Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 230

Skóla- og frístundaráð

Ár 2022, 26. apríl, var haldinn 230. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.00.

Eftirtalin voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Kolbrún Baldursdóttir (F) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir og Guðrún Sigtryggsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Ástheiður Inga Gígja, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt eftirtalið starfsfólk skóla- og frístundasviðs: Ólafur Brynjar Bjarkason.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram skýrslan Menntastefna Reykjavíkur til 2030, helstu vörður innleiðingar 2021, dags. í desember 2021. SFS22020180

    -    Kl. 12.10 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum. 

    -    Kl. 12:13 taka Alexandra Briem, Haraldur Sigurðsson og Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti. 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir afar vandaða og ítarlega skýrslu um innleiðingu menntastefnunnar á árinu 2021. Þar ber hæst fjögur meginatriði. Í fyrsta lagi menntastefnumótið sem haldið var í maí - uppskeruhátíð fyrstu þriggja ára menntastefnunnar. Í öðru lagi vinnu framtíðarhóps sem skilaði af sér nýrri áætlun um almennar aðgerðir sem verða í forgangi næstu þrjú árin. Í þriðja lagi viðamikið námskeiðahald fyrir stjórnendur: Leiðtogi framtíðarinnar er teymið og loks tvö veigamikil verkefni sem innleidd eru á þessu ári: nýja grunnskólalíkanið Edda sem styrkir verulega fjárhagslegan grundvöll grunnskólanna og hins vegar samstarfsverkefnið Betri borg fyrir börn sem meitlar í stein tímamóta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs um markvissan stuðning við börn og fjölskyldur þeirra með áherslu á snemmtækan stuðning í nærumhverfi barna strax frá leikskólaaldri.

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram almennar aðgerðir Menntastefnu Reykjavíkur 2022-2024. SFS22030260

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Almennar aðgerðir menntastefnu Reykjavíkur til næstu þriggja ára voru samþykktar í borgarstjórn í nóvember með áherslu á tíu aðgerðir í sérstökum forgangi. Þar var meðal helstu nýmæla vitundarvakning í loftslagsmálum og sérstök áhersla á geðrækt og andlegt heilbrigði auk þeirra þátta sem hafa verið í brennidepli menntastefnunnar undanfarin ár. Nú er enn bætt um betur með útfærðri aðgerðaáætlun með mælanlegum markmiðum og ábyrgðaraðilum sem skerpir enn frekar á þeirri skýru sýn og fagmennsku sem einkennt hefur innleiðingu þessarar metnaðarfullu menntastefnu, sem ber víðtæku samráði allra haghafa í skólasamfélagi borgarinnar fagurt vitni.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 5. apríl 2022, um skil stýrihóps um forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarf. MSS22040058 

    Pawel Bartoszek tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikil þörf er fyrir stækkun og fjölgun grunnskóla í borginni samhliða fjölgun íbúa og liggja fyrir hugmyndir um meira en 20 viðbyggingar við grunnskóla borgarinnar. Með þeirri vinnu sem stýrihópur um forgangsröðun viðbygginga kynnir hér er í fyrsta sinn búið að móta líkan til að forgangsraða slíkum uppbyggingarverkefnum með því að taka tillit til félagslegra og fjárhagslegra þátta. Niðurstaðan er skýr forgangsröðun þar sem þrír skólar í Laugardal: Laugarnesskóli, Langholtsskóli og Laugalækjarskóli, ásamt Hagaskóla, Melaskóla og Réttarholtsskóla raðast í fyrsta forgang. Næst í röðinni að mati stýrihóps eru viðbyggingar við Seljaskóla, Ölduselsskóla, Norðlingaskóla, Breiðholtsskóla, Árbæjarskóla og Breiðagerðisskóla auk þriggja skóla í miðborginni: Austurbæjarskóla, Háteigsskóla og Hlíðaskóla. Þessi verkefni eru í öðrum forgangi að mati stýrihópsins, byggt á greiningum hans. Með þessari forgangsröðun er gefin skýr lína um hvaða verkefni eigi að ráðast fyrst í, á komandi árum samhliða byggingu nýrra skóla á uppbyggingarsvæðum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru fleiri skólar sem þurfa að fara í brýnan forgang en þeir sem þarna eru taldir upp og byrja á þeim verkefnum samhliða. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála niðurstöðum greiningarinnar. Í Laugardal er mikil uppsöfnuð þörf en það er einnig í Hagaskóla þar sem myglumál er mjög alvarleg og skólinn sprunginn. Ef litið er til Laugarnesskóla þá er áætluð framtíðarþörf Laugarnesskóla að sinna aðeins 593 nemendum. Í skýrslu starfshóps um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi (sviðsmyndagreiningin) er gert ráð fyrir að í óbreyttri skólagerð verði nemendafjöldi Laugarnesskóla 683 nemendur árið 2030 og 686 nemendur árið 2040. Frávik í forsendum fyrir Laugalækjar- og Langholtsskóla eru minni. Fyrirhuguð áform um byggingu íbúða á þéttingarreitum í skólahverfi skólanna í Laugardal styðja forsendur í sviðsmyndagreiningunni og því telur fulltrúi Flokks fólksins líkur á að þessi framtíðarþörf sé vel vanmetin í skýrslu stýrihóps um forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarf. Nemendum Laugarnesskóla hefur fjölgað um 166 frá árinu 2008 og það stefnir að óbreyttu í að þeir verði 250 umfram þolmörk árið 2030. Í skýrslunni er ekki fjallað um mismunandi aðstöðu til kennslu í íþróttum eða verklegum greinum og getur það haft áhrif í þessum samanburði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. febrúar 2021 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. apríl 2022:

    Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkir að farið verði í þróunar- og rannsóknarverkefni í grunnskólum borgarinnar til að efla lestur og bæta líðan barna með sérstaka áherslu á drengi. Um yrði að ræða sams konar þróunarverkefni og Vestmannaeyjabær hefur þegar ýtt úr vör þar sem megináherslan er á læsi, lestrarfærni, stærðfræði, náttúruvísindi og hreyfingu ásamt því að stundataflan er stokkuð upp. Helstu sérfræðingar á þessu sviði yrðu fengnir til að þróa og halda utan um verkefnið og veita faglega ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Tveir eða fleiri skólar gætu tekið þátt í verkefninu og gætu þeir skólar sem áhuga hafa á að taka að sér þróunarverkefnið sótt um og yrðu þeir skólar sem verða fyrir valinu valdir af sérfræðingum. Skóla- og frístundasviði verði falið að undirbúa og móta þróunarverkefnið í samráði við sérfræðinga og færi verkefnið af stað haustið 2021. Niðurstöður kannana sýna að lestrarfærni hefur hrakað mikið síðasta áratuginn. Síðast þegar lagt var fyrir lesskimunarpróf í öðrum bekk árið 2019 kom í ljós að 35-40% reykvískra nemenda gátu ekki lesið sér til gagns. Það er jafnframt óásættanleg staðreynd að um 39% drengja geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskólans. Þessari stöðu verður að taka alvarlega því það er of seint að bregðast við í lok grunnskólans. Blása verður til sóknar til að snúa þessari óheillaþróun við. Þróunarverkefnið sem hér er lagt til að farið verði í gæti orðið mikilvægur liður í því. Tillagan sem hér er lögð fram er í framhaldi af tillögu okkar Sjálfstæðismanna í borgarstjórn frá 20. október á síðasta ári þar sem lagt var til að greina kynbundinn mun á námsárangri og fara í aðgerðir til að bæta stöðu drengja í skólakerfinu.

    Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt: 

    Tillögunni er vísað til meðferðar Miðju máls og læsis á skóla- og frístundasviði í tengslum við útfærslu á almennum aðgerðum menntastefnu Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið 2022-2024. 

    SFS22020260

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í menntastefnu borgarinnar til 2030 og aðgerðum sem hafa verið skilgreindar til að framfylgja menntastefnunni eru nú þegar ýmis markmið og áherslur sem snúa að málþroska og læsi og læsi barna í víðu samhengi. Unnið er markvisst að fjölþættum aðgerðum og áhersluþáttum í Miðju máls og læsis sem hefur á að skipa hæfum lestrarfræðingum, talmeinafræðingi, sérfræðingum í máltöku annars máls auk annarra sérfræðinga á sviði málþroska og læsis. Í starfi Miðju máls og læsis er lögð áhersla á að kynna fyrir kennurum og öðru fagfólki markvissar aðferðir sem rannsóknir sýna að skila árangri í skólastarfi. Í almennum aðgerðum með menntastefnu er sérstakur kafli um málþroska og læsi sem snýr að því að efla málþroska, lestrarfærni og lesskilning allra barna. Verður það m.a. gert með því að auka færni starfsmanna til að styðja við þessa þætti með sérstakri áherslu á markviss inngrip m.a. vegna barna með annað móðurmál en íslensku. Auk þess er lögð áhersla á að efla samstarf við Menntavísindasvið HÍ og aðrar menntastofnanir til að taka þátt í þróunarverkefnum og stunda rannsóknir og þróunarstarfs á sviði læsis.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur að skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkir að farið verði í þróunar- og rannsóknarverkefni í grunnskólum borgarinnar til að efla lestur og bæta líðan barna með sérstaka áherslu á drengi. Um yrði að ræða sams konar þróunarverkefni og Vestmannaeyjabær hefur þegar ýtt úr vör þar sem megináherslan er á læsi, lestrarfærni, stærðfræði, náttúruvísindi og hreyfingu ásamt því að stundataflan er stokkuð upp. Í þessu sambandi má minnast á að í febrúar 2022 lagði fulltrúi Flokks fólksins einmitt fram fyrirspurn á þá leið hvort skóla- og frístundasvið hafi skoðað verkefnið Kveikjum Neistann með tilliti til mögulegrar innleiðingar á því í grunnskólum Reykjavíkur. Fram kom í svari að verkefnið hafi fengið skoðun. Má skilja sem svo að skóla- og frístundasvið hyggist skoða að innleiða verkefnið? Það væri góð ákvörðun. Kveikjum Neistann er verkefni sem er ætlað að efla skólastarf og bæta námsárangur. Verkefnið er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun í skólastarfið. Áherslur verkefnisins snúa að tengingu bóklegra greina og hreyfingar í tengslum við hugarfar nemenda. Þetta er áhersla sem ekki svo mikið hefur farið fyrir í reykvísku skólakerfi fram til þessa.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 24. nóvember 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. mars 2022: 

    Lagt er til að farið verði í átak í að efla og laða fleiri tónlistarskóla til samstarfs við leik- og grunnskóla í þeim tilgangi að tónlistarnám barna verði hluti af skóladegi þeirra. Sýnt hefur verið fram á að tónlistarnám barna stuðli að bættum árangri þeirra í öðru námi, sem undirstrikar enn frekar mikilvægi tónlistarnáms skólabarna. Þá er lagt til að skoðað verði hvort útvíkka megi samstarfið þannig að tónlistarskólarnir sinni jafnframt tónmenntakennslu í þeim grunnskólum þar sem tónlistarkennslu er ekki sinnt í samræmi við aðalnámskrá og sumir árgangar fá enga tónmenntakennslu.

    Vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins situr hjá. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú er samþykkt aðgerðaáætlun með stefnu um framtíð tónlistarnáms til 2030. Sú stefna var unnin í góðri þverpólitískri sátt og nær utan um þau sjónarmið sem hér eru útlistuð. Sérstaklega er þar hvatt til aukins samstarfs á milli tónlistarskóla og stofnana borgarinnar, svo sem skólahljómsveita, leik- og grunnskóla, og frístundamiðstöðva auk menningarstofnana borgarinnar. Sem dæmi um það sem þegar er komið í gang má nefna tilraunaverkefni til tveggja ára sem gefur börnum kost á að læra hljómfæraleik í Árbæjarskóla, í samstarfi við tónlistarskóla Árbæjar. En mörg önnur metnaðarfull verkefni er að finna í áætluninni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það eru vonbrigði að tillögunni sé vísað frá.  Betur hefði farið að hún hefði verið samþykkt og innleidd í nýsamþykkta aðgerðaráætlun þverpólitísks stýrihóps um tónlistarnám, sem tók í öllum meginatriðum undir þau viðhorf og ábendingar sem fram koma í tillögu Sjálfstæðisflokks. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mest um vert er að gera allt til að auka jöfnuð í þessu sambandi og að börn sitji við sama borð í þessum efnum þar sem nám í tónlistarskóla er fokdýrt. Það sem hlýtur að þurfa að gera er að færa tónlistarnám mun meira inn í skólana en nú er reyndin. Börn efnaminni og fátækra foreldra á að eiga þess jafnan kost og hvert annað barn að læra t.d. á píanó. Skólahljómsveitir hjálpa mikið. Þær eru sem stendur 4 og eru ca. um 120-130 börn í sveit. Það eru eitt eða tvö ár síðan þær voru stækkaðar. Á annað hundrað barna eru á biðlista eftir að komast í skólahljómsveit. Ef vel ætti að vera þyrftu að vera mun fleiri hljómsveitir og hvetja börn með markvissum hætti til að ganga í þær. Það kostar um 70 milljónir á ári að reka hljómsveit sem þessa og ætti það að vera vel viðráðanlegt að bæta við nokkrum ef tekið er á ýmsu bruðli og sóun sem finnst í borgarkerfinu.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2022, um skóladagatal grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2023-2024 ásamt skóladagatali grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2023-2024. 

    Samþykkt. SFS22040041

    Fylgigögn

  7. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. mars 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölda leikskóladeilda og leikskólakennara í leikskólum í Reykjavík. SFS22030134

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í leikskólum eru 2079 starfsmenn í 1753 stöðugildum og þar af er fjöldi leikskólakennara 490 í 445 stöðugildum. Þegar stjórnendur er dregnir frá, eru 71 leikskólastjóri í 62,8% stöðugildum og 69 aðstoðarleikskólastjórar í 59,3 stöðugildum, standa eftir, 1939 starfsmenn í 1630 stöðugildum. Þá eru eftir 350 leikskólakennarar í 322,9 stöðugildum. Fjöldi leikskóladeilda eru 304 og af þeim eru 99 án leikskólakennara eða 32% deilda. 205 af 304 deildum hafa ýmist leikskólakennara eða deildarstjóra með kennaramenntun innan borðs og ekki er öruggt að um 100% starf sé að ræða á öllum þeim deildum. Með bættum starfsaðstæðum í leikskólum og fjölgun dvalarplássa hefur stöðugildum fjölgað um 350 síðustu misseri, sem á sama tíma hefur áhrif á hlutfall leikskólakennara til lækkunar miðað við heildarfjölda stöðugilda. Samkvæmt lögum ættu 67% allra starfsmanna í leikskóla að vera með leikskólakennaramenntun en í dag er því raun öfugt farið, kennarar eru 1/3 hluti allra starfsmanna. Það þarf því verulegt átak til að geta mætt þeim skyldum og þörfum á framtíðaráformum stjórnvalda með fjölgun leikskólaplássa. Nú þarf að gera enn betur, því allir vilja góða skóla fyrir barnið sitt og stöðugleikinn fæst með fjölgun kennara. Óskað er eftir að sundurliðuð tafla fari í starfsáætlun skóla- og frístundasviðs.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. mars 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um afleysingastofu. SFS22020261 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hver hefði verið árangur af Afleysingastofu sem er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem einstaklingum gefst tækifæri til þess að skilgreina sjálfir sinn vinnutíma og vinna á þeim tíma sem þeir óska eftir. Afleysingastofa er góð hugmynd. Umfangið virðist hins vegar ekki mjög mikið eftir því sem hægt er að lesa úr svarinu nú þegar leikskólarnir eru vel mettir af tímavinnufólki. Skrifstofa sem þessi þarf að hafa skýran tilgang enda kostar að halda henni úti. Ekki er heldur not fyrir þessa skrifstofu af hálfu grunnskólanna. því Afleysingastofu hafa ekki borist margar beiðnir frá grunnskólunum. Raunin er sú að það eru ekki margir kennarar á skrá hjá Afleysingastofu, og þeir sem eru á skrá eru nú þegar í starfi. Fjölmargar skrifstofur hafa verið settar á laggirnar á þessu kjörtímabili með tilheyrandi kostnað. Til að hægt sé að réttlæta þær þarf að vera áþreifanleg þörf fyrir þær og skýrt að þær séu að þjóna mikilvægu hlutverki sem ekki verður unnið betur annars staðar eða vera hluti af öðru sviði/deild. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um hvað kostar að reka Afleysingastofu á ári en hefur ekki fengið svar.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. apríl 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Háteigsskóla. MSS22020056

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Staða verkefnisins varðandi húsnæðismál umræddra skóla í miðborginni (Háteigsskóla, Austurbæjarskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla) er að verið er að leggja lokahönd á úrvinnslu umsagna eftir ítarlegt umsagnarferli þar sem leitað var álits úr skólasamfélögum viðkomandi skóla, frá íbúum o.s.frv. Rétt er að benda á að hluti umsagnaraðila óskaði sérstaklega eftir viðbótarfresti til að skila umsögnum og var á það fallist. Nú er stefnt að því að leggja fram málið að nýju í skóla og frístundaráði í maí, fara þá yfir umsagnir og leggja línur varðandi næstu skref. Starfshópurinn um húsnæðismál grunnskóla í miðborginni hafði það skýra verkefni að skoða nýtingu á Vörðuskóla og horfa til þriggja skóla í því samhengi með það að leiðarljósi að mæta húsnæðisþörf á hagkvæman máta og horfa einnig til nýsköpunar og skólaþróunar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla. Foreldrafélag Háteigsskóla stóð fyrir rafrænni könnun meðal foreldra og forráðamanna dagana 18.-24. janúar 2022. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við foreldra og svo virðist sem ekki sé mikið vitað um þessi mál, hvar þau eru stödd eða í hvaða ferli þau eru. Það er ekki nóg að kynna skýrslu. Í þessum málum er of mikill hægagangur og foreldrum og öðrum sem málið varðar er ekki haldið nægjanlega vel upplýsum. Hvenær verður sem dæmi þessi samantekt tilbúin og hvað er langt síðan foreldrar voru upplýstir um gang mála? Ekkert er sem dæmi að frétta af þessum sviðsmyndum. Er til dæmis búið að skoða nánar sviðsmynd IIV að húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð verði nýtt undir grunnskólastarf í hverfunum þremur? Það er mikil þörf á skólahúsnæði í hverfi 105 sem Hlíðaskóli og Háteigsskóli tilheyra. Þessi mál mega bara ekki drabbast niður á meðan farið er offari í þéttingarmálum. Halda þarf vel á spilunum ef ekki á að lenda með þessi mál í óefni og gæta þess að vera í nánu samstarfi við foreldra.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum um hjóla- og vagnageymslur við leikskóla. SFS22030071 

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um áætlanir varðandi leikskólann Kvistaborg. SFS22030073 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um umferðaröryggi við Dalskóla. SFS22030075 

    Fylgigögn

  13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um leka í Dalskóla. SFS22030074 

    Fylgigögn

  14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tillögur Eflu vegna viðgerða á Fossvogsskóla. SFS22020192 

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum um framkvæmdir við Fossvogsskóla. SFS22020186 

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum varðandi aðkomu Verkís að húsnæðismálum Fossvogsskóla. SFS22020186 

    Fylgigögn

  17. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs. 

Fundi slitið klukkan 13:45

Skúli Helgason Alexandra Briem

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
230._fundargerd_skola-_og_fristundarads_fra_26._april_2022.pdf