Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

38. fundur

FRÆÐSLURÁÐ

Ár 1997, mánudaginn 6. október, kl. 12.00, hélt fræðsluráð Reykjavíkur fund í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og var þetta 38. fundur ráðsins. Fundinn sátu: Sigrún Magnúsdóttir formaður, Árni Sigfússon, Guðmundur Gunnarsson, Hulda Ólafsdóttir og Svanhildur Kaaber. Auk þeirra sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir María Norðdahl frá Kennarafélagi Reykjavíkur, Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Reykjavíkur og Guðbjörg Björnsdóttir frá Samfok. Einnig sátu fundinn Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri og Steinunn Stefánsdóttir deildarstjóri almennrar skrifstofu, sem ritaði fundargerð. 1. Kynntar teikningar að viðbyggingu við Háteigsskóla. Helga Gunnarsdóttir arkitekt kynnti teikningu sína og Ásgeir Beinteinsson skólastjóri gerði grein fyrir hugmyndum að baki hennar. Fræðsluráð samþykkir að unnið verði áfram að þessari teikningu.

Helga Gunnarsdóttir arkitekt og Ásgeir Beinteinsson skólastjóri Háteigsskóla sátu fund undir þessum lið.

2. Lagðar fram til kynningar fundargerðir byggingarnefndar skóla og leikskóla frá 9. júní, 11. ágúst, 8. september og 29. september sl.

3. Lagt fram minnisblað forstöðumanns þróunarsviðs, dags. í dag, varðandi framlög Fræðslumiðstöðvar til tölvuvæðingar Hvassaleitisskóla. Fræðsluráð samþykkir að fela fræðslustjóra viðræður við tölvunefnd Foreldrafélags Hvassaleitisskóla og skólastjóra skólans um: a. Tölvuvæðingu Hvassaleitisskóla og framlag borgarinnar, s.s. varðandi tölvulagnir og tengingar (sbr. minnisblað forstöðumanns þróunarsviðs). b. Ósk skólastjóra um að skólinn verði kjarnaskóli í tölvumálum.

Formaður óskaði að eftirfarandi yrði bókað: S.l. vetur var stofnaður starfshópur til að vinna að stefnumótun í tölvumálum grunnskóla Reykjavíkur. Nefndin hefur fjallað um tækjabúnað skóla, víðnetið og eru nú allir skólar borgarinnar tengdir. Þá vann nefndin starfslýsingu fyrir tölvuumsjónarmenn sem ráðnir voru frá 1. ágúst s.l. Starfshópurinn vinnur nú að tillögum til fræðsluráðs um áframhaldandi stefnumörkun í tölvumálum, 3-5 ára áætlun, sem lögð verður fram í starfsáætlun Fræðslumiðstöðvar. Megináherslan verði á að jafna aðstöðu og búnað skólanna og mikilvægi símenntunar kennara til að búnaður nýtist sem best. Jafnframt þarf að huga að vinnuaðstöðu nemenda í tölvuverum skólanna. Fræðsluráð fagnar frumkvæði og dugnaði foreldrafélags Hvassaleitisskóla og hafnar ekki góðum gjöfum til eflingar skólastarfs en beinir þeim varnaðarorðum til félagsins að tillit sé tekið til mismunandi fjárhagsgetu foreldra.

Svanhildur Kaaber óskaði eftir að eftirfarandi yrði bókað: Stuðningur foreldra við skólastarf og jákvætt viðhorf þeirra til þess, eru skólunum mjög mikils virði. Undirrituð gerir hins vegar mikinn greinarmun á því hvort foreldrar taki þátt í uppbyggingu skóla barna sinna með stuðningi við dagleg verkefni eða hvort þeir fjármagna kaup á þeim grunnbúnaði sem gerð er krafa um að sé til staðar í öllum skólum. Slíkt vinnur gegn markmiðum um jafna aðstöðu til náms, óháð stétt eða efnahagsstöðu foreldra, og getur auk þess orðið til að breyta áherslum og forgangsröðun í skólastarfi, óháð faglegum forsendum kennara, stjórnenda og yfirvalda fræðslumála.

4. Forstöðumaður rekstrarsviðs gerði grein fyrir flutningi bókhalds úr Ráðhúsi til Fræðslumiðstöðvar og staðsetningu nýrra starfsmanna þar sem nú er fundarherbergi.

5. Hugarflugsfundir með kennararáðum og foreldraráðum grunnskóla Reykjavíkur. Fræðslustjóri kynnti í stuttu máli niðurstöður fundanna.

Guðmundur Gunnarsson vék af fundi undir þessum lið.

6. Formaður kynnti að skóflustunga vegna viðbyggingar við Háteigsskóla yrði tekin föstudaginn 24. október kl. 16.00. Skóflustunga vegna viðbyggingar við Melaskóla verður tekin laugardaginn 25. október kl. 13.30 og við Vesturbæjarskóla kl. 14.15. Opnun nýbyggingar við Grandaskóla verður kl. 15.00 sama dag.

7. Lagður fram samningur við hverfisnefnd Grafarvogs um sálfræðiþjónustu við grunnskóla í Grafarvogi. Samþykkt.

8. Svanhildur Kaaber spurðist fyrir um hver staða mála væri varðandi forfallakennslu. Fræðslustjóri greindi frá því að henni væri ekki kunnugt um að forfallakennsla væri felld niður á yngri barna stigi eða miðstigi vegna sparnaðar.

Fundi slitið kl. 14.05

Sigrún Magnúsdóttir
Árni Sigfússon Guðmundur Gunnarsson
Hulda Ólafsdóttir Svanhildur Kaaber