Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 248

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2022, miðvikudaginn 9. nóvember kl. 09:08, hélt umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur 248. fund sinn. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Dagný Alma Jónasdóttir. Fundarritari var Erna Hrönn Geirsdóttir. 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerðir         Mál nr. SN010070

    Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 3. nóvember 2022.

    Fylgigögn

  2. Sólvallagata 68, breyting á deiliskipulagi     (01.134.5)    Mál nr. SN220289

    Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Vektors, hönnun og ráðgjöf ehf. dags. 16. maí 2022 varðandi breytingu á deiliskipulagi Vesturvallareits vega lóðarinnar nr. 68 við Sólvallagötu. Í breytingunni felst að komið er fyrir nýjum byggingarreit fyrir gróðurhús á lóð, samkvæmt uppdr. Vektors, hönnun og ráðgjöf ehf.  dags. 15. maí 2022. Tillagan var grenndarkynnt frá 5. september 2022 til og með 3. október 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Aldís Snorradóttir og Njörður Sigurjónsson dags. 6. september 2022 og barst ábending frá Veitum ohf, dags. 23. september 2022. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. nóvember 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.

    Samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. nóvember 2022, með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Olga Guðrún B. Sigfúsdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 9:10 tekur Friðjón R. Friðjónsson sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  3. Gelgjutangi, breyting á deiliskipulagi     (01.428)    Mál nr. SN220636

    Lögð fram umsókn Veitna ohf. dags. 6. október 2022 um breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar svæði 1 vegna Gelgjutanga. Í breytingunni sem lögð er til felst að afmörkuð er lóð fyrir dælubrunn fráveitukerfis ásamt því að gerður er byggingarreit fyrr dælubrunn, samkvæmt uppdr. dags. 29. september 2022. Erindinu er vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra og er nú lagt fram að nýju. Lagt er til að tillagan verði samþykkt án grenndarkynningar og auglýsingar þar sem hún varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins.

    Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.

    -    Kl. 9:18 tekur Geirdís Hanna Kristjánsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  4. Baldursgata 30, málskot     (01.182.2)    Mál nr. SN220698

    Lagt fram málskot Mögnu Fríðar Birnis dags. 31. október 2022 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 6. október 2022 um að breyta atvinnuhúsnæði á lóð nr. 30 við Baldursgötu í íbúð. Einnig lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 6. október 2022.

    Frestað.

    (B) Byggingarmál

  5. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa, fundargerðir         Mál nr. BN045423

    Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 1. nóvember 2022.

    (E) Umhverfis- og samgöngumál
     

    Fylgigögn

  6. SORPA bs., fundargerðir         Mál nr. US130002

    Lagðar fram fundargerðir stjórnar Sorpu bs. nr.  470, dags 26. ágúst 2022, nr. 471, dags. 23. september 2022, nr. 472, dags. 29. september 2022 og nr. 473, dags. 21. október 2022.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins vill að SORPA njóti vafans þegar svo ber við en mörg mistök hafa verið gerð hjá fyrirtækinu sem kostað hafa borgarbúa ómælt fé. Nefna má sem dæmi 90 milljóna skaðabætur sem þarf að greiða vegna mistaka í útboði. Þess vegna finnst Flokki fólksins að fyrirtækið ætti ekki að missa sig í  sjálfshóli eins og sjá má víða í fundargerðum. Fyrir því eru ekki næg tilefni. Það eru ekki allir borgarbúar að kaupa gildi  SORPU sem eru frumkvæði, traust og samheldni. Traust borgarbúa þarf að ávinnast eftir hrakfarir fyrirtækisins á síðasta kjörtímabili. Við yfirferð fundargerðar gerir Flokkur fólksins athugasemdir við eftirfarandi: Skortur á upplýsingum og niðurstöðum um gallamál Gaju. Ekki virðist ljóst hvenær urðun verði hætt. Enn er verið að leita að nýjum urðunarstað, en samt á að hætta urðun. Sorpa virðist ekki enn ráða við flokkun á sorpi. Innleiðing flokkunar á myndunarstað gengur allt of hægt, ekki er næg áhersla á þeirri flokkun.
     

    Fylgigögn

  7. Nagladekk, auglýsingar, talning og umræða         Mál nr. US220272

    Reykjavíkurborg hvetur ökumenn til að velja góð vetrardekk fremur en nagladekk á götur borgarinnar. Staðan og árangur metinn.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Svifryksmengun veldur um 80 ótímabærum dauðsföllum á Íslandi á hverju ári samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu. Vitað er að nagladekk eiga verulegan þátt í þessari mengun. Talið er að nagladekk valdi 20 til 30 sinnum meiri svifryksmengun en venjuleg dekk. Auk þess skapast verulegur kostnaður vegna slits á malbiki. Nagladekkjanotkun hefur því miður aukist verulega síðustu árin. Ljóst er að mikil nagladekkjanotkun í Reykjavík hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þess vegna er óheppilegt að lögreglan lýsi því yfir hvað eftir annað að ekki verði sektað fyrir fyrir notkun nagladekkja áður en nagladekkjatímabilið hefst. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort lögreglan hafi heimild til að fara á svig við lögin.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skýrar vísbendingar eru um að nagladekkjanotkun í Reykjavík sé að aukast og að hún verði meiri á komandi vetri en síðasta vetur. Þessa þróun má líklega rekja til óánægju með frammistöðu Reykjavíkurborgar við snjóruðning í húsagötum síðasta vetur, ekki síst í efri byggðum. Þá þjónustu þarf að bæta. Þá má draga verulega úr svifryksmengun með því að bæta eiginleika útlagðs malbiks í borginni í því skyni að gera það slitsterkara. Síðast en ekki síst þarf að bæta fræðslu um skaðsemi nagladekkjanotkunar í því skyni að draga úr henni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umræða um nagladekk er góð og gild. Ekki skal gleyma hvar við búum. Í upphafi vetrar er útilokað að segja hvernig ,,veturinn” verður á Íslandi. Verður hann snjóléttur, hér á suðvesturhorninu eða verður hann snjóþungur.  Enginn veit. Flokkur fólksins veit þó tvennt. Ef veturinn er snjóþungur hér á suðvesturhorninu verða alltaf einhverjir að vera á nagladekkjum hvort sem þeim líkar betur eða verr og alveg án tillits til hversu heilsársdekk eru ,,góð”. Einnig þeir sem komast ekki inn og út úr götunni sinni á verstu dögum,  vegna þess að ekki hefur tekist að ryðja braut út á stofnveg. Þetta eru einnig þeir sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins eða fara títt úr borginni yfir vetrartímann. Hver og einn verður að meta þetta fyrir sig og taka mið af persónulegum og öðrum aðstæðum. Þegar upp er staðið og allt tekið til þá er aðeins eitt sem skiptir máli og það er öryggi. Líf og limir og að lifa af veturinn er það sem skiptir öllu máli. Það á ekki að refsa fólki fyrir að vilja lifa við öryggi og fólk sem sér að það verður að vera á nagladekkjum af ofangreindum ástæðum á ekki að mæta fordómum samfélagsins og allra síst borgarkerfisins

    Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, verkefnastjóri, Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri og Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  8. Niðurstöður náttúrufarsúttekta sumarið 2022, kynning         Mál nr. US220224

    Kynning á niðurstöðum náttúrufarsúttekta sumarið 2022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er alveg ljóst að þessar klóar- tegundir eru varasamar og þeim þarf að halda niðri. Hindra fræmyndun með slætti og hægt er að drepa þær með illgresiseyði. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki viss um að verktakar henti í þetta verkefni því þetta þarf að gera í smáskömmtum, en lítið i einu. Væri ekki betra að þjálfa starfsmann í umhverfisdeild til að nota viðeigandi illgresiseyða?  Það er ódýrasta leiðin og best til lengdar, alveg klárlega. Vöktun fugla er einnig kynnt, niðurstaða úttektar. Það er mikilvægt að standa vörð um fuglalíf í borginni að mati fulltrúa Flokks fólksins. Fuglar eru skemmtilegir og er liður í  fjölbreytileika í Reykjavík. Flokkur fólksins lagði eitt sinn fram tillögu um að kattaeigendur séu hvattir til að setja ekki eina bjöllu á kött sinn heldur tvær til að sem flestir ungar komist á legg að vori. Tillögunni var vísað frá en mun Flokkur fólksins leggja hana fram aftur. Vitað er að kettir drepa meginhluta unga í Reykjavík. Vel mætti skoða að búa til litla hólma í öllum tjörnum borgarinnar. Þangað komast kettir ekki. Úr miðbænum fimm andartegundir reyndu að koma upp ungum í ár en árangur er takmarkaður

    Aron Alexander Þorvarðarson, sérfræðingur og Þórólfur Jónsson, verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  9. Lóðir fyrir hraðhleðslustöðvar, tillaga (USK22080132)         Mál nr. US220275

    Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki að unnið verði áfram að undirbúningi þess að útbúa og bjóða út tvær lóðir fyrir hraðhleðslustöðvar, móts við Skúlagötu 2 og móts við Grjótháls 1-3.

    Samþykkt. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfsagt er að auka aðgengi að hraðhleðslustöðvum. Í gögnum er hvatt til þess að ívilnanir vegna rafmagnsbíla verði framlengdar. Í október sl. bókaði Flokkur fólksins mótmæli þegar skipulagsyfirvöld lögðu til  að reglur um bifreiðar sem eiga rétt á visthæfum skífum verði ekki endurnýjaðar þegar þær renna út í árslok 2022. Flokkur fólksins hefði frekar talið nauðsynlegt að útvíkka þessar reglur til þess að hvetja þá sem það geta að kaupa vistvæna bíla og flýta enn frekar fyrir orkuskiptum. Með því að endurnýja ekki þessar reglur er í raun verið að refsa þeim sem eiga vistvæna bíla. Meðal raka skipulagsyfirvalda er að nú sé hlutfall rafmagnsbíla mun hærra en þegar reglurnar voru settar. Flokki fólksins finnst þá enn frekar ástæða til að þessar reglur um ívilnanir séu í gildi. Nú er hins vegar lagt til að Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að fara yfir möguleika borgarinnar á að koma á nýjum ívilnunum, afsláttum eða forgangi hreinorkubifreiða til að flýta orkuskiptum. Visthæfar skífur eru enn mikilvægar sem hvati fyrir íbúa til að ferðast um á vistvænum ökutækjum. Bílastæði eru hluti af því að lifa í borg. Bílastæði eru hluti af grunnþjónustu, eins og að bjóða upp á almenningssamgöngur.

    Fylgigögn

  10. Breyting á hámarkshraða í tengslum við tímabundið skólahúsnæði í Ármúla, endurflutt tillaga         Mál nr. US220276

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 31. október 2022, þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð:

    1. Háaleitisbraut, frá Kringlumýrarbraut að Ármúla, hámarkshraði verði 40 km/klst, í stað 50 km/klst.
    2. Háaleitisbraut, frá Miklubraut að Safamýri, hámarkshraði verði 40 km/klst, í stað 50 km/klst.
    3. Háaleitisbraut, frá Safamýri að núverandi 30 km/klst svæði, hámarkshraði verði 30 km/klst í stað 50 km/klst.
    4. Háaleitisbraut, frá Ármúla að núverandi 30 km/klst svæði, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
    5. Lágmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
    6. Hallarmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
    7. Ármúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
    8. Selmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
    9. Síðumúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
    10. Vegmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
    11. Fellsmúli, frá Grensásvegi að núverandi 30 km/klst svæði, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
    Ofangreindar ráðstafanir verði merktar með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það á við, í samræmi við reglugerð 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra ásamt áorðnum breytingum. Í samræmi við 3. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 hefur tillagan fengið umsögn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem gerir ekki athugasemd við breytinguna. 

    Tillögunni fylgir greinargerð.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 3. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  11. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um vinnu stýrihóps um ljósvistarstefnu, svar (USK22090140)         Mál nr. US220209

    Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu stýrihóps um ljósvistarstefnu, sbr. 43. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. september 2022, ásamt svari skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 26. október 2022.

    Fylgigögn

  12. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um snjallgangbrautir við grunnskóla         Mál nr. US220274

    Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um snjallgangbrautir við grunnskóla. Tillagan var lögð fram á fundi borgarráðs þann 4. október 2022 og vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. Tillögunni fylgir greinargerð.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. 

    Fylgigögn

  13. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um hönnun og skipulag Vogabyggðar (USK22110020)         Mál nr. US220273

    Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hönnun og skipulag Vogabyggðar, sbr. 22 lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 2. nóvember 2022.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  14. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um svar við sorphirðukostnaði (USK22100090)         Mál nr. US220257

    Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um svar við sorphirðukostnaði, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 19. október 2022. 

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. 

  15. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um flugelda         Mál nr. US220282

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að umhverfis- og skipulagsráð hvetji borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda. Hér er aðeins talað um hvatningu með það að markmiði að draga úr flugeldum í desember og janúar. Nota mætti auglýsingar í hvatningarherferðinni  enda Reykjavíkurborg þekkt fyrir öflugar áróðursauglýsingar sínar. Mikið svifryk hefur mælst í loftinu í kringum áramót af völdum flugelda. Skotið er upp flugeldum vikum saman ef allt er tiltekið. Byrjað er löngu fyrir áramót og ekki hætt fyrr en mörgum vikum eftir áramót. Mengun frá flugeldum er vandamál. Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir. Svifryk frá flugeldum er talið varasamt og heilsuspillandi vegna efna sem eru í því. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hefur neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa. Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir einnig lífsgæði margra. Björgunarsveitir hafa treyst á sölu flugelda við tekjuöflun, en styrkja má þær þótt flugeldar séu ekki keyptir. Tvöfaldur gróði felst í því, styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi og á sama tíma taka ákvörðun um að menga ekki andrúmsloftið.

    Frestað.

     

  16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um kostnað vegna byggingar Gaju, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu         Mál nr. US220280

    Óskað er eftir upplýsingum um kostnað vegna byggingar Gaju, gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu. Óskað er eftir upplýsingum um allan kostnað, sem fallið hefur til vegna stöðvarinnar, þ.m.t. kostnað vegna galla, málaferla, viðgerðar og endurbóta, sem gerðar hafa verið á stöðinni eftir opnun hennar. Er umræddum viðgerðum og endurbótum á stöðinni lokið? Ef svo er ekki, hver er þá áætlaður kostnaður vegna þeirra?

  17. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um endurnýjun á endurvinnslustöðvum         Mál nr. US220278

    Í fundargerðum SORPU  kemur fram að endurnýjunar er sé þörf á endurvinnslustöðvum. Borgin á ekki að greiða stofnframlag, en  350 milljónir verða sóttar til Reykjavíkur vegna reksturs endurvinnslustöðva. Spurning 1 Hver mun borga endurnýjun endurvinnslustöðva? Samkvæmt fylgiskjölum er hér um stórmál  að ræða og veruleg gjaldskrárhækkun væntanleg vegna þess. Spurning 2 Leit hefur staðið yfir að nýjum urðunarstað í samræmi við eigendasamkomulag frá 2013 og viðauka sem gerður var 2020 um að urðun í Álfsnesi yrði hætt 2023. Það er mat stjórnenda SORPU að framlengja þarf  þurfi heimild SORPU bs. til að urða í Álfsnesi.  Flokki fólksins er brugðið við orðalag í fundargerð, sagt er að "verði ekki hægt að urða í Álfsnesi má búast við að "neyðarástand skapist og SORPU verði ómögulegt að sinna skyldum sem settar eru á sveitarfélög um að tryggja leiðir til förgunar úrgangs." Er rétt að það stefni í neyðarástand? Er rétt að ekki sé gert ráð fyrir stofnfjárframlögum frá eigendum á árunum 2023-2027?

  18. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um sektir vegna niðurníðslu og viðhaldsleysi á byggingum i borginni         Mál nr. US220279

    Niðurníðsla og viðhaldsleysi á byggingum í borginni er ólöglegt og það á að beita dagsektum í þeim tilfellum. Hvað eru þessar dagsektir háar? Hver sér um að innheimta þær og sinna eftirliti með byggingum og aðilum sem virða ekki þær reglur sem er  kveðið á um? Borgin hefur það vald að sekta. Flokkur fólksins myndi því vilja spyrja hvað mikið hefur komið inn með innheimtu á þessum sekta, ef eitthvað?

  19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um talningar á nagladekkjum         Mál nr. US220281

    Það vakti undur þegar verkfræðistofa var fengin til að sjá um talningar á nagladekkjum með tilheyrandi umsjónarkostnaði. Nú þegar fjárhagur borgarinnar er á heljarþröm, óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hverjir munu annast talningar, næst þegar á að telja. Flokkur fólksins hefur spurt um þetta atriði áður og kom í ljós að verkfræðistofa var fengin til verksins.  Verkefni af þessu tagi telur Flokkur fólksins að starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs geti annast. Nóg fer af fjármagni borgarinnar til ráðgjafafyrirtækja. Fjárhæðin sem EFLA fær fyrir talningarvinnuna er víst trúnaðarmál. Það er auðvitað ekki boðlegt að upplýsingum sé haldið leyndum fyrir borgarbúum í allri umræðu meirihlutans um gagnsæi. Það þarf ekki að ráða sérfræðinga á háum töxtum til að "telja". Bent er á að einingarverð verkfræðistofunnar er tæpar 15 þúsund/klst. Hver hálftími sem er skráður á samskipti- sennilega eitt símtal, kostar sitt, eða rúmar sjö þúsund krónur.

  20. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um nagladekk         Mál nr. US220283

    Umræða er um nagladekk í Ráðinu og ókosti þeirra sem sjálfsagt eru ekki umdeilanlegir þegar kemur að svifryksmengun og skemmd á malbiki. Flokkur fólksins kallar eftir rannsóknum frá borgarmeirihlutanum þar sem fram kemur með skýrum og afgerandi hætti að ónegld "góð" vetrardekk séu jafnörugg og negld dekk. Nefna má að fleira veldur svifryki, t.d. flugeldar og umferðarteppur sem eru rótgróið mein víða í borginni.  Flokkur fólksins er þó umhugað um öryggi, líf og limi fólks fyrst og fremst.  Ef veturinn er snjóþungur hér á suðvesturhorninu verða alltaf einhverjir að vera á nagladekkjum hvort sem þeim líkar betur eða verr og alveg án tillits til hversu heilsársdekk eru ,,góð". Einnig þeir sem komast ekki inn og út úr götunni sinni á verstu dögum,  vegna þess að ekki hefur tekist að ryðja braut út á stofnveg eða búið er að ryðja fyrir innkeyrslur. Þeir sem stundum verða að vera á nagladekkjum eru þeir sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins eða fara títt úr borginni yfir vetrartímann.  Borgarmeirihlutinn vill ganga langt í að banna nagladekk og engar undanþágur séu gerðar. Í ljósi þess er mikilvægt að sjá ritrýndar rannsóknir sem sýna með afgerandi hætt að ónegld dekk séu jafnörugg og negld. Þessi mál eru dauðans alvara.

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 11:24

Fundargerðin lesin yfir og undirrituð

Alexandra Briem

Aðalsteinn Haukur Sverrisson Friðjón R. Friðjónsson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson
Kjartan Magnússon Pawel Bartoszek

Alexandra Briem Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Friðjón R. Friðjónsson Hildur Björnsdóttir

Hjálmar Sveinsson Kjartan Magnússon

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
248. fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 9. nóvember 2022.pdf