þessi nýja byggð getur fallið vel að ríkjandi byggðamynstri í Vesturbænum. Minnt er á mikilvægi göngu- og hjólatenginga um nærliggjandi götur og svigrúm sem þær þurfa. USK24040052
-
Lögð fram umsókn Teiknistofunnar Storð ehf., dags. 14. maí 2024, ásamt bréfi Hermanns Georgs Gunnlaugssonar, dags. 14. maí 2024, um breytingu á deiliskipulagi Grafarlækjar-Stekkjarmóa-Djúpadals vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Grafarlæk. Í breytingunni sem lögð er til felst að koma fyrir byggingarreit fyrir áhaldahús og snyrtilegu athafnasvæði áhaldahúss ásamt því að skilgreina byggingarreit fyrir áhaldahús sem falli að hluta til inn í landið og útfæra athafnasvæði og efnisgeymslu utanhúss fyrir viðhaldsdeild GR, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Storð ehf., dags. 1. júlí 2024. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu. USK24050161
Frestað.
-
Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Sigríðar S. Sigþórsdóttur, dags. 4. janúar 2024, um breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits vegna lóðarinnar nr. 42 við Vesturgötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verði að hækka húsið um eina hæð, stækka byggingarreit vegna byggingu lyftuhúss á austurhlið, bæta við svölum á vesturhlið hússins á 2. og 3. hæð og koma fyrir leik- og dvalarsvæði fyrir íbúa á lóð, samkvæmt deiliskipulags- og skuggavarpsuppdr. Basalt arkitekta, dags. 27. júní 2024. Erindið var grenndarkynnt frá 23. júlí 2024 til og með 21. ágúst 2024. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Ólafur Baldvin Jónsson, Guðlaug Erla Jónsdóttir og Jón Páll Baldvinsson, dags. 8. ágúst 2024, og Húsfélagið Vesturgötu 40 f.h. íbúa, dags. 21. ágúst 2024. Einnig er lögð fram ábending Veitna, dags. 31. júlí 2024. Jafnframt er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. september 2024. Lagt er til að umsókninni verði synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. USK24010044
Synjað er beiðni um breytingu á deiliskipulagi með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 26. september 2024 með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.Olga Guðrún Sigfúsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Breytingin á Nýlendureit felur í sér að einni hæð verður bætt ofan á húsið nr. 42 á Vesturgötu. Skuggavarp verður of mikið og mun breytingin hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Einnig er sótt um að stækka byggingarreit vegna byggingu lyftuhúss á austurhlið, bæta við svölum á vesturhlið hússins á 2. og 3. hæð og koma fyrir leik- og dvalarsvæði fyrir íbúa á lóð. Það er aðallega hæðin sem byggja á ofan á húsið, sem er frekar hátt fyrir sem er bratt að mati fulltrúa Flokks fólksins. Hér er verið að hækka hús í gróinni byggð og þar með auka á skugga á lóðum nágranna með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum s.s. á gróður og margt fleira. Skuggar af byggingum eru einn af mörgum þáttum sem hefur áhrif á andlega líðan fólks.
-
Lögð fram fundargerð byggingarfulltrúa dags. 24. september 2024. USK24070166
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð SORPU bs. nr. 501 dags. 14. ágúst 2024, ásamt fylgigögnum. USK23010167
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 3. og 4. lið fundargerðar:
Liður 3 - Ekki er nýtt að hagnaður SORPU sé undir áætlun en hagnaður fyrri hluta árs er 22% undir áætlun. Framkvæmdastjóri gerir grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á skipulagi SORPU. Með breytingunum er stefnt að því að bæta og samþætta þjónustu SORPU við almenning og stuðla að samræmi í þjónustuveitingu. Markmið með breytingunum er auk þess að valdefla starfsfólk, aukið öryggi og vellíðan í starfi. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað vita nánar hvers lags skipulagsbreytingar þetta eru. Liður 4 - Áformað er að fara með fríðu föruneyti til að skoða hátækni sorpbrennslur í ferð til Finnlands. Áhugi er á að stjórn SORPU og framkvæmdastjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu taki þátt í ferðinni. Flokkur fólksins fagnar hverju skrefi sem tekið er til að nýta þá orku og hráefni sem eru í sorpinu. Á því sviði eru nágrannar okkar langt á undan okkur og flytja þarf þekkingu þeirra hingað út. Hins vegar er það spurning hvort allir í stjórn SORPU þurfi að fara í ferð af þessu tagi? Hér er vel í lagt. Þekkingu er einnig hægt að miðla milli manna innanlands.
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2024 ásamt kæru nr. 73/2024, dags. 9. júlí 2024, þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að breyta bílastæðum í safnstæði fyrir rútur við Stórholt. USK24070117
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2024 ásamt kæru nr. 83/2024, dags. 1. ágúst 2024, þar sem kærð er ákvörðun byggingaryfirvalda í Reykjavík vegna umsóknar kæranda um byggingu bílskúrs á eignarlóð hans að Stýrimannastíg 14 í Reykjavík. USK24080014
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarstjórnar, dags. 19. september 2024, vegna samþykktar borgarstjórnar frá 17. september 2024 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðanna nr. 2-6, 8 og 10 við Arnarbakka. USK24030341
Fylgigögn
-
Lagt fram afgreiðslubréf borgarstjórnar, dags. 19. september 2024, vegna samþykktar borgarstjórnar frá 17. september 2024 á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi Breiðholts hverfi 6.1, Neðra Breiðholt. USK24050012
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um lækkun hámarkshraða á Suðurlandsbraut sem samþykkt var á fundi íbúaráðsins, dags. 28. september 2023 að vísa til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs og tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs sbr. 23. dagskrárliður fundargerðar dags. 4. október 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 21. febrúar 2024 sem vísað var til umsagnar íbúaráðs Laugardals. Jafnframt er lögð fram umsögn íbúaráðs Laugardals, dags. 14. maí 2024. MSS23090113
Tillagan er samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráð Laugardals og Háaleitis-Bústaða vilja lækka hraða bílaumferðarinnar á Suðurlandsbraut í 40 km/klst. Það er í takt við samþykkta hámarkshraðaáætlun. Mörg börn eru þarna á leið til skóla eða frístunda. Hraðalækkunin er liður liður í að bæta öryggi í umhverfinu. Mikilvægt er að hafa í huga að raunhraði bílanna á álagstíma er í kringum 40 km/klst svo þetta ætti ekki að hafa teljandi neikvæð áhrif á umferðarflæði.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags. 24. september 2024 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að veita heimild til áframhaldandi undirbúnings, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna breytinga á fyrirkomulagi á gatnamótum Grensásvegar og Ármúla/Skeifunnar.
Frestað.Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24090294
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um reit M9c í Úlfarsárdal, sbr. 10. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 21. ágúst 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, deildarstjóra aðalskipulags, dags. 11. júlí 2024.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.Fulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Staða verslunar í Úlfarsárdal kemur reglulega upp á fundum og í samtölum kjörinna fulltrúa við íbúa, enda hefur hverfið verið án matvöruverslunar frá upphafi. Úlfarsárdalur hefur verið lengi að byggjast upp og margoft hefur verið fallist á að breyta skipulögðu verslunarhúsnæði í íbúðir með þeim afleiðingum að fyrirheit um blómlega nærþjónustu hafa ekki gengið eftir. Einnig má velta því upp hvort hafi verið rétt að staðsetja samfélagsþjónustu hverfisins neðst í dalnum en að gera ekki ráð fyrir neinni verslun þar heldur 400 metrum ofar. Það er skiljanleg að nærumhverfið kalli eftir lausnum, ekki síst eftir að stór matvöruverslun á Korputorgi, sem margir í hverfinu nýttu sér, hætti. Nú er hins vegar ráðgerð matvöruverslun á Skyggnisbraut sem vonandi mun ganga vel. Fulltrúi Viðreisnar hefur að jafnaði skilning á þeim rökum, sem fram koma í umsögn sviðsins, um að heppilegt sé að staðsetja verslanir innan hverfa en telur að fordæmi sé fyrir ákveðnum sveigjanleika í þeim efnum og teljum jafnfram ekki útilokað að með frekari uppbyggingu í hverfinu í framtíðinni verði unnt sé að útfæra matvöruverslun á skipulagssvæðinu með þeim hætti að gönguleiðir séu öruggar og hún þjóni hverfinu vel.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Við hörmum að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Vinstri grænna skuli hafna tillögu Sjálfstæðisflokksins um að heimilað verði að byggja stórverslun með lágu verði og miklu vöruúrvali á svonefndum Bauhaus-reit (M9c) í Úlfarsárdal. Íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal hafa lengi óskað eftir slíkri verslun í hverfið og því myndi tilkoma hennar vera mikil þjónustubót fyrir þá. Sjálfsagt er að Grafhyltingar og Úlfdælingar hafi aðgang að slíkri stórverslun eins og íbúar annarra hverfa borgarinnar og þurfi ekki að leita langt yfir skammt eftir nauðsynjum. Komið hefur fram að eigendur Bauhaus vilja nýta viðkomandi lóð undir matvöruverslun.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fallvörn við Naustabryggju, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. maí 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 10. júní 2024.
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við framvísun til meðferðar. USK24050094Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að öryggisgirðing eða önnur fallvörn verði sett upp meðfram lágum bryggjukanti við Naustabryggju í því skyni að draga úr slysahættu þar, var lögð fyrir ráðið 8. maí sl. Tæpir fimm mánuðir eru því liðnir frá framlagningu hennar og því ætti nægur tími að hafa gefist til að skoða hana og meta. Það skýtur því skökku við að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar skuli kjósa að vísa tillögunni inn í rangala borgarkerfisins til frekari skoðunar og væntanlega svæfingar. Athygli skal vakin á því að þarna hafa orðið slys, þar af a.m.k. eitt alvarlegt. Ekki verður séð að þær takmörkuðu breytingar, sem gerðar voru á svæðinu á síðasta ári, dragi úr slysahættu svo nokkru nemi.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. fundargerð borgarstjórnar 20. september 2022, 6. liður, um að stemma stigu við hraðakstri bifhjóla á göngu- og hjólastígum.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. MSS22090144
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju ítrekun á tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 17. liður fundargerðar fundar umhverfis- og skipulagsráðs 15. maí 2024 um ítrekun um afgreiðslu á tillögu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn um að stemma stigu við hraðakstri bifhjóla á göngu- og hjólastígum.
Lagt fram. USK24050187
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks sbr. 2. liður fundargerðar dags. 19. september 2024 þar sem lagt er til að nefndin samþykki að beina því til umhverfis-og skipulagsráðs að upplýsingar um aðgengileika biðstöðva verði settar á aðgengilegt form þannig að Strætó geti miðlað þeim auðveldlega til farþega. Tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. Einnig er lagður fram tölvupóstur Strætó, dags. 17. september 2024.
Tillögunni er vísað frá.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Verkefnið er farið af stað hjá Strætó bs. og er tillögunni því vísað frá.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðgerð á gangstéttarkafla á Háaleitisbraut, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 25. september 2024.
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24090319
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagfæringar við Nauthól, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 25. september 2024.
Tillögu er varðar vatnshana er vísað til meðferðar Veitna. Tillögu er varðar merkingar er vísað til mats og meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24090320
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um möguleg svæði í borgarlandinu fyrir hjólhýsabúa sbr. 13. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. ágúst 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða. USK24080115
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hólma í ofanvatnstjörn norðan við Breiðholtsbraut, sbr. 31. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 25. september 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK24090314
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu leikskólahúsnæðis Björtuhlíðar, sbr. fundargerð skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, dags. 11. september 2024, 13. liður.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. SFS24090092
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hraðamælingar, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 25. september 2024.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK24090315
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Í ljósi hörmulegs banaslyss sem varð við Sæbraut fyrir skemmstu leggur fulltrúi Flokks fólksins til að hefjast skuli handa strax við að byggja bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg og einnig að komið verði nú þegar upp snjallstýrðum gangbrautarljósum sem les umferðarflæði, aðstæður og hreyfingar vegfarenda. Greinargerð fylgir tillögu. USK24100017
Frestað.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að teknar verða saman upplýsingar um bílastæðahús og bílastæðakjallara í Reykjavík, hver þeirra eru rekið af borginni og hver eru einkarekin. Einnig er lagt til að Bílastæðasjóður taki aftur upp að leggja sektarmiða undir rúðuþurrku í stað þess að senda rukkun beint í heimabanka, sem fer framhjá mörgum en með þessu fyrirkomulagi eru miklar líkur á því að sektin hafi hækkað þegar fólk áttar sig á að hafa fengið hana. Greinargerð fylgir tillögu. USK24100018
Frestað.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Flokks fólksins:
Hver er ástæða þess að stæðum fyrir fatlaða hefur fækkað svo mjög í miðborginni? Er hugsunin sú að halda þessu áfram og loka alveg á fatlaða? Eða er þetta tímabundið og við munum sjá fjölgun aftur? Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að úttekt verði gerð á hver fækkunin hefur verið og hvaða áform eru um áframhaldandi fækkun almennra og P-merktra stæða? Greinargerð fylgir fyrirspurn. USK24100019
- Kl. 10:26 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 10:40
Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 2. október 2024