Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 271

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2023, miðvikudaginn 24. maí, kl. 09:07 var haldinn 271. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir og áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa, dags. 17. maí 2023. USK23010150

    Fylgigögn

  2. Lögð fram umsókn Páls Kristjáns Svanssonar dags. 13. apríl 2022 um nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 10 og 12 við Holtsgötu og 16 við Brekkustíg. Í breytingunni sem lögð er til felst uppbygging íbúðarhúsnæðis á lóðunum ásamt heimild til niðurrifs húsa að Holtsgötu 10 og Brekkustíg 16, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdráttum Axels Kaaber, dags. 24. mars 2023. Einnig er lögð fram Fornleifaskrá og húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla nr. 214, umsagnir Minjastofnunar Íslands, dags. 11. júní 2019 og 25. apríl 2022, og samgöngumati verkfræðistofunnar Eflu, dags. 16. ágúst 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 gegn einu atkvæði fulltrúi Vinstri grænna.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs.

    Sigríður Maack, verkefnastjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220212

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirliggjandi tillaga felur m.a. í sér byggingu 15 íbúða fjölbýlishúss í afar rótgrónu hverfi þar sem hluti götumyndar og byggingarlistar frá árdögum hverfisins hefur varðveist. Í húsakönnun Borgarsögusafns á umræddum reit segir á bls. 24: ,,Af þeirri steinbæja- og timburhúsabyggð, sem reis á reitnum í byrjun 20. aldar standa nú einungis eftir tvö hús, Sæmundarhlíð við Holtsgötu 10 og húsið Brekkustígur 10 á horni Brekkustígs og Öldugötu." Í könnuninni er gildi Sæmundarhlíðar (Holtsgötu 10) metið hátt út frá menningarsögulegu gildi, umhverfisgildi og varðveislugildi en miðlungsgildi varðandi byggingarlist og upprunalega gerð. Sæmundarhlíð hefur staðið á þessum stað frá árinu 1883, upphaflega lítill steinbær, sem er líklega fyrsti áfanginn að núverandi húsi er var fullgert 1912. Brekkustígur 16 er talinn hafa miðlungsgildi út frá öllum áðurnefndum þáttum. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu á reitnum er ekki gert ráð fyrir neinum bílastæðum á lóð samkvæmt tillögunni, sem ljóst er að mun auka á bílastæðaskort í hverfinu. 

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Betur hefði farið á því að varðveita á þessum gróna og viðkvæma reit í Vesturbænum eldra byggðmynstur og hús. Þó það sé vissulega ákjósanlegt að fjölga íbúðum og þétta byggð þá er ekki sama hvernig það er gert. Niðurrif húsa er óafturkræf aðgerð og ætti í lengstu lög að varðveita, endurgera og byggja við gömul hús frekar en að rífa þau. Fulltrúi Vinstri grænna greiðir því atkvæði gegn þeirri deiliskipulagstillögu sem nú verður send í auglýsingu enda hefði hún betur getað tekið tillit til meðal annars ofangreindra þátta. Eins er vísað í umsögn Borgarsögusafn um varðveislugildi umræddra húsa og menningarsögu. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram umsókn Eignarhaldsfélagsins Arctic ehf., dags. 17. apríl 2023, um breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.0 vegna lóðarinnar nr. 1 við Laugaveg. Í breytingunni sem lögð er til felst að fella úr gildi heimild til að rífa steinhús á bakhluta lóðar, Laugavegur 1A, ásamt því að núverandi leyfilegt byggingarmagn er fært til. Hluti leyfilegs byggingarmagns verður aukið neðanjarðar ásamt að leyfa rishæð yfir jarðhæð fyrir miðri lóð, samkvæmt uppdr. Davíðs Kr. Pitt, dags. 5. apríl 2023. Einnig er lögð fram umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 19. maí 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Frestað. USK23040127

  4. Lögð fram umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 4. maí 2023, ásamt skipulagslýsingu, dags. 18. maí 2023, vegna gerð nýs deiliskipulags fyrir lóðina Fossvogsblettur 2-2A. Skipulagslýsing þessi tekur til erfðafestulanda að Fossvogsbletti 2 og 2A í Reykjavík. Tilgangur skipulagslýsingarinnar er að greina frá svæðinu, áherslum og markmiðum við skipulagsgerðina, forsendum sem liggja að baki og fyrirhuguðu skipulagsferli. Einnig er lögð fram húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 17. janúar 2023. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.
    Samþykkt er að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, umsagnaraðilum ásamt því að kynna hana fyrir almenningi.

    Sigríður Maack, verkefnastjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23050069

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju skrefi í átt að því að drífa upp leikskóla enda bíða yfir 900 börn eftir plássi. Mikil tímapressa er því á máli sem þessu. Hér eru lögð fram ítarlegt gögn um sögu svæðisins þar sem Ævintýraborgir eiga að rísa. Um er að ræða 10 deilda leikskóla fyrir 150 börn. Ekkert er hins vegar minnst á hvernig Ævintýraborgirnar mátast á þennan reit. Áformin liggja þó fyrir. Ævintýraborgir eru tímabundnar en þarna munu síðan rísa varanlegar leikskólabyggingar. Drífa þarf þetta verk áfram af fullum krafti, þótt fyrr hafi verið.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, að breytingu á deiliskipulagi Laugardals. Í breytinginni sem lögð er til felst að skilgreina tímabundin byggingarreit fyrir leikskólann Laugasól á bílastæði á horni Reykja- og Engjavegar. Um er að ræða einnar hæðar byggingareiningar, samkvæmt uppdr. Hornsteina arkitekta, dags. 17. maí 2023. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
    Frestað. USK23050218

  6. Lögð fram umsókn Yrki arkitekta, dags. 13. mars 2023, um breytingu á deiliskipulagi Laugavegar, Bolholts, Skipholts vegna lóðarinnar nr. 176 við Laugaveg. Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á byggingarreit lóðarinnar, breyting á skilmálum um niðurrif og færslu á byggingarreit bílageymslu út að lóðarmörkum, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. Yrki arkitekta, dags. 13. mars 2023. Einnig er lagt fram minnisblað skipulagsfulltrúa, dags. 18. maí 2023. Lagt er til að tillögunni verði synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
    Synjað er beiðni um breytingu á deiliskipulagi með vísan til minnisblaðs skipulagsfulltrúa, dags. 18. maí 2023.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til borgarráðs.

    Sigríður Maack, verkefnastjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030175

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eigendum mannvirkja ber skylda að hámarka nýtingu byggingarefna til að lágmarka kolefnisfótspor, þegar verið er að rífa niður byggingar. Það er gott og vel að endurnýta byggingarefnin eftir að byggingar hafa verið rifnar niður. En við vitum að losunin á sér stað við byggingu, og þó hún minnki við það að endurnýta hluta af byggingarefnunum þá er það samt útlosun. Því er mikilvægt að borgin leggi áherslu á það að byggingar séu reistar til þess að standa yfir lengri tíma. Þannig komi ekki til þess að stuttu síðar sé kominn tími á niðurrif og enduruppbyggingu, með tilheyrandi útlosun kolefnis.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. í maí 2023, vegna gerð nýr deiliskipulags fyrir þróunarsvæði við Suðurfell. Skipulagslýsingin tekur til þróunarsvæðis í suðausturhluta Fellahverfis. Tilgangur skipulagslýsingarinnar er að greina frá svæðinu, áherslum og markmiðum við skipulagsgerðina, forsendum sem liggja að baki og fyrirhuguðu skipulagsferli. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.
    Frestað. USK23050217

  8. Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Elliðaárvogs-Ártúnshöfða - svæðis 7 (Bíldshöfða/Breiðhöfða) á hluta miðsvæðis M4a og á opnu svæði OP30 skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Rammaskipulag Elliðaárvogs-Ártúnshöfða var staðfest árið 2017 og í framhaldi hefur verið unnið að deiliskipulagi minni áfanga á svæðinu. Skipulagssvæðið afmarkast af Bíldshöfða til suðurs, stoðvegg til norðurs (deiliskipulagsmörkum áfanga 1 og 2 skv. rammaskipulagi), Breiðhöfða til austurs og Þórðarhöfða til vesturs. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð þar sem stærstur hluti verður íbúðarhúsnæði. Einnig er gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði, sérstaklega á götuhæðum við Bíldshöfða og Breiðhöfða. Byggingarmagn og hæðir húsa munu ráðast við gerð deiliskipulags m.t.t. markmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggðar sbr. skipulagslýsingu Nordic dags 25. janúar 2023. Einnig er lögð fram fornleifaskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla 2012. Lýsingin var kynnt frá 21. mars 2023 til og með 18. apríl 2023. Eftirtaldir sendu ábendingar/athugasemdir/umsögn: Jón Þorvaldsson og Steinunn Þorvaldsdóttir, dags. 10. febrúar 2023, Minjastofnun Íslands, dags. 11. apríl 2023, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, dags. 12. apríl 2023, Veitur, dags. 18. apríl 2023, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, dags. 18. apríl 2023, Vegagerðin, dags. 27. apríl 2023 og Skipulagsstofnun, dags. 27. apríl 2023. Athugasemdir kynntar.

    Sólveig Sigurðardóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 10:24 víkur Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir af fundi og Alexandra Briem tekur sæti á fundinum og tekur við stjórn hans. USK23010138

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram að nýju að lokinni kynningu skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Elliðaárvogs-Ártúnshöfða - svæðis 7 (Bíldshöfða/Breiðhöfða) á hluta miðsvæðis M4a og á opnu svæði OP30 skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Þeir sem senda inn athugasemdir eru stofnanir en ekki einstaklingar. Hér er um mikla uppbyggingu að ræða, og er markmiðið að það verði góð tenging við borgarlínu. Sérstaklega er gert ráð fyrir blandaðri byggð og atvinnuhúsnæði, (svæði 7) sérstaklega á götuhæðum við Bíldshöfða og Breiðhöfða. Horfa þarf til aðgengis fyrir bíla ef þjónusta á að þrífast þarna. Óljóst er hvað byggingarmagn verður mikið og það er óþægilegt.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 16. maí 2023, þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að þverun yfir Háaleitisbraut, móts við Álmgerði, verði breytt í samræmi við meðfylgjandi teikningu. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. USK23050205

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsyfirvöld leggja til að sett verði þverun yfir Háaleitisbraut til móts við Álmgerði. Töluverð uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu í kringum útvarpshúsið. Þetta er mikilvæg aðgerð og hluti af nauðsynlegum umferðaröryggis aðgerðum. Segir í gögnum að ekki hafi komið athugasemdir við þessa útfærslu. Breyting verður þannig að við þverun yfir götuna verði einungis ein akrein í hvora átt og að þær framkvæmdir verði gerðar samhliða breytingum á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari framkvæmd enda stóreykur hún öryggi vegfarenda.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa, dags. 16. maí 2023. USK22120096

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um kolefnisspor framkvæmdanna við Arnarnesveg og Suðurlandsveg, sbr. 36. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 16. maí 2023.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn einu atkvæði fulltrúa Vinstri grænna.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK22080043

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða tillögu um að kolefnisspor framkvæmdanna við Arnarnesveg og Suðurlandsveg verði metið sem og áhrif þeirra á umferðaraukningu. Þetta mál allt með framkvæmd 3ja áfanga Arnarnesvegar er hið sorglegasta. Um er að ræða 1.3 km. langan veg sem liggur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Áætlað er að um 9 þúsund bílar fari um veginn. Arnarnesvegurinn mun koma inn á ljósastýrð gatnamót á einbreiða Breiðholtsbraut sem er nú þegar löngu sprunginn. Í um 4 ár hefur fulltrúi Flokks fólksins reynt að fá nýtt umhverfismat gert og að baki þeirri kröfu standa hagsmunasamtök, m.a. Vinir Vatnsendahvarfs. Sex mánuðir eru liðnir síðan hópur íbúa kærði lagningu Arnarnesvegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hefja á verkið þrátt fyrir hávær mótmæli fjölmenns hóps sem biður um það eitt að framkvæmdin verði ekki byggð á 20 ára gömlu umhverfismati. Of mikið er í húfi. Þetta svæði, sem er eitt fallegasta útsýnissvæði í Reykjavík hefur breyst mikið á 20 árum. Beðið er úrskurðar um kæruna. Í ljós hefur einnig komið að á teikningar vantar svokölluð vistlok, gróðurbrú yfir veginn en þau eru hvergi að sjá í útboðslýsingu.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að skoða aðra möguleika en stokk, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 9. maí 2023.
    Tillögunni er vísað frá með með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. USK23030091

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillögu Flokks fólksins um að hætt verði með hugmyndina um Sæbraut í stokk og í staðin verði settar tvær góðar brýr yfir er vísað frá af meirihlutanum. Hugsunin var að önnur brúin yrði fyrir strætó og gangandi og hin norðar, fyrir gangandi og hjól. Spara mætti þannig 15 – 20 milljarða í stokka framkvæmdir sem komandi kynslóðir þurfa að borga. Margt í þessari stokkahugmynd skipulagsyfirvalda er ekki skynsamlegt hvorki sem lausn á umferðinni eða fjárhagslega. Stokkar eiga vel við þegar bæta á umhverfi í borgum, en þeir eru mjög dýrir og valda minnkun umhverfisgæða á framkvæmdatíma sem getur verið ansi langur. Hér er um risa framkvæmdir að ræða sem kallar á skynsemi og hagsýni. Í umsögn er í þessu máli vísað til Samgöngusáttmálans sem ríkið og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins standa að. Látið er eins og skipulagsyfirvöld borgarinnar hafi ekkert um þessi mál að segja. Reykjavíkurborg hefur skipulagsvaldið og er því borgin ekki aðeins þolandi í þessum málum heldur einnig gerandi. Þessi mál eru svo sem í uppnámi vegna mikilla verðhækkana og verðbólgu sem hafa áhrif á kostnaðaráætlanir. Fara þarf ofan í saumana á þessu öllu og þess vegna er sú tillaga, sem hér er afgreidd út af borðinu, þess virði að skoða.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um inniaðstöðu farþega og vagnstjóra í Spönginni, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. mars 2023. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 15. maí 2023.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. USK23030089

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Víðar en í Spönginni er aðstaða fyrir strætófarþega ómöguleg. Ef inniaðstaða er í boði þá lokar hún snemma og kvartað hefur verið yfir hversu óaðlaðandi aðstaðan er og ófullnægjandi. Segja má að enginn metnaður ríki hjá Strætó bs. um að gera vel við farþega sem bíða eftir strætó. Aðstaðan í Mjóddinni hefur oft verið til umræðu. Þörf er á umbótum. Inniaðstaða á að vera opin eins lengi og vagnar ganga, þar á að vera hlýtt og hægt að setjast niður. Jákvætt væri ef hægt væri að kaupa sér kaffi eða annað léttmeti. Í biðaðstöðu þurfa að vera næg sæti og aðgengileg salernisaðstaða. Nefnt hefur verið að í aðstæðum sem þessum þyrfti einnig að vera læst hjólageymsla. Það myndi nýtast t.d. farþegum sem koma lengra að, þ.m.t. frá nágrannasveitarfélögum. Umbætur á biðaðstöðu strætó hvar sem þær eru eru liður í að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti.

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áhrif og afleiðingar vegna framkvæmda við Sæbraut í stokk, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. febrúar 2023. USK23020015

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvert umferð verði beint þegar framkvæmdir við Sæbraut í stokk hefjast. Aðgerðin á að taka 3 ár og á meðan er aðeins ein akrein í hvora átt. Það mun þýða að álag mun aukast á aðrar brautir og mögulega á Skeiðarvog þegar bílar eru að reyna að komast fram hjá Sæbraut. Ef að umferðin beinist inn í hverfi, mun þá slysahætta aukast þar? Þarf að fara í aðgerðir til að minnka þá hættu? Í svari má glöggt sjá að þetta er snúið mál sem verið er að klóra sér í hausnum yfir. Gera má að því skóna að farið hafi verið af stað með stokkahugmyndina án þess að hugsa málið til enda. Útfærsla akstursleiða á framkvæmdatíma er óákveðin og ekki var gert ráð fyrir auknu álagi á götum í nágrenni og að fara þyrfti jafnvel í aðgerðir á öðrum götum til að draga úr líkum á að umferð leiti inn í þær. Það skapar vissulega nýjan vanda, vanda fyrir íbúa þeirra gatna. 

    Fylgigögn

  15. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fjölda íbúðarhúsnæðis sem stendur autt í Reykjavík, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 17. maí 2023
    Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. USK23050212

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga um að láta framkvæma umrædda könnun er á dagskrá fundar borgarráðs.

  16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að eftirfarandi úrbætur verði gerðar á skiptistöðinni Ártúni í þágu strætisvagnafarþega. 1. Skjólgóð og upphituð skýli verði sett upp á báðum biðstöðvum skiptistöðvarinnar. 2. Upplýsingagjöf til farþega verði bætt, t.d. með uppsetningu leiðakorts, leiðataflna og rauntímabúnaði, sem sýnir hvenær vagnar eru væntanlegir á stöðina. 3. Ruslakörfum verði fjölgað og svonefnd stubbahús sett upp til að auka hreinlæti á og við skiptistöðina.
    Frestað. USK23050266

  17. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að ráðist verði í eftirfarandi úrbætur sem fyrst í þágu gangandi og hjólandi vegfarenda við Elliðabraut. 1. Gangstétt og hjólarein verði lögð við vestanverða Elliðabraut, meðfram húsunum nr. 2 – 22 við götuna. 2. Vel merktar gangbrautir/gönguþveranir verði lagðar yfir Elliðabraut á tveimur stöðum: annars vegar nálægt Þingtorgi fyrir gönguleið að Norðlingaskóla, Fylkisseli og nýja verslunarmiðstöð hverfisins sem opnuð verður innan skamms á horni Norðlingabrautar og Árvaðs. Hins vegar nálægt Sandavaði fyrir gönguleið að leikskólanum Rauðhóli.
    Frestað. USK23050265

  18. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að ráðist verði í viðhald og endurnýjun gangstétta og trappa við íþróttahús Hagaskóla. Margar gangstéttarhellur við húsið eru brotnar og skemmdar. Slíkt getur skapað hættu auk þess sem óheppilegt er að svæði, sem gegnir svo mikilvægu hlutverki í þágu barna og unglinga, hafi á sér slæma ásýnd.
    Frestað. USK23050267

  19. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Í ljósi umsagnar samgöngustjóra frá 16. maí 2023 við tillögu Vinstri grænna frá 29. júní 2022 er lagt til að Reykjavíkurborg standi sjálf að því að taka út kolefnisspor við framkvæmd Arnarnesvegar og Suðurlandsvegar og að umhverfis- og skipulagsráð feli umhverfis- og skipulagssviði að útfæra það verkefni.
    Frestað. USK23050263

  20. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Umhverfis- og skipulagsráð felur umhverfis- og skipulagssviði að fjarlægja bílastæði ofanjarðar til að framfylgja aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Miða skal við að við hvert bílastæðahús/kjallara séu stæði ofanjarðar í sömu fjarlægð og þeirri sem miðað er við að sé göngufjarlægð í stöð almenningssamgangna eða um 400 metra. Þá skal hafin vinna við að umbreyta Kvosinni í almenningsrými og loka fyrir almenna bílaumferð og fjarlægja bílastæði ofanjarðar við Reykjavíkurtjörn og breyta svæðinu í göngugötu. Að lágmarki skulu 600 bílastæði fjarlægð ofanjarðar á ári. Óskað er eftir því að í framhaldinu verði gerð áætlun til 2030 um fækkun bílastæða ofanjarðar í borgarlandi.
    Frestað. USK23050264

  21. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Reykjavegar sé einungis hægt að beygja til hægri inn á Reykjaveg ef grænt beygjuljós gefur það til kynna. Eins og staðan er í dag er bæði hægt að beygja til hægri á hefðbundnu grænu ljósi en einnig þegar grænt ljós vísar til hægri. Á sama tíma og hefðbundið grænt ljós birtist ökufólki á Suðurlandsbraut er einnig grænt göngu- og hjólaljós yfir Reykjaveg. Með því getur myndast hætta á slysum og árekstrum milli bíla, gangandi og hjólandi vegfarenda. Einnig skuli koma því fyrir að rauð og gul beygjuljós til hægri séu við gatnamótin, þannig ökufólki sé ljóst hvenær því sé heimilt að taka hægri beygju á Reykjaveg.
    Frestað.

  22. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um innheimtu svonefnds tunnugjalds, sem lagt er á þá Reykvíkinga sem hafa sorptunnur í meira en 15 metra fjarlægð frá sorphirðubíl. 1.    Hvert er gjaldið og hversu miklum tekjum skilar það í borgarsjóð? 2. Hversu margir fasteignaeigendur íbúðarhúsnæðis í borginni greiða nú umrætt 15 metra gjald? Hversu hátt hlutfall er sá fjöldi af fasteignaeigendum í borginni? 3. Er vitað hversu margir fasteignaeigendur hafa kosið að færa sorptunnur sínar í því skyni að komast hjá umræddri gjaldtöku? 4. Er munur á innheimtu gjaldsins eftir hverfum í borginni? 5. Verða breytingar á innheimtu 15 metra gjaldsins í tengslum við þær breytingar á sorphirðu í borginni, sem nú standa yfir? Munu tekjur borgarsjóðs af gjaldinu t.d. aukast vegna fjölgunar sorptunna? USK23050268

  23. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir samningi Strætó við þann rekstraraðila sem sér um inniaðstöðu fyrir farþega í Mjóddinni. Á Reykjavíkurborg húsnæðið sem um ræðir? Ef ekki, hver þá? USK23050260

  24. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu margar íbúðir í Reykjavík eru ósamþykktar? Hversu margar manneskjur búa í slíku íbúðarhúsnæði? Hve margar íbúðir eru nýttar til búsetu í iðnaðar- eða atvinnuhúsnæði? Hversu margar manneskjur búa í slíku húsnæði? USK23050261

Fundi slitið kl. 11:01

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 24. maí 2023