No translated content text
Skóla- og frístundaráð
M E N N T A R Á Ð
Ár 2010, 24. febrúar var haldinn 116. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hólabrekkuskóla í Reykjavík og hófst kl. 9:58. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Felix Bergsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir og Sigríður Pétursdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Sigurður Þórðarson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Bryndís Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOK, Brynhildur Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Jóhanna H. Marteinsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Bryndísi Jónsdóttur velkomna á sinn fyrsta fund í menntaráði.
1. Hólmfríður G. Guðjónsdóttir skólastjóri Hólabrekkuskóla sýndi skólalóð skólans og veitti fundarmönnum leiðsögn um hana.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Hólmfríði G. Guðjónsdóttur, skólastjóra Hólabrekkuskóla, sem og öðru starfsliði skólans, fyrir góðar móttökur og skoðunarferð um hina glæsilegu skólalóð. Menntaráð fagnar hinu metnaðarfulla starfi og leik, sem fram fer í skólanum og á lóðinni, og óskar nemendum og starfsliði áframhaldandi velgengni í störfum sínum.
2. Lagt fram bréf með túlkun borgarlögmanns á áliti samkeppnisráðs frá 2001 um tónlistarskóla, dags. 20. nóvember sl. Ingi B. Poulsen, hdl og Laufey Ólafsdóttir forstöðumaður tónlistarmála kynntu málið og svöruðu fyrirspurnum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð samþykkir að gerðir verði þjónustusamningar til eins árs við þá tónlistarskóla sem Reykjavíkurborg hefur verið með samninga við. Samningarnir verða gerðir á grundvelli fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar.
Jafnframt er fræðslustjóra falið að greina þjónustu tónlistarskóla í ljósi stefnumótunar í málaflokknum með það að markmiði að tryggja fjölbreytni og viðhafa vandaða stjórnsýslu við úthlutun fjár, samanber álit borgarlögmanns.
Greinargerð fylgir.
3. Sighvatur Arnarsson skrifstofustjóri gatna- og eignaumsýslu á Framkvæmdasviði og Ámundi V. Brynjólfsson skrifstofustjóri mannvirkjaskrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs kynntu framkvæmdir við grunnskóla Reykjavíkur árið 2010.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar Ámunda V. Brynjólfssyni, skrifstofustjóra mannvirkjaskrifstofu, Framkvæmda- og eignasviðs og Sighvati Arnarssyni skrifstofustjóra á gatna- og eignaumsýslu á Framkvæmdarsviði fyrir kynningu á framkvæmdum við grunnskóla Reykjavíkur á árinu 2010. Ánægjulegt er að átaki við endurgerð skólalóða verður haldið áfram á árinu enda eru þær hluti af námsumhverfi nemenda og gegna jafnframt því mikilvæga hlutverki að vera vettvangur hreyfingar í skólatíma jafnt sem frítíma. Starfsliði Framkvæmda- og eignasviðs er þakkað fyrir vel unnin störf við endurgerð glæsilegrar skólalóðar Hólabrekkuskóla, sem og annarra skólalóða sem endurnýjaðar hafa verið á undanförnum árum.
- Kl. 11:10 vék Felix Bergsson af fundi.
4. Lagt fram erindi frá framkvæmda- og eignaráði dags. 5. feb. sl. þar sem lögð er fram tillaga að viðbyggingu við Korpuskóla.
Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri mannvirkjaskrifstofu, Framkvæmda- og eignasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum.
5. Lagt fram minnisblað dags.18. febrúar sl., um fjármálafræðslu nemenda grunnskóla Reykjavíkur.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fræðslustjóra fyrir greinargott minnisblað um fjármálafræðslu í grunnskólum Reykjavíkur en þar kemur m.a. fram að 44#PR skólastjóra kveðst sinna fjármálafræðslu meðal nemenda. Menntaráð beinir því til skólastjórnenda í þeim skólum, þar sem fjármálafræðsla er ekki veitt, að bæta þar úr svo sem flestir nemendur fái notið hennar.
6. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna um húsnæðismál Tæknigrunnskólans sem frestað var á fundi menntaráðs 27. janúar sl.
Fulltrúi VG leggur til að teknar verði upp viðræður við forsvarsmenn Tæknigrunnskólans með það að markmiði að finna lausn á húsnæðismálum skólans, gjarnan í samvinnu við einhvern grunnskóla borgarinnar.
Þær áherslur í skólastarfi sem fram komu í umsókn Tæknigrunnskólans eru mjög áhugaverðar og líklegt er að þær höfði til margra nemenda.
Bókun menntaráðs:
Frá því menntaráð samþykkti umsókn Tæknigrunnskólans í júní síðastliðnum, hefur fræðslustjóri verið í reglulegu sambandi við stofnendur skólans. M.a. hefur verið leitað lausna á húsnæðismálum skólans og skoðað hvort hann gæti fengið not af lausu húsnæði í eigu borgarinnar. Vegna óska skólans hefur húsnæði í miðborginni einkum verið til skoðunar hingað til en vel kemur til greina að athuga með húsakost víðar, e.t.v. í samvinnu við einhvern grunnskóla borgarinnar.
Fundi slitið kl. 12:21
Kjartan Magnússon
Anna Margrét Ólafsdóttir Lilja Dögg Alfreðsdóttir Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir Sigríður Pétursdóttir