No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Leikskólaráð
Ár 2006, 18. október kl. 12:15 var haldinn 3. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður, Áslaug Friðriksdóttir, Kristín Edda Guðmundsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Svandís Svavarsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Anna Sigríður Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi F- lista, Ingibjörg Kristleifsdóttir, fulltrúi leikskólastjóra, Hulda Björk Valgarðsdóttir fulltrúi starfsmanna í leikskólum og Svanhildur Eva Stefánsdóttir, fulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, sviðsstjóri og Hildur Skarphéðinsdóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.
Þetta gerðist:
Formaður þakkaði fundarmönnum fyrir góðan vinnufund að Úlfljótsvatni sl. föstudag og færði starfsfólki Menntasviðs þakkir fyrir undirbúning og framkvæmd fundarins.
1. Breytingar á skipan leikskólaráðs.
Formaður greindi frá skipan tveggja nýrra fulltrúa í leikskólaráð, þeirra Ingvars Más Jónssonar og Fannýjar Gunnarsdóttur. Ingvar Már tekur sæti Helenu Ólafsdóttur í ráðinu og Fanný tekur sæti Önnu Margrétar Ólafsdóttur.
2. Ákveðið að á næsta fundi leikskólaráðs verði fjallað um starfsáætlun 2007.
3. Auglýsinga- og kynningarátak vegna leikskóla.
Atvinnuauglýsingar fyrir leikskóla. Lagt fram minnisblað frá upplýsingafulltrúa og mannauðsráðgjafa á starfsmannaþjónustu um fyrirhugað auglýsinga- og kynningarátak.
Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu:
Myndaður verði starfshópur til að leita leiða til að laða að starfsfólk, auka fagþekkingu í leikskólum og auka stöðugleika í starfsmannahaldi. Starfshópurinn verði m.a. skipaður fulltrúum Menntasviðs, Félags leikskólakennara og leikskólastjóra í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn verði í nánu samstarfi við stéttarfélög starfsmanna, KHÍ og aðra hagsmunaaðila. Verðandi sviðsstjóra Leikskólasviðs ásamt formanni leikskólaráðs verði falið að gera drög að erindisbréfi sem verður lagt fram á næsta fundi ráðsins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra lagði fram svohljóðandi tillögu:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólaráði leggur til að kannað verði hver er raunveruleg ástæða þess að starfsfólk í leikskólum velur sér leikskólakennslu í lengri tíma, jafnvel að ævistarfi. Könnun var gerð á vegum Háskólans í Reykjavík um það hver sé raunveruleg ástæða uppsagna í leikskólum. Niðurstöður gefa vísbendingar sem gott er að styðjast við í leit að lausnum, en enn betra væri að afla gagna um það hvað hefur þau áhrif að fólk hættir ekki störfum.
Tillögunni vísað til væntanlegs starfshóps, sbr. hér að ofan.
4. Tillaga Samfylkingar, Vinstri grænna og F- lista varðandi vistun fyrir börn yngri en 18 mánaða, frestað á fundi leikskólaráðs 22. september sl.
Tillagan var svohljóðandi:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F- lista í menntaráði Reykjavíkurborgar leggja til að yngri börnum en 18 mánaða verði í vaxandi mæli gert formlegt tilboð um leikskóladvöl, allt niður í eins árs aldur. Möguleiki á slíkri vistun verði kynntur. Vitað er að nú þegar er fjöldi barna undir 18 mánuðum í leikskóla í borginni, óskað er eftir upplýsingum um fjölda þeirra á næsta fundi. Þá er vitað að stór árgangur leikskólabarna færðist yfir í grunnskóla í haust, og gefur því svigrúm til að næstu árgangar komi fyrr inn í leikskóla en áður. Óskað er eftir tölulegum upplýsingum um þetta aukna svigrúm vegna smærri árganga á næsta fundi menntaráðs. Þá er óskað eftir að Menntasvið vinni stöðumat á stofnframkvæmdaþörf í hverfum borgarinnar til að hægt verði að bjóða öllum 1 árs börnum leikskóladvöl. Óskað er eftir mati á því hvernig eðlilegt sé að skipta leikskólanum í ólíkar deildir eftir því sem yngri börnum fjölgar í leikskólum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu til að tillögunni yrði vísað frá og lögðu fram svohljóðandi bókun:
Það er skýr stefna núverandi meirihluta að fjölga vistunarúrræðum yngstu barna borgarinnar og í því felst meðal annars að hanna smábarnadeildir við leikskóla í hverju hverfi. Hafin er vinna við að skoða hvaða skólar í hverju hverfi henti best fyrir þetta úrræði og hvaða fjárfestinga er þörf.
Eins og fram hefur komið eru nú þegar börn undir 18 mánaða aldri í leikskólum borgarinnar. Einnig hefur komið fram að ekki hefur enn tekist að veita öllum börnum 18 mánaða og eldri þjónustu og því forgangsmál að tryggja þeim þjónustu áður en að farið er að lofa þjónustu fyrir enn yngri börn. Meirihluti leikskólaráðs bendir á að R-listinn lofaði í kosningum 2002 að öll börn eldri en 18 mánaða ætti kost á leikskólaþjónustu. Enn fremur lofaði R-listinn 1994 að í lok þess kjörtímabils hefðu öll börn 1 árs og eldri fengið þá vistun sem foreldrar þeirra vildu nýta sér. Sú er ekki raunin nú í lok árs 2006 þrátt fyrir 12 ára valdatíma R-listans í borgarstjórn.
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 að vísa frá tillögu Samfylkingar og Vinstri grænna.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:
Í tíð Reykjavíkurlistans varð bylting í leikskólamálum borgarinnar þegar horfið var frá þeirri stefnu að líta á dagheimilin sem félagslegt úrræði eins og raunin var í áratuga valdatíð Sjálfstæðisflokks yfir í það að byggja upp sjálfsagða leikskólaþjónustu fyrir öll börn. Haustið 2005 voru í fyrsta sinn jafnmörg leikskólarými og fjöldi barna 18 mánaða og eldri í borginni. Búseta og aðrar ástæður valda því þó að ekki öll börn sem náð hafa þeim aldri hafa fengið pláss. Það má ljóst vera að næstu skref eru að gera börnum á aldrinum 12 – 18 mánaða formlegt tilboð í vaxandi mæli.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lýsa vonbrigðum með að núverandi meirihluti skuli afgreiða tillöguna með þessum hætti.
4. Lagðar fram að nýju tillögur Samfylkingar og Vinstri grænna um skráningarkerfi fyrir dagsforeldra og forgang fyrir einstæða foreldra, sem frestað var á síðasta fundi leikskólaráðs. Helga Kristín Sigurðardóttir, fulltrúi dagforeldra sat fundinn undir þessum lið.
Fyrri tillagan var svohljóðandi:
1) Leikskólaráð samþykkir að fela Menntasviði að hefja undirbúning að því að gera skráningarkerfi dagforeldra aðgengilegra fyrir foreldra, þægilegra fyrir dagforeldra og ekki síður til að bæta yfirsýn borgaryfirvalda að því er varðar þjónustu við yngstu börnin.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi breytingartillögu:
Starfshópur var skipaður á sínum tíma til að skoða aðkomu leikskólanna að Rafrænu Reykjavík. Lagt er til að þeim hópi verði falið í samstarfi við Barnavistun, félag dagforeldra, að skoða möguleika á að halda utan um skráningu hjá dagforeldrum með hliðsjón af því að betri yfirsýn náist yfir biðlista og til þæginda fyrir foreldra sem dagforeldra.
Samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í leikskólaráði eru sáttir við að skráningarkerfi dagforeldra verði smám saman fært yfir í Rafræna Reykjavík. Með því eykst aðgengi foreldra og einnig ætti gegnsærra skráningarkerfi að auðvelda nýjum dagforeldrum að hasla sér völl.
Síðari tillagan var svohljóðandi:
2) Leikskólaráð ákvarði að einstæðir foreldrar fái forgang hjá dagforeldrum og hjá smábarnaleikskólum, t.a.m. leikskólum Háskóla Íslands.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Dagforeldrar og leikskólar Félagsstofnunar stúdenta eru sjálfstætt starfandi en Menntasvið veitir þeim starfsleyfi. Töluvert eftirlit og ráðgjöf fer fram á heimilum þessara dagforeldra og þessara skóla og til að fá starfsleyfi þurfa þeir að uppfylla ákveðin skilyrði skv. reglugerð. Foreldrar greiða töluvert hærri upphæð fyrir þjónustu dagforeldra en leikskóla en borgin niðurgreiðir þjónustuna. Þar af leiðandi er mjög takmarkað hversu mörg skilyrði unnt er að setja á þessa framkvæmdaraðila þjónustunnar. Dagforeldrar hafa ekki hingað til þurft að fylgja reglum um forgang og ekki er vilji til að leggja það hlutverk á dagforeldra að svo stöddu.
Tillagan Samfylkingar og Vinstri grænna felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Leikskólaráð beinir því til stjórnar Barnavistunar að hún hvetji félagsmenn sína til þess að veita börnum einstæðra foreldra forgang. Sambærileg tilmæli verði send sjálfstætt starfandi leikskólum sem taka við börnum frá 6 mánaða aldri.
Greinargerð fylgir.
Tillagan samþykkt samhljóða.
5. Lagt fram erindi frá Samtökum sjálfstæðra skóla dags. 16. október sl. þar sem óskað er eftir því að samtökin fái áheyrnarfulltrúa í leikskólaráð.
Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu að svari til samtakanna:
Leikskólaráð telur ekki ástæðu til þess að verða við beiðni Samtaka sjálfstæðra skóla en telur hins vegar er sjálfsagt og eðlilegt að kalla til fulltrúa þeirra þegar málefni sem þau varða eru til umfjöllunar í leikskólaráði Reykjavíkur.
Samþykkt samhljóða.
6. Lögð fram greinargerð um vinnu næringarráðgjafa á Menntasviði um bætta hollustu í mötuneytum skóla. Næringarráðgjafi á leik- og grunnskólaskrifstofu kom á fundinn, gerði grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.
Áheyrnarfulltrúi F- lista lagði fram svohljóðandi tillögu:
Mikilvægt er að leikskólar ekki síður en grunnskólar móti sér stefnu er varðar aðgengi barna að sætmeti og hvers konar nasli á skólatíma og leggur til að slík stefna verði mótuð og lögð fram í leikskólaráði.
Afgreiðslu frestað.
7. Lagt fram til kynningar afrit af svari sviðsstjóra Menntasviðs til Menningar- og ferðamálasviðs varðandi framlag Reykjavíkurborgar undanfarin ár til menningarstarfs fyrir börn í borginni. Óskað var eftir þessum upplýsingum á fundi menningar- og ferðamálaráðs nýverið.
Leikskólaráð fagnar þessari fyrirspurn um framlög Reykjavíkurborgar til menningarstarfs fyrir börn og óskar eftir því að ráðinu verði kynntar heildarniðurstöður vegna hennar þegar þær liggja fyrir.
8. Lagt fram yfirlit yfir fulltrúa í starfshópi um hvatningarverðlaun leikskólaráðs.
9. Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra lagði fram eftirfarandi tillögu:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra beinir því til leikskólaráðs að skoða þann möguleika að skýra skil á milli leikskóla og grunnskóla á þann hátt að ákveða lokadag leikskóladvalar að vori/sumri og leita samstarfs við ÍTR um sumarnámskeið sem muni brúa bilið á milli skólastiganna. Í lok leikskólagöngu 5 – 6 ára barna skapast ákveðið tómarúm hjá börnunum. Eftir formlega útskrift tínast þau burt hvert og eitt með tilheyrandi kveðjuathöfnum þar til örfá börn eru eftir sem reyna á síðustu metrunum að aðlagast nýjum hópi barna og kennara. Tímabilið getur tekið rúma tvo mánuði og veldur óreiðu og óöryggi. Innritun og aðlögun nýnema í leikskólana er sundurslitin fyrir vikið og yfirsýn og utanumhald er of flókið. Tilgangurinn væri sá að setja ákveðinn ramma utan um það stóra skref í lífinu að færast á milli skólastiga og með því að skapa öryggi og festu sem er undirstaða vellíðunar og farsældar hverrar manneskju.
Afgreiðslu frestað.
Fundi slitið kl. 14:05
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Kristín Edda Guðmundsdóttir Jóhanna Hreiðarsdóttir
Áslaug Friðriksdóttir Oddný Sturludóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Svandís Svavarsdóttir