Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 2004, 15. desember kl. 13:45, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund á Fræðslumiðstöð og var þetta 224. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, Katrín Jakobsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Gísli Helgason, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bergþóra Valsdóttir fulltrúi SAMFOKs, Daníel Gunnarsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur, Ólafur Loftsson og Sigrún Ólafsdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri, Birna Sigurjónsdóttir, staðgengill forstöðumanns þjónustusviðs, Ingunn Gísladóttir, starfsmannastjóri, Runólfur Birgir Leifsson forstöðumaður fjármálasviðs og Guðmundur Þór Ásmundsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:

1. Ráðning skólastjóra Laugarnesskóla. Lögð fram eftirtalin fylgiskjöl:
Auglýsing um stöðuna, (fskj. 224, 1.1), yfirlit um umsækjendur, menntun þeirra , reynslu og störf (fskj. 224, 1.2), Umsögn kennararáðs skólans (fskj. 224, 1.3) og álit starfsmannastjóra Fræðslumiðstöðvar vegna ráðningarinnar (fskj. 224, 1.4).
Samþykkt samhljóða að ráða Guðmund Þór Ásmundsson til starfsins.
Guðmundur Þór Ásmundsson vék af fundi undir þessum lið og annaðist Runólfur Birgir Leifsson fundarritun á meðan.

2. Athugasemdir frá foreldraráðum við starfsáætlun fræðslumála 2005, sem sendar voru út með síðasta fundarboði teknar til umfjöllunar. (Fskj. 223, 11.1 - 223, 11.9). Auk þess lögð fram viðbótarathugasemd sem barst nýverið (fskj, 224, 2.1).
Áheyrnarfulltrúi foreldra lagði fram eftirfarandi tillögu:
Áheyrnarfulltrúi foreldra fagnar áhuga fræðsluráðs til að styðja foreldraráðin til að taka með virkum hætti þátt í skólastarfinu. Að mati áheyrnarfulltrúa foreldra er nauðsynlegt að greiða fyrir setu í foreldraráði til að því markmiði verði náð. Lagt er til að skólastjórar í grunnskólum Reykjavíkur hafi heimild til að greiða af rekstrarfé skólans fyrir setu á fundum foreldraráða allt að tíu fundum á ári. Greiðslur skuli taka mið af greiðslum í öðrum lögbundnum nefndum á vegum Reykjavíkurborgar.
Tillögunni fylgdi greinargerð.
Umræðum og atkvæðagreiðslu frestað

3. Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Í 3. grein laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985 segir m.a.:
Skólanefnd, skipuð fulltrúum eignaraðila, fjallar um málefni skólans og fer með fjárreiður hans. Viðkomandi sveitarfélag skal ávallt eiga fulltrúa í nefndinni.
Í samþykkt borgarráðs frá 18. febrúar 2003 um fyrirkomulag tónlistarnáms í Reykjavík segir í 6. grein að ákveðinn starfsmaður á Fræðslumiðstöð verði tengiliður tónlistarfræðslunnar við Fræðslumiðstöð og jafnframt verði starfsmaðurinn fulltrúi Reykjavíkurborgar í skólanefndum tónlistarskólanna, þar til lög nr. 75/1985 hafa verið endurskoðuð.
Í ljósi þessa og samkvæmt 44. gr. sveitarstjórnalaga nr. 45/1998 um hlutverk og valdsvið nefnda fer fræðsluráð fram á það við borgarráð að fá umboð til þess að skipa fulltrúa Reykjavíkurborgar í skólanefndir tónlistarskólanna.
Samþykkt einróma.

4. Lagðar fram svohljóðandi tillögur um uppbætur vegna tapaðra skóladaga í verkfalli kennara:
Til að leitast við að bæta nemendum að hluta upp tapaða kennslu vegna kennaraverkfalls leggur fræðsluráð til við borgarráð að veitt verði fé til grunnskólanna í borginni til eftirfarandi verkefna:

1) Bjóða nemendum í 10. bekk aðstoð til að undirbúa samræmd próf og nám í framhaldsskóla. Framlag til hvers skóla geti numið allt að 60 tímum pr. deild í þessum árgangi samkvæmt áætlunum frá skóla.
2) Bjóða nemendum í 9. bekk aðstoð í völdum greinum og geti framlag numið allt að 20 kennslustundum á hverja deild.
3) Til viðbótar verði veitt ákveðnu fjármagni til skólanna til þess að:
a) Veita aðstoð þeim nemendum sem skráð hafa sig til að taka framhalds-skólaeiningar í grunnskólum og hafa misst úr námi þar sem kennarar grunnskólans hafa sinnt þeim undirbúningi.
b) Endurskipuleggja skólastarf.
c) Koma til móts við þá nemendur í 1. – 8. bekk sem taldir eru þurfa á sérstakri aðstoð að halda vegna verkfalls samkvæmt mati skólanna.
Fjármagn vegna a) verði ákveðið samkvæmt áætlunum og greinargerðum skólanna, vegna b) eftir stærð skóla og vegna c) í hlutfalli nemenda í 1.-8. bekk

Fræðsluráð beinir þeim tilmælum til yfirvalda menntamála að gerðar verði nú þegar ráðstafanir til að tekið verði vel á móti þeim árgangi sem kemur í framhaldsskóla haustið 2005 og þeim veittur aukinn stuðningur ef þörf er talin á.
Lagt er til við borgarráð að Fræðslumiðstöð verði falið að úthluta fjármagni á vorönn 2005 í samræmi við ofangreindar tillögur og fjárheimildir borgarráðs. Skólarnir skili áætlunum um framkvæmd til Fræðslumiðstöðvar fyrir janúarlok og greinargerð um framkvæmdina í júní 2005.
Fræðsluráð leggur mikla áherslu á að í áætlunum skóla komi fram hvernig fé verður notað, að áætlunin hafi verið gerð í samvinnu við foreldraráð, nemendaráð og starfsmenn, og að fé sem úthlutað er til þessara skilgreindu verkefna sé eingöngu til þeirra en ekki annarra innan fjárhagsramma skóla.
Fræðsluráð leggur aðeins fram almennar hugmyndir um til hvaða verkefna megi verja fjármunum en telur að í hverjum skóla eigi að útfæra leiðir og lausnir s.s. hvort bætt verði við skóladögum eða undirbúningsdagar kennara færðir til.
Fræðsluráð telur að þessi fjárveiting sé aðeins hluti af uppbyggingu sem þarf að fara fram, og hvetur til þess að góð samvinna takist um skipulag og tilhögun skólastarfs á vorönn, milli skólastjórnenda, starfsfólks og forráðamanna barna og bendir sérstaklega á hlut foreldraráða í því.
Tillögunni fylgdi greinargerð.
Samþykkt einróma.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
1) Hver er áætlun um heildarlaunakostnað (+ eingreiðslur) Reykjavíkurborgar á árinu 2004 vegna þeirra sem njóta kjara samkvæmt kjarasamningi LN og KÍ miðað við eftirtalið:
a. Mat á kostnaði m.v. að eldri kjarasamningur hefði gilt óbreyttur til ársloka 2004 án áhrifa verkfalls eða nýs kjarasamnings ?
b. Mat á heildarlaunakostnaði að teknu tilliti til kostnaðar sem ekki varð að veruleika vegna verkfallsins og kostnaðaráhrifa hins nýja kjarasamnings?
2) Hver er áætlun um heildarlaunakostnað á árinu 2005 vegna þeirra sem njóta kjara samkvæmt kjarasamningi LN og KÍ ? Hver hefði hann orðið m.v. eldri kjarasamninga?
Óskað er eftir því að svörin séu eins sundurliðuð og kostur er.

5. Lögð fram skýrslan Fjölmenning í finnskum grunnskólum, frá námsferð fræðslustjóra, skólastjóra og fleiri til Helsinki 2002 (fskj. 224, 4.1) og Leiðarvísir um þátttökunám, frá námsferð til Minnesota 2003 (fskj. 224, 4.2).

6. Lagt fram bréf um samþykkt borgarráðs á tillögu fræðsluráðs um stofnun nýs skóla í Grafarholti sbr. síðustu fundargerð (fskj. 224, 6.1).

7. Lagt fram minnisblað frá deildarstjóra kennsludeildar um efnið: - Skóli á nýrri öld – ráðstefna – sýning – hvatningarverðlaun 2005. (Fskj. 224, 5.1).

8. Áheyrnafulltrúi skólastjóra kynnti breytingu á áheyrnafulltrúa skólastjóra í framhaldi af nýafstöðnu stjórnarkjöri (fskj. 224, 8.1). Einnig lagði hann fram skýrslu stjórnar Skólastjórafélagi Reykjavíkur. (Fskj. 224, 8.2).

9. Áheyrnafulltrúi foreldra lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Stefnt var að því að nemendur Breiðagerðisskóla fengju mat úr mötuneyti skólans frá skólabyrjun 2004-2005. Við það hefur ekki verið staðið. Hver er ástæða þess að hægt er að nota mötuneytið til að framleiða mat fyrir kennara en ekki fyrir nemendur?

10. Lögð var fram svohljóðandi bókun:
Vegna fregna í fjölmiðlum um ESPAD skýrslu þar sem rætt er um minnkandi vímuefnaneysla íslenskra unglinga, lýsir fræðsluráð yfir ánægju sinni og óskar íslenskum unglingum til hamingju og þakkar þeim sem standa að forvörnum bæði innan og utan skóla.

11. Horft um öxl á síðasta fundi fræðsluráðs – lagt fram yfirlit fræðslustjóra um starfsemi fræðsluráðs Reykjavíkur sem starfaði frá ágúst 1996 til desember 2004 (fskj. 224, 11.1).
Fulltrúar fluttu hver öðrum þakkir fyrir samstarfið og óskuðu áheyrnarfulltrúar F-lista og skólastjóra eftir að fram kæmu þakkir þeirra fyrir hve virkir áheyrnarfulltrúar hefðu fengið að vera.
Fluttar voru kveðjur frá Vigdísi Hauksdóttur og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Fundi slitið kl. 15:30

Stefán Jón Hafstein

Katrín Jakobsdóttir Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Marta Guðjónsdóttir