No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2012, 1. febrúar, var haldinn 10. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.10. Fundinn sátu Óttarr Ólafur Proppé varaformaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, og Marta Guðjónsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir; foreldrar barna í grunnskólum; Fanný Heimisdóttir, skólastjórar í leikskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Steingrímsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum og Þorgerður L. Diðriksdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Valgerður Janusdóttir, staðgengill sviðsstjóra, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Kristín Egilsdóttir og Soffía Pálsdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. janúar 2012, um breytingar á reglum um framlag vegna barna hjá dagforeldrum. Einnig lagt fram yfirlit yfir breytingarnar, reglur um framlag vegna barna hjá dagforeldrum með merktum breytingum og bréf til Barnavistunar og Barnsins félags dagforeldra í Reykjavík, dags. 27. janúar 2012.
Auk þess lagt fram álit Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, dags. 8. nóvember 2010, álit borgarlögmanns, dags. 18. janúar 2011 og álit Persónuverndar, dags. 17. ágúst 2011. SFS2012010268
- Kl. 10.10 tóku Álfhildur Erla Kristjánsdóttir og Guðmunda Helgadóttir, fulltrúar úr stjórn Barnavistunar sæti á fundinum.
- Kl. 10.30 viku Álfhildur Erla Kristjánsdóttir og Guðmunda Helgadóttir af fundi og Oddný Sturludóttir tók þar sæti.
Breytingar á reglum um framlag vegna barna hjá dagforeldrum samþykktar með 4 atkvæðum og vísað til borgarráðs.
- Kl. 10.35 vék Eva Einarsdóttir af fundi og Elsa Yeoman tók þar sæti.
- Kl. 10.40 vék Elsa Yeoman af fundinum og Eva Einarsdóttir tók þar sæti.
2. Lagðar fram tillögur framkvæmda- og eignasviðs um framkvæmdir við grunnskólalóðir, leikskólalóðir og boltagerði. Einnig lagt fram fram bréf framkvæmda- og eignasviðs, dags. 25. janúar 2012, varðandi boltagerði við Vesturbæjarskóla. Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri og Rúnar Gunnarsson arkitekt á mannvirkjaskrifstofu framkvæmda- og eignasviðs kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2012010026
- Kl. 10.55 vék Kristín Egilsdóttir af fundi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lýsa yfir vonbrigðum með að einungis sé fyrirhugað að vinna að minni háttar lagfæringum á leikskólalóð Hólaborgar á yfirstandandi ári. Á fundi menntaráðs 23. marz 2011, lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna fram bókun þar sem óskað var sérstaklega eftir því að haldið yrði áfram endurbótum þeim, sem hafnar voru á umræddri leikskólalóð fyrir nokkrum árum, og þeim lokið sem fyrst þar sem lóðin er í afar bágbornu ástandi.
Áformum um lagningu gervigrasvalla við Breiðagerðisskóla og Foldaskóla er fagnað. Hins vegar er það átalið harðlega hvernig lagning gervigrasvallar við Vesturbæjarskóla hefur tafist árum saman með ótrúlegum hætti og án þess að á því hafi fengist fullnægjandi skýringar. Hægðarleikur er að færa umrætt hús af lóð Vesturbæjarskóla svo koma megi slíkum velli fyrir. Enn einu sinni skal bent á að Vesturbærinn er nú eina hverfi borgarinnar þar sem enginn battavöllur er á skólalóð og er löngu orðið tímabært að bætt sé úr því. Í nokkrum hverfum eru nú komnir battavellir á allar skólalóðir og önnur hverfi eru langt komin. Í lok síðasta kjörtímabils höfðu verið lögð drög að því að bætt yrði úr slíkum skorti á battavöllum við skóla í Vesturbænum á árinu 2010 en eftir að nýr meirihluti tók við, var því miður horfið frá þeim fyrirætlunum. Er skorað á borgarráð og framkvæmda- og eignasvið að taka tillit til löngu samþykktrar forgangsröðunar vegna battavalla í þágu barna og unglinga og að séð verði til þess að slíkur völlur verði lagður í Vesturbænum árið 2012.
Lýst er yfir ánægju með endurnýjun lóðar Seljaskóla en jafnframt ítrekuð sú ósk að í tengslum við hana verði lagður körfuknattleiksvöllur eða fjölnota-íþróttavöllur á skólalóðinni með gúmmíundirlagi (tartani eða sambærilegu efni).
Að lokum er sú tillaga ítrekuð að við nýframkvæmdir og endurnýjun íþróttavalla á skólalóðum verði tryggt að veggir (battar) umhverfis þá verði úr gegnsæju efni. Battavellir eru með vinsælustu stöðum á skólalóðum en í einhverjum tilvikum jafnframt þeir staðir, sem hvað erfiðast er að fylgjast með þar sem þeir eru umluktir ógegnsæjum timburveggjum og því ákveðin hætta á að þar geti þrifist einelti og önnur óæskileg hegðun.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Skóla- og frístundaráð hefur þegar samþykkt tillögu um að beina eindregnum tilmælum til framkvæmda- og eignasviðs að battavöllur verði lagður á lóð Vesturbæjarskóla á árinu 2012 og það mál er í vinnslu.
Áheyrnarfulltrúar foreldra barna í leikskólum, starfsfólks í leikskólum og leikskólastjóra óskuðu bókað:
Gagnrýnt er að ekki skuli vera lögð fram gegnsæ forgangsröðun um hvernig lóðir voru valdar til endurgerðar eða viðhalds og hvorki vísað í skýrslur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur né rekstrarskoðun hverfastöðvanna, sem eiga að fara fram reglulega. Ljóst er að miklu fleiri leikskólalóðir eru í þörf fyrir endurgerð og viðhald og að ekki er úthlutað nægu fjármagni í leikskólalóðir.
- Kl. 11.40 vék Eva Einarsdóttir af fundi og Elsa Yeoman tók þar sæti.
3. Húsnæði Klettaskóla. Lögð fram skýrsla frá framkvæmda- og eignasviði Klettaskóli, sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun – forsögn, dags. janúar 2012. Jafnframt lagt fram minnisblað framkvæmda- og eignasviðs: Klettaskóli, viðbygging og endurbætur - samantekt, dags. 30. janúar 2012 og bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 29. september 2011, um húsnæðismál sérskóla. Einnig lagt fram bréf frá Ösp, Íþróttafélagi fatlaðra og þrokshamlaðra, dags. 26. janúar 2012 varðandi byggingu íþróttamannvirkja við Klettaskóla. Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri og Rúnar Gunnarsson arkitekt á mannvirkjaskrifstofu framkvæmda- og eignasviðs kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2011100010
Skóla- og frístundaráð óskaði bókað:
Skóla- og frístundaráð fagnar niðurstöðum vinnu við undirbúning viðbyggingar og endurbóta í Klettaskóla. Það er sérstakt fagnaðarefni að langþráð íþróttaaðstaða og sundlaug verði reist við Klettaskóla, sem þjónar nemendum hans sem og nærliggjandi skólum á svæðinu ásamt því að geta nýst vel fyrir íþróttafélög fatlaðra. Mikilvægt er að markmið skóla- og frístundaráðs um að Klettaskóli hafi traustan og mikilvægan sess í skólasamfélagi borgarinnar og í virku samstarfi við aðra skóla, verði áfram höfð í heiðri.
- Hlé gert á fundinum frá kl. 12.18-12.42
- Kl. 12.50 vék Óttarr Ó. Proppé af fundi og Erna Ástþórsdóttir tók þar sæti.
4. Lögð fram umsögn hverfisráðs Árbæjar, dags. 26. janúar 2012, varðandi fyrirkomulag stjórnunar leikskóla í Norðlingaholti. SFS2011100191
Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að leikskólabyggingin við Norðlingaskóla í Norðlingaholti verði hluti af leikskólanum Rauðhól og lúti stjórn leikskólastjórans þar. Jafnframt verði stjórnendum Rauðhóls og Norðlingaskóla falið að gera með sér samstarfssamning um hvernig þeir hyggjast efla og skipuleggja samstarf milli skólastiganna, samþætta bæði leik- og grunnskólastarf við frístundastarf og brydda upp á nýbreytni í þróun frístunda- og skólastarfs. Sviðstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að meta samstarfið með reglulegu millibili svo nýta megi þær niðurstöður til framþróunar í öllu skóla- og frístundastarfi í Reykjavík.
Greinargerð fylgdi.
Frestað.
5. Staða mála vegna breytinga í skólahaldi Breiðagerðisskóla út af framkvæmdum við skólann og vegna breytinga í skólastarfi við sunnanverðan Grafarvog. Lögð fram ályktun stjórnar foreldrafélags Hvassleitisskóla, dags. 25. janúar 2012, og ályktun fundar foreldra í Hvassaleiti, Háaleitisskóla, dags. 31. janúar 2012. Formaður skóla- og frístundaráðs kynnti og svaraði fyrirspurnum.
- Kl. 13.55 vék Helgi Eiríksson af fundi.
- Kl. 14.10 vék Auður Árný Stefánsdóttir af fundi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna harma enn og aftur óverjandi vinnubrögð Samfylkingar og Besta flokksins vegna breytinga á skólahaldi í Reykjavík. Í gærkveldi samþykkti fundur foreldra í Hvassaleiti ályktun þar sem mótmælt er ákvörðun borgaryfirvalda um að hýsa miðstig Breiðagerðisskóla í húsnæði Hvassaleitisskóla næsta vetur og þess krafist að ákvörðunin verði afturkölluð nú þegar. Telja foreldrar nægilega mikið lagt á börn í Hvassaleiti með þeim breytingum, sem leiðir af vanhugsuðum breytingum meirihlutans á skólahaldi í hverfinu og því sé fráleitt að við bætist óvissa og rask vegna tilkomu fjölda barna úr öðrum skóla, sem samsvarar öllum nemendum Hvassaleitisskóla. Í ályktuninni kemur skýrt fram að foreldrum í Hvassaleiti er gróflega misboðið vegna skorts á lögboðnu samráði vegna umræddrar ákvörðunar, sem og annarra ákvarðana er varða skólahald í hverfinu. Þessi nýjasta uppákoma meirihlutans í skólamálum kemur beint í kjölfar ótrúlegra samskipta formanns skóla- og frístundaráðs við foreldra í Hamraskóla, sem hafa ítrekað en árangurslaust óskað eftir skýrum svörum frá henni um sameininguna, hvaða ávinningi hún muni skila sem og um framtíð sérdeildarinnar í skólanum. Formaðurinn neitaði lengi vel sjálfsögðum óskum um að koma á fund foreldra í Hamraskóla til að ræða málin en gerði foreldrunum á móti það tilboð að hún væri til í að veita þremur fulltrúum þeirra áheyrn á skrifstofu sinni í Ráðhúsi Reykjavíkur. Foreldrar tóku ekki þessu tilboði en á fjölmennum fundi í Hamraskóla sl. fimmtudag kom vel fram að gífurleg óánægja ríkir í hverfinu vegna óviðunandi vinnubragða meirihlutans. Ánægjulegt er að formaðurinn hefur nú loks fallist á að koma á fund umrædds foreldrafélags og er hann áformaður í dag.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fundur með foreldrum nemenda í Hamraskóla verður haldinn í dag en erfiðlega hefur gengið að ná saman um fundartíma og hefur formaður verið í samskiptum við foreldra vegna þess. Unnið er að því að ná ásættanlegri lausn nú þegar stendur til að fara í viðamiklar endurbætur á húsnæði Breiðagerðisskóla og sú lausn verður fundin í samráði við skólaráðin.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra í skóla- og frístundaráði gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð skóla- og frístundasviðs varðandi ákvarðanatöku um tímabundinn flutning nemenda á miðstigi Breiðagerðisskóla yfir í Háaleitisskóla (Hvassaleiti). Fulltrúi foreldra mótmælir þeirri afstöðu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, sem kemur fram í bréfi til foreldra, að þessi ráðstöfun á skólahúsnæði hafi ekki áhrif á lögbundna notkun húsnæðisins. Þessi afstaða virðist vera notuð sem rök fyrir því að þetta hafi ekki verið rætt í skólaráði Hvassaleitis áður en ákvörðun var tekin. Flutningur þessi er rask á högum nemenda beggja skóla og hefði farið betur á því að leita eftir samráði við foreldra í Hvassaleiti líkt og gert var í Breiðagerðisskóla.
6. Lagðar fram reglur um styrkveitingu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur til þróunarverkefna á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. Nýjar reglur taka gildi strax eftir samþykkt borgarráðs og frá sama tíma falla úr gildi reglur um styrkveitingu menntaráðs til þróunarverkefna í grunn- og tónlistarskólum sem samþykktar voru í menntaráði 27. apríl 2006 og reglur um styrkveitingu leikskólaráðs til þróunarverkefna í leikskólum í Reykjavík sem samþykktar voru í leikskólaráði 24. september 2008. SFS2012010281
Samþykkt með 6 atkvæðum og vísað til borgarráðs.
7. Lagðar fram reglur um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Nýjar reglur taka gildi strax eftir samþykkt borgarráðs og frá sama tíma falla úr gildi reglur um úthlutun almennra styrkja menntaráðs Reykjavíkur sem samþykktar voru í menntaráði 27. apríl 2006 og reglur um úthlutun almennra styrkja leikskólaráðs Reykjavíkur sem samþykktar voru í leikskólaráði 24. september 2008. SFS2012010280
Samþykkt með 6 atkvæðum og vísað til borgarráðs.
8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. janúar 2012, varðandi áhersluþætti vegna úthlutunar þróunar- og samstarfsstyrkja til leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs skólaárið 2012-2013. SFS2012010277
Lagðir eru til eftirfarandi áhersluþættir vegna úthlutunar þróunar- og samstarfsstyrkja fyrir skólaárið 2012 – 2013:
Samstarf og samþætting verkefna í leikskóla, grunnskóla og frístund.
Læsi í víðum skilningi, lestrarhvetjandi verkefni og annað sem nýtir möguleika þess að Reykjavík er bókmenntaborg UNESCO.
Samþykkt með 6 atkvæðum.
9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. janúar 2012 varðandi tillögu að skóladagatali skólaársins 2012-2013 auk skóladagatals fyrir skólaárið 2012 - 2013. SFS2012010272
Samþykkt með þeirri breytingu að felld er út setning um að kennarar mæti til starfa 15. ágúst.
10. Lagt fram bréf frá félagi fagfólks í frítímaþjónustu, dags. 19. janúar 2012, þar sem tilkynnt er að Jóhannes Guðlaugsson taki sæti varamanns í skóla- og frístundaráði fyrir hönd stjórnenda frístundamiðstöðva. SFS2011090132
11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. janúar 2012, varðandi beiðni sjálfstætt starfandi leikskólans Vinaminni um breytingu á rekstrarleyfi. Auk þess lögð fram drög að rekstrarleyfi fyrir Vinaminni. SFS2011100234
Rekstrarleyfi fyrir Vinaminni samþykkt með 6 atkvæðum.
Áheyrnarfulltrúar foreldra barna í leikskólum og leikskólastjóra óskuðu bókað:
Það er áhyggjuefni að löggjafinn setji ekki lengur kvaðir á um stærð rýmis á hvert barn. Fyrir nýju leikskólalögin nr. 90/2008 var kveðið á um að heildarrými á barn væri að lágmarki 7 fermetrar og leikrými 3 fermetrar. Nú er verið að samþykkja leyfi fyrir 96 börn á aldrinum 18 mánaða - 6 ára í rými sem er að grunnfleti 537,1 fermetri eða 5,59 fermetrar í heildarrými á barn. Við höfum áhyggjur af framvindunni verði ekki settar viðmiðunarreglur um stærð rýmis á hvert barn, hér er verið að fara niður fyrir fyrri viðmið. Nýlegar rannsóknir um hljóðvist í leikskólum veita stuðning fyrir því að taka þurfi á þessu máli.
12. Liðum 6, 7 og 12 í útsendri dagskrá frestað.
Fundi slitið kl. 15.20
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Erna Ástþórsdóttir
Hilmar Sigurðsson Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir