Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Fræðsluráð

Ár 2001, mánudaginn 9. apríl, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 138. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Hrannar Björn Arnarsson, varaformaður fræðsluráðs, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ellert Borgar Þorvaldsson, fulltrúi skólastjóra, Hannes Þorsteinsson og Elín Vigdís Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Arthur Morthens, forstöðumaður þjónustusviðs, Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs, Guðmundur Þór Ásmundsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð og Aðalsteinn Eiríksson deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu. Sighvatur Arnarson frá byggingadeild borgarverkfræðings og Guðmundur Kr Guðmundsson, arkitekt, mættu undir lið 2.

Þetta gerðist:

1. Aðalsteinn Eiríksson, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu kynnti stöðu og framtíðarsýn vegna framhaldsskóla í Reykjavík og svaraði spurningum. Lagðar voru fram niðurstöður nefndar sem hefur fjallað um uppbyggingu framhaldsskólahúsnæðis í Reykjavík (fskj 138, 3.1).

2. Kynntar voru tillögur að viðbyggingu við Hlíðaskóla. Áfram verður unnið í ljósi þeirra hugmynda sem kynntar voru.

Sighvatur Arnarson og Guðmundur Kr Guðmundsson mættu á fundinn undir þessum lið

3. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 6. apríl sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa fræðsluráði, 3 mál (fskj 138, 1.1).

4. Lagt var fram svar við athugasemd áheyrnafulltrúa foreldra við fundargerð frá fundi fræðsluráðs 26. mars s.l. (fskj 138, 2.1).

5. Tillögur úthlutunarnefndar vegna úthlutunar úr þróunarsjóði grunnskóla voru lagðar fram og kynntar (fskj 138, 5.1). Afgreiðslu frestað

Guðrún Pétursdóttir hvarf af fundi kl 13:40.

6. Önnur mál: a) Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Lagt er til að skipaður verði starfshópur sem hafi það að markmiði að kanna með hvaða hætti má árangurstengja laun kennara í grunnskólum. Ekki yrði aðeins tekið mið að framförum nemenda, heldur einnig því með hvaða hætti kennari vinnur að bættum árangri nemenda sinna, til dæmis með því að gera námsáætlun með hverjum nemanda, með framsetningu og eftirfylgni námsmarkmiða, gerð kennsluefnis o.s.frv.. Í starfshópnum sitji fulltrúar kennara, skólastjórnenda, fræðsluráðs og foreldra en starfsmenn Fræðslumiðstöðvar vinni með hópnum. Hópurinn skili niðurstöðu til fræðsluráðs í október 2001.

b) Einnig lögðu fulltrúar sjálfstæðismanna fram eftirfarandi tillögu:

Í tengslum við þá undirbúningsvinnu sem nú fer fram um reiknilíkan um nemendamiðaðar greiðslur til grunnskóla í Reykjavík er lagt til að framlög til einkaskóla í Reykjavík verði reiknum á sama grundvelli og með sömu viðmið og framlög til annarra grunnskóla í Reykjavík. Fjármálastjóra fræðslumiðstöðvar verði falið að undirbúa fyrir næsta fund fræðsluráðs greinargerð um það hvernig greiðslum er nú háttað, á hvaða forsendum þær eru reiknaðar og hvað skilur á milli greiðslna til einkaskóla og annarra grunnskóla í Reykjavík bæði í núverandi kerfi og einnig miðað við nýja reiknilíkanið. Tillögunni fylgdi greinargerð.

Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi frávísunartillögu: Tillaga sjálfstæðimanna ber vott um ótrúlega sýndarmennsku og ábyrgðarleysi. Þann 21. 08. 2000 samþykkti fræðaluráð samhljóða tillögu forstöðumanns fjármálasviðs að styrkjum til einkaskóla. Framlög til einkaskóla per nemanda hafa hækkað umtalsvert á síðustu árum, eða u.þ.b. 50% á þremur árum. Frá og með næsta skólaári fá einkaskólar í Reykjavík sömu upphæð per nemanda og Samband íslenskra sveitarfélaga notar með nemendum sem stunda nám utan lögheimilissveitarfélaga. Tillaga sjálfstæðismanna er eingöngu yfirboð og í andstöðu við fyrri afstöðu þeirra og fræðsluráðs. Henni er því vísað frá.

Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram eftirfarandi bókun: Undirritaður samþykkti á sínum tíma eðli málsins samkvæmt hækkun framlaga til handa einkaskólanna. Það bindur á engan hátt hendur mínar eða sjálfstæðimanna til að koma fram með tillögur um að jafna stöðu einkaskólanna gagnvart hinum borgarreknu. Það er hins vegar athyglivert að heyra afstöðu R-listans gagnvart einkaskólunum.

Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi bókun: Reykjavíkurlistinn hefur tekið myndarlega á málefnum einkaskóla í borginni og teljum þá skila góðu starfi. Þess vegna munum við greiða það sama með nemendum þeirra og með reykvískum nemendum í öðrum sveitarfélögum.

Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram eftirfarandi bókun: Eftir stendur að þeirri spurningu er ósvarað af hverju ekki er greidd sambærileg upphæð með öllum reykvískum börnum sem eru í skóla í Reykjavík.

c) Fulltrúi foreldra lagði fram eftirfarandi fyrirspurn varðandi sérdeild fyrir einhverf börn í Langholtsskóla: Hefur verið tekin ákvörðun um niðurskurð á fjármagni til sérdeildar fyrir einhverf börn í Langholtsskóla frá því sem verið hefur. Ef svo er, hver er ástæðan, hver er niðurskurðurinn í krónum, hver er niðurskurðurinn í stöðugildum og hefur verið mörkuð stefna í fræðsluráði hvernig fagleg mönnun og almenn mönnun skuli vera í sérdeildum fyrir einhverfa?

Fundi slitið kl. 14.20

Sigrún Magnúsdóttir
Hrannar Björn Arnarsson Guðlaugur Þór Þórðarson
Sigrún Elsa Smáradóttir