Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2010, 14. apríl var haldinn 119. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Melaskóla og hófst kl. 10.05. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ólafur S. Ögmundsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bryndís Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOK og Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Helga Pálmadóttir aðstoðarskólastjóri bauð fundarmenn velkomna í Melaskóla og veitti þeim leiðsögn um skólann og skólalóðina. Að því loknu kynnti Helga starfsemi skólans. Nemendur úr nemendaráði Melaskóla afhentu formanni menntaráðs undirskriftalista nemenda á miðstigi þar sem þau leggja til að gefið verði leyfi til þess að stækka skólalóð Melaskóla út fyrir grasblett við Neshaga og Hagatorg og að fjórði skálinn, sem bættist við á skólalóðina nýlega verði fjarlægður því þeim finnst skólalóðin vera of lítil nú þar sem skálinn var settur niður á brenniboltavöll þeirra.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Helgu Pálmadóttur, aðstoðarskólastjóra Melaskóla fyrir góðar móttökur og kynningu á skólanum og starfsemi hans. Greinilegt er að í skólanum er unnið af metnaði og virðingu fyrir nemendum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð móttekur undirskriftalista nemenda í Melaskóla. Tillögur er varða skólalóðina eru brýnar og tímabærar. Ákveðið hefur verið á vettvangi borgarinnar að hefja deiliskipulagsvinnu við lóðina ásamt því að verið er að undirbúa lagningu battavallar. Menntaráði þykir frumkvæði nemenda Melaskóla lofsvert og er undirskriftarlistinn hvatning til Reykjavíkurborgar í þá veru að hraða framkvæmdum við skólalóðina.

2. Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð samþykkir að stofna starfshóp sem hefur það hlutverk að koma með tillögu að nafni á nýjan skóla í Úlfarsárdal. Nafn skólans skal falla vel að íslenskri tungu og hafa skírskotun til staðhátta og eða nafngifta á svæðinu. Við tillögugerðina skal taka tillit til þess að í framtíðinni munu fleiri skólar rísa í Úlfarsárdal. Starfshópurinn skal standa að opinni hugmyndasamkeppni um nafn á skólann og skal jafnframt hafa samráð við nafnanefnd Reykjavíkur.
Greinargerð fylgir.
Anna Margrét Ólafsdóttir var skipuð fulltrúi menntaráðs í starfshópinn.

- Kl. 11.05 tók Elísabet Pétursdóttir, verkefnisstjóri á Íþrótta- og tómstundasviði, sæti á fundinum.

3. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 25. mars sl. þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa dags. 23. mars sl., svohljóðandi tillögu um fjármálakennslu í grunnskólum:
Ungmennaráð Vesturbæjar vill leggja fram þá tillögu að fjármálakennsla verði tekin upp í öllum grunnskólum. Ungmennaráðið telur fjármálaþekkingu ungmenna á íslandi vera mjög ábótavant. Við lögðum fram könnun í 9. og 10. bekkjum Hagaskóla og staðfesti það grun okkar um vanþekkingu á fjármálahugtökum. Niðurstöður kannanarinnar munu verða birtar á borgarstjórnarfundinum ásamt rökstuðningi.

Á fundinn komu Katrín Júníana Lárusdóttir og Darri Freyr Atlason, Ungmennaráði Vesturbæjar, sem voru flutningsmenn tillögunnar og mæltu fyrir henni.

Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar Katrínu Júníönu Lárusdóttur og Darra Frey Atlasyni Ungmennaráði Vesturbæjar fyrir tillögu þeirra um fjármálakennslu í öllum grunnskólum. Allir skólar eiga að kenna lífsleikni samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla. Meðal megin markmiða lífsleikninnar er að nemendur þekki og hafi innsýn í hlutverk neytenda í flóknu og margbreytilegu samfélagi og í fjármálaumhverfi einstaklinga og samfélags og taki ábyrga afstöðu í eigin fjármálum. Einnig segir í Aðalnámskrá stærðfræði að meðal megin markmiða námsins séu tengsl stærðfræðinnar við daglegt líf. Menntaráð samþykkir að hvetja menntamálaráðherra til að leggja sérstaka áherslu á fjármálakennslu við endurskoðun Aðalnámskrár grunnskóla. Menntaráð ítrekar þau tilmæli til skólastjóra í Reykjavík að fjármálafræðslu verði sinnt í öllum skólum í borginni.

4. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 25. mars sl. þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa dags. 23. mars sl., svohljóðandi tillögu um forvarnarfræðslu í grunnskólum:
Það er virkilega mikilvægt að ungmenni þessa lands séu vel upplýst, það er allra hagur og getur komið í veg fyrir svo marga og kostnðarsama hluti. Allir geta verið sammála um að einelti, neysla vímuefna og annað því um líkt sé slæmt og að þess vegna sé mikilvægt að upplýsa alla um skaðsemi þess úr sanngjarnri og fræðandi átt. Getum jafnvel komið í veg fyrir kynþáttafordóma með réttu fræðslunni á réttum grundvelli. Þess vegna er mikilvægt að efla fræðslu í grunnskólum.
Á fundinn kom Kjartan Orri Þórsson, Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis, sem var flutningsmaður tillögunnar og mælti fyrir henni.
Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar Kjartani Orra Þórssyni Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis fyrir góða tillögu. Fræðsla og forvarnir varðandi einelti, neyslu vímuefna og kynþáttafordóma eru mikilvægir þættir í Aðalnámskrá grunnskóla í lífsleikni. Allir skólar eiga að kenna lífsleikni samkvæmt námskrá. Einnig hafa allir skólar borgarinnar eigin forvarnaráætlun. Loks skal bent á að megin áherslur mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar eru þær að standa vörð um að borgarbúum sé ekki mismunað m.a. vegna uppruna, litarháttar, trúarbragða eða aldurs. Menntaráð hvetur skóla til að leggja áherslu á fræðslu og forvarnir á þessum sviðum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð leggur til að skipaður verði starfshópur til að koma með tillögur um nýjar leiðir í forvarnarfræðslu, jafnframt verði gerð könnun á innihaldi lífsleiknikennslu í grunnskólum.

- Kl. 11.50 vék Elísabet Pétursdóttir af fundi.

5. Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir verkefnastjóri kynnti stöðu menningarverkefnis Íþrótta- og tómstundasviðs, Menntasviðs, Leikskólasviðs og Menningar- og ferðamálasviðs í samstarfi við Vinnumálastofnun.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Arnfríði Sólrúnu Valdimarsdóttur fyrir fróðlega kynningu á tilraunaverkefni ÍTR, Menntasviðs, Leikskólasviðs og Menningar- og ferðamálasviðs um menningaruppeldi barna og þakkar henni vel unnin störf í þágu verkefnisins.

- Kl. 12:20 viku Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ólafur S. Ögmundsson af fundi.

6. Samstarf grunnskóla og framhaldsskóla. Umræður.

- Kl. 13.00 viku Hreiðar Sigtryggsson og Sigríður Pétursdóttir af fundi.

7. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra, dags. 12. apríl sl., um stöðu mála vegna tillagna um leiðir til að kynna iðn- og starfsmám í leik- og grunnskólum Reykjavíkur.

Fundi slitið kl. 13.19

Kjartan Magnússon

Anna Margrét Ólafsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigrún Elsa Smáradóttir