No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2012, 5. september, var haldinn 24. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.10. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og Óttarr Ólafur Proppé. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Fanney Heimisdóttir, skólastjórar í leikskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum; Rósa Steingrímsdóttir, foreldrar barna í leikskólum og S. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir. Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að lestrarstefnu fyrir grunnskóla Reykjavíkurborgar. Guðrún Edda Bentsdóttir verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012080212
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð fagnar drögum að lestrarstefnu fyrir grunnskóla Reykjavíkurborgar. Hún verður mikilvægur grunnur að mótun lestrarstefnu hvers grunnskóla. Skóla- og frístundaráð óskar eftir því að SAMFOK og Menntavísindasvið Háskóla Íslands vinni umsögn um lestrarstefnuna áður en hún verður endanlega samþykkt.
2. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs vegna gjaldskrár frístundahluta tilraunaverkefnis í 1. og 2. bekk Fellaskóla, fjölgun vikulegra kennslustunda, samþættingu skóla- og frístundastarfs og aukna áherslu á málþroska og læsi, hvetjandi námsumhverfi, félagsfærni og samskipti:
Lagt er til að gjaldskrá vegna frístundastarfsins í Fellaskóla á tímabili tilraunarinnar verði:
5 dagar í viku kr. 5.650
4 dagar í viku kr. 4.601
3 dagar í viku kr. 3.560
2 dagar í viku kr. 2.505
1 dagur í viku kr. 1.458
Ef þjónusta er nýtt frá kl. 8.00 á foreldradögum og starfsdögum skóla eða í jóla- og
páskafríum þá væri innheimt samkvæmt gjaldskrá kr. 1.690 á dag.
Greinargerð fylgdi. SFS2012070054
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. september 2012, varðandi áhersluþætti vegna úthlutunar þróunar- og samstarfsstyrkja fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundastarf skólaárið 2013-2014. SFS2012090003
Lagðir eru til eftirfarandi áhersluþættir vegna úthlutunar þróunar- og samstarfsstyrkja fyrir skólaárið 2013-2014: Grunnþættir menntunar með sérstakri áherslu á lýðræði og mannréttindi og upplýsinga- og tæknimennt í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.
Samþykkt.
4. Lögð fram tillaga af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 31. júlí 2012, um að gera vinnu gegn einelti í skólum hluta af námskrá. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 30. ágúst 2012, með áorðnum breytingum um málið.
Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að upplýsingar um hvernig skólar og frístunda-miðstöðvar vinna gegn einelti verði aðgengilegar á vefnum Betri Reykjavík. Þar komi fram hvernig grunnskólar mæta markmiðum í aðalnámskrá um að öll menntun og starfshættir einkennist af viðhorfum sem stuðla að samfélagi án eineltis. Eins verði upplýst um þau mörgu verkefni sem skóla- og frístundasvið sinnir og snúa að uppbyggingu vinsamlegs samfélags, án ofbeldis og eineltis. Ráðið tekur undir með tillöguflytjanda um mikilvægi þess að leiða börnum fyrir sjónir að okkur ber að virða allar manneskjur.
5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. ágúst 2012, varðandi stöðu í starfsmannamálum í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi í ágúst 2012. Steingerður Kristjánsdóttir verkefnisstjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs kynnti stöðu starfsmannamála í frístundastarfi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Hver er fjöldi barna á biðlista á frístundaheimilum?
2. Hvernig skiptist biðlistinn eftir hverfum?
3. Hver var fjöldi á biðlista á sama tíma fyrir ári?
4. Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til þess að tryggja mönnun á frístundaheimilum?
5. Hve marga starfsmenn vantar til starfa?
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í skóla- og frístundaráði hefur verulegar áhyggjur af m.a. stöðu, starfsumhverfi og kjörum uppeldisstétta í Reykjavík. Telur fulltrúinn að pólitískt kjörnir fulltrúar þurfi að huga að sértækum aðgerðum sem miða að eflingu þessara starfstétta í stað þess að rýra mikilvægi þeirra eins og meirihluti Samfylkingar og Besta flokks hefur gert undanfarið með hvers kyns niðurskurði, sameiningum og kjaraskerðingu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar vilja taka fram að unnið hefur verið markvisst að því að nýta sem best það fjármagn sem er til ráðstöfunar í skóla og frístundamálum í Reykjavík í þágu nemenda og þess að bæta starfsumhverfi og starfsskilyrði í skólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar. Þessi stefna speglast m.a. í nýrri stefnumörkun sviðsins, áherslum í fjárhagsáætlun og öðru markvissu starfi í skóla- og frístundamálum í Reykjavík og má meðal annars leita staðfestingar í lítilli starfsmannaveltu og aukinni ánægju foreldra og nemenda í könnunum. Einnig má nefna að starfsfólk leikskóla Reykjavíkur fær greitt umfram kjarasamninga og býðst 60#PR afsláttur af leikskólagjöldum fyrir sín börn og er Reykjavík eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem viðhefur slík hlunnindi. Í frístundamiðstöðvum borgarinnar er öflug starf sem hefur leitt til sögulegs þátttökuhlutfalls barna í 1-4 bekk og borgin stendur fyrir öflugu þróunarstarfi á grunnskólastigi sem m.a. speglast í yfir 800 m króna framlögum borgarinnar í starfsþróun og sjóði kennara á ári. Auk þess er kostnaðarhlutfall foreldra í Reykjavík það lægsta sem þekkist. Alltaf má að sjálfsögðu gera betur og áfram verður unnið að því með stefnumörkun sviðsins að leiðarljósi og í góðri samvinnu við öflugt starfsfólk.
Meirihlutinn vísar því alfarið á bug þeim fullyrðingum sem felast í bókun fulltrúa VG og minnir á að meirihlutinn í Reykjavík hefur varið skóla- og frístundastarf á niðurskurðartímum og stendur stoltur að baki þeim árangri sem staðfestur er.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að hrinda í framkvæmd sértækum aðgerðum til að fjölga fagmenntuðu fólki í leik- og grunnskólum og frístundaheimilum, bæta kjör þeirra og starfsskilyrði og efla fagmennsku. Til þess má m.a. byggja á skýrslu starfshóps um fjölgun fagfólks í leikskólum frá árinu 2007 og styðjast við ýmsar rannsóknir og kannanir sem gerðar hafa verið.
Frestað.
6. Lagt fram svar, dags. 24. ágúst 2012, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna frá 21. ágúst sl. um hvort börnum hafi verið neitað um skólavist í Klettaskóla. SFS2012080156
Erla Gunnarsdóttir, skólastjóri Klettaskóla og Hrund Logadóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs svöruðu fyrirspurnum varðandi málið.
- Kl. 11:55 vék Óttarr Ólafur Proppé af fundi og Páll Hjaltason tók þar sæti.
- Kl. 12:06 vék Fanney Heimisdóttir af fundi.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra telur brýnt að borgin bjóði upp á úrræði fyrir vægt þroskahömluð börn sem foreldrar geta sætt sig við og úr því verði skorið hvort inntökuskilyrði í Klettaskóla, og þar með mögulega skortur á viðunandi úrræði, stangist á við grunnskólalög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Í skólum borgarinnar er fjölbreytilegur nemendahópur. Stefna borgarinnar er að koma til móts við það. Klettaskóli styðst við starfsreglur um innritun og útskrift sem miðast við þroskahömlun nemenda. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nú fengið til meðferðar kæru foreldra barns sem synjað var um skólavist og eðlilegt að bíða eftir þeim úrskurði.
7. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Marta Guðjónsdóttir og fulltrúi Vinstri grænna í skóla- og frístundaráði lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir að borgarlögmaður gefi álit sitt á því hvort farið var eftir reglum Reykjavíkurborgar um ferðakostnað þegar formaður skóla- og frístundaráðs fór í vikuferð til New York á þessu ári ásamt nokkrum starfsmönnum skóla- og frístundasviðs. Í reglum um ferðakostnað sem tóku gildi 1. janúar 2003 er kveðið skýrt á um að ákvarðandir um ferðir fulltrúa í nefndum borgarinnar skuli kynna á fundi viðkomandi nefnda. Það var hins vegar ekki gert í þessu tilfelli eins og komið hefur fram þótt ljóst sé að umræddum fulltrúi fór í ferðina sem kjörinn fulltrúi og nefndarmaður en ekki sem starfsmaður skóla- og frístundasviðs. Samkvæmt svari sviðsstjóra SFS dags. 30. apríl var ákvörðun um ferð formannsins tekin 20. janúar og því hefði verið eðlilegt að upplýsa ráðið um ferð umrædds nefndarmanns áður en hún var farin í stað þess að halda henni leyndri eins og gert var. Mikilvægt er að skýrar reglur gildi um ferðir kjörinna fulltrúa og túlkun þeirra.
8. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúa Vinstri grænna leikur forvitni á að vita hver kostnaðurinn sé við Bókmenntaborgina Reykjavík og hvort eitthvert fé hafi runnið til leik- og grunnskóla og frístundaheimila í verkefni tengdum henni.
9. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óska eftir því að könnun umboðsmanns um líðan barna í grunnskólum og skýrsla Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga verði teknar til umfjöllunar í skóla- og frístundaráði.
Fundi slitið kl. 12.40
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Marta Guðjónsdóttir Páll Hjaltason