Umhverfis- og heilbrigðisráð - Fundur nr. 55

Umhverfis- og heilbrigðisráð

Ár 2021, föstudaginn 3. september 2021, kl. 9:04 var haldinn 55. fundur umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi.

 

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Líf Magneudóttir, Skúli Þór Helgason, Baldur Borgþórsson Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Sabine Leskopf, Rannveig Ernudóttir, Örn Þórðarson og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins Ólafur Jónsson.

 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Óskar Ísfeld Sigurðsson, Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Sigurjóna Guðnadóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundabúnaði: Ólöf Örvarsdóttir og Árný Sigurðardóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Framlengd heimild til notkunar fjarfundabúnaðar,          Mál nr. US200205

    Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar til nefnda og ráða Reykjavíkurborgar, dags. 12. ágúst 2021, þar sem fram kemur að borgarstjórn samþykkti þann 12. ágúst sl. tillögu um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi. Jafnframt er lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. ágúst 2021, varðandi tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi. Einnig er lögð fram auglýsing, dags. 27. júlí 2021, um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvörðunartöku við stjórn sveitarfélaga nr. 1436/2020 og auglýsing, dags. 4. desember 2013, um leiðbeiningar um notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013.

    Fylgigögn

  2. Kosning í umhverfis- og heilbrigðisráð, USK2019060057         Mál nr. US210144

    Lögð fram bréf borgarstjóra, dags. 15. júní. 2021 og 23. júlí 2021, þar sem tilkynnt er að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti í stað Egils Þórs Jónssonar og Skúli Þór Helgason taki sæti í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur í umhverfis- og heilbrigðisráði.

    Fylgigögn

  3. Umhverfis- og heilbrigðisráð 2018-2022, kosning varaformanns         Mál nr. US180171

    Kosning varaformanns umhverfis- og heilbrigðisráðs 2018-2022.

    Samþykkt samhljóða að Sabine Leskopf fulltrúi Samfylkingarinnar, verði kjörinn varaformaður Umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  4. Breyting á fundadagatali,          Mál nr. US210074

    Lagt er til að sameiginlegur fundur skipulags- og samgönguráðs og umhverfis- og heilbrigðisráðs sem halda átti þann 15. september 2021 verði færður til 22. september 2021 og að bætt verði inn sameiginlegum vinnufundi ráðanna föstudaginn 10. september 2021. 

    Samþykkt.

    (E) Umhverfismál

  5. Loftslagsbreytingar, kynning         Mál nr. US210232

    Kynning á helstu atriðum úr 6. skýrslu vinnuhóps sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

    Kl. 9:12 tekur Jórunn Pála Jónasdóttir sæti á fundinum.

    Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Við erum í kapphlaupi við tímann í að stöðva alla þá losun sem okkur er unnt að gera á gróðurhúsalofttegundum. Hraður samdráttur í losun CO2 og metans og öðrum óæskilegum gróðurhúsalofttegundum bætir loftslag og loftgæði og við verðum öll að leggjast á eitt í því verkefni. Það er óvéfengjanlegt að við stöndum frammi fyrir hröðum og lífshættulegum loftslagsbreytingum af mannavöldum sem eru skaðlegar og hættulegar umhverfi okkar, orsaka hlýnun jarðar, súrnun sjávar og ofsafengnar veðurbreytingar. Reykjavíkurborg hefur unnið eftir metnaðarfullri loftslagsstefnu og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem samþykkt var í vor.  En 6. skýrsla vinnuhóps sérfræðingahóps Milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar undirstrikar að við Íslendingar eins og heimsbyggðin öll þurfum að gera mikið betur og hraða því enn frekar að draga úr losun ekki síst af samgöngum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks minna á að Íslendingar eiga mikið undir umhverfinu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun mætir kröfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Hún byggist á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri. Í flestu er staða Íslands öfundsverð og gefur ómetanleg tækifæri til að vera leiðandi í grænni orkubyltingu, hverfa frá jarðefnaeldsneyti og taka upp umhverfisvænni orkugjafa. Græna orkubyltingin kallar á aukna notkun á bæði raforku og rafeldsneyti sem Ísland er í kjörstöðu til að framleiða. Íslendingar hafa áður lyft Grettistaki í orkuskiptum. Hitaveituvæðing 20. aldar var risavaxið verkefni fyrir fámenna þjóð sem batt nær alveg enda á olíunotkun til húshitunar. Ávinningurinn var aukin lífsgæði, minni mengun, aukin sjálfbærni og sjálfstæði Íslands í orkumálum og ómældur sparnaður í innkaupum á erlendu eldsneyti. Efnahagslegur ávinningur af grænni orkubyltingu er mikill en árlega verja Íslendingar um 80-120 milljörðum króna í eldsneytiskaup frá útlöndum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland stígi skrefið til fulls, sé leiðandi í orkuskiptum á heimsvísu með metnaðarfullum aðgerðum og verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.

  6. Loftlagsbókhald Reykjavíkurborgar 2020, kynning         Mál nr. US210231

    Kynning á loftlagsbókhaldi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020.

    Stefán Þór Kristinson frá Eflu tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

    Fulltrúar Vinstri Grænna, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Loftslagsbókhald Reykjavíkurborgar sýnir talsverðan samdrátt í losun frá samgöngum á síðastliðnu ári en skýringarnar eru auðvitað minni umsvif í hagkerfinu og áhrif COVID faraldurs. Tölurnar spegla þörfina fyrir róttækar breytingar á hegðun og neyslu, mikilvægi þess að hraða sem kostur er orkuskiptum og draga sem mest úr notkun jarðefnaeldsneytis. Borgin hefur gengið fram fyrir skjöldu með áherslu á eflingu almenningssamgangna, Borgarlínu og uppbyggingu aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi umferð. Rafbílavæðing síðustu ára er mikilvægt innlegg en ganga þarf mun lengra í að flýta þeirri þróun með markvissum hagrænum hvötum.  Nauðsynlegt er að herða enn frekar á aðgerðum til að draga úr losun og það mun kalla á róttækar breytingar á vegum stjórnvalda, almennings og atvinnulífs. Enn bólar á misvísandi umræðu um hlut stóriðju í losunarbókhaldi landsins og sjálfsblekkingu um að stóriðja á Íslandi sé bæði væn og græn. Staðreyndin er að losun Íslands hefur aukist um 28% frá 1990 og munar þar mest um tvöföldun á losun vegna málmbræðslu.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru talsverð vonbrigði að Reykjavíkurborg sé að auka notkun sína á eldsneyti milli ára. Notkun jarðefnaeldsneytis hefur vaxið verulega frá árinu 2018, en þar af hefur bensínnotkun aukist um 40% frá að þessi meirihluti tók við. Þá er aukning á dísil um 5% og losun á CO2 ígildum hefur aukist um 9% á kjörtímabilinu. Þetta er þvert á yfirlýst markmið borgarinnar en árið 2020 átti losun vegna eldsneytisnotkunar Reykjavíkurborgar að vera 425 tonn en var 827 tonn! Það skýtur skökku við að á sama tíma og iðnaðurinn, útgerðin og heimilin hafa minnkað losun og fært sig yfir í rafmagn að þá sé Reykjavíkurborg að stórauka notkun á jarðefnaeldsneyti. Ljóst er að það plan sem unnið hefur verið eftir á þessu kjörtímabili er nærri því að vera grátt en grænt.

  7. Aðgerðaráætlun í loftlagsmálum, eftirfylgnihópur vegna innleiðingar          Mál nr. US210233

    Formaður upplýsir um tilurð eftirfylgnihóps við innleiðingu aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum skv. samþykktri stefnumörkun í loftslagsmálum í borgarstjórn 2. mars 2021. Hópinn skipa formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs, formaður skipulags- og samgönguráðs og formaður innkaupa- og framkvæmdaráðs. Hlutverk hans er að hafa ársfjórðungslegt eftirlit með innleiðingu aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum og stöðu verkefna henni tengdri. 

        Heilbrigðisnefnd,          Mál nr. US210013

  8. Lögð fram ársskýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 2020 ódags.

    Fylgigögn

  9. Lagður fram úrskurður frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála dags. 25. júní 2021 á máli nr. 15/2021, kæru á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 2. febrúar 2021, um að veita Vöku hf. starfsleyfi fyrir starfsemi félagsins að Héðinsgötu 2. 

    Guðjón Ingi Eggertsson heilbrigðisfulltrúi tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  10. Lagðar fram tillögur til kynningar að fjórum starfsleyfum Vöku ásamt fylgigögnum. Tillögur eru að starfsleyfum fyrir bifreiða- og vélaverkstæði, bílapartasölu og niðurrif bifreiða, hjólbarðaverkstæði og móttökustöð fyrir úrgang. 

    Guðjón Ingi Eggertsson heilbrigðisfulltrúi tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  11. Lögð fram umsagnarbeiðni Umhverfis- og auðlindaráðuneytis dags. 18. ágúst 2021 til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna andmæla Vöku hf. um synjun á undanþágu fyrir móttökustöð. Einnig er lagður fram rökstuðningur frá Vöku hf. dags. 13. ágúst 2021 til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Umsögn um erindi umhverfis- og auðlindaráðuneytis vegna andmæla Vöku um synjun á undanþágu fyrir móttökustöð.

    Guðjón Ingi Eggertsson heilbrigðisfulltrúi tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  12. Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 15. júní 2021 um drög að    Vatnaáætlun 2022 - 2027.

    Fulltrúar umhverfis- og heilbrigðisráð leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar taka undir þær ábendingar sem koma fram í umsögn heilbrigðiseftirlitanna á höfuðborgarsvæðinu. Þar koma fram fjölmargar athugasemdir og ábendingar sem vert er að gefa góðan gaum. Vatnsverndarmál þurfa alla athygli í nútíð og framtíð.

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  13. Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 15. júlí 2021 vegna tillögu    að nýju deiliskipulagi fyrir Rauðhóla.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir því að það verði gert heildrænt skipulag fyrir Heiðmörk, sem taki mið af mikilvægi vatnsverndar og sömuleiðis annarri nýtingu borgarbúa af þeirri útivistar- og náttúruperlu sem svæðið er.

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  14. Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 9. júní 2021 um lýsingu á deiliskipulagi Lágmúla, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut, Suðurlandsbraut, staðgreinir 1.260.

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  15. Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. júní 2021 um drög að reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta.

    Svava Svanborg Steinarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  16. Lögð fram bréf dags. 31. ágúst 2021 um nýja samþykkt um hundahald í Reykjavík ásamt drögum að nýrri samþykkt um hundahald í Reykjavík sem koma í stað núgildandi samþykktar um hundahald nr. 478/2012.

    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins samþykkja að leggja meðfylgjandi drög að nýrri samþykkt um hundahald í Reykjavík fyrir borgarstjórn, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins situr hjá við afgreiðslu.

    Björgvin Rafn Sigurðarson lögfræðingur og Þorkell Heiðarsson verkefnastjóri Dýraþjónustu Reykjavíkur taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  17. Kynning á starfsemi Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) sem tók til starfa árið 2021.
    Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Við þökkum fyrir góða kynningu á Dýraþjónustu Reykjavíkur (DÝR) sem er með starfsstöð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Ljóst er að vel gengur að bæta, einfalda og auka skilvirkni þjónustu við dýr og dýraeigendur með innleiðingunni. Þjónustan hefur verið efld verulega í miklu samstarfi við dýraeigendur og félagasamtök þeim tengdum. Borgarbúar hafa nýtt sér aðstoð Dýraþjónustunnar í verulegum mæli sem glöggt má sjá á miklum fjölda þjónustubeiðna. Einnig hefur hundaskráningum fjölgað, sem bendir til aukins trausts og ánægju borgarbúa. Tilgangurinn með þessum breytingum var að gera dýrum og dýraeigendum hærra undir höfði, bæta þjónustu við aðra borgarbúa og sameina málefni dýra í borginni á einum stað. Gæludýr eru sífellt mikilvægari hluti af borgarsamfélaginu sem oftast hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og stuðla að bættri lýðheilsu og því full ástæða til að þjónusta betur þennan þátt í samfélaginu.

    Björgvin Rafn Sigurðarson lögfræðingur og Þorkell Heiðarsson verkefnastjóri Dýraþjónustu Reykjavíkur taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

  18. Lagt fram svar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur ódags. og úttektarskýrslur við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins vegna Fossvogsskóla á aukafundi umhverfis- og heilbrigðisráðs 1. mars 2021.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram skýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 23. mars 2021 að ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna hundsbits á skemmtistaðnum Röntgen 19. mars 2021.

    Fylgigögn

  20. Lagður fram listi dags. 3. september 2021 yfir samþykkt tóbaks- og starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  21. Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um úrbætur vegna lyktamengunar frá Gufunesi (USK2021080019)         Mál nr. US210223

    Lagt er fram bréf borgarstjórnar dags. 12. ágúst 2021 þar sem samþykkt var að vísa til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs þar sem óskað er eftir að því að vinna að úrbótum vegna lyktamengunar sem hefur borist í sumar yfir Grafarvog frá Gufunesi verði sett af stað.

    Vísað til umsagnar og meðferðar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  22. Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um hávaðamælingu á hafnarsvæði Sundahafnar (USK2021080018)         Mál nr. US210222

    Lagt er fram bréf borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna dags. 12. ágúst 2021 þar sem samþykkt var að vísa til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs þar sem óskað er eftir því að gerðar verði mælingar á þeim hávaða sem er á svæðinu ásamt því að mælingar verði gerðar í íbúðahverfum næst hafnarsvæðinu. Niðurstöðurnar verði svo kynntar borgarráði.

    Vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  23. Heilsuborgin Reykjavík, Lýðheilsustefna Reykjavíkurborgar til 2030 - USK2021050116         Mál nr. US210154

    Lögð fram umsagnarbeiðni borgarráðs dags. 27. maí 2021 ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 17. maí 2021, þar sem óskað er umsagnar umhverfis- og heilbrigðisráðs um drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030. Einnig er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 30. júní 2021 um Heilsuborgina Reykjavík - Lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030 dags. 30. júní 2021.

    Lagt fram.

    Að loknum málum heilbrigðisnefndar víkur Ólafur Jónsson af fundi.

    (E) Umhverfismál

    Fylgigögn

  24. Hleðsluinnviðir rafbíla skv. samkomulagi OR og Reykjavíkurborgar, kynning         Mál nr. US210230

    Kynnt staða á uppbyggingu innviða fyrir hleðslustöðvar rafbíla á opnum svæðum í borginni og stöðu mála vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála tengdum hleðslustöðvum fyrir rafbíla.

  25. Úthlutun úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús, til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla, tillaga         Mál nr. US200386

    Lögð fram til afgreiðslu tillaga umhverfis- og skipulagssviðs um úthlutun á styrkjum til Húsfélaga að Sléttuvegi 15-17, Kaplaskjólsvegi 61-65, Stóragerði 32, Kristnibraut 75 og Gullengi 7 úr styrktarsjóði til uppsetninga á hleðslustöðvum fyrir rafbíla við fjöleignarhús, ásamt fylgigögnum.

    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  26. Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar, drög til umsagnar - USK2021080038         Mál nr. US210219

    Lögð fram umsagnarbeiðni Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 17. ágúst 2021, þar sem óskað er umsagnar umhverfis- og heilbrigðisráðs um drög að Lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar.

    Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

    Fylgigögn

  27. SORPA bs., fundargerð         Mál nr. US130002

    Lagðar fram fundargerðir stjórnar Sorpu Bs. nr. 449 dags. 28. maí 2021, 450 dags. 24. júní 2021 og 551 dags. 16. ágúst 2021.

    Fylgigögn

  28. Söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi í Reykjavík, kynning         Mál nr. US210065

    Kynning á stöðu innleiðingar  á hirðu á lífrænum eldhúsúrgangi í Reykjavík.

    Friðrik Klingbeil Gunnarsson ráðgjafaverkfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  29. Áform um friðlýsingu  Blikastaðakróar og Leiruvogs, kynning         Mál nr. US210137

    Kynning á stöðu vinnu við friðlýsingu Blikastaðakró og Leiruvogi.

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  30. Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um markvissa gróðursetningu til að minnka vindálag í Reykjavík         Mál nr. US190274

    Kynning á meðferð og úrvinnslu tillögu.

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  31. Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um skógrækt á Kjalarnesi (USK2021080013)         Mál nr. US210221

    Lagt er fram bréf borgarstjórnar dags. 22. júlí 2021 þar sem samþykkt var að vísa til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs að hefja vinnu við að auka skógrækt á Kjalarnesi með það fyrir augum að auka skjól. Umhverfis- og skipulagsviði verði falið að vinna verkáætlun sem liggi fyrir í byrjun september. 
    Tillögunni fylgir greinargerð.

    Samþykkt að vísa til Umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða og inn í  áætlun og greiningar svæða til skógræktar.

    Fylgigögn

  32. Tillaga stýrihóps um innleiðingu íbúaráða, umsagnarbeiðni - USK2021080007, R19100342         Mál nr. US210207

    Lögð fram umsagnarbeiðni mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 3. ágúst 2021, þar sem óskað er umsagnar umhverfis- og heilbrigðisráðs um tillögu stýrihóps um innleiðingu íbúaráða.

    Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

    Fylgigögn

  33. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Grafarvogs, um plastlausa Reykjavík 2026 - R21060151, USK2021060102         Mál nr. US210204

    Lagt er fram bréf borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna dags. 16. júní 2021 þar sem samþykkt var að vísa til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs að hefja vinnu við að gera Reykjavík að plastlausri borg ekki seinna en árið 2026.

    Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða, Grænna skrefa.

    Fylgigögn

  34. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, bjöllur á ketti - R21030278         Mál nr. US210096

    Lagt er fram bréf borgarstjórnar dags. 25. mars 2021 þar sem samþykkt var að vísa til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að setja bjöllur á ketti. 

    Lagt er til að borgarráð beini því til umhverfis- og heilbrigðisráðs ásamt Dýraþjónustu Reykjavíkur að senda út tilmæli til kattaeigenda að þeir setji bjöllur, a.m.k. tvær, á ketti sína við upphaf varptíma fugla í maí. Fulltrúi Flokks fólksins er mikill kattavinur en einnig mikill fuglavinur. Kattahald er útbreitt í borginni og þeir kettir þurfa ekki að veiða sér til matar. Kettir ganga flestir lausir og fara sínar ferðir. Kettir er mikilvæg gæludýr í borgum, en kettir höggva stór skörð í stofna smáfugla með ungaveiðum. Flestum finnst mikilvægt að standa vörð um fuglalíf enda lífgar fuglalíf upp á umhverfið í borginni. Spörfuglar gera garðræktendum gagn með því að halda meindýrum á trjám í skefjum. Ábyrgir kattaeigendur draga mikið úr veiðiárangri katta með því að setja bjöllur eða/og litsterk hálsskraut á ketti sína. Tvær til þrjár bjöllur í háls ól katta sem klingja við samslátt valda því að köttur á erfitt með að koma bráð á óvart. Ein bjalla hefur takmarkað gildi. Fulltrúi Flokks fólksins vill með þessari tillögu leggja sitt af mörkum til að fleiri fuglsungar í Reykjavík komist á legg og umhverfisgæði batni. 

    Vísað til umsagnar Dýraþjónustu Reykjavíkur

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 12:53

Líf Magneudóttir Skúli Helgason

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
umhverfis_og_heilbrigdisrad_0309.pdf