Umhverfis- og skipulagsráð - 16. fundur

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2001, mánudaginn 25.júní kl. 10.00 var haldinn 16. fundur samgöngunefndar í Skúlatúni 2. Þessir sátu fundinn: Kristín Blöndal, Kristján Guðmundsson og Helgi Pétursson.

Einnig komu á fundinn Baldvin Baldvinsson, Haraldur Sigurðsson, Þórhallur Guðlaugsson, Ólafur Bjarnason, Jón Ólafsson, Sigurður Skarphéðinsson og Björg Helgadóttir.

Fundarritari var Ágúst Jónsson.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram erindi íbúa við Jörfagrund, dags. 09.06.2001, og bréf Sigríðar Láru Árnadóttur, dags. 20.06.2001, varðandi hraðahindrun á Hofsgrund og lýsingu á gönguleið í skóla. Vísað til umsagnar umferðardeildar.

2. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 12.06.2001, ásamt bréfi Íbúasamtaka Grjótaþorps, dags. 07.06.2001, þar sem óskað er tiltekinna aðgerða varðandi umferð um Grjótaþorp. Vísað til umsagnar umferðardeildar.

3. Lagt fram uppfært kostnaðarmat og áætlanir um staðbundnar aðgerðir til úrbóta í umferðarmálum 2001, dags. 20.06.2001, sbr. samþykkt nefndarinnar 18.06.2001. Nefndin samþykkir framlagða áætlun samhljóða.

4. Lagt fram erindi Sveins Magnússonar, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, dags. 11.06.2001, varðandi endurgjaldslaus afnot af tveimur sérmerktum bílastæðum við Túngötu 7. Nefndin fellst ekki á erindið, enda samræmist það ekki reglum um ráðstöfun bílastæða á borgarlandi.

Kl. 10:35 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

5. Á fundinn komu Rögnvaldur Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni og Sigurður Örn Jónsson, verkfræðingur hjá Línuhönnun, og kynntu úttekt á slysastöðum á þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu. Ennfremur skýrði yfirverkfræðingur umferðardeildar frá úttekt umferðardeildar á umferðaróhöppum í Reykjavík.

6. Kynnt tillaga að hringtorgi á gatnamótum Suðurlandsvegar og Breiðholtsbrautar.

7. Lögð fram skýrsla umferðardeildar Borgarverkfræðings, dags. í maí 2001, um samanburð á sniðtalningum 1993 og 2000.

8. Lagt fram bréf Borgarskipulags, dags. 20.06.2001, varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 1 og 2 við Ofanleiti og hugsanlega lokun Ofanleitis. Jafnframt lögð fram umsögn Stefáns Finnssonar, umferðardeild, dags. 12.06.2001, um lokun Ofanleitis. Samgöngunefnd samþykkir fyrir sitt leyti lokun Ofanleitis, sbr. umsögn umferðardeildar, og leggur til að hún verði auglýst sem breyting á deiliskipulagi.

9. Ólafur Bjarnason, verkfræðingur, kynnti tillögur um færslu Hringbrautar.

10. Lögð fram og kynnt leiðabók Strætó 2001.

Kl. 12:00 vék Kristján Guðmundsson af fundi.

Kjartan Magnússon lagði fram svofellda tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks í samgöngunefnd: "Samgöngunefnd Reykjavíkur mælist til þess við stjórn Strætó bs. að leiðir 16 og 17 hafi viðkomu á Hlemmi, fjölförnustu skiptistöð Strætisvagna á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Óskað er eftir að ákvörðun um slíka breytingu á fyrirliggjandi tillögum verði tekin áður en hafinn verður akstur á leiðunum 1. júlí nk."

Nefndin samþykkir með 2 atkv. gegn 1 að vísa tillögu Sjálfstæðismanna frá.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað: "Við teljum rétt að láta reyna á þær breytingar sem stjórn Strætó bs. hefur gert á leiðakerfinu og kynntar hafa verið í prentaðri leiðabók."

Kjartan Magnússon óskaði bókað: "Ég átel þau vinnubrögð R-listans að gefa fulltrúum í samgöngunefnd ekki færi á að koma með athugasemdir og breytingatillögur við fyrirliggjandi tillögur um leiðakerfisbreytingar, í samræmi við samþykktir samgöngunefndar, áður en nýtt leiðakerfi var kynnt opinberlega og ný leiðabók prentuð."

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað: "Það var sameiginleg ákvörðun sveitarfélaganna sem að Strætó bs. standa, að gera lágmarks- en nauðsynlegar breytingar á leiðakerfinu við upphaf starfseminnar. Síðan mun 2ja ára tímabil verða nýtt til þess að gera umfangsmiklar breytingar á leiðakerfinu. Eðlilegt er að samgöngunefnd Reykjavíkur fylgist vandlega með þeirri vinnu."

Kjartan Magnússon óskaði bókað: "Umræddar "lágmarks- og nauðsynlegar breytingar á leiðakerfinu" virðast helst felast í því að skerða þjónustu í Reykjavík. Vel má hins vegar vera að þjónusta batni í nágrannasveitarfélögum, t.d. Kópavogi."

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað: "Þetta eru rangar og tilefnislausar fullyrðingar út í bláinn."

Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks í samgöngunefnd vegna leiðakerfisbreytinga: "Þrátt fyrir gífurlegar gjaldskrárhækkanir mun þjónusta strætisvagna í Reykjavík að mörgu leyti versna frá því sem nú er þegar Strætó bs. tekur til starfa 1. júlí nk. Sjálfstæðismenn mótmæla þessari fyrirhuguðu þjónustuskerðingu í Reykjavík.

Leið 14 halaklippt og dregið úr þjónustu við Grafarvogsbúa. Leið 14, Hlemmur - Staðir, er lögð niður í núverandi mynd. Eftir breytingu mun leið 14 aka á milli Ártúns og Staðahverfis og því einungis verða hverfavagn í Grafarvogi. Grafarvogsbúar missa þannig mikilvæga tengingu við Hlemm og íbúar í hinu nýbyggða Staðahverfi munu ekki lengur eiga þess kost að komast með strætisvagni úr hverfinu án þess að skipta fyrst um vagn í Ártúni. Reynslan sýnir að slíkar skiptingar misfarast oft og fæla farþega frá því að nota almenningssamgöngur. Grundvallarmistök í Grafarholti Það vekur athygli hve slælega verður staðið að strætisvagnaakstri í Grafarholti, nýjasta hverfi borgarinnar, þar sem um fimm þúsund manns munu búa. Við skipulagningu þjónustunnar nú hafa grundvallarmistök verið gerð og er hætta á að þau leiði til þess að Grafarholtsbúar sjái sér ekki hag í því að notfæra sér þjónustu Strætó. Einni leið er ætlað að sinna þessu stóra hverfi. Leið 9 mun hins vegar ekki aka greiðustu leið milli Ártúns og Grafarholts þar sem leiðinni er einnig ætlað að sinna stóru atvinnusvæði við Stórhöfða. Reynslan hefur leitt í ljós að slíkir krókar fæla farþega frá því að nota þjónustuna. Þá verður Grafarholt ekki tengt neinni stórri skiptistöð, Hlemmi, Lækjartorgi eða Mjóddinni, með beinum hætti. Íbúar hverfisins munu því þurfa að skipta um vagn í Ártúni til að komast niður í bæ eða í hinar skiptistöðvarnar. Hætt er við að margir Grafarholtsbúar þurfi því að skipta tvisvar um vagn til að komast á áfangastað. Leið 4 flækt Leið 4, Mjódd - Hagar, mun eftir breytingarnar leggja stóra lykkju á leið sína til og frá Mjóddinni og koma við í Ártúni, sem mun lengja hringinn um a.m.k. átta mínútur við bestu skilyrði. Margir farþegar nota leið 4 til að komast á milli Hlemms og Mjóddar og nærliggjandi hverfa. (Austurbæjar, Breiðholts og atvinnuhverfanna við Kleppsholt, Sund og Voga.) Hætta er því á að svo stór krókur geri leiðina að verri kosti fyrir fjölmarga viðskiptavini fyrirtækisins. Í þessu sambandi bendum við á bréf trúnaðarmanna vagnstjóra SVR þar sem sterklega er varað við umræddum breytingum á leið 4. Leið 16 og 17 - Þjónustubót með hringakstri Lengi hefur verið þörf á að tengja Reykjavík og Kópavog betur saman með almenningssamgöngum, ekki síst eftir tilkomu verslunarmiðstöðvar í Smárahvammi, og mun leiðin vonandi bæta þar úr. Allt bendir þó til þess að umrædd leið myndi gegna hlutverki sínu enn betur ef hún hefði einnig viðkomu á Hlemmi sem er án efa mest notaða skiptistöð Strætisvagna á Stór-Reykjavíkursvæðinu."

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað: "Ákvarðanir um nýjar leiðir og leiðakerfisbreytingar voru samþykktar samhljóða í stjórn Strætó bs. Við bendum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á að ræða við flokksmenn sína í stjórn Strætó bs., en þar eru þeir fjölmennir."

Kjartan Magnússon óskaði bókað: "Vel má vera að þjónustu strætisvagna í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur batni með tilkomu sameiginlegs leiðakerfis. Það er að sjálfsögðu rós í hnappagat sjálfstæðismanna í viðkomandi sveitarfélöum. Staðreyndin er hins vegar sú að þjónusta strætisvagna í Reykjavík versnar við breytingarnar. R-listinn fer með meirihlutavald í Strætó bs. og getur því með engu móti kennt sjálfstæðismönnum í nágrannabyggðum Reykjavíkur um þá þjónustuskerðingu né þá miklu hækkun fargjalda sem nú verður í Reykjavík.

11. Kjartan Magnússon lagði fram svohljóðandi tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks í samgöngunefnd: "Samgöngunefnd samþykkir að nú þegar verði leitað umsagnar Félags eldri borgara, Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar í Reykjavík, samtaka foreldrafélaga í Reykjavík og samtakanna Heimilis og skóla á fyrirhuguðum hækkunum á strætisvagnafargjöldum í Reykjavík áður en hækkanirnar taka gildi 1. júlí næstkomandi."

Tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks vísað frá með 2 atkv. gegn 1.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað: "Ákvarðanir um nýja sameiginlega gjaldskrá fyrir Strætó bs. voru teknar sameiginlega af stjórn Strætó bs. á rekstrarlegum forsendum en augljóst er, að með lækkun á Græna kortinu er komið til móts við langfjölmennasta hóp þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur að staðaldri auk annara kerfisbreytinga, sbr. sameiginlega skiptimiða o.fl."

Kjartan Magnússon óskaði bókað: "Það eru sérkennilegar "rekstrarlegar forsendur" að hækka almenn strætisvagnafargjöld um 33% eða langt umfram almennar verðlagshækkanir. Þá eru fargjöld öryrkja hækkuð um 66%, fargjöld unglinga um 100% og fargjöld ellilífeyrisþega um 33%. Græna kortið vegur einungis ca. þriðjung af fargjaldatekjum SVR. 2/3 tekna koma frá staðgreiðslufargjöldum og farmiðakortum. 33% - 100% hækkun á slík farmiðakort kemur sér því illa fyrir stóran meirihluta strætisvagnafarþega í Reykjavík."

Kl. 12:15 vék Kristín Blöndal af fundi.

Kjartan Magnússon óskar þess að haldinn verði aukafundur í samgöngunefnd.

Fundi slitið kl. 12:15

Helgi Pétursson
Kjartan Magnússon.