Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 61

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2021, miðvikudaginn 15. desember 2021, kl. 13:00 var haldinn 61. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Vigdís Hauksdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Líf Magneudóttir, Skúli Þór Helgason, Arnaldur Sigurðarson, Jórunn Pála Jónasdóttir og Björn Gíslason. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson og Sigurjóna Guðnadóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundabúnaði: Árný Sigurðardóttir og Inga Rún Sigurðardóttir.
Fundarritari var Harri Ormarsson.

Þetta gerðist:

  1. Perlufestin í Öskjuhlíð, kynning         Mál nr. US210352

    Kynning á fyrirhuguðum útivistarstíg um Öskjuhlíð, svokallaðri Perlufesti. Framkvæmdir eru fyrirhugaðar sumarið 2022. 

    -    Kl. 13:05 tekur Þorkell Heiðarsson sæti á fundinum.

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði Þráinn Hauksson og Svava Þorleifsdóttir frá Landslagi arkitektum og Magnús Bjarklind verktaki. 
    Eftirtaldir fulltrúar í skipulags- og samgönguráði taka sæti á fundinum: Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar í skipulags- og samgönguráði taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Pawel Bartoszek og Katrín Atladóttir.

  2. Kosning í umhverfis- og heilbrigðisráð, USK2019060057         Mál nr. US210144

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 10. desember 2021 þar sem tilkynnt er að Vigdís Hauksdóttir taki sæti í stað Baldurs Borgþórssonar og Kolbrún Baldursdóttir tekur sæti á fundinum sem varamaður í umhverfis- og heilbrigðisráði.

    Við upphaf heilbrigðisnefndarmála tekur Ólafur Jónsson fulltrúi Samtaka atvinnulífsins sæti á fundinum.

        Heilbrigðisnefnd,          Mál nr. US210013

    Fylgigögn

  3. Heilsufullyrðingar við markaðssetningu á fæðubótarefnum - kynning á eftirlitsverkefni heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Matvælastofnunar. 

    Heilbrigðisfulltrúarnir Oddný Kristín Kristbjörnsdóttir og Rúnar Ingi Tryggvason taka sæti á fundinum.

  4. Lögð fram til kynningar umsagnarbeiðni Íslandshótela dags. 29. nóvember 2021 vegna umsóknar Íslandshótela dags. 26. nóvember 2021 til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem óskað ef eftir tímabundinni undanþágu til tveggja ára á starfsleyfisskilyrðum fyrir gististaði, hótel sem byggð eru á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Einnig er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 3. desember 2021.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram ódags. drög að reglugerð um viðbúnað og viðbrögð við smitsjúkdómum í dýrum ódags. ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 19. nóvember 2021. 

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  6. Lögð fram drög að reglugerð um velferð alifugla, ódags. ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 19. nóvember 2021. 

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram verklag Reykjavíkurborgar um raka og rakaskemmdir í húsnæði borgarinnar, samþykkt í borgarráði þann 9. september 2021.

    Skrifstofustjóri skrifstofu áhættustýringar, Stefanía Scheving Thorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð 1588. afgreiðslufundar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 9. desember 2021 með ákvörðun þess um að starfsleyfi ÍSTAKS fyrir námu á Ytri-Tindsstöðum yrði fellt úr gildi. Ásamt því er lagt fram bréf skipulagsfulltrúa dags. 16. nóvember 2021 þar sem tilkynnist að framkvæmdarleyfi Ístaks vegna efnistöku í Ytri-Tindastaðanámu á Kjalarnesi er afturkölluð. Einnig er lagt fram tímabundið starfsleyfi Ístaks dags. 12. október 2021.  

    Afturköllun starfsleyfis staðfest. 

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér verður að standa með lögunum þrátt fyrir að málið byggi á mikilli handvömm og mistökum í stjórnsýslu Reykjavíkur. Leitast verður við í lengstu lög að gefa út gild og lögleg starfsleyfi. Starfsleyfi skapa væntingar hjá þeim aðilum sem þau hljóta – og ekki nóg með það heldur löglegar væntingar sem gætu leitt til skaðabótamáls á hendur borginni.

    Fylgigögn

  9. Lagður fram listi dags. 15. desember 2021 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    Að loknum málum heilbrigðisnefndar víkur Ólafur Jónsson fulltrúi Samtaka atvinnulífsins af fundi.

    Fylgigögn

  10. Talning fugla í Árbæjarlóni og Elliðaárdal, kynning         Mál nr. US210361

    Kynning á talningu fugla í Árbæjarlóni og Elliðaárdal, sbr. ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessi talning er ekki að fullu nákvæm og alveg ljóst að telja verður aftur árið 2022. Andastofnarnir eru næstum horfnir á milli ára sem segir bara eitt – það eru áhrif þess að „tappinn var tekinn“ lóninu. Vaðfuglar hins vegar eru nýir á svæðinu eðli málsins samkvæmt því í stað Árbæjarlónsins eru komnar leirur. Auðvitað var það vitað. 

    Freydís Vigfúsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  11. Umhverfis- og skipulagssvið, uppgjör janúar til september 2021,         Mál nr. US200295

    Lagt fram níu mánaða uppgjör í aðal- og eignasjóði umhverfis- og skipulagssviðs 2021.

    Fylgigögn

  12. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um útboð á úrgangsþjónustu Reykjavíkur - R21110272         Mál nr. US210353

    Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 25. nóvember 2021 og vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs. Tillagan er svohljóðandi:

    BORGARRÁÐ 25. nóvember 2021: Tillaga Flokks fólksins um útboð á úrgangsþjónustu Reykjavíkur - R21110272 Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að bjóða skuli út úrgangsþjónustu Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins vekur athygli á því að Samkeppnisstofnun gaf út skýrslu þar sem bent er á að með vel skilgreindum útboðum á úrgangsþjónustu hafi sveitarfélög sparað 10 - 47% í kostnaði. Það ætti að vera hlutverk borgarfulltrúa að sjá til þess að úrgangsþjónusta sé sem hagkvæmust fyrir íbúa og fyrirtæki. Varla er rekstur SORPU undantekning frá þeirri reglu að sparnaður náist - eða hvað?  Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna dæmi um árangur í útboði frá Osló enda skipulagsyfirvöld hrifin af mörgu því sem þar á sér stað: Eftir umfangsmikla undirbúningsvinnu, m.a. fundir með hagsmunaaðilum var ákveðið að skipta útboðinu upp í nokkra þætti. Tilboðin sem bárust voru um 30-40% lægri en kostnaður í eldra kerfi. (http://www.kretslopet.no/nyheter/497-kraftig-prisreduksjon-pa-innsamling-i-oslo) Fulltrúi Flokks fólksins vill að úrgangsþjónusta verði eins hagkvæm fyrir íbúa og fyrirtæki og kostur er. Í sveitarfélögum þar sem horft til árangurs í útgangsmálum eru oft nefnd Akureyri og Stykkishólmur en þar er úrgangsþjónusta boðin út. 

    Tillögunni fylgir greinargerð.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.  

    (E) Umhverfismál

    Fylgigögn

  13. Samræming sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu, kynning         Mál nr. US210363

    Samræming sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu - kynning á stöðu verkefnis.

    Friðrik Klingbeil Gunnarsson ráðgjafaverkfræðingur og Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  14. Úthlutun úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús, til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla, tillaga         Mál nr. US200386

    Lögð fram til afgreiðslu tillaga umhverfis- og skipulagssviðs um úthlutun á styrkjum til Húsfélagsins Úlfarsbraut 90, Húsfélagsins Reyrengi 10, Húsfélagsins Ljósuvík 30 og Lóðafélagsins Naustabryggju 21-29 og 41-57 úr styrktarsjóði til uppsetninga á hleðslustöðvum fyrir rafbíla við fjöleignarhús, ásamt fylgigögnum. 

    Samþykkt.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  15. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, varðandi úrskurð kærunefndar útboðsmála um útboð á uppbyggingu og rekstri hleðslustöðva         Mál nr. US210366

    Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 23. nóvember 2021, mál nr. E-3872/2021, Orka náttúrunnar ohf. gegn Ísorku ehf. og Reykjavíkurborg, þar sem stefnandi gerði kröfu um að úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli nr. 44/2022, varðandi uppbyggingu og rekstur hleðslustöðva í Reykjavík, yrði ógiltur. 

    Fylgigögn

  16. Landfylling í Nýja Skerjafirði, frummatsskýrsla, kynning         Mál nr. US210351

    Lögð fram til kynningar frummatsskýrsla um mögulega landfyllingu í Nýja Skerjafirði, dags. 3. nóvember 2021, ásamt viðaukahefti.

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skerjafjarðarskipulagið er einstakt sinnar tegundar og er það fyrsta hverfið á Íslandi eftir seinni heimsstyrjöld þar sem ekki er gert ráð fyrir bílastæðum innan einkalóða og fáum ofanjarðar í borgarlandinu. Þar á að þétta byggð eins og Aðalskipulag Reykjavíkur kveður á um og byggja í nálægð við almenningssamgöngur og búa til sterka hverfiseiningu með m.a. grunnskóla og matvöruverslun. Reykjavíkurborg hafði frumkvæði að því að biðja um úttekt á umhverfisáhrifum af landfyllingunni þó framkvæmdin sé ekki matsskyld enda verður að vanda vel til verka og sér í lagi þegar það á að gera landfyllingu í náttúrulegu umhverfi.  Fyrir liggja tillögur að mótvægisaðgerðum eins og að móta strandlengjuna þannig að hún líki eftir náttúrulegri strönd og leitast verður við að búa til hagstæð skilyrði svo aftur geti myndast leirur í stað þeirra sem raskast. Svæðið sem um ræðir er nú þegar nokkuð mengað m.a. af olíu en með þessum breytingum verður mengaður jarðvegur fjarlægður og heilnæmara umhverfi skapað fyrir íbúa hverfisins. Í þéttri byggð og sístækkandi borg verðum við að vanda okkur og huga að verndun búsvæða fjölbreytts lífríkis, vistgerða, náttúruvætta, einstakra jarðminja, landslags og gróðurfars. Náttúran gegnir lykilhlutverki í lýðheilsu og hvers kyns athöfnum borgarbúa en náttúran hefur líka gildi í sjálfri sér. Því er mikilvægt að ráðast í allar þær mótvægisaðgerðir sem unnt er til að lágmarka allt rask og óendurkræfar aðgerðir enda er eitt af markmiðunum með uppbyggingu í Skerjafirði að stemma stigu við loftslagsbreytingum og búa til náttúruvæna borg.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við landfyllingu við Skerjafjörð sem mun raska náttúrulegri fjöru sem hefur hátt verndargildi og til stendur að friða. Opinberir fagaðilar hafa bent á að landfyllingin muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif á leirur, fjörulíf og líffræðilegan fjölbreytni. Umhverfisstofnun hefur bent á að landfyllingin muni auk þess hafa neikvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda að því leyti að þangbreiður sem binda koldíoxíð munu skerðast. Þá bendir stofnunin á að skv. lögum um náttúruvernd beri að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra sem falla undir, 61. gr. laga nr. 60/2013 nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Ennfremur leggur Náttúrufræðistofnun Íslands til að Skerjafjörður sé eitt þeirra svæða sem verði sett á B- hluta náttúruminjaskrár. Þá segir í áliti Náttúrufræðistofnunar: „Náttúra Skerjafjarðar, ef svo má að orði komast, á ekki að gjalda fyrir að ástæða þyki til þess að skipuleggja byggð við fjörðinn eða á flugvallarsvæðinu.“ Ljóst er að áform um landfyllingu er í ósamræmi við yfirlýsta stefnu meirihlutans í borgarstjórn um að hlúa eigi að grænum svæðum og vernda eigi líffræðilegan fjölbreytileika. Til að koma í veg fyrir alvarleg umhverfisspjöll ætti að fara að faglegum tilmælum og falla frá áformum um landfyllingu þannig að náttúran fái notið vafans.

    Fulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg áformar að gera 4,3 ha landfyllingu í Skerjafirði og er áætluð efnisþörf um 245.000 m3, sem nemur rúmlega 14.400 trailera/12 metra langra vörubíla. Í fyrri áfanga er gert ráð fyrir 0,5 hektara landfyllingu og í seinni áfanga 3,8 hektara. Mikið umhverfisslys er í uppsiglingu og mikið inngrip í náttúruna. Shellvík er með síðustu náttúrulegu og óröskuðu fjörunum í Reykjavík fyrir utan Kjalarnes. Áætlað er að fullbyggður Nýi Skerjaförður hýsi 2.300–2.500 íbúa í 1.400 íbúðum og þar af eiga 300 íbúðir verði á fullbyggðri landfyllingu. Áhrif á gróður, strand- og sjávarlífríki, fuglalíf og verndarsvæði – samkvæmt skýrslunni eru metin í hæsta neikvæða flokki. Á svæðinu eru minjar um fyrstu sjóflugvélasögu Reykjavíkur sem var upphafið af flugi í Vatnsmýrinni og þessari sögu á að fórna. Innviðir Skerjafjarðar þola ekki það álag sem af þessari uppbyggingu hlýst. Umferðarálagið er nægt fyrir og nýlega var boðað að þrengja að Suðurgötu og breyta henni í borgargötu. Efnisflutningar verða gríðarlegir í gegnum Skerjafjörð og á Menntavegi framhjá HR og á ólögðum vegi við enda flugbrautarinnar í Vatnsmýrinni. Þá er ótalin áhrifin af eknum kílómetrum, slit gatna og losun CO2 af verkinu. 

    Fylgigögn

  17. Atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar til 2030, umsagnarbeiðni - USK2021120018         Mál nr. US210370

    Lögð fram umsagnarbeiðni  skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. desember 2021, þar sem umhverfis- og heilbrigðisráði er gefinn kostur á að senda inn umsögn eða gera athugasemdir við stefnudrögin.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

  18. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um öryggisúttekt á leiktækjum í umsjá og eigu Reykjavíkurborgar         Mál nr. US210377

    Umhverfis- og heilbrigðisráð samþykkir að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar láti framkvæma öryggisúttekt á öllum leiktækjum í umsjá og eigu Reykjavíkurborgar. Sérstaklega verði horft til öryggi tækjanna við ákveðnar veðuraðstæður í vetrarveðrum. Þá er lagt til að bætt verði úr án tafar þar sem öryggi leiktækjanna er ábótavant. Enn fremur skal skoðað ofan í kjölinn alvarlegt atvik, sem átti sér stað við Korpuskóla, 30. nóvember síðastliðinn. Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar verði falið að skila skýrslu til ráðsins hið fyrsta, bæði vegna úttektar og atviksins við Korpuskóla. 

    Tillögunni fylgir greinargerð. 

    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 16:18

Líf Magneudóttir Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
umhverfis_og_heilbrigdisrad_1512.pdf