No translated content text
Skóla- og frístundaráð
MENNTARÁÐ
Ár 2010, 28. apríl var haldinn 120. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10.05. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Felix Bergsson, Marta Guðjónsdóttir og Zakaria Elias Anbari. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bryndís Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOK, Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Valgerður Janusdóttir, staðgengill fræðslustjóra, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Zakaria Elias Anbari velkominn á sinn fyrsta fund í menntaráði.
1. Birna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu fræðslustjóra, kynnti niðurstöður heildarmats í Breiðagerðisskóla og Engjaskóla.
- Kl. 10.22 tók Sigríður Pétursdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 10.45 tók Anna Margrét Ólafsdóttir sæti á fundinum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir kynningu á mati á skólastarfi í Breiðagerðisskóla og Engjaskóla. Framlagðar skýrslur veita mikilvægar upplýsingar um styrk og veikleika viðkomandi skóla og munu án efa nýtast vel til að efla og bæta starf þeirra. Menntaráð beinir því til skólastjóra umræddra skóla að kynna viðkomandi matsskýrslur fyrir foreldrum nemenda og gefa kost á umræðum um þær.
- Kl. 11.15 tók Elísabet Pétursdóttir, verkefnisstjóri á Íþrótta- og tómstundasviði, sæti á fundinum.
2. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 25. mars sl. þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa dags. 23. mars sl., svohljóðandi tillögu:
Tillaga Breiðholts í ár er að kennsla í grunnskólum verði samræmd og námsskrár þrengdar með það að sjónarmiði að allir nemendur á sama aldri hafi jafna grunnþekkingu þegar komið er á menntaskólastig. Allir nemendur muni því standa jafnir þegar komið er að því að sækja um inngöngu til framhalds-náms. Það er okkar skoðun að gæði kennslu í dag séu of mismunandi eftir skólum auk þess að sá áherslumunur sem er á fögum í grunnskólum leiði af sér að nemendur standi ekki jafnvel að vígi. Oft á tíðum fari of mikill tími í að rétta úr skekkjumuni kunnáttu nemanda í byrjun framhaldsnáms vegna ofangreindra ástæðna.
Á fundinn kom Eva Brá Axelsdóttir, Ungmennaráði Breiðholts, sem var flutnings-maður tillögunnar og mælti fyrir henni.
Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar Evu Brá Axelsdóttur, Ungmennaráði Breiðholts fyrir tillögu hennar um að samræma og þrengja námskrár og stuðla þannig að jafnari stöðu nemenda við inngöngu í framhaldsnám. Allir skólar starfa samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla sem er nánari útfærsla á ákvæðum laga og reglugerða um nám og kennslu í grunnskóla. Námskráin tekur til allra nemenda og setur sameiginleg markmið náms og kennslu í öllum grunnskólum landsins og segir til um áherslur og vægi. Stefna og starfsáætlun Menntasviðs Reykjavíkur 2010 leggur auk þess áherslu á að skólinn komi eins og kostur er til móts við ólíkar þarfir, áhuga og námstíl nemenda með einstaklingsmiðuðu námi og fjölbreyttum námsleiðum. Framhaldsskólar hafa jafnframt leitast við að koma til móts við nemendur með margvíslegum námstilboðum. Menntaráð hvetur til áframhaldandi samstarfs grunn– og framhaldsskóla um samfellu í námi og farsæl skólaskil. Menntasviði er jafnframt falið að skoða kosti og galla samræmds brautskráningaskírteinis úr grunnskóla.
- Kl. 11:26 tók Oddný Sturludóttir sæti á fundinum.
3. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 25. mars sl. þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa dags. 23. mars sl., svohljóðandi tillögu:
Það er tillaga Reykjavíkurráðs ungmenna að þessu sinni að lífsleiknikennsla í grunnskólum verði bætt. Okkur þykir lífsleiknikennsla nú til dags harla léleg og námsskránni sé ekki sómasamlega framfylgt. Til þess að bæta það finnst okkur nauðsynlegt að samin verði ný og þrengri námsskrá fyrir þetta annars ágæta fag. Til dæmis væri hægt að niðurnjörva einstaka málefni fyrir hvern árgang, svo sem kynfræðslu og forvarnir af ýmsu tagi.
Á fundinn kom Arnór Gunnar Gunnarsson, Reykjavíkurráði ungmenna, sem var flutningsmaður tillögunnar og mælti fyrir henni.
Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð þakkar Arnóri Gunnari Gunnarssyni, Reykjavíkurráði ungmenna fyrir tillögu hans um bætta lífsleiknikennslu í grunnskólum. Öllum skólum ber að starfa samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla í lífsleikni. Á grundvelli hennar setur hver skóli sér sérstaka námskrá í lífsleikni. Jafnframt vísar menntaráð til samþykktar frá síðasta fundi sínum um að skipaður verði starfshópur til að koma með tillögur um forvarnarfræðslu og að gera könnun á innihaldi lífsleiknikennslu í grunnskólum. Leitað verður til Reykjavíkurráðs ungmenna um að tilnefna tvo fulltrúa í þennan starfshóp.
- Kl. 11.40 vék Elísabet Pétursdóttir af fundi.
4. Samþykkt var að skipa Mörtu Guðjónsdóttur, Önnu Margréti Ólafsdóttur og Hermann Valsson í starfshóp um nýjar leiðir í forvarnarfræðslu og könnun á innihaldi lífsleiknikennslu, sem samþykktur var á fundi menntaráðs 14. apríl. Marta verður formaður. Jafnframt samþykkt að leita til Reykjavíkurráðs ungmenna um að tilnefna tvo fulltrúa í hópinn og til Kennarafélags Reykjavíkur, Skólastjórafélags Reykjavíkur og SAMFOK um að tilnefna sinn hvern fulltrúann. Einnig komi fulltrúi frá Íþrótta- og tómstundasviði og frá Menntasviði og verði hann starfsmaður hópsins.
- Kl. 11.45 vék Felix Bergsson af fundi.
5. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar sem frestað var á fundi menntaráðs 24. mars sl.:
Menntaráð samþykki að fela fræðslustjóra að vinna með grunnskólum Reykjavíkur að því að bæta aðgengi foreldra barna með sérþarfir að upplýsingum og auka gagnsæi þegar kemur að úthlutun fjármagns til barna með fötlun. Í því skyni verði lagt mat á:
1. Sérkennsluáætlun hvers skóla og lögð drög að því að hvert barn fái einstaklingsáætlun sem foreldrar komi að, rétt eins og segir í reglugerð frá árinu 1996.
2. Hvort heimasíða Menntasviðs og aðgengi að bestu mögulegu upplýsingum um þjónustu grunnskólanna við börn með fötlun sé fullnægjandi, og tillögur til úrbóta lagðar fram í kjölfarið.
Samþykkt að vísa til fræðslustjóra.
Lagt fram minnisblað fræðslustjóra til menntaráðs, dags. 12. apríl sl. þar sem greint er frá stöðu mála varðandi sérkennsluáætlanir skóla og upplýsingar á heimasíðu Menntasviðs um þjónustu við börn með fatlanir.
6. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. mars, þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi borgarstjórnar 2. mars sl. tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar um samvinnuáætlun Menntasviðs og framhaldsskóla í Reykjavík.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð leggur til að skipuð verði samstarfsnefnd Menntasviðs Reykjavíkur og menntamálaráðuneytisins um málefni grunnskóla og framhaldsskóla í Reykjavík. Hlutverk nefndarinnar verði að auka samstarf grunnskóla og framhaldsskóla í Reykjavík, skoða hugmyndir um sveigjanleg skólaskil og tryggja samfellu milli þessara skólastiga með það að markmiði að bæta menntun, gera námsframboð á unglingastigi og í framhaldsnámi fjölbreyttara og draga úr brottfalli í framhaldsskólum.
Nefndin fjalli m.a. um:
o Fyrirkomulag samræmdra prófa, námsmats við lok grunnskóla og innritunar í framhaldsskóla
o aukið samstarf um innritun í ljósi nýrra innritunarreglna og um starfs- og námsráðgjöf og markvissar kynningar á námsbrautum framhaldsskólans
o námsframboð í efstu bekkjum grunnskóla og fyrstu árum framhaldsskóla með það að markmiði að samræma námskrár og koma í veg fyrir endurtekningu
o tilraunaverkefni um skóla fyrir 13-18 ára ungmenni eða samstarfssamning nokkurra grunnskóla við framhaldsskóla um sveigjanleg skólaskil
o kynningar fyrir unglinga og foreldra þeirra við skólaskil
o formlega fundi milli grunnskóla og hverfisframhaldsskóla, strax að loknu forvali nemenda, þar sem markvisst verði unnið að yfirfærslu nemenda í framhaldsskóla
o aukið samstarf um forvarnir á báðum skólastigum
o formlegt samstarf grunnskóla og viðkomandi hverfisframhaldsskóla í anda ,,Borgarfjarðarbrúarinnar”
o þá frestun sem menntamálaráðuneytið hefur tilkynnt um á fyrirhugaðri styttingu náms til stúdentsprófs og yfirfærslu námsefnis úr framhalds-skólum til grunnskóla
o fara yfir þá ákvörðun að fella niður fjárveitingar til framhaldsskólaáfanga grunnskólanema og skoða leiðir til að tryggja það að grunnskólanemar geti haldið áfram að dýpka nám sitt með töku slíkra áfanga.
7. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra til menntaráðs, dags. 15. apríl sl., um stöðu samningagerðar við sjálfstætt rekna skóla.
8. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra og forstöðumanns tónlistarmála til menntaráðs, dags. 27. apríl sl. um hagræðingu á skólahljómsveitir.
Bókun menntaráðs:
Þátttaka í skólahljómsveitum er tiltölulega ódýr en veitir bæði gott tónlistaruppeldi og uppbyggilegt félagsstarf. Það er brýnt að ekki verði dregið úr þessu mikilvæga starfi. Vilji menntaráðs er að reynt verði að útfæra niðurskurðinn þannig að sem flestir komist að og að þátttakendum fækki ekki.
9. Umræða um sparkvelli og körfuknattleiksvelli á skólalóðum í Reykjavík og forgang barna og unglinga að þeim.
Fundi slitið kl. 12.35
Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir
Zakaria Elias Anbari