No translated content text
Skóla- og frístundaráð
MENNTARÁÐ
Ár 2011, 1. júní, var haldinn 148. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 9.10. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Diljá Ámundadóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Pétur Magnússon, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Sigrún Sigurðardóttir, leikskólastjórar í Reykjavík og Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur E. Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Eygló Traustadóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Ráðning leikskólastjóra við sameinaða leikskóla. Lögð fram greinargerð sviðsstjóra Leikskólasviðs vegna ráðninga í leikskólastjórastöður, dags. 1. júní 2011. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir umsækjendur og auglýsing um stöður leikskólastjóra;
a) Ráðning leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Arnarborg/Fálkaborg. Fimm umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Hildur Gísladóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
b) Ráðning leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Ásborg/Hlíðarendi. Sjö umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Ólöf Helga Pálmadóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
c) Ráðning leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Barónsborg /Lindarborg /Njálsborg. Þrjár umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Ragnheiður Halldórsdóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
d) Ráðning leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Drafnarborg/Dvergastein. Tvær umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Elín Mjöll Jónasdóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
e) Ráðing leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Foldaborg/Foldakot/Funaborg. Sex umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Valgerður Anna Þórisdóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
f) Ráðing leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Furuborg/ Skógarborg. Átta umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Sigrún Björg Ingþórsdóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
g) Ráðning leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Hamraborg/Sólbakki. Fjórar umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Arndís Bjarnadóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
h) Ráðing leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Hálsaborg/Hálsakot. Sjö umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Inga Dóra Jónsdóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
i) Ráðning leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Hlíðaborg/Sólhlíð. Sex umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Elísabet Sigríður Auðunsdóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
j) Ráðning leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Holtaborg/Sunnuborg. Fjórar umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Hrefna Sigurðardóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
k) Ráðing leikskólastjóra við sameinaðan leikskóla Laugaborg/Lækjaborg. Þrjár umsóknir bárust um stöðuna. Lagt er til að Helga Alexandersdóttir verði ráðin í starf leikskólastjóra.
Samþykkt með 5 atkvæðum.
Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Besti flokkurinn og Samfylkingin óska nýráðnum leikskólastjórum velfarnaðar í starfi og þakka fráfarandi leikskólastjórum vel unnin störf í þágu leikskólastarfs í Reykjavík.
Menntaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna óskar nýráðnum leikskólastjórum til hamingju með starfið og velfarnaðar í starfi. Fulltrúinn vill þó ítreka vonbrigði sín með allt það sameiningarferli og allar þær uppsagnir sem meirihluti Besta flokks og Samfylkingarinnar hrintu af stað, og standa enn yfir, og áréttar að ekki hafi þurft að fara þessa leið niðurskurðar og uppsagna á Mennta- og Leikskólasviði.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vona að með þessum ráðningum leikskólastjóra verði bundinn endi á það óvissuástand, sem ríkir nú í mörgum leikskólum borgarinnar, og meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins ber alla ábyrgð á. Nýráðnir leikskólastjórar eru boðnir velkomnir til starfa og þeim óskað velfarnaðar í áskorunum þeim sem framundan eru. Leikskólastjórum og aðstoðarleikskóla-stjórum, sem nú hverfa á braut, er þakkað fyrir gott og mikið frumkvöðlastarf í þágu Reykjavíkurborgar við uppbyggingu öflugra leikskóla. Athugasemd er gerð við ófullnægjandi gögn, sem dreift var til menntaráðsfulltrúa fyrir fundinn en í þeim komu t.d. ekki fram upplýsingar um núverandi stöðu og starfstað umsækjenda og þurfti að kalla sérstaklega eftir þeim á fundinum.
Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Í meðfylgjandi gögnum komu fram öll þau skilyrði og upplýsingar sem birtust í auglýsingu þeirri sem lá til grundvallar ráðningu nýrra leikskólastjóra. Þessi gögn eru í samræmi við það sem lagt hefur verið fyrir fagráð í tengslum við ráðningar.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Núverandi staða og starfstaður hljóta að vera meðal grundvallarupplýsinga þegar gert er upp á milli umsækjenda og ítrekum við furðu okkar á því að slíkar upplýsingar hafi ekki verið tiltækar í þeim gögnum, sem sendar voru fulltrúum í menntaráði, og að kalla hafi þurft sérstaklega eftir þeim á fundinum. Fulltrúar í menntaráði bera eðli málsins samkvæmt ábyrgð á umræddum ráðningum og þurfa því að hafa slík gögn tiltæk til að taka upplýstar ákvarðanir.
- Kl. 10:17 tók Ingibjörg Jósefsdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 10:35 vék Anna Helga Sigfúsdóttir af fundinum.
2. Lagt fram að nýju bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. maí 2011, f.h. stjórnkerfisnefndar þar sem óskað er eftir umsögn menntaráðs um tillögur borgstjóra um stofnun skóla- og frístundasviðs. Jafnframt lögð fram á ný tillaga borgarstjóra um stofnun skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 24. maí sl.
Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu að umsögn menntaráðs:
Nýtt skóla- og frístundasvið er í samræmi við stefnu menntaráðs. Nýtt sameinað menntaráð tók til starfa vorið 2010 og setti sér aðgerðaráætlun fyrir tímabilið 2010-2014. Nýtt sameinað menntaráð fer með verkefni leikskólaráðs og því hefur stefnumótun fyrir bæði skólastig verið samþætt um eins árs skeið. Í aðgerðaáætlun nýs menntaráðs er sérstaklega kveðið á um eflingu samstarfs leik- og grunnskóla og tengsl skólastarfs við frístundir. Þar segir ,,Barnið er í fyrirrúmi í öllu skólastarfi og nám fer fram innan sem utan skólans. Öll þjónusta miðar að innihaldsríkum skóladegi sem er barnvænn og fjölskylduvænn. Á næstu fjórum árum ætlar menntaráð að ryðja úr vegi hefðbundnum skilum milli skóla og skólastiga og vinna markvisst að því að samþætta skóla- og frístundastarf.“
Eins kveða stefnur og starfsáætlanir Menntasviðs, Leikskólasviðs og Íþrótta- og tómstundasviðs allar að þeirri framtíðarsýn að skólarnir í borginni vinni saman, óháð eða þvert á skólastig, og að frístundastarf komi inn í skóladaginn.
Tekið er undir þau sjónarmið skýrslunnar að sameiginleg stefnumótun stuðlar að því að sameina krafta ólíkra fagstétta. Með samvinnu þessara stétta gefst betra tækifæri til að koma til móts við þarfir og áhuga hvers barns fyrir sig.
Þróun í skólamálum, ný samþykkt lög um leik- og grunnskóla sem og nýjar aðalnámskrár hníga allar í átt til frekari samfellu milli skólastiga, meira samstarfi fagfólks beggja skólastiga og flæði sérþekkingar á milli skólastiganna.
Nýtt svið skóla- og frístunda er spennandi þróun, stórt svið með 5000 starfsmönnum og fer með málefni barna á aldrinum 0-18 ára, alls um 25.000 börn og ungmenni í Reykjavík. Þróunin helst í hendur við þá þróun sem orðið hefur á Norðurlöndunum þar sem skóla- og frístundamál heyra víðast hvar undir sömu stefnumótun. Menntaráð fagnar tillögu um nýtt skóla- og frístundasvið og hlakkar til að takast á við sameiginlega stefnumótun í málefnum barna og ungmenna í Reykjavík.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi breytingartillögu:
Ekki er hægt að fallast á fyrirliggjandi tillögu borgarstjóra um stofnun nýs skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vegna þess hve illa hefur verið unnið að málinu af hálfu meirihlutans og óskir um eðlilegt samráð við minnihluta borgarstjórnar og hagsmunaaðila í borginni hundsaðar. Hvergi koma fram áþreifanlegar vísbendingar um hve mikilli hagræðingu umræddar tillögur munu skila í fjármunum talið. Þá hefur formlegum fyrirspurnum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um mörg grundvallaratriði málsins, sem lagðar voru fram á aukafundum menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs og í borgarráði í apríl, ekki enn verið svarað.
Í fyrirliggjandi greinargerð borgarstjóra koma fram ýmsar hugmyndir um þróun skóla- og frístundastarfs í borginni, sem efna hefði átt til ýtarlegra umræðna um á vettvangi fagráða borgarinnar, í stjórnkerfisnefnd í samráði við starfsfólk og aðra hagsmunaaðila áður en tillaga um slíkt var samþykkt af borgarstjórn. Æskilegt er að kostir og gallar við breytt fyrirkomulag verði metnir sérstaklega áður en ákvarðanir eru teknar um hvernig þessum málum verður háttað til frambúðar. Ætla mætti að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefði lært af því hversu illa hefur verið staðið að breytingum á skólahaldi í borginni sl. vetur en það virðist öðru nær. Skóla- og frístundastarf í Reykjavík er í uppnámi vegna vanhugsaðra stjórnkerfisbreytinga meirihlutans. Óvönduð vinnubrögð, mikill flýtir og lítið samráð við hagsmunaaðila hafa einkennt þær breytingar á skólahaldi í borginni, sem meirihlutinn hyggst ná fram og hið sama gildir um breytingar á frístundastarfi. Á sama tíma og meirihlutinn samþykkti umfangsmiklar breytingar á skólahaldi þrátt fyrir mikla andstöðu borgarbúa, komu fram nýjar breytingartillögur á yfirstjórn þess málaflokks, sem ber hitann og þungann af þjónustu við börn og ungmenni. Engin formleg vinna átti sér stað í umræddum fagráðum né stjórnkerfisnefnd um þessar breytingar áður en þær voru lagðar með hroðvirknislegum hætti fyrir borgarstjórn og samþykktar þar þrátt fyrir að málið væri vanreifað. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla þessum vinnubrögðum og benda á að með þeim var veikur grunnur lagður að áframhaldandi vinnu málsins eins og nú hefur komið í ljós. Í stað samráðs og samvinnu við minnihluta borgarstjórnar og fjölmarga hagsmunaaðila í frístunda- og skólastarfi, kýs meirihlutinn áframhaldandi leið leiftursóknar og samráðsleysis við stjórnkerfisbreytingar. Sjálfsagðar tillögur um að leitað skuli eftir samráði við notendur þjónustunnar, grasrótarsamtök og starfsfólk, eru afdráttarlaust felldar og sýnir að meirihlutinn treystir sér ekki til að bera tillögur sínar undir helstu hagsmunaaðila og freista þess að ná sátt um þær. Eins er greinilegt að formaður stjórnkerfisnefndar vill af klókindum sínum hraða ferlinu og lágmarka umræður um umræddar breytingar eftir því sem kostur er, enda fela þær í sér verulegan tilflutning verkefna frá ÍTR, sem stjórnað er af borgarfulltrúa Besta flokksins til menntaráðs, sem stýrt er af borgarfulltrúa Samfylkingarinnar.
Mikilvægt er að ná fram frekari hagræðingu í borgarkerfinu en slíkt þarf að gerast í sem víðtækastri sátt við borgarbúa og starfsfólk, eins og gert var í tíð síðasta meirihluta undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Á sama tíma og núverandi meirihluti hækkar skatta, virðist honum fyrirmunað að ná nokkurri sátt um mikilvæga þætti í starfsemi borgarinnar enda skynja borgarbúar að ekki er gengið af festu og yfirsýn til verka og ekki er af alvöru reynt að lækka kostnað við sjálft kerfið. Á síðasta kjörtímabili voru mikilvæg skref stigin í átt að samþættingu skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. Umræður fóru fram um að sameina rekstur frístundaheimila og grunnskóla og var ákveðið að gera tilraunir á því sviði á Kjalarnesi og í Úlfarsárdal. Ákveðið var að reynslan af umræddum tilraunum yrði höfð til hliðsjónar áður en frekari ákvarðanir væru teknar og var því jafnframt heitið að um allar slíkar hugmyndir yrði haft náið samráð við starfsfólk frístundaheimila og aðra hagsmunaaðila. Nýr meirihluti kýs hins vegar að eiga ekkert slíkt samráð.
Breytingar eru mun líklegri til að ganga eftir og heppnast ef starfsfólki er gert kleift að taka þátt í breytingaferli frá byrjun og vera með í skipulagningu og framkvæmd. Forstöðumenn frístundamiðstöðva hafa nú ítrekað óskað eftir samstarfi við meirihluta borgarstjórnar um slíkar breytingar en talað fyrir daufum eyrum. Óttast margir þeirra að hið góða starf, sem frístundamiðstöðvarnar hafa þróað undanfarin ár, fari forgörðum í stjórnkerfisbreytingunum.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Tillaga menntaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
- Kl. 11:00 viku Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir af fundinum.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Í tillögum stjórnkerfisnefndar um stofnun skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar eru dregin fram þrjú meginmarkmið á bls. 7:
1. Að tryggja heildstæða þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.
2. Að stuðla að sameiginlegri stefnumótun leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva í hverfum borgarinnar og auka þverfaglegt samstarf.
3. Að efla yfirsýn yfir málaflokkinn og auka hagkvæmni í rekstri starfseininga.
Fulltrúi Vinstri grænna áréttir að ekki hefur verið bent á nauðsyn þess að stofna nýtt svið til að ná þessum markmiðum. Engin nýleg þarfagreining eða markviss vinna hefur átt sér stað til að efla þetta samstarf eða finna leiðir til að samþætta enn frekar skóla- og frístundadag barna í hverfum. Starfsemi frístundaheimila hefur blómstrað undir forystu ÍTR og nær væri að þróa það starf enn frekar þar og hafa eðlilegan stíganda í þróun þess í stað þess að umbylta því, einungis breytinganna vegna.
Þá finnst fulltrúanum undarlegt að starf félags- og frístundamiðstöðva fari undir Menntasvið og geldur varhug við því. Engin sannfærandi fagleg rök hafa verið færð fyrir því. Er ástæða til þess að efast um að fyrirhuguð útfærsla verði farsæl fyrir eðli og inntak frítímans. Eins er hætt við því að frístundastarf barna og ungmenna verði meira á forsendum hefðbundinnar fræðslu undir stjórn skólastjóra grunnskóla en verið hefur. Það liggur í hlutarins eðli að munur er á frítíma barna og uppfræðslu þeirra.
Ef meirihlutinn ákveður að láta verða af þessum tillögum er hætta á að upp rísi nýtt bákn sem ætti erfitt með að hrinda göfugum pólitískum markmiðum hans í framkvæmd en skapaði í staðinn flóknari boðleiðir sem leiddu af sér lakari þjónustu. Því miður virðist stigið skref afturábak og horfið frá hverfavæðingu sem myndi veita þjónustunni meira inn í hverfin og til nærsamfélaganna.
Í tillögurnar vantar því miður heildarsýn á stjórnkerfi borgarinnar og skipulag hennar sem vissulega þarf að endurskoða að mörgu leyti.
Umsögn meirihluta menntaráðs er pólitískt áróðursplagg og því er ekki ætlað að greina tillögurnar með faglegum hætti og gerir það ekki. Nær hefði verið að biðja sviðstjóra allra hlutaðeigandi sviða um umsögn, ásamt því fagfólki sem starfar undir þeim. T.d. fagfólks í frítímaþjónustu, grunnskólakennara, skólastjórnendur og fleiri. Eins finnst fulltrúanum skrýtið að meirihlutinn vísi í umsögn sinni í mikla ánægju sem mælst hefur í könnunum meðal starfsfólks og foreldra og ætlar í sömu andrá að kollvarpa því sem reynst hefur vel.
Það er segin saga með þennan meirihluta og samráðið sem hann þykist boða. Lítið sem ekkert samráð er haft við þá sem breytingarnar snerta mest og eiga að innleiða þær. Meirihlutinn heldur fast í þá meinloku að samráð sé falið í því að bjóða fólki að ganga inn í fyrirfram mótað form í stað þess að móta það með honum. Hann hefur sýnt það áður, að hann skeytir lítið um umsagnir fagaðila og samráð við þá sem þekkja málin best, en fulltrúi VG vonar að sama eigi ekki við í þessu máli og að meirihlutinn beri gæfu til að hlusta á málsaðila og fagfólk og leita ráða hjá því.
Fundi slitið kl. 11.05
Oddný Sturludóttir
Diljá Ámundadóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Pétur Magnússon
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir