No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2017, 11. október, var haldinn 126. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.03. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Ragnar Hansson (Æ), Sabine Leskopf (S) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B), Arndís María Ólafsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna, Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum, Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Pétur Zimsen, skólastjórar í grunnskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 4. október 2017, þar sem tilkynnt er að stefna um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025 hafi verið samþykkt á fundi borgarstjórnar þann 3. október 2017. Jafnframt lögð fram stefna um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025. SFS2016070070
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Ein af kröfum nútímans er að byggja upp skipulagða þjónustu fyrir börn og ungmenni í frítímanum. Þar á að vera vettvangur tómstunda, menntunar, menningar og uppeldis undir handleiðslu hæfs starfsfólks. Framkvæmdastjórar telja að stefnan muni styrkja enn frekar það góða frístundastarf sem Reykjavík hefur upp á að bjóða. Frístundmiðstöðvarnar fagna auknu hlutverki sínu varðandi að leiðbeina borgarbúum hvernig nýta megi frítímann á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Spennandi tækifæri koma fram í stefnunni sem snúa að bættu frístundastarfi til dæmis aukin samnýting á mannvirkjum, aukin starfsmannafesta með samstarfi við Vinnuskólann í Reykjavík, auknu starfi fyrir börn 10-12 ára, auknu starfi fyrir ungmenni 16-18 ára, auknum stuðningi fyrir börn með fötlun, auknu aðgengi að frístundastarfi fyrir fjölskyldur og fleiri áhugaverðum tækifærum. Stjórnendur í frístundamiðstöðvum hafa væntingar til þess að sett verði niður tímaáætlun varðandi innleiðingu, aðgerðum forgangsraðað og kostnaðarreiknaðar þannig að hægt sé að sækja fjármagn í að hefja innleiðingu. Stjórnendur eru áhugasamir um að hefja samstarf við íbúa og önnur svið er að stefnunni koma við að innleiða hana.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn fagnar því mjög að heildstæð frístundastefna var samþykkt einróma í borgarstjórn í síðustu viku. Stefnan lýsir metnaði til að halda úti fjölbreyttri frístundaþjónustu fyrir alla aldurshópa og leggur áherslu á nokkur meginatriði: virka þátttöku, jafnt aðgengi, forvarnir og lýðheilsu og fagmennsku. Leiðarljós Reykjavíkurborgar er að bjóða upp á fjölbreytta og heilsueflandi frístundaþjónustu sem hvetur til virkrar þátttöku, sköpunar og betra samfélags. Nú þegar stefnan hefur verið samþykkt er næsta skref að móta innleiðingaráætlun með kostnaðarmati þar sem einstökum tillögum verður raðað í forgang og þeim brýnustu hrint í framkvæmd strax á næsta ári.
Haraldur Sigurðsson, Helgi Eiríksson, Jóhannes Guðlaugsson og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. október 2017, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva 2017-2018. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir frístundamiðstöðvanna Ársels, Gufunesbæjar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2017-2018. SFS2017100014
Samþykkt.
- Kl. 11.28 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 11.52 tekur Kristín Ólafsdóttir sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar framkvæmdastjórum og starfsfólki frístundamiðstöðvana í Reykjavík fyrir framkomnar starfsáætlanir. Áætlanirnar eru vel unnar, eins er framsetning mjög skilvirk og ljóst að vel er unnið að hinum krefjandi verkefnum frístundamiðstöðvanna. Ánægjulegt er að sjá hvernig frístundamiðstöðvarnar hafa hagnýtt sér umbótaþætti skóla- og frístundaráðs og innleitt í samræmi við áherslur og forgangsröðun á hverjum stað. Nú þegar má greina spor væntanlegrar menntastefnu í áætlununum og verður mjög áhugavert að fylgjast með áframhaldandi vinnu frístundamiðstöðvanna með nýja menntastefnu þegar hún hefur verið fullmótuð og samþykkt á komandi ári.
Atli Steinn Árnason, Haraldur Sigurðsson, Helgi Eiríksson, Jóhannes Guðlaugsson og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2017, um reglur um þjónustu frístundaheimila. Jafnframt lögð fram drög að reglum um þjónustu frístundaheimila Reykjavíkurborgar, dags. 6. október 2017, og borgarráðssamþykkt um starfsemi og rekstur frístundaheimila Reykjavíkurborgar, sem staðfest er í borgarráði þann 4. mars 2010. SFS2017090128
Reglur um þjónustu frístundaheimila Reykjavíkurborgar samþykktar og vísað til borgarráðs.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Framkvæmdastjórar fagna því að nú sé búið að festa í sessi reglur um starfsemi frístundaheimila sem frístundamiðstöðvar í Reykjavík reka. Frístundaheimili fá nú skýrari ramma utan um sitt starf sitt og samhliða hefur verið unnið að skýrum reglum um hlutverk og gæðakröfur í starfseminni. Framkvæmdastjórar hafa væntingar til þess að skóla- og frístundasvið fylgi reglunum eftir og innleiði reglurnar inn í skólasamfélagið til dæmis varðandi móttökutíma barna.
Sigrún Sveinbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2017, um reglur um þjónustu félagsmiðstöðva. Jafnframt lögð fram drög að reglum um þjónustu félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar, dags. 4. október 2017. SFS2017090129
Reglur um þjónustu félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar samþykktar og vísað til borgarráðs.
Áheyrnarfulltrúar framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva og Reykjavíkurráðs ungmenna leggja fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra og áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna fagna því að nú sé búið að festa í sessi reglur um starfsemi félagsmiðstöðva sem frístundamiðstöðvar í Reykjavík reka. Félagsmiðstöðvar fá nú skýrari ramma utan um starf sitt og samhliða hefur verið unnið að skýrum reglum um hlutverk og gæðakröfur í starfseminni. Frábær framþróun fyrir félagsmiðstöðvar en ekki hafa áður verið til reglur um starfsemi þeirra. Miklar vonir eru bundnar við hóp sem mun fara í gang sem mun skoða húsnæðismál félagsmiðstöðva.
Sigrún Sveinbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2017, auk þess lögð fram skilgreining á rýmisþörf frístundaheimila, dags. 17. maí 2006:
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að honum verði falið að stofna starfshóp sem fjalli um húsnæði frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Starfshópurinn endurskoði skilgreiningar á rýmisþörfum frístundaheimila og félagsmiðstöðva, móti tillögur um umsýslu húsnæðis og hvernig kostnaðarskiptingu vegna rekstrar húsnæðis í samnýtingu verði háttað. Niðurstöður verði lagðar fyrir skóla- og frístundaráð eigi síðar en 8. nóvember 2017.
Greinargerð fylgir. SFS2017100032
Samþykkt.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2017, ásamt drögum að þjónustusamningi skóla- og frístundasviðs við sjálfstætt rekna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila, bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. ágúst 2017, um áhrif breytinga á grunnskólalögum nr. 76/2016 á kostnað sveitarfélaga, bréfi Landakotsskóla, dags. 2. október 2017, um framlag vegna reksturs frístundastarfs við grunnskóla og bréfi Hjallastefnunnar ehf., dags. 5. september 2017, um framlag vegna reksturs frístundastarfs við grunnskóla:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ganga til samninga við sjálfstætt rekna grunnskóla í Reykjavík með yngri árganga vegna reksturs frístundaheimila skólaárið 2017-2018 og þeir byggi á sama grunni og samningur sem gerður var vegna vorannar skólaársins 2016-2017. Samningar við skólana verði lagðir fyrir skóla- og frístundaráð og borgarráð þegar drög að þeim liggja fyrir.
Greinargerð fylgir. SFS2017100036
Frestað.
8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. október 2017, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS2016080100
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi skólastjórnenda leikskóla tekur undir áhyggjur foreldra með virkt og gagnsætt systkinatillit í leikskóla. Mikilvægt er að skerpa á reglunum til að tryggja að systkini og fjölskyldur geti verið á einum og sama leikskólanum, í því fellst mikið hagræði, bæði fyrir börnin, fjölskyldur og samfélagið. Skoða þarf, hvort að viðmót allra sem sækja um leikskólapláss sé samskonar, hvort sem börn eru að koma heiman frá sér, frá dagforeldri, einkareknum leikskólum eða ungbarnadeildum Reykjavíkurborgar. Að allir hafi möguleika á setja 3 leikskóla eða fleiri í val.
9. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. mars 2017, um tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um árlegan styrk til ungmennaráða. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2017, varðandi tillöguna. SFS2017030073
Lögð fram svohljóðandi tillaga Elínborgar Unu Einarsdóttur frá ungmennaráði Breiðholts:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar úthluti árlegum styrk frá og með næsta fjárhagsári til allra ungmennaráða sem nýtist ungmennum á einn eða annan hátt í viðkomandi hverfi.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt og vísað til fjárhagsáætlunargerðar skóla- og frístundasviðs 2018.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fulltrúa ungmennaráðs Breiðholts fyrir góða tillögu og tekur undir með fulltrúanum um að styrkveiting í þeirra umsjón sé til þess fallin að valdefla ungmenni og auka gagnsæi á því fé sem til ungmenna er veitt. Tillagan er einnig í takt við nýja samþykkta frístundstefnu Reykjavíkurborgar.
Elínborg Una Einarsdóttir, Helena Sif Gunnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
10. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. mars 2017, um tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um samræmdan opnunartíma félagsmiðstöðva í Reykjavík. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2017, varðandi tillöguna. SFS2017030079
Lögð fram svohljóðandi tillaga Alex Snæs Baldurssonar frá ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða:
Lagt er til að Reykjavíkurborg gæti jafnræðis hvað varðar opnunartíma félagsmiðstöðva í borginni og að lágmarki verði opið þrjú kvöld í viku í öllum félagsmiðstöðvum frá og með hausti 2017.
Greinargerð fylgir.
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Lagt er til að tillaga ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða um samræmdan opnunartíma félagsmiðstöðva í Reykjavík verði samþykkt með þeirri breytingu að allar félagsmiðstöðvar í Reykjavík verði opnar a.m.k. 3 kvöld í viku frá og með næstu áramótum. Tillögunni verði vísað til endanlegrar útfærslu við gerð fjárhagsáætlunar 2018.
Samþykkt.
Elínborg Una Einarsdóttir, Helena Sif Gunnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 13.45 víkur Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fulltrúa ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða fyrir tillöguna um samræmdan opnunartíma í félagsmiðstöðvum. Framkvæmdastjórar munu skoða útfærslur á þessu í samstarfi við fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs.
11. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. mars 2017, um tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um aðkomu ungmenna að ráðningu hlutastarfsmanna í félagsmiðstöðvum. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2017, varðandi tillöguna. SFS2017030074
Lögð fram svohljóðandi tillaga Sigríðar Höllu Eiríksdóttur frá ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða:
Lagt er til að skóla- og frístundasvið leggi fram tillögur fyrir árslok 2017 um hvernig unglingar geti komið að og verið ráðgefandi við ráðningar hlutastarfsmanna í félagsmiðstöðvum borgarinnar.
Greinargerð fylgir.
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Skóla- og frístundaráð leggur til að ungmenni, t.d. fulltrúar unglingaráðs viðkomandi félagsmiðstöðvar, geti komið að gerð auglýsingar þegar auglýst er eftir hlutastarfsmanni í félagsmiðstöð. Jafnframt að fulltrúar unglingaráðs geti lagt fram ósk um að ákveðnum spurningum verði beint til umsækjenda í ráðningarviðtali.
Samþykkt.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar ungmennaráðum framkomnar tillögur þeirra um starfsemi í þeirra þágu. Tillögurnar fjalla í fyrsta lagi um árlegan styrk til ungmenna til að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd, í öðru lagi um samræmdan opnunartíma félagsmiðstöðva sem verði opnar a.m.k. þrjú kvöld í viku og loks um aðkomu unglinga að ráðningu hlutastarfsmanna í félagsmiðstöðvum. Tillögurnar eru afar frambærilegar og er ljúft að geta samþykkt þær og komið þeim í skýran farveg. Við hvetjum ungmennaráðin í borginni til áframhaldandi góðrar vinnu við að gera starfsemi frístundamiðstöðva enn betri.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fulltrúa ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða fyrir tillöguna um aðkomu ungmenna að ráðningum hlutastarfsmanna. Að mörgu er að huga við ráðningar starfsmanna og mikilvægt að fylgja settum reglum og lögum. Framkvæmdastjórar vilja ávallt vera í góðu samráði og samstarfi við ungmenni og hafa væntingar til þess að tillaga skóla- og frístundasviðs muni auka aðkomu ungmenna að ráðningum starfsmanna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fulltrúum ungmennaráðanna fyrir góðar tillögur um árlegan styrk til ungmennaráða, þjónustutíma félagsmiðstöðva og aðkomu ungmenna að ráðningu hlutastarfsmanna í félagsmiðstöðvum. Ljóst er að vandað og metnaðarfullt starf á sér stað innan ungmennaráðanna og því er rétt að þeim sé gert kleift með árlegri styrkveitingu að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Tekið skal undir það sjónarmið að framboð þjónustu félagsmiðstöðva sé sem jafnast milli hverfa borgarinnar. Þá er brýnt að finna leiðir til þess að ungmenni fái fleiri tækifæri til að segja álit sitt á þjónustu Reykjavíkurborgar, ekki síst í skóla- og frístundamálum.
Elínborg Una Einarsdóttir, Helena Sif Gunnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. október 2017, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi 9. október 2017. SFS2017020191
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Nýjar tölur um stöðu ráðningarmála sýna að staðan er nú orðin svipuð eða betri en í fyrra í grunnskólum og frístundastarfinu en heldur fleiri starfsmenn vantar í leikskólum samanborið við fyrra ár. Aðgerðir til að mæta manneklu voru samþykktar í borgarráði í síðustu viku og má ætla að þær muni létta róðurinn á mörgum stöðum ekki síst við að bæta starfsandann í tengslum við aukið álag á undanförnum mánuðum.
13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. september 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. ágúst 2017, varðandi aðbúnað í einhverfudeild Hamraskóla. SFS2017080141
14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. október 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. ágúst 2017, varðandi biðlista í Brúarskóla. SFS2017080022
- Kl. 14.40 víkja Arndís María Ólafsdóttir, Kristján Gunnarsson og Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.
15. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er upplýsinga um hversu margir leikskólar hafa neyðst til að loka deildum vegna manneklunnar og hversu lengi þær hafa staðið yfir? Óskað er eftir að fá þessar upplýsingar sundurliðaðar eftir leikskólum. SFS2017100051
16. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Í fréttum nýverið kom fram hjá sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að verið væri að skoða hugmyndir um að skilgreina hámarks leikskóladvöl barna þeirra foreldra sem eru í fæðingarorlofi þannig að leikskólabarnið verði heima hluta úr degi til að mæta manneklu. Þar sem þessi tillaga hefur ekki verið rædd í skóla- og frístundaráði er óskað upplýsinga um hvar og hvenær ákveðið var að skoða hana og hversu langt á veg hún er komin. SFS2017100052
- Kl. 14.50 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum.
Fundi slitið kl. 14:52
Skúli Helgason
Hermann Valsson Kjartan Magnússon
Ragnar Hansson Sabine Leskopf
Þórlaug Ágústsdóttir