No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Menntaráð
Ár 2007, 26. nóv. kl. 13:00 var haldinn 65. fundur menntaráðs í Árbæjarskóla. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Helga Björk Ragnarsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir og Bolli Thoroddsen. Auk þeirra sátu fundinn Ásta Þorleifsdóttir áheyrnarfulltrúi F-lista, Kristbjörn Árnason og Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúar Kennarafélags Reykjavíkur, Jónína Emilsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Valgerður Janusdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundargerð ritaði Guðbjörg Jónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjóra dags. 5. nóv. sl. þar sem tilkynnt er að Ásta Þorleifsdóttir verði áheyrnarfulltrúi F - lista í menntaráði og til vara Kjartan Eggertsson.
Lagt fram bréf frá Kennarafélagi Reykjavíkur dags. 22. nóvember sl. þar sem greint er frá því að varafulltrúar í menntaráði Reykjavíkur verði þau Kristbjörn Árnason og Eiríka Ólafsdóttir.
Formaður bauð Ástu Þorleifsdóttur og Kristbjörn Árnason velkomin.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Óskari Einarssyni fyrir vel unnin störf í menntaráði undanfarið ár. Nýr fulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur, Jónína Emilsdóttir er jafnframt boðin velkomin til starfa í menntaráði.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði bjóða nýjan áheyrnarfulltrúa velkominn en undrast lýðræðislega skiptingu fulltrúa hjá hinum nýja meirihluta. Niðurstöður sveitastjórnarkosninga 2006 voru að Framsókn fékk 6#PR atkvæða, Samfylkingin 27#PR, Frjálslyndir 10#PR og Vinstri grænir 13#PR. Það er mjög áhugavert að Framsóknarflokkurinn, sem hefur aðeins 6#PR atkvæða á bak við sig eru með fulltrúa í öllum nefndum en Frjálslyndi flokkurinn þurfi að láta sér nægja áheyrnarfulltrúa.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og F-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Framsóknarflokksins í menntaráði eru einum færri í þeim meirihluta sem nú starfar þ.e.a.s. einn. Þessar vangaveltur fulltrúa Sjálfstæðisflokks koma því á óvart.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Það er einsdæmi að meirihluti þurfi að fara fram á áheyrnarfulltrúa í ráðum borgarinnar. Á sínum tíma var veitt samþykki fyrir áheyrnarfulltrúum fyrir þá flokka sem ekki áttu sæti í borgarráði. Það er augljóst að núverandi meirihluti hefur ekki getað komið sér saman um skiptingu í ráð og nefndir. Í tíð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var fullt jafnræði í nefndum en greinilegt er að svo er ekki hjá nýjum meirihluta.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og F-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Ágætt samkomulag er um skiptingu fulltrúa nýs meirihluta í nefndir og ráð.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Samkomulag nýs meirihluta er ekki meira en svo að hann þarf að bæta við áheyrnarfulltrúa í ráðum borgarinnar svo allir þeir flokkar sem mynda meirihluta eigi sinn fulltrúa í þeim. Það vekur athygli að á sama tíma á Samfylkingin tvo fulltrúa í ráðinu.
2. Skólastjóri Árbæjarskóla Þorsteinn Sæberg kynnti verkefnin Ný námsleið í Árbæjarskóla og BBB (Breytt skipulag-Betra nám-Bætt líðan) og svaraði fyrirspurnum.
3. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar frá fundi menntaráðs 4. júní sl. um fjölda 9. bekkinga sem innritaðist í framhaldsskóla sl. haust.
Fræðslustjóri gerði grein fyrir málinu.
- Kl. 14:10 vék Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundinum og Áslaug Friðriksdóttir tók þar sæti.
4. Lögð fram dagskrá BRÚAR 28. nóv. 2007.
5. Lagt fram minnisblað um breytingar í ráðningarmálum. Starfsmannastjóri gerði grein fyrir málinu.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar þeim skrefum sem tekin hafa verið til að auka möguleika á ráðningu kennara til starfa í grunnskólum Reykjavíkur. Breytingar fela í sér annars vegar að laun stundakennara hafa verið samræmd og bætt, og hins vegar hefur takmörkunum verið aflétt á ráðningu starfsmanna eftir að þeir hefja töku lífeyris.
6. Tillaga Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og F-lista um skipan starfshóps um heimanám nemenda í grunnskólum borgarinnar.
Menntaráð samþykkir að skipa starfshóp sem fjalli um heimanám nemenda í grunnskólum borgarinnar, sérstaklega í yngstu bekkjum.
Starfshópurinn kalli fram sjónarmið kennara og foreldra og undirbúi opinn fund með foreldraráðum grunnskólanna þar sem heimanám verði til umræðu. Í starfshópnum sitji fulltrúar meirihluta og minnihluta, sem og fulltrúar kennara og foreldra.
Tillaga samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðismenn fagna því að komið verði á starfshópi sem fjalli um heimanám nemenda í grunnskólum borgarinnar en benda jafnframt á að skoða þarf þetta mál heildstætt þ.e. fyrir alla bekki grunnskólans en ekki bara sérstaklega þá yngstu eins og tillaga meirihlutans gerir ráð fyrir.
Áheyrnarfulltrúar foreldra, kennara og skólastjóra lögðu fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúar foreldra, kennara og skólastjóra lýsa yfir ánægju með að heimanám nemenda í grunnskólum borgarinnar skuli skoðað í víðu samhengi og kölluð fram ólík sjónarmið.
7. Lagt fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa SAMFOKs frá fundi menntaráðs 1. okt. sl. um greiningu á ástandi skólahúsnæðis í grunnskólum Reykjavíkur. Fjármálastjóri gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi SAMFOKs lagði fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi þakkar svar við fyrirspurn varðandi stöðu skólahúsnæðis í grunnskólum Reykjavíkur en lýsir jafnframt yfir furðu sinni. Svarið má túlka þannig að hvað varðar heilbrigðismál og öryggismál ( þ.m.t. brunavarnir) sé allt í stakasta lagi. Rökstuddur grunur liggur fyrir um að ástand skólahúsnæðis sé ekki skv. lögum og reglum. Því óskar áheyrnarfulltrúi foreldra eftir því að óháður aðili verði fenginn til að meta ástand skólahúsnæðisins.
Hvað varðar aðgengi fatlaðra er óskað eftir tímasettri áætlun um hvernig aðgengi fatlaðra verður bætt í þeim 9 skólum sem uppfylla ekki lög og reglugerðir um aðgengi fatlaðra.
Áheyrnarfulltrúi F- lista lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Hvernig er öryggi og rýmingaráætlun grunnskóla borgarinnar háttað m.a. með tilliti til náttúruvár, bruna og annarra atburða þar sem rýmingar kann að verða þörf.
8. Lagt fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa F-lista frá fundi menntaráðs 17. sept. sl. varðandi sérmenntun kennara í náttúrufræðum/raungreinum. Skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu gerði grein fyrir málinu.
9. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá fundi menntaráðs 5. nóv. sl. um aðgerðir í starfsmannamálum til að gera Reykjavíkurborg að eftirsóknaverðari vinnustað. Starfsmannastjóri gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Sjálfstæðismenn óska eftir minnisblaði þar sem tíundað er hvaða sveigjanleiki er enn í kjarasamningum sem ekki hefur verið nýttur til fulls.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Það vekur athygli að nýr meirihluti í Reykjavík lítur ekki á sjálfstætt starfandi grunnskóla sem hluta af skólakerfi Reykjavíkurborgar. Það er segin saga að þessir flokkar hafa, utan Framsóknarflokksins og Frjálslyndara - Óháðra, unnið markvisst að því undanfarin kjörtímabil að skilja á milli þessara rekstrarforma í stað þess að samþætta þjónustuna í eitt heilstætt skólakerfi. Það væri óskandi að meirihlutinn færi að vinna í þá átt nú í upphafi 21. aldar.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og F-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fjárframlög til sjálfstætt rekinna grunnskóla eru samkvæmt drögum að fjárhagsáætlun nýs meirihluta, sem nú bíður annarar umræðu í borgarstjórn, að aukast um 90 milljónir, sem er um 20#PR hækkun frá framlögum síðasta árs, þegar Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að meirihluta. Eins og ljóst má vera af starfsáætlun nýs meirihluta er ríkur vilji til að gera þjónustusamninga við sjálfstætt rekna grunnskóla, til að skilgreina réttindi og skyldur þeirra annars vegar og Menntasviðs hinsvegar, en slíkir samningar eru ekki fyrir hendi í dag. Hlunnindaaðgerðir Reykjavíkurborgar snúa aðeins að starfsmönnun Reykjavíkurborgar enda liður í því að gera Reykjavíkurborg að eftirsóknaverðari vinnustað. Ef borgin ætlaði að láta hlunnindaaðgerðir sínar ganga til allra samstarfsaðila sinna, íþróttafélaga, tónlistarskóla og fl. er vandséð hvar það myndi enda. Við slíka útvíkkun yrðu markmið aðgerðanna óhjákvæmilega óljósari.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
90 milljón kr. aukaframlag til sjálfstætt rekinna skóla koma til vegna nýrra grunnskólalaga frá Alþingi. Hagstofa Íslands hefur reiknað út hvert framlag til þeirra er. Varðandi gerð þjónustusamninga við sjálfstætt rekna skóla voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur byrjaðir að undirbúa gerð þeirra fyrr á þessu ári. Vakin er athygli á því að sjálfstætt reknir grunnskólar kölluðu eftir slíkum samningum á 12 ára valdatíð R-listans sem gerðu aldrei slíkan samning við þá.
Fulltrúi F – lista lagði fram eftirfarandi fyrirspurn um fjölda stöðugilda kennara við sjálfstætt rekna grunnskóla:
Hversu mörg stöðugildi kennara eru við skólana?
a) með kennsluréttindi
b) með annað nám á háskólstigi
10. Lagt fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Kennarafélags Reykjavíkur á fundi menntaráðs 5. nóvember sl. um heimilisfræðikennslu. Skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu gerði grein fyrir málinu.
11. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra grunnskólaskrifstofu um áhersluþætti vegna úthlutunar þróunarstyrkja skólaárið 2008 – 2009. Skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu gerði grein fyrir málinu.
12. Lögð fram tillaga formanns menntaráðs um skipun starfshóps um tilhögun á kennslu nememda með félagslegar-, tilfinningarlegar- og hegðunarraskanir:
Menntaráð samþykkir að fela fræðslustjóra að skipa starfshóp sem fjalli um og komi með tillögur um tilhögun og fyrirkomulag kennslu nemenda með félagslegar-, tilfinningarlegar- og hegðunarraskanir í almennum grunnskólum, sérdeild og sérskóla.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna sérstaklega nýjum starfshópi sem skoði og komi með tillögur um tilhögun og fyrirkomulag kennslu fyrir börn sem eiga við hegðunarvanda að stríða.
Áheyrnarfulltrúar foreldra, kennara og skólastjóra lögðu fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúar foreldra, kennara og skólastjóra fagna því að skoða á sérstaklega fyrirkomulag kennslu nemenda með alvarlegar félagslegar-, tilfinningarlegar- og hegðunarraskanir og koma með tillögur að úrbótum.
13. Lagt fram minnisblað um uppsetningu matarforrits í mötuneytum grunnskóla Reykjavíkur. Forstöðumaður upplýsingatækniþjónustu gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðismenn í menntaráði leggja til að sjálfstætt reknum skólum verði boðin þátttaka í matarforriti grunnskólanna. Þá teljum við eðlilegt að sjálfstætt reknu grunnskólunum verði boðin þátttaka í háhraðaneti grunnskólanna og tölvuþjónustu Menntasviðs.
14. Skýrsla um náms- og kynnisferð skólastjóra grunnskóla og tónlistarskóla í Reykjavík til Minneapolis í apríl 2007 lögð fram.
Laufey Ólafsdóttir tónlistarfulltrúi gerði nánari grein fyrir námsferðinni og svaraði fyrirspurnum.
15. Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkaði þeim fulltrúum menntaráðs sem skipulögðu íslenskuverðlaun menntaráðs á degi íslenskrar tungu. Athöfnin var menntaráði nemendum, kennurum og skólastjórnendum grunnskólanna til sóma.
16. Fulltrúar kennara lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fyrir rúmu ári síðan lagði áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur, Þorgerður Diðriksdóttir fram fjölmargar fyrirspurnir varðandi smíðakennslu í grunnskólum Reykjavíkur. Fengust þau svör að Menntasviðs Reykjavíkur hefði falið Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í umsjón Jóns Torfa Jónassonar að taka að sér að gera könnun á kennslu í list- og verkgreinum í grunnskólum Reykjavíkur þ.e.a.s. hvort þær kennslustundir sem bættust við heildarkennslufjölda nemenda í 1. – 9. bekk á árunum hefðu aukið vægi list- og verkgreina. Ástæður þær sem lágu að baki þess að upphafleg fyrirspurn um smíðakennsluna var lögð fram voru þessar:
Í mörg ár hafa smíðakennarar sem starfa í grunnskólum Reykjavíkur fylgst með smíðakennslu í skólum borgarinnar. Það sem smíðakennarar hafa skoðað er hvort smíðin er kennd og hversu margar kennslustundir nemendur fá í grunnskólunum. Í ljós hefur komið að okkar mati að mikill misbrestur hefur orðið á því að nemendur fái þá kennslu sem þeir eiga að fá í “Hönnun og smíði” samkvæmt námskrá.
17. Fulltrúi skólastjóra lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi skólastjóra vekur athygli á því að grunnskólakennarar fara nú í auknum mæli til starfa í leikskólum borgarinnar þar sem í boði eru hærri laun og ívilnanir í formi dagvistunar fyrir börn starfsmanna.
Fundi slitið kl. 16:30
Oddný Sturludóttir
Anna Margrét Ólafsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Helga Björk Ragnarsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Bolli Thoroddsen Áslaug Friðríksdóttir