Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 208

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 11. maí, var haldinn 208. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst kl. 10.06.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 354/2021 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Hildur Björnsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Árni Jónsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Elísabet Lára Gunnarsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. maí 2021, um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, um notkun fjarfundabúnaðar og fleira. SFS2020040074

  2. Lögð fram stefna um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030, skýrsla stýrihóps um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030 og greinargerð um breytingar vegna umsagna. 

    Stefna um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030 er samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018120032

    Bókun skóla- og frístundaráðs:

    Þessari stefnu er ætlað að efla og bæta enn frekar öfluga tónlistarmenningu Reykjavíkur. Hún er unnin á grundvelli stefnu frá 2011, en með þessari nýju stefnu sem hér er lögð fram til samþykktar er mótuð metnaðarfull og heildstæð framtíðarsýn til næstu ára. Í henni er lögð áhersla á að halda í þann styrk sem fyrir er, en jafnframt á jöfnun tækifæra barna til tónlistarnáms óháð efnahag og búsetu með fjölgun tækifæra til tónlistarnáms í þeim borgarhverfum þar sem hún er í dag lítil, sem og að draga úr þeim kostnaði sem leggst á foreldra. Skóla- og frístundaráð þakkar umsagnaraðilum þær mörgu og ítarlegu umsagnir um stefnuna sem borist hafa og ljóst er að þær hafa leitt til þess að stefnan og skýrslan sem unnin er með henni eru betri fyrir vikið. Nú er í vinnslu á sviðinu aðgerðaáætlun sem mun útfæra innleiðingu stefnunnar.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla með breytingum:

    Lagt er til að gerð verði sú breyting á reglum Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla að ákvæði til bráðabirgða í reglum Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla þar sem fram kemur að ákvæði 9.1 reglnanna eigi ekki við vegna skólaáranna 2017 – 2018, 2018 – 2019, 2019 – 2020 og 2020 – 2021 gagnvart þeim tónlistarskólum sem gerður var þjónustusamningur við vegna tímabilsins 1. september 2016 til 31. ágúst 2017, verði framlengt um eitt ár þannig að það nái jafnframt til skólaársins 2021 – 2022. 

    Greinargerð fylgir. 
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018090150 

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. apríl 2021, þjónustusamningi við tónlistarskóla vegna neðri stiga tónlistarnáms, drögum að viðauka við þjónustusamning við tónlistarskóla vegna neðri stiga tónlistarnáms, drögum að þjónustusamningi við tónlistarskóla vegna efri stiga tónlistarnáms, reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, dags. 3. desember 2018 og reglum um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til stuðnings við tónlistarnám og jöfnunar á aðstöðumun nemenda, dags. 31. ágúst 2016:

    Lagt er til að samningar Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla með þjónustusamning við Reykjavíkurborg vegna neðri stiga tónlistarnáms sem renna út þann 31. júlí 2021 verði framlengdir með viðauka til 31. júlí 2022, sjá upplýsingar um samningsaðila og kennslumagn í fylgiskjali 1, sem birt er með fyrirvara um endanlega útreikninga. Þá er lagt til að samþykktir verði samningar Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla í Reykjavík vegna efri stiga tónlistarnáms á grundvelli þeirra upplýsinga sem berast munu frá Jöfnunarsjóði vorið 2021. Gildistími verði 1. september 2021 til 31. ágúst 2022. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að miðla framlagi Jöfnunarsjóðs í samræmi við reglur sjóðsins og gera samninga við þá aðila sem falla undir samkomulag um eflingu tónlistarnáms. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er því falið að ganga frá samningum við hlutaðeigandi aðila á grundvelli upplýsinga frá Jöfnunarsjóði þegar þær berast. Samningsaðilar og fjárhæðir í fylgiskjali 2 eru birtar með fyrirvara um greiðslur frá Jöfnunarsjóði og byggja á eldri upplýsingum frá Jöfnunarsjóði og taka breytingum í samræmi við ákvarðanir frá sjóðnum sem berast munu vorið 2021. Þá er gerður fyrirvari um að samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, sem er órjúfanlegur hluti þjónustusamninga vegna efri stiga og sem fellur úr gildi þann 31. desember 2021, verði framlengt eða endurnýjað. Gerður er fyrirvari um að tónlistarskólarnir uppfylli skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla og samningsbundnar skyldur þeirra samkvæmt núgildandi samningum. Sviðsstjóra er falið að gera samninga um kennslu á neðri stigum í samræmi við endanlega útreikninga og fjárheimildir sviðsins og samninga um efri stig í samræmi við greiðslur Jöfnunarsjóðs. 

    Greinargerð fylgir.
    Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2018090150

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 10. nóvember 2020 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. mars 2021, um tillöguna:

    Í ljósi ástandsins vegna Covid-19 má búast við aukinni þörf fyrir kennara og starfsfólk til afleysinga og aðstoðar í skólum borgarinnar. Ein af þeim leiðum til að tryggja nægjanlega mönnun í skólunum gæti verið að koma á fót bakvarðasveit. Því er lagt til að komið verði upp bakvarðasveit kennara, leikskólakennara, tómstundafræðinga og almennra starfsmanna sem grunnskólar, leikskólar og frístundaheimili geta leitað til ef á þarf að halda vegna kórónuveirufaraldursins. Fyrirmynd slíkrar bakvarðarsveitar er sótt til velferðarsviðs og heilbrigðisstofnana í landinu. Til að tryggja að hægt verði að halda sem mest óskertu skólastarfi ef forföll verða vegna faraldursins og til að mæta þörfum skólanna vegna sóttvarnaraðgerða er mikilvægt að bakvarðasveit sé til staðar. Hvetja má alla kennaranema, kennaramenntaða einstaklinga sem hafa sinnt öðrum störfum en kennslu, þá sem eru án atvinnu og eins þá sem komnir eru á eftirlaunaaldur til að skrá sig í bakvarðasveitina til að sinna tímabundið afleysingum, hvort heldur er í fullu starfi, hlutastarfi eða tímavinnu eða eftir aðstæðum hverju sinni. Þá má hvetja fólk sem hefur reynslu af öðrum störfum sem tengjast skólastarfinu jafnframt til að skrá sig í bakvarðasveitina. Mikil þekking og reynsla felst í þessum mannauði sem gæti nýst vel á þessum erfiðu tímum. Samstaða og skilningur á þessum breytilegu tímum skiptir öllu máli og leita verður allra lausna til að halda skólastarfi gangandi og óskertu með hagsmuni og velferð nemenda að leiðarljósi.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2020110057

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka þær góðu undirtektir sem tillagan hefur fengið og þann samhljóm sem hugmyndinni hefur fylgt hjá sviðinu og ráðinu. Hins vegar hefði betur farið á því að samþykkja tillöguna og fela sviðinu að útfæra hana nánar, í stað þess að vísa henni frá.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú þegar er starfrækt hjá Reykjavíkurborg afleysingaþjónusta. Betur færi á að efla hana þannig að hún geti annað því hlutverki sem hér er lagt til að bakvarðasveit fái þó svo aðstæður í samfélaginu myndu versna. Upp geta komið aðstæður sem slík styrking myndi ekki duga til og kæmi þá til greina að kanna þennan möguleika til viðbótar. En í ljósi þess að slíkar aðstæður eru ekki uppi í samfélaginu að þessu sinni og að afleysingastofan er nú þegar starfandi sem sinnir þessu hlutverki, er tillögunni vísað frá.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. febrúar 2021 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. apríl 2021, um tillöguna:

    Lagt er til að upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlista verði settar í mæliborð Reykjavíkurborgar. Þar komi fram aðgengilegar, sundurgreindar og auðskiljanlegar upplýsingar eftir leikskólum og hverfum um stöðu biðlista og laus leikskólarými. Þá er enn fremur lagt til að þessar upplýsingar verði uppfærðar um leið og breytingar verða. Markmiðið með tillögunni er að auðvelda foreldrum aðgengi að upplýsingum og gera stjórnsýsluna gagnsærri og skilvirkari. Slíkt fyrirkomulag sparar foreldrum mikla fyrirhöfn að afla sér upplýsinga innan úr kerfinu og dregur jafnframt úr álagi á leikskólana og leikskóladeild skóla- og frístundasviðs að veita upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlista. Það ætti að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að tölulegar upplýsingar um jafn mikilvæga þjónustu við borgarbúa sem leikskólarnir eru séu opinberar og aðgengilegar á hverjum tíma þannig að foreldrar geti betur gert ráðstafanir og fylgst með stöðunni.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Skóla og frístundaráð leggur til að tillögunni um upplýsingar um leikskólarými verði vísað til starfshóps um mælaborð borgarbúa á vegum fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar.

    Samþykkt. SFS2021020074 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vinna hefur verið í gangi í starfshópi þar sem allt sem viðkemur aðgengi að upplýsingum og mælaborði borgarbúa hefur verið rýnt og þróað áfram. Þessi tillaga fellur vel að þeim áherslubreytingum á mælaborðinu sem hafa verið ræddar í hópnum og því talið fara best á því að vísa henni í þá áframhaldandi vinnu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um árabil hefur biðlistavandi leikskólanna verið viðvarandi í Reykjavík. Mikilvægt er að tryggja foreldrum aukið gagnsæi um stöðu biðlista, laus leikskólapláss og aðra mikilvæga mælikvarða. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna jákvæðri afgreiðslu málsins og undirstrika mikilvægi þess að upplýsingarnar verði aðgengilegar í mælaborði eigi síðar en næsta haust.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna tekur undir að nauðsynlegt sé að bæta aðgengi að upplýsingum um laus leikskólapláss en nú er engin einföld leið fyrir foreldra/forráðafólk til að nálgast þessar upplýsingar. Einfalda þarf upplýsingamiðlun fyrir foreldra/forráðafólk í borginni og þá vonandi minnka álag á bæði starfsfólk einstakra leikskóla og sviðsins við að svara fyrirspurnum um þetta efni. Tilvalið er að nýta mælaborð borgarinnar til þess að auðvelda aðgengi að þessum upplýsingum.

    -    Kl. 10.55 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttur tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 26. janúar 2021 ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. apríl 2021:

    Skóla- og frístundaráð beinir því til samgöngu- og skiplagssviðs/ráðs að gerðar verði ráðstafanir og úrbætur sem fyrst til að tryggja betur umferðaröryggi gangandi vegfarenda við Álmgerði sem er gönguleið barna í skóla sem búa við Furugerði, Hlyngerði, Seljugerði og Viðjugerði. Mikill umferðarhraði er við götuna og samkvæmt mælingum lögreglu er brotahlutfall þar hátt. Ekki er forsvaranlegt að hvetja börn til að ganga eða hjóla í skóla ef umferðaröryggi þeirra verður ekki tryggt eins og best verður á kosið.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2021010169 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það sýnir metnaðarleysi meirihlutans í því að tryggja umferðaröryggi barna, að núna fyrst er verið að taka fyrir tillögu um úrbætur í umferðaröryggismálum í Álmgerði, sem lögð var fram í janúar. Þrátt fyrir að sýnt hefur verið fram á mikilvægi þess að bæta öryggi gangandi vegfarenda og þeirra barna sem eiga leið um götuna á leið í skólann hefur tillagan nú þegar verið felld í skipulags- og samgönguráði og nú vísar skóla- og frístundaráð tillögunni frá. Það gerir meirihlutinn þrátt fyrir að lögreglan telji að umferðarhraðinn sé of mikill um götuna og brotahlutfallið of hátt. Ef meirihlutinn telur að fjárskortur hamli því að hægt sé að bæta umferðaröryggið á þessu svæði hefði frekar átt á að vísa tillögunni til fjárhagsáætlunargerðar.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg leggur mikið upp úr umferðaröryggi, sérstaklega þar sem ung börn eru á leið til skóla, Nú þegar er í innleiðingu umferðaröryggisáætlun, auk þess sem tillaga um lækkun hámarkshraða hefur verið samþykkt. Það er ekki við hæfi að skóla- og frístundaráð hlutist til um uppröðun tiltekinna verkefna þegar það hefur þegar verið afgreitt í viðeigandi fagráði borgarinnar.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 14. maí 2020 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2021, um tillöguna: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Það er, niðurgreiðslan miðist við mánuðinn sem barn er níu mánaða, sex mánaða hjá einstæðu foreldri, en ekki afmælisdag barnsins. Fordæmi eru fyrir þessu í öðrum sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur sem miða niðurgreiðslu vegna dagforeldris við fæðingarmánuð barns en ekki fæðingardag. Að miða niðurgreiðslu við fæðingardag er ósanngjarnt. Foreldrar þeirra barna sem fædd er seint og jafnvel SÍÐUSTU daga mánaðar sitja ekki við sama borð og foreldrar barna sem eru fædd fyrr í mánuðinum. Samkvæmt þessari tillögu skulu framlög hefjast í þeim mánuði sem barn er 9 mánaða en ekki skal miða við afmælisdag barns. Ástæða er sú að ef barn er fætt seint í mánuðinum fá foreldrar enga niðurgreiðslu á þeim mánuði. Um þetta munar hjá langflestum foreldrum.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2020060022 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú þegar er í gangi vinna á skóla- og frístundasviði þar sem öll gjaldskrármál sviðsins eru tekin saman og sett í samhengi. Í kjölfarið stendur til að ráðast í heildstæða endurskoðun á gjaldskrám sviðsins. Tillögunni er því vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna tekur undir þessa tillögu. Eðlilegt er að niðurgreiðslur vegna þjónustu við börn miðist við fæðingarmánuð en ekki fæðingardag. Kostnaður við tillöguna er óverulegur fyrir borgina en getur skipt miklu sérstaklega fyrir tekjulága foreldra.

    -    Kl. 11:20 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 11. júní 2020 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. febrúar 2021, um tillöguna:

    Í febrúar sl. voru 674 börn á biðlista eftir ADHD greiningu, þar af 429 að bíða eftir fyrstu þjónustu og 245 börn eftir frekari þjónustu. Þessi langi biðlisti er með öllu ólíðandi. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur sem lúta að styttingu biðlista m.a. að sálfræðingum verði fjölgað og að samstarf við Þroska- og hegðunarstöð verði formgert. Til að koma til móts við þessi börn og foreldra þeirra leggur Flokkur fólksins til við skóla- og frístundaráð að börnin á biðlistanum fái frekari aðstoð en nú er veitt og sérstaklega við „heimanám“. Flokkur fólksins leggur jafnframt til að foreldrar barna á biðlistanum fái sérstaka fræðslu um ADHD ásamt ráðgjöf á meðan biðtímanum stendur. Í „snemmtækri íhlutun“ verður að felast fleiri og markvissari úrræði til að létta undir með foreldrum og börnum á meðan bið eftir aðstoð fagaðila stendur. Hvert barn skiptir máli og hvert ár á þessum mikilvægu mótunarárum getur haft áhrif á sálarlíf þess áratugum saman. Það hlýtur að vera vilji borgarstjórnar að tryggja börnum með ADHD betri farveg í grunnskólakerfinu og vonar Flokkur fólksins að nú verði vandinn viðurkenndur og lausnir settar í farveg.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2020060140

    -    Kl. 11:39 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ávallt er unnið að því að tryggja öllum börnum í borginni menntun og úrræði við hæfi. Samkvæmt snemmtækri íhlutun er ávallt unnið með hvert barn meðan unnið er að greiningum. Í gangi er vinna við að samþætta betur samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs vegna skólaþjónustunnar. Þar verður ýmislegt ávarpað m.a biðlistar í skólaþjónustunni og nánari útfærsla á samstarfsverkefni sviðanna Betri borg fyrir börn þar sem unnið er með alhliða stuðning við börn í nærumhverfi þeirra. Í ljósi yfirstandandi vinnu er tillögunni vísað frá.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram ársfjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs 2020. SFS2020090061 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2020 var óvenjulegt í alla staði. Covid-19 heimsfaraldurinn raskaði verulega skóla- og frístundastarfi en þó tókst ótrúlega vel að halda uppi vönduðu starfi við krefjandi aðstæður þökk sé frábærri vinnu starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. Heimsfaraldurinn hafði verulega neikvæð áhrif á reksturinn auk þess sem kostnaður vegna langtímaveikinda og sértæks stuðnings varð talsvert meiri en fjárheimildir gerðu ráð fyrir. Vonir standa til að nýtt úthlutunarlíkan grunnskóla sem nú er verið að leggja lokahönd á muni færa fjárheimildir grunnskólanna í betra samræmi við rekstrarumhverfi þeirra.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Þakkað er fyrir skýra og greinargóða yfirferð fjármálastjóra. Rétt er að liðið ár hafi verið um flest óvenjulegt og ýmislegt haft áhrif á niðurstöður. Engu að síður er ástæða til að árétta að fjárveitingar til skóla- og frístundasviðs þurfa að endurspegla rauntölur og raunkostnað á sviðinu. Margoft hefur verið bent á þetta misræmi og sennilega hvergi með skýrari og beinskeyttari hætti en í skýrslu innri endurskoðanda um fjárveitingar til sviðsins. Þar þarf fjárveitingavald borgarinnar, borgarráð, að herða sig og forgangsraða með hagsmuni skóla- og frístundasviðs í meiri forgangi. 

    Fylgigögn

  11. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., júlí – desember 2020. SFS2020090244 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs, júlí – desember 2020. SFS2020090243

    Fylgigögn

  13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. maí 2021, um barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2021. SFS2021050064

    Fylgigögn

  14. Lögð fram embættisafgreiðsla sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS2019020033

    Fylgigögn

  15. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hversu mörg pláss eru á leikskólum Reykjavíkur árið 2021, hvað voru mörg pláss á leikskólum Reykjavíkur árið 2020, 2019 og 2018.

    SFS2021050140

  17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um fjölda barna í Reykjavík greint niður á árin 2018, 2019, 2020 og 2021 greint niður eftir aldri. 

    SFS2021050141

  18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að framkvæmdaáætlun og niðurstöður úr sýnatökum vegna Fossvogsskóla verði kynntar fyrir skóla- og frístundaráði.

    SFS2018120034

Fundi slitið klukkan 12:54

Skúli Helgason Alexandra Briem

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skola-_og_fristundarad_1105.pdf