Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

4. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1996, mánudaginn 16. september, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og var þetta 4. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir, formaður, Árni Þór Sigurðsson, Guðmundur Gunnarsson, Hulda Ólafsdóttir og Inga Jóna Þórðardóttir. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Guðrún Sturlaugsdóttir og María Norðdahl frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Valgerður Selma Guðnadóttirr frá Félagi skólastjóra og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri, Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður rekstrarsviðs í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, og Steinunn Stefánsdóttir, deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar bauð formaður sérstaklega velkomna til fundar þá Guðmund Gunnarsson, fulltrúa Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði, og Ólaf Darra Andrason, en þeir hafa ekki áður setið fundi fræðsluráðs.

1. Lagt fram erindi borgarstjóra þar sem óskað er eftir umsögn fræðsluráðs um tillögur um skipulag og starfsemi reynsluhverfis í Grafarvog. Formannni fræðsluráðs og fræðslustjóra falið að gera drög að álitsgerð.

2. Lögð fram greinargerð frá Ólafi Darra Andrasyni varðandi fjárhagsstöðu skólalúðrasveita og námsvistargjöld. Fræðsluráð samþykkir að láta skoða innheimtumál skólalúðrasveita. Ráðið tekur ekki afstöðu til hækkunar námsvistargjalda að svo stöddu en samþykkir að það verði skoðað við gerð næstu fjárhasgsáætlunar.

3. Lögð fram greinargerð frá Ólafi Darra Andrasyni um kennsluafslátt vegna framhaldsnáms við Kennaraháskóla Íslands. Fræðslumiðstöð falið málið til frekari skoðunar.

4. Lögð aftur fram tillaga um skipan starfshóps á vegum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur til þess að skoða og móta tillögur um skipulag skólastarfs grunnskólanemenda eftir að skólar verða einsetnir og skóladagur hefur lengst. Samþykkt að starfshópinn skipi aðilar frá Fræðslumiðstöð, þ.m.t. fræðslustjóri, fulltrúar skólastjóra og kennara, fulltrúi tónlistarskóla í borginni, fulltrúi frá ÍTR og fulltrúi foreldra.

5. Lagt fram erindi frá bekkjarfulltrúum og kennurum 3. bekkja Breiðagerðisskóla varðandi fjölda bekkjardeilda í árgangnum. Vísað til Fræðslumiðstöðvar og óskað eftir samantekt, fyrir næsta fund fræðsluráðs, um viðbrögð við sams konar stöðu í öðrum skólum nú í vor.

6. Lagt fram erindi frá Kennarafélagi Reykjavíkur varðandi kaffimál starfsmanna grunnskóla í Reykjavík. Fræðslumiðstöð falið að kynna sér hvernig kaffimálum er háttað hjá öðrum borgarstofnunum.

7. Lagt fram erindi frá Vesturbæjarskóla varðandi viðbótarhúsnæði vegna heilsdagsskóla. Samþykkt að fela Fræðslumiðstöð að athuga hvort möguleikar séu á að fá leiguhúsnæði í nágrenni við skólann til að bæta við plássum í heilsdagsskólanum strax í haust og kanna kostnað af slíkri ráðstöfun.

8. Lagt fram erindi frá Karli Jónatanssyni þar sem sótt er um að taka á leigu Bústaðaskóla fyrir starfsemi Almenna músíkskólans sem hann rekur. Kynnt erindi frá Réttarholtsskóla um nýtingu þessa húss fyrir sérdeild fyrir unglinga með sérstök hegðunarvandkvæði. Kynnt samantekt frá Fræðslumiðstöð um kostnað við rekstur hússins. Samþykkt að fela fræðslustjóra að taka saman umsögn um fyrr nefnda sérdeild.

9. Lögð fram beiðni Ebbu E. Urbancic, kt. 100733-2699, um aukningu á stöðuhlutfalli úr 2/3 í heila stöðu. Samþykkt.

10. Lagðar fram eftirfarandi umsóknir um leyfi án launa: Hafdís E. Guðjónsdóttir Hagaskóla skólaárið 96-97 Ragnhildur Helgadótttir Æfingask. KHÍ 16/9-14/10 96 Samþykkt.

11. Lögð fram gögn vegna ráðningar skólastjóra í Vesturhlíðarskóla: Álit fræðslustjóra þar sem fjallað er um þær umsóknir um stöðuna sem bárust áður en umsóknarfrestur rann út þann 23. ágúst frá Berglindi Stefánsdóttur og Málfríði Gunnarsdóttur. Einnig voru lögð fram tvö bréf frá kennararáði Vesturhlíðarskóla, annað þess efnis að taka ekki afstöðu til umsóknanna sem borist höfðu um stöðuna, hitt með yfirlýsingu um að meirihluti starfsfólks skólans sé hlynnt því að Gunnar Salvarsson, fráfarandi skólastjóri, komi aftur til starfa við skólann. Formaður upplýsti fræðsluráð um að umsókn frá fráfarandi skólastjóra Vesturhlíðarskóla, hefði borist þann 10. september s.l. Inga Jóna Þórðardóttir lagði til að umsókn fráfarandi skólastjóra yrði tekin til greina. Sú tillaga var felld og lögð fram eftirfarandi bókun frá fulltrúum Reykjavíkurlista:

Fræðsluráð tekur ekki umsókn um stöðu til greina, sem barst tæpum þremur vikum eftir að umsóknarfrestur rann út, þar sem tveir hæfir einstaklingar sóttu um stöðuna innan auglýsts frests. Öllu undirbúningsferli vegna ráðningarinnar var lokið þegar þriðja umsóknin barst. Þrátt fyrir ákvæði 2. ml. 1. mgr. 5. gr. laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, á umsækjandi sem skilar umsókn sinni eftir lok umsóknarfrests engan sjálfsagðan rétt á því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Jafnræðisreglur stjórnsýsluréttar leiða almennt til þess, að skýra beri nefnda undanþágu þröngt þannig að heimildin sé veitt í undanþágutilvikum. Við hörmum að fráfarandi skólastjóri skuli ekki hafa ákveðið sig fyrr, að vilja vera meðal umsækjenda, þannig að umsókn hans gæti fengið sömu efnislega meðferð og þær tvær umsóknir sem bárust innan auglýsts umsóknarfrests.

Samþykkt að mæla með því við borgarráð að Berglind Stefánsdóttir verði ráðin skólastjóri Vesturhlíðarskóla með þeim rökum sem koma fram í fyrrnefndri greinargerð fræðslustjóra. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum sínum með að meirihluti fræðsluráðs skuli hafna því að taka til greina umsókn Gunnars Salvarssonar, fráfarandi skólastjóra, um stöðu skólastjóra Vesturhlíðarskóla. Ljóst er að ástæður uppsagnar fráfarandi skólastjóra, sem vörðuðu ágreining um húsnæðismál, eru ekki lengur fyrir hendi nú þegar Reykjavíkurborg hefur tekið við stjórn skólans. Upplýst hefur verið að málefni Vesturhlíðarskóla voru rædd á fundi skólamálaráðs í júlí og ákveðið að ræða við þáverandi skólastjóra. Jafnframt var ákveðið að láta það ekki koma fram í fundargerð þar sem skólinn heyrði ekki á þeim tíma undir borgina. Fram hefur komið að fræðslustjóri og skólastjóri áttu með sér fund í ágústmánuði um málið. Samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda er heimilt að taka til greina umsóknir sem berast eftir að umsóknarfrestur er liðinn. Tvímælalaust hefði átt að nýta þá heimild með hliðsjón af forsögu málsins og ennfremur að mikill meirihluti starfsfólks Vesturhlíðarskóla styður það að Gunnar Salvarsson komi aftur til starfa sem skólastjóri. Gunnar Salvarsson hefur farsællega stýrt skólanum á undanförnum árum og almenn ánægja verið með þá skólastefnu sem þar hefur verið rekin. Því miður bendir allt til þess að það hafi aldrei verið ætlun fulltrúa R-listans að fráfarandi skólastjóri starfaði áfram sem skólastjóri við skólann og því er niðurlag bókunar þeirra orðin tóm. Með hliðsjón af ofansögðu sitjum við hjá við afgreiðslu málsins.

12. Lögð fram samantekt á nemendafjölda, aldursdreifingu nemenda og húsnæði Vesturhlíðarskóla, samkvæmt beiðni frá síðasta fundi.

Fundi slitið kl. 14.50

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Þór Sigurðsson Guðmundur Gunnarsson
Hulda Ólafsdóttir Inga Jóna Þórðardóttir