Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 281

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 14. október var haldinn 281. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.17.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Sabine Leskopf varaformaður (S), Alexandra Briem (P), Ásta Björg Björgvinsdóttir (B), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir (D) og Sara Björg Sigurðardóttir (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Arnheiður Helgadóttir, skólastjórar í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum og Leona Iguma, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason og Soffía Pálsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2024, um Réttindaskóla, Réttindafrístund og Réttindaleikskóla og stöðu innleiðingar á Barnasáttmálanum í starfi skóla- og frístundasviðs í samvinnu við UNICEF ásamt drögum að samkomulagi UNICEF á Íslandi og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins Réttindaskóli og -frístund UNICEF og reglum Reykjavíkurborgar um styrki, dags. 25. maí 2017.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS22020013

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ráðið þakkar fyrir kynningu á stöðu innleiðingar barnasáttmálans í skóla- og frístundastarfi en Alþingi Íslendinga lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins í mars 2013. Fullur vilji er hjá skóla- og frístundasviði að tryggja að öll starfsemi sviðsins muni taka mið af þeim skuldbindingum sem leiða af lögfestingu samningsins. Við viljum vinna markvisst að innleiðingu Barnasáttmálans í öllu starfi m.a. með því að fara í aukið samstarf við UNICEF um vinnu við Réttindaskóla barna.

    Kl. 13.25 tekur Þorkell Sigurlaugsson (D) sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2024, um samstarfssamninga við Móðurmál, samtök um tvítyngi og Vinasamtök pólska skólans vegna pólska skólans um móðurmálskennslu ásamt drögum að samstarfssamningi við Móðurmál, samtök um tvítyngi og drögum að samstarfssamningi  við Vinafélag pólska skólans.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS23090177

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skv. barnasáttmálanum eiga öll börn rétt til að tala sitt tungumál og viðhalda menningu sinni. Það er grunnstoð þeirrar innigildingar sem er nauðsynleg til að öll börn fái að njóta sín til fulls og að þeirra bakgrunnur sé metinn að verðleikum. Stuðningur við móðurmál spilar lykilhlutverk og fagna fulltrúar ráðsins því að stuðningur sé kominn í að trygga umgjörð.

    Kl. 13.33 tekur Linda Ósk Sigurðardóttir sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram greinargerð skóla- og frístundasviðs við framlagningu árshlutauppgjörs janúar-júní 2024, dags. 5. september 2024. SFS24080105

    Kl. 13.40 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum og Þorkell Sigurlaugsson víkur af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er ánægjulegt að sjá afrakstur EDDU, nýja fjárhagsáætlunarlíkans grunnskólanna sem tekið var í notkun í upphafi árs 2022 og náði sínu fyrsta heila fjárhagsári árið 2023, ná utan um rekstur grunnskóla borgarinnar en þá fylgdi viðbótar fjárframlag til að fullgreiða stoðþjónustu innan grunnskólanna. Má sjá jákvæðan viðsnúning strax á fyrstu mánuðum ársins upp á 119 milljónir en Eddan stýrir hvernig fjármagni er úthlutað til einstakra skóla, tekur mið af félagslegum og lýðfræðilegum þáttum hvers skóla við úthlutun fjármagns. Samhliða hafa skólastjórnendur aukið frelsi til að ráða inn fagfólk eftir þörfum sinna skóla, sem gagnast þegar upp er staðið fyrst og fremst börnum og fjölskyldum þeirra.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Athygli vekur að hlutfallslega stærstu frávikin frá áætlun má rekja til kostnaðar vegna mönnunarvanda í leik- og grunnskólum, framkvæmda og viðhalds og greiðslu skólaþjónustu nemenda í öðrum sveitarfélögum, en fjölmörg börn þurfa að sækja nám langar leiðir vegna skorts á réttum úrræðum í skólaþjónustu í borginni. Í sögulegu ljósi eru nú langtum fleiri útsvarsgreiðendur að baki hverju barni en nokkru sinni fyrr, sem réttilega gera kröfu um að uppbygging skólatengdra innviða mæti þörfum borgarbúa. Þarna er verulega ábótavant.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., apríl-júní 2024, dags. 24. september 2024. SFS24080106

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samræmd próf í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 17. september 2024 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. október 2024:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að Reykjavíkurborg fari þess á leit við barna- og menntamálaráðherra að samræmd próf verði tekin upp að nýju í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla í þeim tilgangi að bæta námsárangur grunnskólanema. Samræmdu prófunum fylgi kennsluátak fyrir þá nemendur sem helst þurfa á því að halda.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. MSS24090003

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs apríl-júní 2024, dags. 2. október 2024. SFS24080107

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2024, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 9. október 2024. SFS24080310

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er af þeim tölum sem fyrir liggja að enn vantar að ráða í rúmlega  93,1  stöðugildi á leikskólum. Auk þessara stöðugilda vænta leikskólastjórar þess að þeir þurfi að ráða í um 17 önnur stöðugildi í stað núverandi starfsfólks sem mun fara í leyfi eða hætta störfum á komandi vikum og mánuðum en þetta gerir alls 110,1 stöðugildi sem vantar að ráða í. Ljóst er að afleiðingar viðvarandi manneklu á leikskólum kemur niður á inntöku barna í leikskóla. Staðan er alvarleg  en ekki er hægt að nýta 140 pláss vegna manneklu og 363 pláss vegna framkvæmda og viðhalds á leikskólunum sem gerir samtals 510 pláss. Meðalaldur barna við inntöku á leikskóla hefur farið hækkandi þannig að þau eru nú komin vel á þriðja ár þegar þau fá pláss. Enn eru rúmlega 600 börn sem eru á biðlista þegar langt er liðið á haustið. Bregðast þarf við þessari stöðu og leita allra leiða til að manna leikskólana sem fyrst.

    Áheyrnarfulltrúar kennara í grunnskólum og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Kennarar í Reykjavík gera alvarlegar athugasemdir við þau ummæli sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri lét falla á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í liðinni viku. Kennurum í Reykjavík finnst borgarstjóri hafa vegið að starfsheiðri sínum. Orð hans lýsa algjöru skilningsleysi á kennarastarfinu, þar sem hann fullyrðir að kennarar semji sig frá kennsluskyldu, vinnuskyldu og annarri viðveru. Að halda því fram að kennarar sækist eftir minni samveru með börnum er svívirðileg móðgun við kennara sem hafa menntað sig til þess að starfa með börnum. Það sem gerir ummæli hans sérstaklega ámælisverð er að hann er æðsti yfirmaður kennara í Reykjavík. Borgarstjóri veltir upp þeirri hugleiðingu hvort sveitarfélögin séu að fá rétta vinnuframlagið fyrir þá þjónustu sem þau þurfi lögum samkvæmt að veita. Hann segir jafnframt að kennarar séu veikari en nokkru sinni fyrr, kenni minna og hafi aukinn undirbúningstíma. Þessi orð borgarstjóra eru alvarleg og sett fram án nokkurs rökstuðnings. Orðum fylgir ábyrgð og með því að tala á þennan hátt til kennara á opinberum vettvangi samþykkir borgarstjóri virðingarleysi í garð kennara.

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skólastjórnendur harma orð borgarstjóra Reykjavíkur og taka undir hvert orð í ályktun trúnaðarmanna og stjórna Kennarafélags Reykjavíkur og 1. deildar leikskólakennara. Góðir skólar byggja á góðum kennurum, við þurfum að tala um stéttina af virðingu og skilningi. Orð borgarstjóra sýndu algera vanþekkingu á þessum mikilvægu störfum. Kennarar vilja vera með börnum, þeir þurfa undirbúningstíma til að geta tryggt góða kennslu. Veikindi eru áhyggjuefni, álag er áhyggjuefni, loftgæði í skólum er áhyggjuefni. Við höfum ekki þessa hluti í flimtingum.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um launakostnað, sbr. 19. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. júní 2024. SFS24060058

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða óheyrilegan launakostnað við átta manna yfirstjórn skóla- og frístundasviðs eða sem nemur 168.644.165 kr. auk launatengdra gjalda að upphæð 42.161.041 kr. Meðalárslaun eru því 21.080.521 kr. eða 1.756.682 kr. á mánuði. Laun yfirstjórnar sviðsins eru sambærileg launum ráðherra í ríkisstjórn. Svo leyfir borgarstjóri sér að skipta sér af kjaradeilu kennara með því að gera lítið úr þeirra störfum á sama tíma og hann er að eyða fúlgum fjár í yfirstjórn kerfisins. Borgarstjóri ætti kannski að líta sér nær, skera niður í yfirbyggingu báknsins og nýta fjármagnið í þágu barnanna í umbætur í skólakerfinu sem stendur höllum fæti. Nær helmingur drengja og þriðjungur stúlkna geta ekki lesið sér til gagns að loknum grunnskóla og starfsaðstæður í grunnskólum og leikskólum oft bagalegar vegna viðhaldsleysis.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 23. september 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stöðugildi á Afleysingastofu, sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 10. júní 2024. SFS24060057

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um matarsóun í grunnskólum, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september 2024. Einnig lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. september 2024. MSS24090020

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um lestrarkennslu, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september 2024. Einnig lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. október 2024. MSS24090021

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. september 2024,  við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um afslátt af leikskólagjöldum fyrir námsmenn, sbr. 19. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. september 2024. SFS24090217

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. október 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS22080009

    Fylgigögn

  14. Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080125

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að breyta fyrirkomulagi biðlista í leikskóla Reykjavíkur svo að umsókn barna verði ekki fjarlægð af biðlistum fyrr en leikskóladvöl þeirra er formlega hafin. Þá megi tryggja að öll þau börn sem geta ekki hafið leikskóladvöl vegna aðstæðna í leikskólanum þó þau hafi fengið úthlutað pláss haldi virkri umsókn á biðlista. Í núverandi fyrirkomulagi eiga þessi börn ekki möguleika á að komast inn í aðra leikskóla því umsókn þeirra fellur niður þegar þau fá samþykkt leikskólapláss, á sama tíma er ekki hægt að sækja um flutning fyrr en leikskóladvöl er formlega hafin.

    Greinargerð fylgir.

    Frestað. SFS24100108

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15.24

Sabine Leskopf Alexandra Briem

Ásta Björg Björgvinsdóttir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sara Björg Sigurðardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 14. október 2024