Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 295

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 24. janúar, kl. 11:41 var haldinn 295. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur og 31. fundur stafræns ráðs. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum fyrir hönd umhverfis- og skipulagsráðs: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Birkir Ingibjartsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum fyrir hönd stafræna ráðsins: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Kristinn Jón Ólafsson, Sandra Hlíf Ocares og Sara Björg Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Óskar J. Sandholt, Aldís Geirdal Sverrisdóttir, Ásdís Ásbjörnsdóttir, Ásgrímur Már Friðriksson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Eva Pandóra Baldursdóttir.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á áherslum umhverfis- og skipulagssviðs í stafrænum málum. USK24010203. 
   
  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands í stafrænu ráði leggur áherslu á að við notendamiðaða hönnun viðmóts og vef sviðsins sé tryggt að sjaldgæfari eða óvenjulegri leitir týnist ekki við það að heitari leitir séu dregnar fram á einhvern hátt. Þó að þjónustu sé ekki þörf í lengri tíma er mikilvægt að jafn auðvelt sé í raun að finna upplýsingarnar eða virknina. Hætta getur skapast við mikla straumlínulögun og/eða mikinn fókus á skilvirkni að full virkni kerfa tapist í leiðinni. Þetta er stór galli á mörgum þjónustuvefjum. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Stafrænar lausnir eru vonandi að þokast áfram hjá umhverfis- og skipulagsráði. Það er reyndar komið eitt og hálft ár síðan að eyðublöð um byggingarfulltrúa og því tengt var tilbúið en hvernig stendur á þessum rosalega hægagangi í  þessum verkefnum? Flokkur fólksins spurði um þetta atriði á síðasta ári og fékk það svar frá stjórnendum þjónustu- og nýsköpunarsviðs að umhverfis- og skipulagssvið hafi ekki verið tilbúið fyrr að taka við stafrænum lausnum hvað svo sem það þýðir. Fyrir áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins var samt alveg skýrt að verið var að segja að ábyrgðin á töfum lægi  hjá umhverfis- og skipulagssviði. Þessi verkefni hefðu að mati áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins átt að verða alfarið unnin í samvinnu við ríkið, Mínar síður. Undir þessum lið liggur fyrir kynning sem ber heitið Stafræna jafnvægisskálin. Þessi kynning er með setningum sem erfitt er að skilja eins og “þar sem samlegðaráhrif og tækifæri á milli íbúans og stjórnsýslunnar eru greind, ítruð og stöðugt bestuð”. Hvað þýðir orðið „ítruð”? Af þessu að dæma eru uppgötvunar, þróunar og tilraunahópar þjónustu- og nýsköpunarsviðs enn í fullum gangi þrátt fyrir að lítið sem ekkert hafi komið út úr þeirri vinnu undanfarin ár. 
   
  Fulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 
   
  Því skal haldið til haga að Reykjavíkurborg hefur verið leiðandi í stafrænni umbreytingu og upplýsingagjöf til almennings, og hefur það vakið athygli bæði innanlands og erlendis. Það færi vel á því að kjörnir fulltrúar kynntu sér málin betur áður en beinum rangfærslum er haldið fram. 
   

  Fylgigögn

 2. Fram fer kynning í rafrænum byggingarleyfum og teikningaskönnun. USK24010204. 
   
  Olga Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefur áður bent á hinn ótrúlega hægagang sem eru í þessu ferli sem er í grunninn „bara“ stafræn umsóknarbréf. Svo virðist sem þetta verkefni hafi verið illa skilgreint og ekki verið fylgt eftir samkvæmt nútíma kröfum um árangursstjórnun verkefna. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur reglulega haldið kynningar á stöðu teikningaskönnunar en afrakstur látið standa á sér þrátt fyrir að gríðarlegu fjármagni hafi verið veitt til sviðsins. Sú kynning sem fylgir gögnunum núna er ekki á mannamáli. Stundum má halda að þjónustu- og nýsköpunarsvið geri út á vanþekkingu almennings með því að tala í tækni, tölvutungumáli. Setningar eru ekki að segja neitt og fáir þora að gagnrýna eitthvað ef þær hafa ekki þekkinguna á málinu. Talað er um að  „Bygg fjör 2 hefst í feb” en engin skilgreining er á, svona ef hugsað er til þeirra sem eru ekki inn í þessum málum. Setningin „Flækja rafrænna innsigla teikninga hefur verið leyst" er einnig  með öllu óskiljanleg. HMS er að því virðist að búa til gátt fyrir þessar lausnir sín megin og líklegt þykir að kerfi Reykjavíkurborgar verði tengd við það þegar nær dregur. Hér skiptir mestu að vera í alvöru samstarfi við önnur sveitarfélög og ríkið. 
   
  Fulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 
   
  Því skal haldið til haga að Reykjavíkurborg hefur verið leiðandi í stafrænni umbreytingu og upplýsingagjöf til almennings, gátt HMS getur ekki gagnast við innri upplýsingavinnslu, en sem betur fer hefur gengið vel að ná saman um breytingar á gagnagátt. Það færi vel á því að kjörnir fulltrúar kynntu sér málin betur áður en beinum rangfærslum er haldið fram. 
   

  Fylgigögn

 3. Fram fer kynning á aðgengilegum skipulagsgögnum. USK24010213. 
   
  Ævar Harðarson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
   
  -    kl. 12:17 víkur Pawel Bartoszek af fundinum og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir tekur sæti á fundinum í hans stað. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Stafrænar lausnir eru vonandi að þokast áfram hjá umhverfis- og skipulagssviði. Það er reyndar komið eitt og hálft ár síðan að eyðublöð um byggingarfulltrúa og því tengt var tilbúið en hvernig stendur á þessum rosalega hægagangi í þessum verkefnum? Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins og fleiri hafa sínar skýringar í því. Byrjað var á gæluverkefnum sem tók of langan tíma og mikið fjármagn.  Reynt var að gera allt of mikið á sama tíma. Svo virðist sem það hafi  enginn „grunnur" hafi verið lagður sem byggja átti ofan á. Það hefur átt að gera allt í einu. Kannski náðist ekki að deila út heildarmyndinni? Starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs hafa sýnt þolinmæði en álagið hlýtur að vera gríðarlegt á sviðið. Þegar spurt var um af hverju ekki var gengið röskar til verks strax 2018 - 2019 voru svörin frá þjónustu- og nýsköpunarsviði þau að umhverfis- og skipulagssvið væri bara ekki tilbúið að taka við stafrænum lausnum. Ef horft er til Hverfasjá verkefnis þá hlýtur slíkt verkefni að eiga að vinnast með öðrum sveitarfélögum. Það má spyrja einnig hér hvort henda eigi gömlu Hverfasjánni sem útbúin var 2019. Af hverju er  Reykjavíkurborg með þessa hverfasjá ein? Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins óttast að þetta verkefni geti sprengt alla mælikvarða í kostnaði.  
   
  Fulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 
   
  Því skal haldið til haga að Reykjavíkurborg hefur verið leiðandi í stafrænni umbreytingu og upplýsingagjöf til almennings, og hefur það vakið athygli bæði innanlands og erlendis. Það færi vel á því að kjörnir fulltrúar kynntu sér málin betur áður en beinum rangfærslum er haldið fram. 
   

  Fylgigögn

 4. Fram fer kynning á framtíðarsýn fyrir kortasjár og samstarf landupplýsingadeildar umhverfis- og skipulagssviðs og gagnateymis þjónustu- og nýsköpunarsviðs. USK24010208. 
   
  Inga Rós Gunnarsdóttir og Þorbjörn Þórarinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 
   
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Framtíðarsýn fyrir kortasjár er jákvætt og ætti einungis að fara í þetta verkefni í samstarfi  með hinum sveitarfélögunum.
   

  Fylgigögn

 5. Fram fer kynning á rauntímagögnum um sorphirðu. USK24010210. 
   
  Inga Rós Gunnarsdóttir og Þorbjörn Þórarinsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Sorphirða hefur verið mikið til umræðu síðustu misseri. Fólk hefur kvartað sáran yfir að illa gangi að tæma eftir að nýja flokkunarkerfið kom í gagnið. Ef fylgjast á með stöðu sorphirðu bílanna ætti að vera auðvelt mál nú til dags að koma fyrir búnaðinum til að rekja þá, og þá er aðalverkið að koma þeim gögnum á einhverja vefsíðu. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins minnist þess að eitt af fyrstu verkefnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs var einmitt að eyða miklum tíma í uppfærslu sorphirðudagatali á meðan annað var látið bíða. Á meðan enn er ekki hægt að flytja barn á milli leikskóla án þess að handskrifa umsókn um milliflutning  getur öll þessi vinna varðandi sorphirðu varla talist mikilvæg. Þarna er á ferðinni enn eitt dæmið um óskiljanlega forgangsröðun. 
   

  Fylgigögn

 6. Fram fer kynning um sameiginlegt mælaborð um þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu. USK24010205. 
   
  Þorsteinn R. Hermannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Án þess að verið sé að gera lítið úr notagildi hinna og þessa mælaborða, getur öll þessi vinna með svona dót varla talist forgangsatriði í stafrænni umbreytingu. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá þessi mælaborð öll koma aftar í forgangsröðinni og setja mikilvægari stafrænar lausnir framar á sviðum eins og skóla- og frístundasviði. Þessi mælaborð hafa kostað borgarbúa gríðarlegar fjárhæðir og nú er fjárhagur borgarinnar tæpur eins og allir vita. Ekki er því réttlætanlegt að missa sig í skemmtileg gæluverkefni.  
   

  Fylgigögn

 7. Fram fer kynning á Hverfið mitt - verkferill við framkvæmd verkefna. USK24010202. 
   
  Guðný Bára Jónsdóttir og Heiða Hrund Jack taka sæti á fundinum undir þessum lið. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins benti á það strax árið 2022 að  „Hverfið mitt“ er verkefni sem er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt í þeirri mynd sem það þróaðist út í. Þetta er einnig dæmi um verkefni/uppfærslu sem hefði mátt bíða og annað mikilvægara sett framar í forgangsröðina eins og t.d. stafrænar lausnir fyrir skóla- og frístundasvið en þar er nú hávært ákall um að þjónustu- og nýsköpunarsvið axli ábyrgð sbr. minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um kennslu- og þjónustulausnir. Hverfið mitt, verkefnið hefur dalað, kosningaþátttaka hefur minnkað. Nokkur óánægja hefur einnig heyrst með að verkefni sem fólkið velur fari í rýni og þá er jafnvel hrært í valinu. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á lýðræði í þessu sambandi og samráð. Eitthvað fór úrskeiðis í samráðsferlinu þegar stiginn í Breiðholti var valinn. Stiginn kostaði formúgu fjár en hann var áttundi í röðinni í verkefninu „Hverfið mitt“ . Mjög mörgum íbúum þótti gripurinn forljótur og þeir voru aldrei spurðir hvort þeir vildu hann fyrir utan gluggann sinn. 
   

  Fylgigögn

 8. Fram fer kynning á ábendingavef Reykjavíkur 2.0. USK24010211. 
   
  Salvar Þór Sigurðarson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Ljóst er að fólk hefur mikla þörf að koma inn ábendingum eftir því sem notkun sýnir.  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingu frá borgarbúum að svörin sem berast eru oft mjög yfirborðskennd og stöðluð, oft sé einfaldlega ekki verið að svara heldur meira eins og verið sé að drepa málum á dreif. Ábendingavefurinn er eitt af því sem Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá vera samstarfsverkefni Reykjavíkur, annarra sveitarfélaga og ríkisins. Ábendingavefur er eitthvað sem hægt væri að nýta „Mínar Síður" umsóknarvélina. Það er eina skynsama leiðin og lang hagkvæmust. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um að þjónustu- og nýsköpunarsvið hafnaði a.m.k. í tvígang að ganga inn í samninga Ríkiskaupa og ákvað að vera ein á ferð. Flokkur fólksins bókaði eftirfarandi í janúar 2023: „Skortur er á samstarfi á rannsóknum sviðsins varðandi væntanlegan ábendingavef. Mögulega er slíkur ábendingavefur nú þegar til hjá ríki eða sveitarfélögum. Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsingar um samstarf eða öllu heldur samstarfsleysi þjónustu- og nýsköpunarsviðs við önnur sveitarfélög (SSH) og ríki. Í svari eru rakin samskipti þjónustu- og nýsköpunarsviðs og SSH sem eru einhver, enda væri annað skrýtið.  Það er mat áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að hafi verið um alvöru samstarf að ræða væri það búið að skila af sér sameiginlegum lausnum eða öðrum afurðum.“ 
   

  Fylgigögn

 9. Fram fer kynning á sjálfvirknivæðingu á ferlum hjá Bílastæðasjóði. USK24010212. 
   
  Rakel Elíasdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins telur að allt sem hægt er að sjálfvirknivæða er af hinu góða. Það sparar vinnu fyrir starfsfólk, og getur hagrætt rekstrinum á ýmsum stofnunum, m.a. bílastæðasjóði. 
   
  -    kl. 13:58 víkur Líf Magneudóttir af fundinum. 
   
  -    kl. 13:59 víkur Glóey Helgudóttir af fundinum og Harri Ormarsson tekur sæti á fundinum í hennar stað. 
   

  Fylgigögn

 10. Stafrænt ráð og umhverfis- og skipulagsráð leggja fram svohljóðandi tillögu: 
   
  Lagt er til að ráðast í vinnu við að finna leiðir til að bæta upplýsingagjöf til íbúa um framkvæmdir, viðhald og þjónusturaskanir sem hafa staðbundin áhrif í hverfunum. Sér í lagi að greina raunhæfni þess og leiðir til að senda íbúum SMS þegar ráðast á í framkvæmdir eða einhverjar breytingar í þeirra nærumhverfi, innan marka persónuverndarlaga. Þá verði skoðuð fordæmi erlendis og hérlendis og leiðir sem færar eru í þessu efni. Greinargerð fylgir tillögunni. USK24010214. 
  Samþykkt. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
   
  Tillaga um bætta upplýsingagjöf er þörf. Reykjavík er mjög aftarlega í að veita  upplýsingar til borgarbúa  þrátt fyrir loforð um slíkt  þegar Píratar og Viðreisn komu inn í meirihlutann 2018. Önnur sveitarfélög og ríkisfyrirtæki eru komin mun lengra í upplýsingagjöf til almennings. Það hafa verið til virkar stafrænar lausnir hjá sumum sveitarfélögum sem hefði e.t.v. mátt nýta í upphafi þessarar vegferðar. Í þessum málum skiptir samvinna við aðra öllu máli enda kostnaðarsöm verkefni. Með samvinnu fæst hagkvæmni og skilvirkni. Það hefði sparað mikið ef þjónustu- og nýsköpunarsvið hefði leitað alvöru samvinnu við Stafrænt Ísland og önnur sveitarfélög (SÍS) strax í byrjun stafrænnar vegferðar í stað þess að velja að vera eitt og sér alla vega framan af. Samvinna þjónustu- og nýsköpunarsviðs við SÍS er aðeins á yfirborðinu eftir því sem næst er komist. Gagnsæi er verulega ábótavant í Reykjavík. Sem dæmi bólar ekki enn á upplýsingavef yfir framlögð mál borgarfulltrúa en fjögur eru liðin síðan ákveðin upphæð var eyrnamerkt fyrir það verkefni. Borgarbúar eiga rétt á að hafa góðan aðgang að hvað borgarfulltrúar eru að gera í störfum sínum. 
   

  Fylgigögn

 11. Stafrænt ráð og umhverfis- og skipulagsráð leggja fram svohljóðandi tillögu: 
   
  Lagt er til að skoða leiðir til að leysa minni framkvæmdaverkefni meðal annars vegna Hverfið mitt og ábendingagáttarinnar á enn hagkvæmari og skilvirkari hátt, til dæmis með föstu uppsettu afli innan borgarinnar. Þannig væri hægt að bregðast við af snerpu þegar eitthvað má betur fara um leið og farið er vel með fé. Greinargerð fylgir tillögunni. USK24010215. 
  Samþykkt. 
   
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:  
   
  Fulltrúi Flokks fólksins telur að snerpa og skilvirkni þurfi að einkenna öll verk og framkvæmdir á sviði stafrænna mála bæði stærri og minni sem og annað sem stafræn vegferð krefst að gert verði. Skilvirkni er einmitt það sem hefur á skort þegar litið er til stafrænnar vegferðar borgarinnar og hefur það kostað borgarbúa háar upphæðir. Einföld verkefni og jafnvel verkefni sem hafa verið vel á veg komin virðast hafa strandað eða dagað uppi, nú eða verið send aftur á byrjunarreit og forsendum þeirra jafnvel breytt án skýringa. Eftir því hefur verið tekið að flöskuhálsar hafa verið margir og millistjórnendur sent út misvísandi skilaboð. Borið hefur á valdabaráttu með tilheyrandi töfum og útgjöldum og skort á samræmingu. Ótrúleg starfsmannavelta hefur ekki hjálpað í þessu tilliti, mikil þensla í ráðningum en fólk síðan ýmist rekið eða ákveðið að forða sér sjálft. Ef horft er til verkefnisins Hverfið mitt er það ekki bara dýrt heldur finnst borgarbúum sem ábendingar þeirra hafa aðeins gildi upp að vissu marki. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins telur að leggja ætti verkefnið Hverfið mitt niður í þeirri mynd sem það er. Í raun hefur það tapað upphaflegu gildi sínu og er orðið meira eins og einhver keppni, þar sem hverfum er jafnvel att saman. 
   
  -    kl. 14:16 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundinum. 

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 14:10

Dóra Björt Guðjónsdóttir Birkir Ingibjartsson

Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Kjartan Magnússon

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. janúar 2024