Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Fræðsluráð

Ár 2001, mánudaginn 18. júní, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð og var þetta 144. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs, Guðrún Erla Geirsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ellert Borgar Þorvaldsson, fulltrúi skólastjóra, Hannes Þorsteinsson og Elín Vigdís Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur og Óskar Ísfeld Sigurðsson, fulltrúi SAMFOKs. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Runólfur Birgir Leifsson, forstöðumaður fjármálasviðs, Ingunn Gísladóttir, starfsmannastjóri, Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður þróunarsviðs og Guðmundur Þór Ásmundsson, skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Ráðningar: a) Ráðning skólastjóra að ráðgjafarskóla vegna geðfatlaðra sem frestað var á síðasta fundi (fskj 144, 1.1 og 1.2). Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun: Á síðasta fundi fræðsluráðs 11. júní var fjallað um stöðu skólastjóra í nýjum ráðgjafarskóla fyrir geðfötluð börn. Afgreiðslu málsins var frestað að ósk sjálfstæðismanna. Nú hefur komið í ljós að fræðsluráð var leynt bréfi sem skólastjóri Dalbrautarskóla hafði sent fræðsluráði gegnum Fræðslumiðstöð þann 23. maí 2001, þ.e. meira en hálfum mánuði áður en þessi fundur var haldinn. Bréfritari þurfti því að senda bréfið persónulega til fræðsluráðsfulltrúa þegar ljóst varð að það hafði ekki verið lagt fyrir fundinn né dreift meðal fræðsluráðsfulltrúa. Þessi vinnubrögð Fræðslumiðstöðvar eru ámælisverð. Í bréfinu kemur fram, að ekki hefur verið staðið eðlilega að undirbúningi nýs ráðgjafarskóla fyrir geðfötluð börn, sem hefur í för með sér miklar breytingar á starfi og stöðu Dalbrautarskóla og allra starfsmanna hans. Sjálfstæðismenn treystu því að sjálfsögðu að þessi áform hefðu verið kynnt hlutaðeigandi með formlegum hætti, svo ekki léki vafi á stöðu mála. Opinberir starfsmenn eiga fullan rétt á því að vera upplýstir um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á starfsemi þeirrar stofnunar sem þeir vinna hjá og þar með á störfum þeirra sjálfra. Slíkt þarf að gerast með formlegum hætti og vera yfir vafa hafið. Ennfremur lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram eftirfarandi tillögu: Ljóst er á bréfi skólastjóra Dalbrautarskóla að hann telur að verið sé að auglýsa stöðu sem hann sjálfur situr í án þess að honum hafi verið sagt upp störfum eða skóli hans lagður niður. Sjálfstæðismenn fara fram á að Fræðslumiðstöð leggi fram gögn um með hvaða hætti skólastjóra og starfsmönnum Dalbrautarskóla hafi verið kynntar fyrirhugaðar breytingar á starfsemi Dalbrautarskóla og hver stjórnskipuleg staða skólans og starfsmanna hans verður. Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi bókun: Umrætt bréf skólastjóra Dalbrautarskóla frá 23. maí s.l. var jafnframt umsókn viðkomandi í stöðu skólastjóra fyrir nýjan ráðgjafarskóla, en ekki er venja að dreifa umsóknum heldur útdráttum úr þeim. Samkvæmt síðust tveimur starfsáætlunum Fræðslumiðstöðvar hefur verið ráðgert að setja á laggirnar ráðgjafarskóla frá hausti 2001. Eins og segir í starfsáætlun 2001 á bls 30: “Haustið 2001 verði stofnuð ráðgjafarmiðstöð og sérúrræði fyrir nemendur með alvarlegan geðrænan vanda, þ.m.t. nemendur með alvarlegar hegðunarraskanir. Hér verði um að ræða úrræði fyrir 10-15 nemendur. Leitað verði að hentugu húsnæði og stjórnandi ráðinn í upphafi árs. Mótuð verði hugmyndafræði miðstöðvarinnar, skilgreint hlutverk hennar og markmið og tengsl við almenna skóla.” Starfsmenn Dalbrautarskóla hafa því vitað í tvö ár að stefnt væri að stofnun sérúrræðis fyrir geðfatlaða. Haldnir hafa verið nokkrir fundir með starfsmönnum á undanförnum árum.

Samþykkt með þremur atkvæðum meirihluta að mæla með að Jakob Bragi Hannesson verði ráðinn til starfsins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun: Sjálfstæðismenn mótmæla afgreiðslu á ráðningu skólastjóra í nýjan ráðgjafarskóla fyrir geðfötluð börn. Í auglýsingu um starf skólastjóra er áhersla lögð á stjórnunarreynslu. Sjálfstæðismenn benda á að mikill munur er á reynslu umsækjenda á þessu sviði, annar hefur unnið að stjórnun um áratuga skeið, en hinn hefur enga slíka reynslu. Skólastjóri Dalbrautarskóla hefur þar að auki verið starfsmaður borgarinnar um árabil. Eðlilegt er að ætla, að veigamikil rök þurfi til að ganga fram hjá honum við þessa ráðningu. Þar sem annar umsækjandi er búsettur erlendis gefst fræðsluráði ekki tækifæri til svo mikils sem að hitta manninn einu sinni áður en ákvörðun verður tekin. Sjálfstæðismenn töldu eðlilegt að fresta afgreiðslu málsins þar til fræðsluráði hefði gefist tækifæri til að hitta umsækjendur báða að máli, og mótmæla því að ekki fékkst umræða um forsendur ráðningarinnar. Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi bókun: Í auglýsingu var bæði talið æskilegt að umsækjendur hefðu stjórnunarreynslu og faglegan bakgrunn á viðkomandi sviði. Faglegur bakgrunnur Jakobs er sterkari en Guðmundur Ingi hefur meiri stjórnunarreynslu. Því er vísað til föðurhúsanna að ekki hafi verið umræða um forsendur ráðningarinnar. Ráðningu var frestað um viku og á fundinum í dag var um klukkustundar umræða um þennan lið dagskrárinnar.

b) Ráðning aðstoðarskólastjóra við Víkurskóla sem frestað var á síðasta fundi. Samþykkt einróma að ráða Hrund Logadóttur til starfsins. c) Ráðning aðstoðarskólastjóra fyrir yngra stig í Árbæjarskóla. Starfsmannastjóri lagði fram upplýsingar um umsækjendur (fskj 144, 1.3) og álitsgerð ásamt tillögum skólastjóra og kennararáðs (fskj 144, 1.4, 1.5, 1.6 og 1.7). Samþykkt einróma að ráða Unu Björgu Bjarnadóttur til starfsins.

2. Þar sem umsóknarfrestur um stöðu skólastjóra Langholtsskóla er ekki liðinn var lið 2 á auglýstri dagskrá frestað.

3. Tekin til afgreiðslu tillaga um nöfn á tvo skóla í Grafarholti sem frestað var á síðasta fundi (sjá fskj 143, 9.1). Samþykkt samhljóða að fyrri skólinn sem þar verður reistur hljóti nafnið Ingunnarskóli og hinn hljóti nafnið Sæmundarskóli. Nöfnin eru eftir fræðikonunni Ingunni sem uppi var á 11. öld og Sæmundi fróða.

4. Skrifstofustjóri á skrifstofu fræðslustjóra kynnti jafningjaráðgjöf sem hann hefur veitt skólastjórum.

5. Erindi um framkvæmd samræmdra prófa (fskj 144, 5.1), Umfjöllun frestað.

6. Rætt var um húsnæðismál Korpuskóla (fskj 144, 6.1) Skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Korpuskóla og formaður foreldraráðs skólans sátu fundinn undir þessum lið.

7. Ítrekuð var kynning um matarmál, næðisstund og fleira (sbr fskj 143, 4.1).

8. Fulltrúi kennara lagði fram fyrirspurn um hvenær svarað yrði erindi kennara frá fundi fræðsluráðs 15. febrúar 1999 um ósk um skipun í starf.

Fundi slitið kl. 14.15

Sigrún Magnúsdóttir
Guðrún Erla Geirsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson
Sigrún Elsa Smáradóttir Guðrún Pétursdóttir