Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Menntaráð

Ár 2006, 16. mars kl. 15:00 var haldinn 30. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu Stefán Jón Hafstein, formaður, Sigrún Elsa Smáradóttir, Svandís Svavarsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Gísli Helgason, áheyrnarfulltrúi F- lista, Hólmfríður Guðjónsdóttir fulltrúi grunnskólastjóra, Sigrún Ólafsdóttir og Þorgerður Laufey Diðriksdóttir frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Ingibjörg Kristleifsdóttir, fulltrúi leikskólastjóra, Alla Dóra Smith og Sigrún Sigurðardóttir, fulltrúar leikskólakennara, Böðvar Sveinsson frá samtökunum Börnin okkar og Bergþóra Valsdóttir fulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, sviðsstjóri, Birna Sigurjónsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir og Runólfur Birgir Leifsson sem jafnframt ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf sviðsstjóra um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði, tvö mál (fskj. 1.1).

2. Lögð fram tillaga um skipun nefndar um endurskoðun þjónustusamninga við einkarekna leikskóla.

Samþykkt að af hálfu Menntasviðs taki Hildur Skarphéðinsdóttir og Runólfur Birgir Leifsson sæti í slíkri nefnd og skili nefndin skýrslu til menntaráðs.

3. Samræmdar reglur um styrki menntaráðs lagðar fram til samþykktar (fskj. 3.1, 3.2, 3.3).
Afgreiðslu frestað.

4. Lögð fram drög að erindisbréfi starfshóps um samræmd próf, lok grunnskóla og tengsl við framhaldsskóla (fskj. 4.1).

Áheyrnarfulltrúi foreldra lagði fram eftirfarandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra óskar eftir því að foreldrar eigi tvo fulltrúa í starfshópi um samræmd próf eins og fulltrúar Skólastjórafélags Reykjavíkur og Kennarasambands Íslands. Jafnframt er óskað eftir því að í menntaráði fari fram umræða um möguleikana á að foreldrar eigi tvo áheyrnarfulltrúa í menntaráði Reykjavíkur til jafns við kennara.
Greinargerð fylgir.

Menntaráð óskar eftir upplýsingum um samkomulag menntamálaráðuneytis við KÍ og hvort það skarist við starf þessa starfshóps.
Afgreiðslu frestað.

5. Lagt fram minnisblað frá verkefnisstjóra á grunnskólaskrifstofu þar sem lagt er til að menntaráð úthluti styrk að upphæð kr. 800.000 til Listahátíðar vegna samstarfsverkefnis grunnskólanemenda og listamanna í Viðey (fskj. 5.1).

Menntaráð samþykkti tillöguna samhljóða.

6. Málefni barna með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir í grunnskólum borgarinnar. Ingibjörg Karlsdóttir, formaður stjórnar ADHD samtakanna og Hrefna Haraldsdóttir, ráðgjafi á Sjónarhóli komu á fundinn vegna málsins.

Áheyrnarfulltrúi foreldra lagði fram eftirfarandi bókun:
Stjórn SAMFOKs og áheyrnafulltrúi foreldra hafa á undanförnum árum átt einstaklega gott samstarf við ADHD samtökin. Þar er að finna gríðarlega þekkingu og reynslu á málefnum einstaklinga með ADHD og hvernig þeim reiðir af í grunnskólum Reykjavíkur. Þekkingu starfsfólks grunnskólanna er ábótavant hvað varðar einstaklinga með ADHD og leiðir til að koma til móts við þarfir þeirra. ADHD samtökin hafa tekið frumkvæði að gerð námskeiða fyrir starfsfólk grunnskólanna til að styrkja þau í starfi og auka möguleika þeirra á að koma til móts við þarfir barna með ADHD. Áheyrnarfulltrúi foreldra telur mjög mikilvægt að Menntasvið Reykjavíkurborgar kynni þessi námskeið í grunnskólum borgarinnar og hvetji starfsfólk skólanna til að nýta sér þau.
Greinargerð fylgir bókuninni.

7. Lagt fram minnisblað frá verkefnisstjóra á grunnskólaskrifstofu um skil umbótaáætlana og stöðu sjálfsmats grunnskóla (fskj. 6.1).

Menntaráð beinir því til þeirra 12 skóla sem ekki hafa skilað áætlun að þeir geri það hið fyrsta.

Áheyrnarfulltrúi foreldra lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Það er ánægjulegt að í sextán af þrjátíu og fimm almennum grunnskólum Reykjavíkur skuli vera unnið skipulega að umbótaverkefnum á grundvelli einhvers konar viðurkenndra greininga eins og fram kemur í upplýsingum frá skólunum sem Menntasvið kallaði eftir í nóvember 2005. Það er hins vegar ekki ásættanlegt að skólastjórnendur hunsi að veita Menntasviði umbeðnar upplýsingar og vekur sérstaka athygli að enginn sérskólanna eða einkaskólanna gefur umbeðnar upplýsingar.

1. Hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér fyrir viðkomandi skólastjórnendur að veita ekki umbeðnar upplýsingar?
2. Ef ástæða þess að skólastjórnendur veita ekki umbeðnar upplýsingar er sú að þeir gera sér ekki grein fyrir þýðingu eða mikilvægi þeirra, hvað mun Menntasvið gera til að:
a) upplýsa þá og fræða um tilgang og markmið með sjálfsmati og umbótaáætlunum
b) aðstoða þá við gerð sjálfsmats og umbótaáætlana

8. Lagt fram minnisblað frá skrifstofustjóra leikskólaskrifstofu um náms- og kynnisferðir leikskóla Reykjavíkurborgar á yfirstandandi skólaári (fskj. 7.1).

9. Lagt fram minnisblað frá skrifstofustjóra leikskólaskrifstofu varðandi erindi Félagsstofnunar stúdenta um kaup á húsnæði leikskólans Leikgarðs og yfirtöku reksturs leikskólans (fskj. 8.1). Jafnframt var lagt fram bréf Félagsstofnunar stúdenta dags. 20. janúar sl. (fskj. 8.2), yfirlýsing Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar stúdenta dags. 28. júlí 1992 (fskj. 8.3) og samkomulag Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar stúdenta frá 27. febrúar 1995 (fskj. 8.4).
Menntaráð tók jákvætt í erindið og samþykkti að ganga til viðræðna við Félagsstofnun stúdenta.

Fundi slitið kl. 16:40.

Stefán Jón Hafstein,
Sigrún Elsa Smáradóttir Svandís Svavarsdóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir