Skóla- og frístundaráð
Ár 2025, 8. september, var haldinn 297. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.16.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Einar Sveinbjörn Guðmundsson (F), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Indriði Nökkvi Þóreyjarson, Reykjavíkurráð ungmenna; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfsemi Ásgarðsskóla. SFS25040024
Kristrún Lind Birgisdóttir og Óskar Finnur Gunnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Á fundi skóla- og frístundaráðs 7. apríl síðastliðinn lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að forsvarsmenn Ásgarðsskóla kæmu fyrir ráðið og héldu kynningu um skólann. Það er ánægjulegt að sú kynning fór fram í dag. Einnig er jákvætt að líkur eru á að Reykjavíkurborg haldi áfram samstarfi við Ásgarðsskóla. Til þess ber að líta að Ásgarðsskóli hefur með skipulögðum hætti sinnt fjarkennslu á netinu og sinnt nemendahópi sem hefur af ýmsum ástæðum átt erfitt með að stunda nám í hefðbundnum grunnskólum, svo sem vegna nemenda sem eru langveikir, haldnir skólaforðun og hafa átt í félagslegum örðugleikum. Ástæða er fyrir skólayfirvöld að horfa til starfsemi Ásgarðsskóla og læra af því sem þar hefur gengið vel. Sterkar vísbendingar eru um að árangur Ásgarðsskóla hafi verið framúrskarandi en um það vitna börn, foreldrar og úttektir menntamálayfirvalda.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar í skóla- og frístundaráði lýsir yfir ánægju með að samningar séu að nást við Ásgarðsskóla. Mikilvægt er að þeir nemendur sem þurfa þá aðstoð sem Ásgarðsskóli býður upp á fái til þess stuðning frá borginni. Í skólanum er unnið faglegt starf og hefur Ásgarðsskóli náð miklum árangri með þá nemendur sem þar hafa stundað nám.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum, sbr. 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 7. apríl 2025:
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna óskar eftir því að ráðið fái kynningu á þeim fræðslu- og öryggisnámskeiðum um rétta meðhöndlun og öryggi matvæla sem borgarstjórn samþykkti á fundi 18.3.2025 að gerð yrði krafa um fyrir starfsfólk í eldhúsum í leik- og grunnskólum borgarinnar og sjálfstætt starfandi skólum sem borgin hefur samning við. Í tillögunni er einungis talað um fólk sem ráðið er inn, eru sambærileg námskeið fyrirhuguð fyrir starfsfólk sem þegar starfar í eldhúsum borgarinnar? Sérstaklega væri gott að fá ávarpað hvernig þetta verður frábrugðið námskeiði sem haldið var sem hluti af græna planinu 2022 sjá https://reykjavik.is/graena-planid/thjalfun-matrada og hvernig verður tryggt að þátttaka verði betri en þá.
Samþykkt. SFS25040051
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á aðgerðum varðandi matvælaöryggi í skóla- og frístundastarfi. SFS25090020
Ingunn Ásta Sigmundsdóttir og Hólmfríður Steinþórsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga samstarfsflokkanna um samræmda fræðslu og upplýsingagjöf fyrir allt starfsfólk sem ráðið er til starfa í eldhúsum Reykjavíkurborgar og í sjálfstætt reknum stofnunum var samþykkt samhljóða í borgarstjórn 18. mars síðastliðinn. Rétt meðhöndlun og öryggi matvæla getur skipt sköpum og þar ber Reykjavíkurborg mikla ábyrgð en í hádegi á virkum degi borða um 30 þúsund manns máltíð sem er framreidd á vegum borgarinnar. Fyrir um það bil ári kom upp alvarleg sýking í sjálfstætt starfandi leikskóla þar sem mörg ung börn sýktust, sum lífshættulega. Það er ábyrgðarhluti að bregðast við slíku atviki með því að fara yfir fyrirkomulag með það að markmiði að fyrirbyggja að það endurtaki sig. Við fögnum því að vel er staðið að þessari fræðslu fyrir starfsfólk borgarinnar og ítrekum nauðsyn þess að skýra verklag og utanumhald þannig að hægt sé að tryggja hana á öllum eldhúsum.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna þakkar fyrir góða kynningu á þeirri vinnu sem stendur yfir til þess að bæta matvælaöryggi í skóla- og frístundastarfi í Reykjavík. Æskilegt væri að kynna beint fyrir foreldrum hver staðan er á þessari vinnu og hver næstu skref verða í henni. Margir foreldrar finna fyrir óöryggi eftir að upp kom alvarleg matareitrun á leikskóla í Reykjavík og nauðsynlegt að skýrt sé hvernig verið er að bæta fræðslu varðandi matvælaöryggi og kröfur til starfsfólks til að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst aftur.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir góða kynningu um matvælaöryggi í skóla- og frístundastarfi. Í frístundaheimilum skóla- og frístundasviðs er boðið upp á síðdegishressingu og í félagsmiðstöðum er oft boðið upp á matarhressingu. Mikilvægt er að tryggja það að hægt sé að bjóða upp á mat sem framreiddur er af fagmennsku og í þar til gerðri aðstöðu sem að hentar fyrir matvælaframreiðslu. Gott er að vita að það eigi að rýna matvælaöryggi í frístundastarfi líkt og í skólum og búið sé að útbúa fræðslu fyrir starfsfólk um matvælaöryggi.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 17. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025:
Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði biðlisti eftir leikskólaplássum lagður fram.
Samþykkt. SFS25080257
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mikið fagnaðarefni að staða biðlista eftir leikskólaplássi er mun betri en síðustu ár. Nú eru alls 467 börn 12 mánaða eða eldri á biðlista eftir leikskólaplássi en þau voru 653 á svipuðum tíma í fyrra. Af þeim hóp eru 74 börn sem voru 18 mánaða eða eldri þann 1. september, en þau hafa öll bæst við listann frá því að stóru úthlutuninni lauk í vor. Á svipuðum tíma í fyrra var þessi fjöldi 183. Á biðlistanum eru svo 393 börn á aldrinum 12 til 18 mánaða, miðað við 1. september en í fyrra voru þau 470. Þessi jákvæða þróun gefur tilefni til bjartsýni um að enn frekar muni ganga á biðlistana þegar yfirstandandi viðhaldsverkefnum mun ljúka á leikskólum víðs vegar um borgina.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025:
Lagt er til að á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs verði lagður fram biðlisti eftir plássi á frístundaheimili borgarinnar.
Samþykkt. SFS25080258
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. september 2025, um stöðu ráðninga og innritunar í skóla- og frístundastarfi 3. september 2025. SFS25080281
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mjög ánægjulegt hve vel ráðningar hafa gengið á árinu, en það er ljóst að það er til lítils að byggja skólabyggingar og fjölga deildum ef ekki fæst gott starfsfólk til þess að vinna störfin. Reykjavíkurborg hefur staðið í ströngu við að bæta starfsumhverfi í leik- og grunnskólum, sem og í frístunda- og félagsstarfi, ásamt því að bæta húsakost og þó enn sé margt hægt að gera betur er gott að sjá að þessi áhersla er farin að skila sér. Eftir á að ráða í 39 grunnstöðugildi á deildum, sérkennslu og stjórnun í leikskólum miðað við 75,8 stöðugildi í fyrra, 46,9 stöðugildi í grunnskólum miðað við 68,1 í fyrra og 79 stöðugildi í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum miðað við 67,9 stöðugildi í fyrra. Því ber þó að halda til haga að þessar tölur geta breyst hratt á fyrstu vikum haustsins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að enn eina ferðina hefur ekki tekist að stytta biðlista en núna í lok kjörtímabilsins er enn langt í land þar til hægt verði að standa við loforð sem gefin voru í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 2022 um að öll börn frá 12 mánaða aldri fái pláss á leikskóla. Staðan hefur lítið breyst frá upphafi kjörtímabilsins þegar 523 börn voru á biðlista eftir leikskóla haustið 2022 en eru nú 467. Þá má gera ráð fyrir að 150 börn bætist við biðlistann á hverjum mánuði og samkvæmt því má ætla að börn á biðlista verði því um 1067 um áramót. Þessar staðreyndir sýna að meirihlutaflokkunum hefur mistekist að taka á leikskólavandanum enda neitað að leita fjölbreyttra lausna til að vinna bug á honum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. maí 2025:
Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsmanna í leikskólum óska eftir því að skóla- og frístundaráð fjalli um vinnu Starfshóps um breytingar á leikskólakerfinu í Reykjavík sem hefur verið að skoða leiðir í sambandi við 36 stunda vinnuviku og hvaða leiðir borgin vill fara í að bæta starfsaðstæður eins og gert hefur verið í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá við afgreiðsluna. SFS25050043
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 25. ágúst 2025:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að skóla- og frístundasviði verði falið að hefja strax undirbúning þess að samræmd próf verði tekin upp að nýju í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar til að tryggja samræmi í námsmati milli skóla. Prófin verði lögð fyrir í 4., 7. og 10. bekk og verða þau lögð fyrir í fyrsta skipti að nýju vorið 2026. Undirbúningur samræmdra prófa verði unnin í samstarfi við skólastjórnendur, kennara, foreldra og fræðafólk á Menntavísindasviði. Samræmdu prófunum fylgi kennsluátak fyrir þá nemendur sem helst þurfa á því að halda.
Greinargerð fylgir.
Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Pírata, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. MSS24090003
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Vegna tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að tekin verði upp samræmd próf í 4., 7. og 10 bekk þá vilja samstarfsflokkarnir benda á að það er á höndum menntamálayfirvalda að ákveða tilhögun samræmdra prófa. Í sumar samþykkti Alþingi lög um breytingar á lögum um grunnskóla. Þessar breytingar fela í sér að nýtt námsmatskerfi, matsferill, verður innleitt í alla grunnskóla landsins skólaárið 2025-2026. Í lögunum er kveðið skýrt á um að samræmt námsmat verði skylda í íslensku og stærðfræði í 4., 6. og 9. bekk. Með nýju námsmati verður hægt að bera niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla saman á landsvísu. Þessi nýju matstæki munu gefa aukna möguleika á fjölbreytni og að börnum sé mætt í samræmi við þarfir þeirra. Matsferill er safn matstækja sem ætlað er að gefa heildstæða mynd af stöðu og framvindu nemenda í námi. Fulltrúar Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna fagna nýju námsmati og telja að það sé mun betra matstæki en gömlu samræmdu prófin.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að brugðist verði tafarlaust við þeirri stöðu sem uppi er í skólakerfinu en síðustu PISA-kannanir veita vísbendingar um að staða íslenskra grunnskólanema í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum sé óviðunandi. Nær 50% drengja og þriðjungur stúlkna geta ekki lesið sér til gagns að lokinni tíu ára skólagöngu. Frá́ árinu 2009, hefur íslenskur grunnskóli dalað um 64 PISA-stig í lesskilningi en það nemur rúmlega þremur heilum grunnskólaárum. Ísland er neðst Norðurlandanna í́ síðustu PISA-könnun, næstneðst allra Evrópuríkja og í 6. neðsta sæti allra þátttökuríkjanna. Allt eru þetta afgerandi vísbendingar um slæma stöðu skólakerfisins. Brýnt er að grípið verði til aðgerða án tafar, setja skýra mælikvarða og sýna metnað til að koma skólakerfinu í fremstu röð. Í þeirri viðleitni er mikilvægt að innleiða samræmd próf á ný, færa einkunnir aftur á talnakvarða og gera kröfur um árangur í PISA og læsi. Nánast öll önnur þátttökuríki PISA-kannanna viðhafa samræmd próf, s.s. Eistland, sem kom best út allra Evrópuríkja og Finnland sem stóð sig best Norðurlandanna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að skóla- og frístundaráð hafi í dag vísað tillögu sinni frá um upptöku samræmdra prófa í Reykjavík í 4., 7. og 10. bekk.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. september 2025, um endurnýjun samnings við Myndlistaskólann í Reykjavík vegna almennra vetrarnámskeiða fyrir börn og ungmenni ásamt drögum að samningi og reglum Reykjavíkurborgar um styrki frá 2017:
Á fundi skóla- og frístundaráðs þann 26. maí 2025 og á fundi borgarráðs þann 5. júní 2025 var samþykkt að gera samning til þriggja ára við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Að beiðni forsvarsmanna Myndlistaskólans í Reykjavík er óskað eftir að samþykktum þriggja ára samningi verði breytt í samning til eins árs þar sem skólinn telur tilefni til að gera breytingar á samningsfjárhæð til lengri tíma litið. Vegna framangreinds er lagt til að samþykkt verði að gera samning til eins árs við Myndlistaskólann í Reykjavík að upphæð 22.000.000 kr. Tímabil samnings verði 1. ágúst 2025 – 31. júlí 2026. Gerður er fyrirvari um að uppfylltar séu samningsbundnar skyldur samkvæmt núgildandi samningum. Samhliða er lagt til að fyrri samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 26. maí 2025 og borgarráðs frá 5. júní 2025 um samning við Myndlistaskólann til þriggja ára verði felld úr gildi. Kostnaður vegna styrks til Myndlistaskólans rúmast innan fjárheimilda skóla- og frístundasviðs til listfræðslu vegna ársins 2025.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25030161
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. febrúar 2025, þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, sbr. 8. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 28. janúar 2025, er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. ágúst 2025:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að beita sér fyrir því að allar félagsmiðstöðvar hafi til umráða húsnæði og búnað til að halda úti faglegu félagsmiðstöðvastarfi í samræmi við viðmið og stefnur Reykjavíkurborgar eigi síðar en haustið 2028.
Greinargerð fylgir.
Tillagan er lögð fram svo breytt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að beita sér fyrir því að allar félagsmiðstöðvar hafi til umráða húsnæði og búnað til að halda úti faglegu félagsmiðstöðvastarfi í samræmi við viðmið og stefnur Reykjavíkurborgar eigi síðar en haustið 2028.
Samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt. MSS25010164
Ísgerður Esja Nóadóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ungmennaráð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða leggur til að skóla- og frístundaráð beiti sér fyrir því að allar félagsmiðstöðvar hafi til umráða húsnæði og búnað til að halda úti faglegu félagsmiðstöðvastarfi í samræmi við viðmið og stefnur Reykjavíkurborgar. Samstarfsflokkarnir fagna þessari tillögu og leggja áherslu á að tekið verði tillit til tillögu ungmennaráðsins í þeirri samningagerð sem framundan er í kjölfar samþykktar reglna um nýtingu húsnæðis starfsstaða skóla- og frístundasviðs. Í greinargerð með tillögu frá Reykjavíkurráði ungmenna kemur fram að það eigi að vera hægt að taka á móti a.m.k. helmingi nemenda í einu, hvort sem er á unglinga- eða miðstigi. Samstarfsflokkarnir leggja til að þessi atriði verði höfð að leiðarljósi í þeirri samningagerð sem fyrirhuguð er í haust þar sem ljúka á við gerð viðmiða fyrir byggingar og lóðir grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fyrir að vekja athygli á húsnæði félagsmiðstöðva og að það samræmist viðmiðum og stefnum Reykjavíkurborgar. Nú hefur vinnsla á nýjum húsnæðisviðmiðum í skóla- og frístundastarfi verið í vinnslu í langan tíma og mikilvægt er að hraða vinnslu á málinu. Klára þarf innleiðingu á reglunum um 1. og 2. notanda og samninga milli aðila. Rekstraraðili þarf að hafa rétt úthlutað fjármagn til að reka húsnæðið þar sem starfið fer fram. Starf félagsmiðstöðva er grunnþjónusta hjá skóla- og frístundasviði og fylgir reglum um félagsmiðstöðvar, menntastefnu Reykjavíkurborgar, frístundastefnu og fleiri lögum og reglum sem um starfið gilda. Skóla- og frístundasvið býður upp á metnaðarfullt og framsækið frístundastarf og mikilvægt er að tryggja að það starf geti farið fram í viðeigandi húsnæði sem að uppfyllir viðmið um frístundastarf. Á síðasta fund skóla- og frístundaráðs komu inn fulltrúar frá Jafningjafræðslunni sem að bentu á mikilvægi þess að borgin haldi úti góðu frístundastarfi, bæti frekar í en dragi úr. Mikilvægt er að hlusta á ákall unglinga og ungmenna um bætta aðstöðu og aukið starf félagsmiðstöðva.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. september 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. Jafnframt lagðar fram viðbótarupplýsingar um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla og frístundasviðs, trúnaðarmál. SFS22080009
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. ágúst 2025, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um starfsemi Brákarborgar, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. maí 2025. SFS25050017
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. september 2025, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda barna með leikskólapláss innan hverfis, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. ágúst 2025. MSS25080058
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að gerð verði öryggisúttekt á girðingum á útisvæði leikskóla borgarinnar í ljósi þess að upp hafa komið nýleg atvik þar sem leikskólabörn hafa komist auðveldlega yfir girðinguna. Mikilvægt er að tryggja öryggi barna og að farið verði tafarlaust í úrbætur þar sem þess er þörf.
Frestað. SFS25090095
-
Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi tillögu:
Áheyrnarfulltrúi grunnskólakennara leggur til að skóla- og frístundaráð fái kynningu á starfi íslenskudeildanna í grunnskólum borgarinnar. Deildirnar eru fjórar og þangað sækja nám nemendur sem nýfluttir eru til landsins. Deildirnar eru staðsettar í Austurbæjarskóla, Breiðholtsskóla, Vogaskóla og Ingunnarskóla. Það væri mjög gagnlegt að ráðið fengi upplýsingar um hvernig tekið er á móti börnum sem flytja til landsins og hvernig íslenskukennslu fyrir þau er háttað þegar þau taka fyrstu skrefin í skólakerfinu hérlendis.
Frestað. SFS25090096
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver var meðalaldur barna við inngöngu (ekki innritun) í borgarreknum leikskólum í ágúst-september á ári hverju á tímabilinu 2019–2025? Tekið er fram að verið er að spyrja um meðalaldur barna sem hófu leikskólagöngu í fyrsta skipti, þ.e. höfðu ekki áður verið í leikskóla, t.d. í öðru sveitarfélagi eða hjá sjálfstætt starfandi leikskóla.
SFS25090097
Fundi slitið kl. 16:13
Helga Þórðardóttir Alexandra Briem
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Einar Sveinbjörn Guðmundsson
Helgi Áss Grétarsson Marta Guðjónsdóttir
Stefán Pálsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 8. september 2025