Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 301

Skóla- og frístundaráð

Ár 2025, 13. október, var haldinn 301. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.16.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Edith Oddsteinsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðjóna Eygló Friðriksdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hjörtur Ágústsson, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. október 2025 ásamt minnisblaði sviðsstjóranna, dags. 3. október 2025:

    Sviðsstjórar skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs leggja til að farið verði í undirbúningsvinnu fyrir húsnæði Vörðuskóla og það verði endurgert og hannað þannig að hægt sé að reka sjálfstætt skóla- og frístundastarf. Jafnframt er lagt til að nýta húsnæði Vörðuskóla, þegar það er tilbúið, fyrir skóla- og frístundastarfsemi sem er í húsnæði sem þarf að fara í stórar viðhaldsframkvæmdir. Í undirbúningsvinnu leiddri af umhverfis- og skipulagssviði verður lagt mat á kostnað og leitað fjárheimildar hjá borgarráði.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. Vísað til borgarráðs. SFS22020011

    Gréta Þórsdóttir Björnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 13.28 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er fagnaðarefni að fara eigi í endurgerð Vörðuskóla þannig að þar sé hægt að reka sjálfstætt skóla- og frístundastarf. Fyrirhugað er að nýta húsnæði Vörðuskóla fyrir skóla- og frístundastarfsemi sem er í húsnæði sem þarf að fara í stórar viðhaldsaðgerðir. Mikil vinna er framundan vegna viðhalds á skóla- og frístundahúsnæði í Reykjavík, því er nauðsynlegt að Reykjavíkurborg hafi yfir að ráða húsnæði sem hægt er að nýta tímabundið á meðan á viðhaldi stendur. Þegar Vörðuskóli hefur lokið hlutverki sínu sem viðhaldshúsnæði þarf að yfirfara mögulegar skólahverfabreytingar til að létta á nemendafjölda Háteigsskóla, t.d. með því að stækka skólahverfi Austurbæjarskóla.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skólabyggingin við Barónsstíg 34 í Reykjavík, Vörðuskóli, er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins en bygging hússins hófst árið 1947 og var það fullbyggt 1949. Reykjavíkurborg keypti bygginguna af íslenska ríkinu árið 2020 og frá árinu 2022 hafa framkvæmdir og endurbætur staðið yfir á húsinu. Að meðtöldum kostnaði við kaup á byggingunni hefur Reykjavíkurborg undanfarin fimm ár fjárfest meira en 1.000 milljónum í þetta húsnæði. Ætla má að byggingin gæti í fyrsta lagi nýst sem skólahúsnæði árið 2028. Með þeirri tillögu sem lögð var fram í dag er ætlunin að klára framkvæmdir við Vörðuskóla og nýta svo húsnæðið sem skóla sem tekur við nemendum er hverfa þurfa frá öðrum skólabyggingum, svo sem vegna mygluframkvæmda og annarra viðgerða. Engin kostnaðaráætlun fylgdi tillögunni og ekki hefur verið tekið ákvörðun um að veita fjárheimild til að fylgja tillögunni eftir. Með hliðsjón af fjárhagslegri framvindu verkefna sem tengjast Vörðuskóla og óvissu um kostnað við að fylgja tillögunni eftir, sitja skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hjá í málinu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar styður að farið verið í uppbyggingu og viðhald á Vörðuskóla. Fulltrúi Framsóknar vill jafnframt benda á að heildstæð framtíðarsýn fyrir þetta fjölmenna og stóra skólahverfi er nauðsynleg. Það liggur á fyrir stjórnendur skólanna, starfsmenn, foreldra og börnin sjálf að sú sýn sé sett fram. Einungis með því að vita að hverju stefnir getur starfsfólk og aðrir skipulagt starf sitt.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir góða kynningu á tillögu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs vegna Vörðuskóla. Í tillögu, 5. lið, kemur fram að finna eigi lausnir til skemmri og lengri tíma, eftir því sem við á, vegna þrengsla og aðstöðuleysis í skóla- og frístundastarfi Háteigs- og Hlíðaskóla. Ljóst er að brýnt er að vinna að úrlausn húsnæðisvanda vegna þrengsla í skóla- og frístundastarfi. Fram kemur að lausnir séu í vinnslu. Á fundi skóla- og frístundaráðs 22. september kom fram að ekki er gert ráð fyrir fjármagni í fjárfestingaáætlun til að bæta aðstöðu í skóla- og frístundastarfi í Háteig og Hlíðum þó að það hafi legið fyrir lengi að brýn þörf er til staðar. Áheyrnarfulltrúi óskar eftir að kynning á þeim lausnum sem eru í vinnslu verði kynntar íbúum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram og kynnt skýrslan Menntastefna Reykjavíkur til 2030, helstu vörður innleiðingar 2023-2024, ódags. SFS22060245

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Menntastefna Reykjavíkurborgar er ein allra mikilvægasta stefna borgarinnar. Hún var unnin í miklu og góðu samráði skólasamfélagsins, foreldra, nemenda, fræðasamfélagsins og almennings, og hefur margsannað gildi sitt. Í þessari skýrslu er fjallað um innleiðingu hennar á árunum 2023-2024, en í henni eru teknar saman 97 almennar aðgerðir. Sérstaklega ber að nefna innleiðingu Menntastefnumóts, fyrir miðlun árangurs og áframhaldandi þróun menntunar, innleiðingu farsældarlaganna og Betri borgar fyrir börn, Torgið, sem er stafrænt fræðslukerfi fyrir starfsfólk og MEMM, sem er samstarfsverkefni með ríkinu um inngildandi menntun og skólaþjónustu. Samstarfsflokkarnir leggja að lokum sérstaka áherslu á mikilvægi læsis í víðum skilningi, þar á meðal tæknilæsi, samfélagslæsi og stafrænt læsi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar vill koma á framfæri þökkum til starfsfólks á skóla- og frístundasviði fyrir faglega og góða vinnu við framþróun menntastefnu Reykjavíkur. Menntastefnan er sviðinu og borginni leiðarljós um hvernig við látum drauma barna okkar rætast. Hornsteinn skólastarfs og menntunar. Árangur okkar er metinn út frá þessari stefnu sem birtist hér með ágætum.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2025, um símafrí í grunnskólum. SFS25090021

    Ingunn Ásta Sigmundsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 14.45 víkur Guðjóna Eygló Friðriksdóttir af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í nýrri aðgerðaáætlun mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrir árin 2025-2027 kemur fram að samræma eigi reglur um notkun síma, snjalltækja og samfélagsmiðla í skóla- og frístundastarfi. Það er jákvætt skref að samræma reglur um símanotkun á skólatíma en foreldrasamfélag grunnskólabarna hefur kallað eftir samræmdum reglum um nokkurt skeið. Um það bil 70% grunnskóla Reykjavíkurborgar hafa lýst því yfir að þeir séu símalausir. Flestir skólar hafa sett sér reglur varðandi símanotkun í samráði við foreldra og nemendur sem eru vel upplýst um símaleysi og tilgang þess. Mikilvægt er þó alltaf að leggja áherslu á samtal milli skólans, barna og foreldra um símanotkun og þróa þetta sem sameiginlegt verkefni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi skóla- og frístundaráðs 11. mars 2024, var, að frumkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, umræða um notkun snjalltækja í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Hér í dag var framhald af slíkri umræðu, símafrí í grunnskólum. Á sínum tíma var umræðan um þetta efni tekin upp vegna alþjóðlegrar þróunar á þessu sviði. Mikilvægt er að skólar í samstarfi við foreldra og nemendur leggist á eitt um skynsamlega notkun snjallsíma. Það úrræði að taka miðlæga ákvörðun um snjallsímafrí í skólum, er umdeilt. Í samráðsgátt stjórnvalda var hinn 3. október síðastliðinn lagt fram frumvarp mennta- og barnamálaráðherra um breytingu á lögum um grunnskóla sem gengur út á að veita ráðherra sértækari heimildir til að kveða á um í reglugerð um notkun síma og snjalltækja í skóla- og frístundastarfi. Ástæða er til að hvetja sem flesta að segja hug sinn um þessar tillögur ráðherra.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum styður heilshugar við símafrí í grunnskólum og vonast til þess að 100% skóla í Reykjavík verði símalausir og að samtal um útfærslu verði við foreldra, börn og starfsfólk skólanna.

    Kl. 14.58 tekur Indriði Nökkvi Þóreyjarson sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. september 2025 ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. október 2025:

    Lagt er til að gerð verði öryggisúttekt á girðingum á útisvæði leikskóla borgarinnar í ljósi þess að upp hafa komið nýleg atvik þar sem leikskólabörn hafa komist auðveldlega yfir girðinguna. Mikilvægt er að tryggja öryggi barna og að farið verði tafarlaust í úrbætur þar sem þess er þörf.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. SFS25090095

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir eru sammála því að mikilvægt sé að tryggja öryggi leikskólabarna og það sé brýnt að bregðast tafarlaust við öllum atvikum sem kunna að ógna öryggi þeirra. Árlegar öryggisúttektir eru framkvæmdar af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og aðalskoðun útivistarsvæða og leikvallatækja er í höndum löggiltra úttektaraðila sem sjá um faglegar úttektir fyrir lóðir skóla og leikskóla. Jafnframt er lögð mikil áhersla á innra eftirlit, sem er skylda rekstraraðila hvers leikskóla. Í því felst að leiksvæðin séu undir daglegu eftirliti með reglubundnum yfirlitsskoðunum til að tryggja að leiksvæðin og girðingar séu örugg á hverjum degi. Í ljósi þessa mikla eftirlits fagaðila þá telja samstarfsflokkarnir ekki frekari þörf á sérstakri öryggisúttekt á girðingum leikskóla, heldur að áfram verði að brugðist við tilfallandi viðhaldi og úrbótum í kjölfar núverandi eftirlits og úttektarferla.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er með ólíkindum að ekki sé talin ástæða til þess að gera úttekt á girðingum leikskóla borgarinnar í ljósi þess að nýleg tilfelli sýna að leikskólabörn hafa komist yfir girðingar á skólatíma. Í þeim tilfellum höfðu ekki verið gerðar umbætur strax jafnvel þótt athugasemdir hefðu borist starfsfólki borgarinnar, meðal annars að girðingarnar þörfnuðust viðhalds og þær þyrftu að hækka.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. september 2025 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2025:

    Bregðast þarf strax við í þeim skólum þar sem þróun lestrarmælinga í 2. bekk er neikvæð. Það verði gert með sérstöku átaki og stuðningi við skólana. Brýnt er að þeir nemendur sem ekki hafa náð aldurssamsvarandi færni fái strax sérstakan stuðning til að ná þeirri færni sem samsvarar aldri þeirra. Mikilvægt er að skoðaðar verði leiðir og aðferðir sem gefist hafa vel í lestrarkennslu á yngsta stigi og því er lagt til að í þeim skólum sem komu verst út í niðurstöðum Lesmáls verði verkefninu Kveikjum neistann komið á laggirnar. Verkefnið snýst um að auðvelda börnum að ná tökum á lestri þar sem markvisst er unnið með kennurum, foreldrum og skólastjórnendum. Í verkefninu er stuðst við bókstafa- og hljóða-lestrarkennsluaðferðina ásamt markvissri þjálfun og eftirfylgni í skólanum. Ennfremur er skipulagi skóladagsins breytt þar sem m.a. hreyfing er fyrri hluta dags á hverjum degi og eftir hádegi fá nemendur svokallaða þjálfunartíma sem ganga út á að nemendur fá áskoranir í lestri og stærðfræði. Slíkt verkefni hefur verið í gangi með góðum árangri t.d. í Vestmannaeyjum þar sem niðurstöður 1. bekkjar voru mjög jákvæðar eftir fyrsta veturinn.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. SFS25090208

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir telja það ekki vænlegt til árangurs að skipa skólum að taka upp ákveðið verkefni eins og Kveikjum neistann vegna tiltekinnar mælingar. Nú þegar hefur verið brugðist við niðurstöðum Lesmáls vorið 2025 hjá Reykjavíkurborg. Farin er í gang vinna með skólum sem eru undir 55% viðmiði og þar er lögð áhersla á að lestrarkennsla í fyrstu árgöngum grunnskólans sé markviss og að gagnreyndar aðferðir í lestrarkennslu séu notaðar. Einnig býður Miðja máls og læsis upp á ráðgjöf til þeirra skóla sem þurfa sérstakan stuðning, þ.e. þar sem fjöldi nemenda sem nær aldurssvarandi hæfni í lestri er undir 60%. Ráðgjafar Miðju máls og læsis veita læsisteymum skólanna ráðgjöf og gerð er aðgerðaráætlun út frá þörfum hvers skóla. Eins skal tekið fram að nú þegar nota grunnskólar í Reykjavík hina svokölluðu hljóðaaðferð. Ef ætti að taka upp heildstæða endurskoðun á kennsluaðferð í læsi, hvort sem það væri aðferðafræði Kveikjum neistann eða önnur, þá þyrfti það að vera gert á faglegum forsendum í samstarfi við skólasamfélagið og fræðasamfélagið, en ekki með pólitísku valdboði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ástæða er til að harma afgreiðslu þessarar tillögu en henni var vísað frá. Afgreiðslan skýtur einnig skökku við í ljósi þess að formaður ráðsins kemur úr Flokki fólksins en á þessu kjörtímabili hefur það stjórnmálaafl margítrekað lagt fram tillögur um að verkefnið Kveikjum neistann verði komið á laggirnar í Reykjavík. Til þess ber að líta að vinna þarf markvisst að því að bæta skipulag og auka úrræði í því skyni að tryggja að sem flest börn í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur hafi viðunandi lestrarfærni. Áskoranir í málaflokknum eru augljósar en það er óviðunandi að tíu skólar í borginni mælast undir 60%, það er, að í þeim skólum hafi yfir 40% nemenda í 2. bekk ekki náð viðunandi tökum á lestri. Þá er það áhyggjuefni að mikill munur er á milli skólahverfa. Hafa ber í huga að 5% stúlkna þurfa samkvæmt skimuninni einstaklingsbundna námsáætlun en 8% drengja. Þá má sjá af skýrslunni Lesmál að 322 nemendur þurfa á sérstökum stuðningi að halda í lestri af þeim 1269 sem tóku þátt í skimuninni eða 25% nemenda. Þessar staðreyndir sýna að mikilvægt er að leitað verði fjölbreyttra lausna sem gefið hafa góða raun sbr. verkefnið Kveikjum neistann.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september 2025:

    Lagt er til að gerð verði sú breyting á fyrri samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. júní 2025 og borgarráðs frá 26. júní 2025 að í stað þess að gerður verði þjónustusamningur til þriggja ára við Tónskóla Sigursveins verði gerður viðauki við samning aðila dags. 18. ágúst 2017 með síðari viðaukum með gildistíma til 31. júlí 2026. Beiðni um breytingu á lágmarki kennslumagns er því synjað. Á samningstímanum fari fram nánari skoðun á beiðni skólans um breytingar á lágmarki kennslumagns sem getið er um í samningi. Að öðru leyti gildir samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. júní 2025 og borgarráðs frá 26. júní 2025.

    Greinargerð fylgir.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22050078

    Fylgigögn

  7. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2026, trúnaðarmál.

    Vísað til borgarráðs. SFS25090109

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. október 2025, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi, 8. október 2025. SFS25080281

    Jóhanna H. Marteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að sjá að staða ráðninga í leikskólum Reykjavíkurborgar er mun betri en í fyrra en samtals á því eftir að ráða í 61,8 stöðugildi en þann 9. október fyrir ári, átti eftir að ráða í 93,6 stöðugildi. Í frístundaheimili/sértækar félagsmiðstöðvar á eftir að ráða í 40,5 stöðugildi en það er sambærilegt þeirri stöðu sem var á sama tíma fyrir ári. Jafnframt er það jákvætt að sjá að hlutfallslega hafa fleiri börn náð fullri vistun í frístund í ár samanborið við sama tíma í fyrra. Flest frístundaheimilanna hafa náð umbeðinni vistun í 1. bekk og 2. bekk en um helmingur hefur náð umbeðinni vistun í 3. og 4. bekk þ.e. börnin sem eru á biðlista og í hlutvistun eru flest í 3. og 4. bekk.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er samkvæmt þeim upplýsingum sem lagðar eru fram í dag að enn á eftir að ráða í 61,8 stöðugildi í leikskólum borgarinnar. Auk þess á eftir að ráða í 22 önnur stöðugildi í stað núverandi starfsfólks sem mun fara í leyfi eða hætta störfum á komandi vikum og mánuðum sem telur þá alls 83,8 stöðugildi sem á eftir að ráða í leikskólana. Enn er því miður langt í land þar til leikskólarnir verða fullmannaðir.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. október 2025, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna í borgarráði um ráðningar kennara og frístundafræðinga, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember 2024. MSS24110037

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. október 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um borð í Dalskóla, sbr. 22. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025. SFS25080260

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. október 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðu úrbóta í leikskólanum Sælukoti ásamt svari Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. september 2025, sbr. 21. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025. SFS25080254 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. október 2025, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um lokanir leikskóla vegna ábendinga Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur ásamt svari Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. september 2025, sbr. 25. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025. SFS25080246 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. september 2025, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um kynningu á leikskóladeildinni Lyngási, sbr. 24. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025. SFS25080245

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. september 2025, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um fræðslu til starfsmanna í leikskólum, sbr. 23. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025. SFS25080244

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. september 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  16. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði lagður fram biðlisti eftir leikskólavist í borgarreknum leikskólum. Þá er jafnframt lagt til að biðlisti eftir plássum á frístundaheimili verði lagður fram.

    Frestað. SFS25100051

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að skóla- og frístundaráð fái kynningu á úttekt Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á öryggi á skóla- og leikskólalóðum í borginni.

    Frestað. SFS25100050

  19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Framsóknar leggur til að settar verði á samræmdar reglur um símafrí í skólum Reykjavíkurborgar. Það verði undirbúið á haustmisseri en til framkvæmdar í upphafi árs 2026.

    Frestað. SFS25100048

  20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fyrir skömmu kom fram í fjölmiðlum að Reykjavíkurborg gefi út leiðbeiningar um afmælishópa barna í borginni. Óskað er eftir upplýsingum um hvar og hvers vegna ákvörðun var tekin um útgáfu þessara leiðbeininga. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um hvort samráð hafi verið haft við skóla- og frístundasvið vegna þessara leiðbeininga. Enn fremur er óskað eftir upplýsingum um kostnað við gerð leiðbeininganna og hverjir komu að vinnunni.

    SFS25100049

Fundi slitið kl. 16:04

Helga Þórðardóttir Alexandra Briem

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Helgi Áss Grétarsson

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. október 2025