Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 306
Skóla- og frístundaráð
Ár 2026, 26. janúar, var haldinn 306. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Friðjón R. Friðjónsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Eftirtaldir fulltrúar tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B) og Kristinn Jón Ólafsson (P). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Árni Jónsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum og Ragnheiður Andrésdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. janúar 2026, þar sem tilkynnt er að Friðjón R. Friðjónsson taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Helga Áss Grétarssonar. MSS22060048
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á úttekt Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á öryggi á lóðum skóla- og frístundasviðs. SFS25100050
Ástrún Eva Sívertsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 13.28 tekur Albína Hulda Pálsdóttir sæti á fundinum.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi þakkar fulltrúa Heilbrigðiseftirlits fyrir kynningu en vill benda á mikilvægi þess að lóðir í kringum frístundaheimili og félagsmiðstöðvar utan lóða grunnskóla verði tekin með til skoðunar hjá Heilbrigðiseftirliti til að auka öryggi á leiksvæðum.
-
Fram fer kynning og umræða um stöðu húsnæðismála Ölduselsskóla. SFS25110109
Ásdís Olga Sigurðardóttir og Ragnar Pálsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer kynning og umræða um foreldrahermi í félagsmiðstöðinni Hólmaseli. SFS25120085
Valgeir Þór Jakobsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Við þökkum góða kynningu á foreldrahermi í félagsmiðstöðinni í Hólmaseli sem er til fyrirmyndar. Tilgangurinn með verkefninu er að auka foreldrasamstarf með því að hafa sérstakar foreldraopnanir í félagsmiðstöðvum, en samtal við og milli foreldra er gífurlega mikilvægur þáttur í því að efla tengsl og traust milli íbúa sem svo skilar sér í enn öflugra forvarnarstarfi. Ánægjulegt að sjá mikilvægi alþjóðlegs samstarfs skila sér inn í þjónustu borgarinnar með þessum hætti, en verkefnið kemur upprunalega frá Kongsberg í Noregi. Hvetjum við félagsmiðstöðina í Hólmaseli áfram til góðra verka og að nýta m.a. reynslu og þekkingu starfsfólks innan bókasafnanna til þess að stuðla að aukinni inngildingu. Hlökkum til að sjá foreldraherminn vaxa og dafna innan fleiri félagsmiðstöðva til framtíðar.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi þakkar fyrir góða kynningu á foreldrahermi í félagsmiðstöðinni Hólmaseli. Kynningin ber merki um frumlega nálgun starfsfólks í frístundastarfi til að eiga gott samstarf við foreldra með óhefðbundnum hætti. Aðferðin stuðlar að bættum samskiptum milli foreldra og milli foreldra og starfsfólks. Fleiri félagsmiðstöðvar eru þegar farnar af stað eða með í undirbúningi að halda úti foreldrahermi.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember 2025, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. janúar 2026, um tillöguna:
Lagt er til að skóla- og frístundaráð samþykki að komið verði á laggirnar móttökuúrræði í reykvískum grunnskólum fyrir börn af erlendum uppruna með ólíkan menningarlegan og tungumálabakgrunn sem flytjast til landsins. Um yrði að ræða sambærilegt úrræði og móttökudeild sem Háaleitisskóli á Ásbrú í Reykjanesbæ hefur boðið upp á en sú starfsemi hefur gefið góða raun. Um yrði að ræða deild við skólana þar sem lögð er áhersla á að nemendurnir nái góðum tökum á íslensku auk góðrar undirstöðu í stærðfræði, lífsleikni og upplýsingatækni. Kosturinn við slíkar deildir innan skólanna er að þannig upplifa nemendur að þeir tilheyri ákveðnum skóla og kynnast þannig íslenskri skólamenningu áður en þeir fara inn í almennt bekkjarkerfi skólans. Slíkt úrræði stæði þessum nemendum til boða fyrsta árið sem þeir hefja skólagöngu í reykvískum grunnskóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:
Lagt er til að tillögu varðandi móttökuúrræði í reykvískum grunnskólum fyrir börn af erlendum uppruna verði vísað til skóla- og frístundasviðs til skoðunar í tengslum við endurskoðun sviðsins á skipulagi og úthlutun kennslu í íslensku sem öðru máli. Niðurstaðan verði kynnt sem hluti af þeirri vinnu.
Samþykkt. SFS25110041
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið undanfarin ár og eru orðin 25% af heildarfjölda barna í Reykjavík. Ljóst er að þörf er á auknum og markvissari stuðningi við þennan nemendahóp. Grípa þarf til mun róttækari aðgerða en að ráða þrjá kennsluráðgjafa til að efla íslenskukunnáttu þessara nemenda og aðlaga þá að íslensku skólakerfi. Í því skyni er brýnt að koma á sértæku úrræði fyrir þennan hóp samanber tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um móttökuúrræði í reykvískum grunnskólum fyrir börn af erlendum uppruna með ólíkan menningar- og tungumálabakgrunn.
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skóla- og frístundasviðs um starfshópa og erindisbréf febrúar 2024 til desember 2025. SFS26010053
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna bendir á að æskilegt væri að það væri hægt að nálgast allar skýrslur á vegum skóla- og frístundasviðs og starfshópa á einum stað á heimasíðu Reykjavíkurborgar í einföldum lista flokkað eftir ráðum. Nú er mjög erfitt að finna þessi gögn, helst þarf að vita nákvæmlega hvað skýrslan heitir eða leita í fundargerðum ráðsins sem getur tekið talsverðan tíma. Eldri skýrslur er ómögulegt að finna því það er hvergi hægt að sjá að þær séu til. Gæti verið mikill tímasparnaður fyrir starfsfólk, áheyrnarfulltrúa, kjörna fulltrúa og almenning að hafa þetta aðgengilegt á einum stað á einfaldan hátt og þetta ætti ekki að vera flókin eða dýr breyting.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. janúar 2026, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um skráningardaga í leikskólum, sbr. 2. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 6. október 2025. SFS25100024
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar því að fá upplýsingar sem sýna skýrt að foreldrar nýta skráningarfyrirkomulagið mjög vel. Ekki er hægt að ætlast til þess að skráningar og mætingar séu 100% vegna veikinda og annarra ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Fjöldi skráðra barna sýnir að fjölskyldur þurfa í miklum mæli vistun þessa daga. Foreldrar eiga ekki frídaga til að geta verið í leyfi með börnum sínum alla skráningardaga og starfsdaga að viðbættu sumarleyfi, sérstaklega hjá fjölskyldum sem eiga börn í fleiri en einum leikskóla/dagforeldri eða í leikskólum og grunnskóla þar sem dagarnir passa aldrei alveg saman. Það er ekki raunhæft að nýta skráningardaga til þess að koma til móts við styttingu vinnuviku hjá starfsfólki í leikskólum í Reykjavík.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. janúar 2026, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðbrögð við manneklu í leikskólanum Funaborg, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar 2026. SFS26010049
Fylgigögn
-
Lagðar fram viðbótarupplýsingar um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, trúnaðarmál. SFS22080009
Jóhanna H. Marteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillaga:
Lagt er til að málefni leikskólans Vinagerðis verði sett á dagskrá næsta reglulega fundar skóla- og frístundaráðs.
Frestað. SFS26010127
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Leikskólanum Vinagerði var lokað í lok október vegna slæms ástands og starfsemin flutt í Safamýri þannig að 130 börn þurfa að sækja leikskóla utan hverfis með tilheyrandi álagi og mikilli óvissu um framhaldið. Foreldrar hafa ekki enn fengið upplýsingar um áætlanir borgarinnar um framkvæmdir við leikskólann og hvenær þeim muni ljúka. Samkvæmt svörum til foreldra frá borginni í desember kemur fram að málefni Vinagerðis sé í skoðun og ekki búið að taka ákvörðun um framhaldið. Þá kemur jafnframt fram í svarinu að foreldrar verði upplýstir eins fljótt og hægt er. Nú er langt liðið á janúarmánuð og enn hafa foreldrar ekki fengið nein svör um áætlanir borgarinnar varðandi leikskólann. Óskað er eftir að svör fáist sem allra fyrst um áætlanir um leikskólann.
SFS26010128
Fundi slitið kl. 15:45
Helga Þórðardóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Friðjón R. Friðjónsson Kristinn Jón Ólafsson
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
Stefán Pálsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 26. janúar 2026