Umhverfis- og skipulagsráð - 74. fundur samgöngunefndar

Umhverfis- og skipulagsráð

Þriðjudaginn 20. apríl, ár 2004, kl. 09:00 var haldinn 74. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í Skúlatúni 2, 5. hæð.

Þessir sátu fundinn: Katrín Jakobsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Hlín Sigurðardóttir, Kjartan Magnússon og Óskar Dýrmundur Ólafsson.

Einnig komu á fundinn: Ásgeir Eiríksson, Björg Helgadóttir, Björn Ingi Sveinsson, Haraldur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson, Sigurður I. Skarphéðinsson, Stefán Agnar Finnsson, Stefán Haraldsson og Þorgrímur Guðmundsson.

Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

Mál nr. 2002020072
1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 26.03.2004, varðandi fund borgarstjóra, borgarfulltrúa og fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna.
Vísað til gatnamálastofu og verkfræðistofu RUT.

Mál nr. 2001100071
2. Lagt fram bréf yfirverkfræðings verkfræðistofu RUT dags. 02.04.2004, varðandi erindi hverfisráðs Háaleitis, vegna bréfa Arngríms Pálmasonar, Háaleitisbraut 87, um ósk um úrbætur til að draga úr umferðarhraða á Háaleitisbraut. Einnig lögð fram bréf Arngríms dags. 26.06.2001, dags. 06.08.2001, dags. 06.09.2001, dags. 04.10.2001 og bréf dags. 22.06.2002. 

Mál nr. 2003090061
3. Lagt fram bréf Elvars Arnars Reynissonar, ódags., varðandi úrbætur á göngu- og hjólreiðastígum í Breiðholti vegna framkvæmda við Stekkjarbakka.
Einnig lagt fram minnisblað gatnamálastofu, dags. 19.04.2004.
Samþykkt að skoða málið í heildrænu samhengi á næsta fundi.

Mál nr. 2002070048
4. Lagður fram rafpóstur Dags Snæs Sævarssonar, dags. 01.04.2004, varðandi bílastæðamál Menntaskólans í Reykjavík. 
Vísað til framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs og verkfræðistofu RUT.

Mál nr. 2001080070
5. Lagt fram bréf Jarþrúðar Þórhallsdóttur, dags. 23.03.2004, varðandi ósk um hraðahindrun við Jaðarsel, sem og umsögn yfirverkfræðings verkfræðistofu RUT um sama mál.
Umsögn yfirverkfræðings verkfræðistofu RUT samþykkt.

Mál nr. 2001030040
6. Lagt fram bréf yfirverkfræðings verkfræðistofu RUT, dags. 15.04.2004, varðandi hönnun 30 km hverfa sem koma eiga til framkvæmda árið 2004.
Samþykkt með fyrirvara um formlegt samþykkt lögreglustjóra á málinu.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi tillögu:
„Samgöngunefnd beinir því til hverfisráða borgarinnar að kynna innleiðingu nýrra 30 km. hverfa fyrir hverfisbúum, t.d. með opnum borgarfundum og umfjöllun í hverfisblöðum. Verði þau hverfi sem samgöngunefnd samþykkti 20. apríl 2004 kynnt. Jafnframt að Gatnamálastjóri fari þess á leit við umferðarstofu að hún kynni 30 km. hverfin.“
Samþykkt samhljóða.

Mál nr. 2003120043
7. Lagt fram bréf yfirverkfræðings verkfræðistofu RUT, dags. 14.04.2004, varðandi gönguleiðir skólabarna og aldraðra á árinu 2004. 
Samþykkt.

Mál nr. 2004020040
8. Lagt fram að nýju bréf yfirverkfræðings verkfræðistofu RUT, dags. 15.04.2004, varðandi hönnun á norðurhluta Suðurgötu og hluta Túngötu.
Samþykkt.

Kjartan Magnússon, fulltrúi sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskaði bókað:
„Ég styð umræddar tillögur að öðru leyti en því að ég tel ekki rétt að setja biðskyldu á umferð um Túngötu gagnvart umferð um Suðurgötu og Aðalstræti. Tel ég að slíkt fyrirkomulag geti valdið ruglingi á gatnamótunum og haft óþægindi og slysahættur í för með sér, ekki síst fyrir umferð strætisvagna og hjólreiðamanna.“

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd óskuðu bókað:
„Fulltrúar Reykjavíkurlistans árétta að með upphitun Túngötu er öryggi vegfarenda sem koma keyrandi eða hjólandi niður Túngötu tryggt. Biðskylda á umferð um Túngötu ætti því hvergi að valda ruglingi né slysahættu.“

Mál nr. 2003020099
9. Lagt fram bréf borgarverkfræðingsins í Reykjavík, dags. 16.04.2004, varðandi heildarstefnukort borgarinnar. 
Samþykkt með þeim breytingum að mælikvarðastuðullinn breytist á þann veg að ásættanlegt ástand teljist 0-10#PR, viðunandi ástand teljist 10-15#PR og óásættanlegt ástand teljist yfir 15#PR.

Mál nr. 2003110034
10. Lagt fram að nýju tillaga yfirverkfræðings verkfræðistofu RUT, varðandi endurbætur við Sundlaugarveg.
Samþykkt.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi tillögu:
„Fulltrúar sjálfstæðismanna styðja tillögur verkfræðistofu Umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkurborgar varðandi endurbætur á Sundlaugarvegi. Full ástæða er þó til að grípa til frekari aðgerða í því skyni að auka umferðaröryggi á svæðinu. Er óskað eftir því að eftirfarandi atriði verði skoðuð sérstaklega og úrbætur gerðar samhliða framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á svæðinu á þessu ári.

1. Einstefnu til austurs verði komið á í Hraunteigi og Kirkjuteigi í því skyni að draga úr akstri utan að komandi umferðar í gegnum hverfið. Eftir opnun Lauga hefur umferð þyngst mjög á Reykjavegi með þeim afleiðingum að gegnumakstur um hverfið hefur stóraukist, ekki síst við Hraunteig og Kirkjuteig.
2. Lýsing verði bætt á gatnamótum Kirkjuteigs og Reykjavegar, en um þau fer daglega fjöldi skólabarna.
3. Hugað verði betur að göngutengslum og umferð óvarinna vegfarenda við hönnun hringtorgs, sem fyrirhugað er að verði við gatnamót Sundlaugavegar, Dalbrautar og Brúnavegar. Umrædd gatnamót eru fjölfarin enda í næsta nágrenni Laugalækjarskóla og fjölmennrar íbúðarbyggðar eldri borgara.
4. Huga þarf betur að hraðatakmarkandi aðgerðum við Sundlaugaveg frá Laugarnesvegi að Dalbraut; t.d. með uppsetningu hraðamælingarskiltis í því skyni að halda ökuhraða innan tilsettra marka.
5. Skoða þarf kosti og galla þess að setja upp girðingar milli akbrauta á Sundlaugavegi.
6. Huga þarf betur að öryggi gangandi vegfarenda, ekki síst skólabarna, við gatnamót Gullteigs og Sundlaugavegar.
7. Huga þarf betur að umferðaröryggi við gatnamót Laugarnesvegar og Sundlaugavegar.
8. Varað er við hugmyndum um að vinstri beygja verði leyfð af Sæbraut inn á Laugalæk og umferðarljós sett upp í því skyni.“

Samþykkt að vísa tillögunni til gatnamálastofu og verkfræðistofu RUT.

Óskar Dýrmundur Ólafsson, fulltrúi Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd óskaði bókað:
„Legg til að biðstöð norðan megin Sundlaugavegar verði færð austan gatnamóta Sundlaugavegar og Rauðalæks á móts við núverandi biðstöð sem er við inngang Laugardalslaugar og sunnan Sundlaugavegar. 
Samþykkt að öðru leyti.“
Vísað til skoðunar hjá verkfræðistofu RUT.

11. Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgönguefnd lögðu fram eftirfarandi tillögu:
„Sjálfstæðismenn telja brýnt að úrbætur verði gerðar við Víkurveg í því skyni að auka umferðaröryggi. Sérstaklega þarf að skoða gatnamót við Gagnveg og gatnamót vegar sem liggur að rannsóknarstofnununum við Keldnaholt (hér nefndur Atvinnuvegur). Ökumenn sem koma af Gagnvegi eða frá rannsóknastofnununum eiga oft erfitt með að komast inn á Víkurveg vegna mikils aksturshraða þar. Ekki bætir úr skák að skilti og biðskýli skyggja á útsýni þegar ekið er frá rannsóknarstofnunum inn á Víkurveg. Óskað er eftir sérstakri skoðun á því hvort hringtorg getur leyst þessi gatnamót af hólmi. Einnig er rétt að taka til skoðunar almennt fyrirkomulag umferðarmála við umræddar rannsóknarstofnanir, t.d. uppsetningu biðskyldumerkja til að draga úr slysahættu. Stefnt skal að því að úrbætur verði gerðar á þessu ári”.
Vísað til gatnamálastofu og verkfræðistofu RUT.

12. Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi tillögu:
,,Samgöngunefnd samþykkir að auglýsingaskilti við Sóleyjargötu verði fjarlægt. Umrætt skilti skyggir á útsýni til suðurs úr bifreiðum sem koma akandi austur Njarðargötu, rétt áður en komið er að gatnamótunum við Sóleyjargötu. Umrædd gatnamót eru varhugaverð, ekki síst vegna þess að bifreiðar koma iðulega á miklum hraða að Hringbraut norður Sóleyjargötu. Í því skyni að draga úr slysahættu er því nauðsynlegt að bílstjórar á leið austur Njarðargötu hafi fullt og óskert útsýni til suðurs og þar skyggi umrætt skilti ekki á.”
Vísað til gatnamálstofu og verkfræðistofu RUT.

13. Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi tillögu:
,,Samgöngunefnd felur Umhverfis- og tæknisviði að skoða aðstæður við gatnamót Álmgerðis og Viðjugerðis og koma með tillögur til úrbóta. Töluvert er um að bifreiðum sé lagt við norðurkant Álmgerðis með þeim afleiðingum að sveigja þarf bifreiðum á leið austur að gatnamótunum inn á rangan vegarhelming rétt áður en beygja er tekin inn í Viðjugerði. Slíkt skapar slysahættu þar sem um blindhorn er að ræða á þessum gatnamótum og oft koma bifreiðar á töluverðri ferð út úr Viðjugerði. Nærtækast er að banna bifreiðastöður með gulri kantsteinamerkingu á stuttum kafla næst gatnamótunum svo bílar á leið inn í Viðjugerði þurfi ekki að sveigja inn á rangan vegarhelming rétt áður en komið er að gatnamótunum. Einnig kemur til greina að leita samkomulags við eiganda Viðjugerðis 1 um að fjarlægja hluta timburgirðingar í því skyni að auka útsýni við umrætt blindhorn.“
Vísað til gatnamálstofu og verkfræðistofu RUT.

14. Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi tillögu:
,,Samgöngunefnd samþykkir að gera úrbætur á merkingum á gatnamótum Listabrautar og Kringlunnar. Bæta þarf merkingar við gatnamótin austanverð fyrir umferð í vesturátt svo skýrt sé að vinstri akreinin sé fyrir bifreiðar á leið vestur Listabraut en hægri akreinin eingöngu fyrir hægri beygju inn á Kringluna.“
Vísað til gatnamálastofu og verkfræðistofu RUT.

15. Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram svohljóðandi ályktunartillögu:
„Samgöngunefnd átelur þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið vegna umsóknar um starfrækslu bensínstöðvar við Stekkjarbakka. Við meðferð málsins hefur samþykkt Reykjavíkurborgar um bensínstöðvar og bensínsölulóðir frá 20. júní 1995 verið þverbrotin. Í umræddri samþykkt segir m.a. að bensínsölulóð með aðkomu frá stofnbraut skuli sýna á aðalskipulagi. Þá segir að allar bensínsölulóðir skuli sýna á deiliskipulagi sem skuli samþykkt af borgarráði eftir umfjöllun skipulagsnefndar og umferðarnefndar. 
Umrætt leyfi var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd og byggingarframkvæmdir hafnar án þess að deiliskipulag lægi fyrir, málið hlaut ekki tilskylda fjögurra vikna kynningu og því var ekki vísað til samgöngunefndar. Svo virðist sem reynt hafi verið að keyra málið í gegnum borgarkerfið í meiri flýti en áður hefur þekkst í sambærilegum málum. Þar sem lóðaúthlutanir til olíustarfsemi eru ætíð viðkvæmar er mikilvægt að farið sé í einu og öllu eftir gildandi reglum og réttur íbúa og annara hagsmunaaðila virtur í hvívetna. 
Ljóst er að vísa hefði átt málinu til samgöngunefndar og er óskað eftir því að nefndin fái það til umfjöllunar eins og umrædd samþykkt gerir ráð fyrir.“
Frestað

16. Óskar D. Ólafsson fulltrúi Reykjavíkurlistans í samgöngunefnd lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
„Óskað er eftir upplýsingum frá gatnamálstjóra um stöðuna á merkingum og vegvísum á stíga borgarinnar. Hverju hefur verið lokið og hvað er fyrirhugað næst?“

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 10:30
Katrín Jakobsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson
Hlín Sigurðardóttir
Kjartan Magnússon
Óskar D. Ólafsson