Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 273

Skóla- og frístundaráð

Ár 2024, 13. maí, var haldinn 273. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.14.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður (B), Alexandra Briem (P), Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir (J), Guðný Maja Riba (S), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Arndís Steinþórsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Helgi Eiríksson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum og Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á samstarfsverkefni Tónlistarskóla Árbæjar og Árbæjarskóla um hópkennslu í hljóðfæraleik. SFS22030264 

  Aino Freyja Jarvela og Stefán Stefánsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúarnir þakka þeim sem komu að þessu samstarfsverkefni í Árbænum. Mjög ánægjulegt er að sjá þann mikla árangur sem orðið hefur af þessu samstarfsverkefni og gott að sjá þá eflingu þátttakenda sem raun ber vitni. Það er mikilvægur þáttur í stefnu Reykjavíkurborgar um tónlistarnám að efla aðgengi nemenda að tónlistarnámi og þetta verkefni er til fyrirmyndar í því.

  Kl. 13.25 taka Guðrún Gunnarsdóttir og Albína Hulda Pálsdóttir sæti á fundinum.

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata ásamt skýrslu starfshóps um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi, ódags. og skýrslu um undirbúning framkvæmda vegna skóla- og frístundastarfs í Laugardal, dags. í nóvember 2023: 

  Lagt er til að fallið verði frá fyrri ákvörðun um að sviðsmynd 1 í ódags. skýrslu starfshóps um framtíðarsýn skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi komi til framkvæmda. Þess í stað komi til framkvæmda að móta skóla- og frístundastarf í Laugardalnum til framtíðar samkvæmt sviðsmynd 4 í skýrslu starfshóps um undirbúning framkvæmda, dags. í nóvember 2023. Verkefnastjóri verði fenginn að verkefninu til að tryggja rétt upplýsingaflæði, tímaramma og verkáætlanir.

  Greinargerð fylgir.

  Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:

  Skóla- og frístundaráð samþykkir að óska eftir umsögnum skólaráða og foreldrafélaga Laugarnesskóla, Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Álftamýrarskóla auk frístundaheimila og félagsmiðstöðva í Laugarnes- og Langholtshverfi, íbúaráðs Laugardals og ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða vegna tillögu um að til framkvæmda komi að móta skóla- og frístundastarf í Laugardalnum til framtíðar samkvæmt sviðsmynd 4 í skýrslu starfshóps um undirbúning framkvæmda, dags. í nóvember 2023. 

  Samþykkt. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS22020010

  Ámundi V. Brynjólfsson, Sigurjón Bjarni Bjarnason, Þórdís Eik Friðþjófsdóttir, Ásgeir Björgvinsson og Hjördís Rut Sigurjónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir það faglega mat á framtíð skólahúsnæðis í Laugardal sem hér er lagt fram. Forsendur hafa breyst hratt á síðasta ári, m.a. vegna þess að nú liggur fyrir ákvörðun um byggingu Þjóðarhallar. Einnig er mikilvægt að nú liggur skýrt fyrir hvaða lóð mögulegur unglingaskóli fengi. Þeir áhættuþættir sem áður hafa verið til umræðu breytast miðað við nýjar forsendur, en miðað við þá úttekt sem hér er lögð fram er það ljóst að þegar tekið er tillit til ráðgerðs tímaramma framkvæmda, rasks á skólastarfi á framkvæmdatíma og nýtingar húsnæðis, aðstæðna á skólalóðum og í húsnæðum skólanna, þróunar hverfisins og fyrirséðrar húsnæðisþarfar, þá horfa við breyttar aðstæður og ljóst að sviðsmynd 4 hugnast best. Mikilvægt er að fá umsagnir frá samfélaginu á þeirri sviðsmynd, en hún hefur langlægsta áhættumatið.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með bókun á fundi skóla- og frístundaráðs 3. október 2022 fögnuðu skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þeirri niðurstöðu að framtíðaruppbygging skóla- og frístundastarfs í Laugardalnum yrði reist á svokallaðri sviðsmynd 1, það er, að byggt yrði við þá skóla sem fyrir eru í hverfinu, Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla. Meirihlutinn í ráðinu vill núna fella þá ákvörðun úr gildi. Í því skyni að undirbúa þá ákvörðun vill meirihlutinn leita eftir samráði við helstu hagaðila í hverfinu. Út af fyrir sig eru skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sammála því en á hinn bóginn ber að líta til þess að upplegg meirihlutans byggir á niðurstöðum sérfræðinga sem er frá nóvember 2023 en það var ekki fyrr en núna, í byrjun maí 2024, að málið var með velvilja minnihlutaflokkanna í ráðinu tekið fyrir með afbrigðum á fundinum í dag. Sú lausn sem meirihlutinn leggur núna upp með (sviðsmynd 4, nýr unglingaskóli) mun hafa mikil áhrif á hverfið, þar með talið á umferðarskipulag hverfisins þar eð óhjákvæmilega verður þrengt verulega að umferð fjölskyldubílsins með sviðsmynd 4. Með hliðsjón af þessum annmörkum á vinnubrögðum meirihlutans treystu skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sér ekki til að samþykkja áframhaldandi vegferð málsins og sátu því hjá.

  Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

  Á sínum tíma áttu skólastjórar Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla ríkan þátt í starfshópi og samráðsferli um framtíðarskipan skólamála í Laugardal. Sá starfshópur skilaði af sér skýrslu sem var kynnt fyrir tæpum tveimur árum þar sem ákveðnar voru aðgerðir sem beðið hefur verið eftir að ráðist verði í. Félag skólastjórnenda í Reykjavík vill vekja athygli á því að skólastjórar skólanna áttu ekki sæti í þeim starfshópi sem nú kynnir niðurstöður sínar, né vissu af þeirri vinnu sem var í gangi. Þessi bókun er gerð til að vekja athygli á þessu óheppilega vinnulagi.

  Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

  Afar mikilvægt er að samráð sé haft við kennara og starfsfólk hlutaðeigandi skóla við svo viðamiklar breytingar á skólastarfi í Laugarnes- og Langholtshverfi. Hversu mikið samráð hefur verið haft við hlutaðeigandi skóla við undirbúningsvinnu skýrslunnar, kennara og skólastjórnendur?

  Kl. 14.45 víkur Frans Páll Sigurðsson af fundinum. 

  Fylgigögn

 3. Fram fer kynning á stöðu innritunar í leikskóla vorið 2024. SFS24050036 

  Eyrún Einarsdóttir og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Enn eina ferðina hefur ekki tekist að stytta biðlista á leikskóla og langt er í land að hægt verði að standa við loforð sem gefin voru rétt fyrir kosningar um að öll börn frá 12 mánaða aldri fengju pláss á leikskóla. Staðan er svipuð og á sama tíma fyrir ári en nú eru 803 börn á biðlista og þar af er um að ræða 548 börn 12-17 mánaða og 255 börn 18 mánaða og eldri. Hér ríkir því enn neyðarástand í leikskólamálum sem þarf að bregðast við strax með því að leita fjölbreyttra lausna eins og við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum margsinnis lagt til.
   

 4. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem á fundi borgarstjórnar 9. apríl 2024 var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs: 

  Borgarstjórn samþykkir að leita samstarfs við að lágmarki fimm grunnskóla í Reykjavík um tilraunaverkefni með svokallaða fimm ára bekki. Markmið tilraunaverkefnisins verði að tryggja aukna tengingu milli leik- og grunnskóla, styðjast við kennsluaðferðir beggja skólastiga og hugsa menntun barna með heildstæðum hætti allt frá unga aldri til loka grunnskólagöngunnar. Fyrirkomulag tilraunaverkefnisins gefi foreldrum kost á að sækja um að skólaganga barna þeirra hefjist við fimm ára aldur í hlutaðeigandi þátttökuskólum og að henni ljúki á fimmtánda aldursári í stað þess sextánda. Við val á þátttökuskólum verði tekið mið af biðlistum leikskóla og þeir skólar settir í forgang sem staðsettir eru innan hverfa þar sem leikskólavandinn er mestur. Með tilraunaverkefninu megi því samhliða rýma aukinn fjölda leikskólaplássa og bregðast að hluta við biðlistavanda leikskólanna. Tilraunaverkefnið hefjist haustið 2024 og verði endurmetið að ári liðnu. Skóla- og frístundaráð skipi samhliða þriggja manna starfshóp sem fylgi verkefninu eftir og dragi saman niðurstöður eigi síðar en vorið 2025. Tilraunaverkefnið hefjist haustið 2024 og verði endurmetið að ári liðnu. 
  Greinargerð fylgir.

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. MSS24030105

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar meirihlutans fagna því að fram komi tillögur sem snúa að nýsköpun í skólastarfi. Hins vegar er hér lögð til gífurlega víðtæk kerfisbreyting sem óskýrt er hvernig ætti ein og sér að fjölga leikskólaplássum. Þvert á móti mætti gera ráð fyrir auknum flutningi menntaðra leikskólakennara yfir í grunnskóla, sem gæti veikt stöðu leikskólanna sem fyrsta skólastígs verulega. Einnig er tilgreint markmið tillögunnar að tryggja aukna tengingu milli leik- og grunnskóla með því að styðjast við kennsluaðferðir beggja skólastiga. Það er verðugt markmið og í samræmi við það aukna samstarf skólastiga og frístundar sem náðst hefur í gegnum verkefnið Betri borg fyrir börn, tilraunaverkefnið „fyrr í frístund“ og samstarf leikskólanna Holts og Aspar við Fellaskóla. Þessa mikilvægu tengingu er hægt að vinna með án þess að stíga svo afgerandi skref að breyta skilum skólastiga leik- og grunnskóla. Ekki eru taldar nægilegar faglegar forsendur fyrir slíkri umbreytingu menntakerfisins og tillagan er því felld.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ljóst er að aldrei hefur verið vilji af hálfu meirihlutans að skoða kosti þess að gera tilraun með fimm ára bekki í grunnskóla. Það staðfestist hér í dag. Meirihlutinn í borgarstjórn vísaði tillögunni til meðferðar í skóla- og frístundaráði. Engin umsögn fylgdi afgreiðslu málsins í ráðinu og umræður á fundinum látnar duga til að fella og slá tillöguna af í stað þess að tillagan yrði send í faglega rýni áður en ákvörðun yrði tekin. Hér er því miður um sýndarmennsku og leikaraskap að ræða hjá fulltrúum meirihlutans.

  Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

  Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum vill vekja athygli á ályktun Félags leikskólakennara og tekur undir hana um hugmyndir um að 5 ára börn fari í grunnskóla: „Í ljósi frétta um vettlingagjörning Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkurborgar vill stjórn Félags leikskólakennara taka fram að það er engin formleg vinna í tengslum við kjarasamninga í gangi varðandi skipulagningu skólastarfs í leikskólum og því síður vinna í gangi að skoða að taka 5 ára börn í grunnskóla. Stjórn Félags leikskólakennara leggst gegn hugmyndum sem einhvers konar lausn á vanda leikskólastigsins að taka börn 5 ára í grunnskóla og er það sýn félagsins að það sé ekki börnum fyrir bestu. Stjórn Félags leikskólakennara leggur til að í stað innihaldslausra skyndilausna og gjörninga sem engu skila að sveitarfélögin uppfylli að fullu undirritað samkomulag og loforð um jöfnun launa á milli markaða. Sé það gert verður um að ræða raunhæfa leið til að gera það sem skiptir öllu máli – sem er að fjölga kennurum á leikskólastiginu.“

  Fylgigögn

 5. Lagðar fram bókanir varðandi fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs 2023 sem skráðar voru í trúnaðarbók skóla- og frístundaráðs 22. apríl 2024 þar sem aflétt hefur verið trúnaði á fjárhagsuppgjöri Reykjavíkurborgar 2023. SFS23070016

  Lögð fram svohljóðandi bókun skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata:

  Það er mikilvægt að áætlanagerð sé byggð á nákvæmustu gögnum sem völ er á og sé miðuð við þá þjónustu sem við raunverulega eigum að veita og viljum veita. Árangur af nýju rekstrarlíkani grunnskóla, Eddu, er búinn að vera mikill og hefur gefið mun réttari væntingar og kostnaður hefur verið mun nær áætlunum en áður, þó enn megi sníða af honum ákveðna vankanta. Nú er í vinnslu nýtt sams konar líkan fyrir leikskóla, Snorri, þar sem áætlanir munu vera mun nær veruleikanum. Það líkan er á lokametrunum, en við væntum þess að þegar það verður innleitt muni rekstur leikskóla vera mun nær áætlunum. Á meðan þetta er í vinnslu vitum við að ákveðin atriði eru undirfjármögnuð í áætlunum, en þá er skárra að fara fram úr þeirri áætlun en að skerða þjónustu meðan verið er að innleiða nýtt líkan.

  Lögð fram svohljóðandi bókun skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2023 endurspeglar langvarandi og áframhaldandi alvarlegan hallarekstur en á heildina litið fer sviðið 3.500 milljónum króna fram úr fjárheimildum. Hallarekstur borgarrekinna leikskóla nemur 2.481 milljónum króna og í þeim hluta rekstrarins nemur hallinn 14,3%. Allir leikskólar fóru fram úr fjárheimildum sínum fyrir utan tvo. Þessi vandi vanfjármögnunar leikskólahlutans hefur legið fyrir síðan haustið 2020, sbr. eina af ábendingu fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar. Hallareksturinn í grunnskólahlutanum nam samtals 906 milljónum króna. Rekstur Reykjavíkurborgar á skóla- og frístundasviði er óviðunandi og það er með ólíkindum að ár eftir ár sé verið að reka sviðið langt umfram fjárheimildir. Annað hvort þarf að skera niður á sviðinu eða þá að tekið sé til í rekstri borgarinnar og meira fé varið til kjarnastarfsemi skóla- og frístundasviðs. Kjarni málsins er einfaldur, breyta þarf forgangsröðinni í rekstri Reykjavíkurborgar.

  Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa skólastjóra og kennara í grunnskólum:

  Gæta þarf að lögbundnu hlutverki grunnskóla sem starfar eftir lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Þar er greint um skólaskyldu og lögbundin hlutverk sveitarfélaga. Huga þarf að því fjármagni sem þarf til að geta rekið grunnskóla þannig að sveitarfélagið getur verið stolt af. Verkefni eins og frí námsgögn, fríar skólamáltíðir og ekkert þak á nemendafjölda í bekk/skóla gerir það að verkum að rekstur skóla getur verið krefjandi. Samkvæmt 7. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 þá skal skólastjóri sem er forstöðumaður grunnskóla, stjórna honum, veita faglega forystu og bera ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Það er erfitt þegar takast á við óvænt verkefni að hafa ekki forræði til að bregðast við með ráðningum eftir því sem þarf án þess að fá leyfi til þess. Við höfum áhyggjur af fyrirkomulagi með frían mat þegar ljóst er að þau mál hafa ekki verið í lagi. Hvernig verður fjármagnið tryggt án þess að gæði skólamatar minnki? Vöndum til verka þegar horft er til lögbundins hlutverks sveitarfélags er kemur að rekstri grunnskóla.

 6. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. apríl 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar um flutning nemenda á milli grunnskóla án þess að lögheimili sé breytt, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. apríl 2024. SFS24040053

  Fylgigögn

 7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. apríl 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um niðurstöður starfsmannakannanna skóla- og frístundasviðs sl. 6 ár, sbr. 26. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2023. SFS23120054

  Fylgigögn

 8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. apríl 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samþykki skóla- og frístundaráðs vegna flutnings leikskóla til árs eða lengur, sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. apríl 2024. SFS24040055

  Fylgigögn

 9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 29. apríl 2024, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um jafnréttisgátlista fyrir leikskóla, sbr. 12. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. apríl 2024. SFS24040056

  Fylgigögn

 10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. apríl 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um viðbrögð skóla- og frístundasviðs við niðurstöðum PISA, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar 2024. MSS24020001

  Fylgigögn

 11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. apríl 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um aðgerðir til að auka hreyfingu og vellíðan barna, sbr. 34. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 1. febrúar 2024. MSS24020002

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. apríl 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um fyrirkomulag sumarfrístundar fyrir börn sem fædd eru 2018, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2024. MSS24040090

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. apríl 2024, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, þrjú mál. SFS22080009

  Fylgigögn

 14. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Óskað er eftir að fá kynningu á stöðu Brúum bilið verkefnisins fyrir sumarfrí.

  Frestað. SFS24050072

 15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er upplýsinga um hvenær talið var ljóst að forsendubrestur væri fyrir því að fara í undirbúning og framkvæmdir skv. leið 1 vegna skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi (Laugardalurinn). Þá er óskað upplýsinga um hvers vegna skýrsla starfshóps, frá í nóvember 2023, sem komst að þeirri niðurstöðu að forsendubrestur væri fyrir hendi að fara leið 1 var ekki kynnt og rædd í skóla- og frístundaráði og kynnt skólastjórnendum og foreldrum hið fyrsta.

  SFS24050059

  Kl. 16.01 víkur Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir af fundinum. 

Fundi slitið kl. 16.02

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Alexandra Briem

Guðný Maja Riba Helgi Áss Grétarsson

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. maí 2024