Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 72

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 13. maí kl. 09:25, var haldinn 72. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal.

Viðstaddir voru: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarsson, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir.

 

Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Ólöf Örvarsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Þórólfur Jónsson, Jóhanna Guðjónsdóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir.

 

Fundarritari er Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 29. apríl og 8. maí 2020.

    Fylgigögn

  2. Austurheiðar, rammaskipulag
         (04.4)    Mál nr. SN170877
    Lögð fram tillaga Landmótunar dags., 20. apríl 2020,  f.h. umhverfis- og skipulagssviðs að rammaskipulagi fyrir Austurheiðar.  Megin markmið skipulagsins  felst í því að skapa fjölbreytt og aðgengilegt útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa og ólíka notendahópa. 

    Samþykkt að kynna tillöguna almenningi í 4 vikur.
    Vísað til borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar kynningu um Austurheiðar. Ljóst er að mikill metnaður er lagður í verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að hagsmunaaðilar verði hafðir með frá upphafi, haldnir hafa verið fundir en mikilvægt er að fundargerðir séu aðgengilegar til að hægt sé að hafa samráðið gegnsætt. Öllu máli skiptir að þetta sé unnið í sátt frá upphafi og að hagsmunaaðilar fái að koma að undirbúningsvinnu, í hvaða átt er stefnt en þeir ekki aðeins  upplýstir um það eftir á og þá boðið að ákveða um einhver smærri atriði. Flestar lóðir við Langavatn eru eignarlóðir. Gott væri að fá yfirlit yfir stöðu annara lóða,  er um eignarlóðir að ræða, erfðafestulóðir sem renna út á einhverjum tíma o.s.frv. Ræktun gamalla lóða verður vonandi nýtt í stórum stíl. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að, eins og svæðið er skipulagt, að nóg ætti að verða  af bílastæðum við aðkomuleiðir.

    Óskar Örn Gunnarsson frá Landmótun tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Kjalarnes, Mógilsá og Kollafjörður, breyting á deiliskipulagi     (34.2)    Mál nr. SN200231
    570480-0149 Reykjavíkurborg - eignasjóður, Borgartúni 10-12, 105 Reykjavík

    Lögð fram umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds dags. 17. apríl 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Mógilsár og Kollafjarðar á Kjalarnesi vegna almenningssalernis sem koma á fyrir á skilgreindu útivistarsvæði við  Esjurætur. Í breytingunni felst að settur er inn nýr byggingarreitur eingöngu ætlaður fyrir almenningssalerni, samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta ehf. dags. 15. apríl 2020. 

    Samþykkt að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2.ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Gufunes, útivistarsvæði, breyting á deiliskipulagi     (02.2)    Mál nr. SN200232
    570480-0149 Reykjavíkurborg - eignasjóður, Borgartúni 10-12, 105 Reykjavík

    Lögð fram umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds dags. 17. apríl 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Gufuness, útivistarsvæðis, vegna almenningssalernis sem koma á fyrir á skilgreindu útivistarsvæði Gufuness. Í breytingunni felst að settur er inn nýr byggingarreitur eingöngu ætlaður fyrir almenningssalerni, samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta ehf. dags. 15. apríl 2020. 

    Samþykkt að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2.ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að sjá tillögu þeirra um almenningssalerni í Gufunesbæ frá árinu 2018 loksins verða að veruleika.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Rekagrandi 14, leikskóli, breyting á deiliskipulagi     (01.512.4)    Mál nr. SN200275
    570480-0149 Reykjavíkurborg - eignasjóður, Borgartúni 10-12, 105 Reykjavík

    Lögð fram umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 7. maí 2020, varðandi breytingu á deiliskipulagi Eiðsgranda, miðsvæði, vegna lóðarinnar nr. 14 við Rekagranda. Í breytingunni felst að lóð leikskólans stækkar ásamt því að girðingu verður breytt, afmarkaður er annars vegar byggingarreitur fyrir færanlegar stofur og hins vegar byggingarreitur fyrir möguleika á stækkun núverandi leikskóla til suðurs og vesturs ásamt því að 4 bílastæði í borgarlandi auk snúningsreits verður aflagt, samkvæmt uppdr. umhverfis- og skipulagssviðs dags. 21. apríl 2020.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur í greinargerð með deiliskipulagsbreytingum að fækka á bílastæðum um fjögur. Það veldur nokkrum áhyggjum þar sem erfitt er að lifa bíllausum lífstíl í Reykjavík og nú þegar er skortur á bílastæðum fyrir utan suma leikskóla.  Foreldrar koma með börn sín á bíl nema þeir búi skammt frá og geta gengið með þau eða hjólað. Þegar komið er með börnin í leikskóla á álagstímum er stundum engin stæði laus og þarf þá að bíða í götunni þar til stæði  losnar, aðstæður sem geta skapað hættu. Í gögnum segir einnig að leggja á af snúningsreit eða snúningsás. Það að leggja af snúningsás er ekki til bóta fyrir þá sem koma á bíl. Ef reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík eru skoðaðar segir að gera eigi ráð fyrir 0,2 - 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum þ.m.t. sleppistæðum við leikskóla og lægri deildir grunnskóla þar sem meiri líkur eru á að börnum í neðri deildum er skutlað í skólann. Mælt er með því að helmingur stæða séu yfirbyggð. Fjöldi stæða skal vera 0,4 stæði/starfsmann og 20 stæði/100 nemendur. Við Grunnskóla eiga að vera stæði fyrir starfsmenn plús sleppistæði allt að 60 á 100 nemendur samkv. reglum. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það er góð og barnvæn lausn að ganga frekar á bílastæði við stækkun leikskólans en leiksvæði barnanna eins og stundum hefur gerst. Það er rétt forgangsröðun. Börn eru mikilvægari en bílar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Finna þarf lausnir sem henta sem flestum. Afneitun hjálpar ekki í því. Staðreyndin er sú að fólk ekur börnum sínum á leikskóla nema það búi við hlið leikskólans eða getur hjólað með barnið. Það er sennilega minnihlutinn. Eftir að hafa rætt við hóp foreldra víðs vegar um borgina þá er þetta bara víða vandamál sér í lagi á álagstímum. Skipulagsyfirvöld geta ekki stungið hausnum í sandinn þegar þessi mál ber á góma. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki eiga við að meirihlutinn beri börn saman við bíla. Flokkur fólksins skilur ekki slíkan samanburð.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Rökkvatjörn 1, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN200107
    100576-3099 Ævar Rafn Björnsson, Dimmuhvarf 15, 203 Kópavogur
    550812-0100 Landris ehf., Lágmúla 7, 108 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Ævars Rafns Björnssonar dags. 11. febrúar 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar nr. 1 við Rökkvatjörn. Í breytingunni felst að hæð húsa hækkar vegna aukinnar salarhæðar fyrir verslun og þjónusturými, íbúðum og bílastæðum fjölgað, stærð svala út fyrir byggingarreit stækkuð, heimild til að flytja byggingarmagn milli húsa innan lóðarinnar og fallið er frá kröfu um fjölda arkitekta á byggingum á lóðinni, samkvæmt tillögu Teiknistofunnar Traðar ehf. dags. 12. febrúar 2020.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Gerðarbrunnur 44, málskot     (05.054.7)    Mál nr. SN200149
    230853-3719 Gísli Gíslason, Gerðarbrunnur 44, 113 Reykjavík

    Lagt er fram málskot dags. 1. mars 2020 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 18. október 2020 um að gera auka íbúð á neðri hæð hússins á lóð nr. 44 við Gerðarbrunn, stækka bílageymslu/geymslu, fjarlægja stiga á milli hæða og færa inngang efri hæðar á vesturhlið, samkvæmt uppdr. Arkamon ehf. ódags. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 8. maí 2020.

    Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. maí 2020, samþykkt.

    Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Hverfisgata 46, breyting á skilmálum deiliskipulagi     (01.172.0)    Mál nr. SN200262
    671106-0750 Þingvangur ehf., Smiðsbúð 7, 210 Garðabær

    Lögð fram umsókn Þingvangs ehf. dags. 30. apríl 2020 varðandi breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðarinnar nr. 46 við Hverfisgötu. Í breytingunni felst að breytt er texta í 14. málsgrein í kaflanum "Sér ákvæði fyrir einstök hús" þannig að bætt er í textann að heimilt verður að vera með gistiaðstöðu á fyrstu hæð hússins við Hverfisgötu og atvinnustarfsemi og gistiaðstöðu á efri hæðum, samkvæmt tillögu Urban arkitekta ehf. dags. 22. apríl 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 8. maí 2020. 

    Frestað.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg er skylt að fara að stjórnsýslulögum og gæta jafnræðis á milli aðila. Hér er lagt til að breyta íbúðarhúsnæði/iðnaðarhúsnæði í gistirými. Nýlega var samþykkt í skipulags- og samgönguráði í annað sinn að hafna ósk aðila á Hafnartorgi að breyta íbúðarhúsnæði tímabundið í hótel. Reykjavíkurborg setti 23% hótelkvóta í deiliskipulag á sínum tíma og gerði síðan breytingar á aðalskipulagi sama efnis upp Laugaveg og síðan Hverfisgötu. Þetta húsnæði er innan þess svæðis.  Reykjavíkurborg verður að afgreiða sambærileg mál eins.

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (B) Byggingarmál

  9. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1066 frá 5. maí 2020.

    (E) Samgöngumál

    Fylgigögn

  10. Sumargötur 2020,         Mál nr. US200121

    Lagt fram bréf Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2020, tillaga um sumargötur þ.e. tímabundnar göngugötur í miðborginni frá 5. júní til 1. október.

    Frestað.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarsstjórn sagði í grein í Fréttablaðinu þann 12. maí s.l. að hún væri „að laga Laugaveginn með því að gera hann að göngugötu.“ Jafnframt heyrði hún fortíðarskvaldrið óma þar sem klappstýrur afturhaldsins halda áfram að því er virðist endalausum svanasöng bílaborgarinnar í takt við dauðateygjur arfleifðar borgarstjórnartíðar Davíðs Oddssonar. Meirihlutinn er með hann og Sjálfstæðisflokkinn á heilanum og ef þau komast í vörn, sem er alltaf að verða algengara, þá er allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Meira að segja er uppgerð Óðinstorgs fyrir framan heimili borgarstjóra upp á hundruði milljóna Sjálfstæðisflokknum að kenna. Síðan segir píratinn að meirihlutinn vilji minni losun gróðurhúsalofttegunda, auka samkeppnishæfni og meira valfrelsi fyrir betri, skemmtilegri og manneskjulegri borg. Fagnaðarlætin eru eftirtektarverð þegar hún lýsir því yfir að borgarbúar völdu umhverfið, grósku og sjálfbæra og nútímalega framtíðarsýn fyrir fólk fyrst og fremst, þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki, lýðheilsa og lifandi og opið samfélag fær að blómstra, í síðustu borgarstjórnarkosningum. Einmitt…!!! Meirihlutinn féll í annað sinn og er viðreistur með Viðreisn sem seldi sig fyrir nefndarlaun og stjórnarsetur í dótturfélögum borgarinnar til að fá þykkara launaumslag. Í kosningunum 2014 voru það Píratar sem voru í þessu hlutverki. Það þarf ekki fleiri vitnanna við.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur varað skipulags- og samgönguráð við að samþykkja þessa viðbót göngugatna án samráðs og samtals við alla rekstrar- og hagsmunaaðila. Ákveðið hefur verið að fresta málinu um viku. Vonandi verður sú vika notuð til að tala t.d. við Miðbæjarfélagið í Reykjavík. Nóg er komið af þessari sorgarsögu vegna lokunar umferðar í miðbænum og hrun verslunar. Miðbærinn hefur verið í öllum mögulegum birtingarmyndum síðustu öld, ýmist dauður eða lifandi og allt þar á milli. Fulltrúi Flokks fólksins sem er borinn og barnfæddur í vesturbæ Reykjavíkur  hefur aldrei séð yfirvald ganga fram með slíku offorsi að breyta vinsælustu götum miðbæjarins í trássi við fólkið.  Nú er lagt til að bæta við göngugötur, svokallaðar sumargötur sem skulu vera tímabundnar. Þetta er spurning um samráð og sátt og vonandi næst að hefja alvöru samtal og umræður við aðila á þessari viku sem málinu hefur verið frestað um. Einnig segir að almenn umferð og bifreiðastöður verði óheimilar. Á það skal enn og aftur minnt að P merktir bílar hafa heimild í lögum að aka göngugötur og leggja þar samkvæmt nýjum umferðarlögum. Ekkert heyrist frá borgarmeirihlutanum um þessa heimild hvorki í ræðu né riti.

    -    Kl. 12.00 víkur Pawel Bartoszek af fundi.
    -    Kl. 12.00 tekur Alexandra Briem sæti á fundi.

  11. Hjólreiðaáætlun 2015-2020, yfirlit uppbyggingar hjólastíga 2020-2021         Mál nr. US200138

    Kynnt yfirlit helstu verkefna í uppbyggingu hjólastíga í Reykjavík sem fyrirhugaðar eru 2020-2021.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að smygla nýju hringtorgi á Bústaðastaðavegi rétt ofan núverandi gatnamóta við Reykjanesbraut. Reykjavíkurborg er að brjóta samgöngusáttmálann enn einu sinni. Er það gert til að hindra og tefja að mislæg gatnamót komi á mótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, en það eru önnur slysamestu gatnamót landsins. Ekki er hægt að upplýsa á fundinum hvað fyrirhugað hringtorg muni kosta en Bústaðavegur austan Kringlumýrarbrautar er á ábyrgð Reykjavíkurborgar. Sífellt er klifað á því af meirihlutanum að sækja eigi allt fjármagn til ríkisins í gegnum samgöngusáttmálann. Þar er stór forsendubrestur fyrst af hálfu borgarinnar vegna brots á samningnum m.a. vegna ljósastýringarútboðs sem að vísu var dæmt ólöglegt og svo af hendi ríkisins sem ekki getur selt Íslandsbanka og Keldnalandið í þessum aðstæðum sem var forsenda samgöngusáttmálans.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja farm svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar meirihlutans árétta að ekkert í þeim áformum sem hér hafa verið rædd gengur gegn samgöngusáttmála. Hringtorg við Bústaðaveg brýtur ekki gegn sáttmálanum enda er það hannað í samráði við Vegagerðina.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hjólreiðar hafa aukist og er það vel. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af hraðamálum hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum og óttast stundum um öryggi annarra hjólandi og ekki síst gangandi, sumir með hunda í taumi. Slys hafa orðið og enn oftar legið við slysum. Ekki er eftirlit með umferð á gangstígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum sem náð geta allt að 60 kílómetra hraða á klukkustund. Það er allt of mikill hraði í kringum gangandi vegfarendur. Hámarkshraði bifreiða í íbúðagötum er 30 kílómetrar á klukkustund, og í vistgötum og göngugötum mega vélknúin ökutæki ekki fara hraðar en 10km/h. Grípa þarf til aðgerða sem tryggja öryggi að sama marki á göngustígum og hjólastígum borgarinnar. Um reiðhjól gilda um margt sömu lögmál og um bíla. Í VII. kafla umferðarlaga er fjallað um reglur fyrir hjólreiðamenn. Í 42. gr. er fjallað m.a. um hvernig skuli aka fram úr á reiðhjóli. Í 43. gr. er síðan fjallað um reglur sem gilda við notkun reiðhjóla á göngustígum, gangstéttum og göngugötum. Ekki er nóg að leggja  hjólreiðastíga  heldur verður yfirvald einnig að sýna tilhlýðilega ábyrgð og sinna fræðslu til að fyrirbyggja slys og óhöpp.

  12. Hjólreiðaáætlun 2021-2025, stýrihópur         Mál nr. US200139

    Lögð fram drög að erindisbréfi stýrihóps um tillögu að Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025. Óskað er eftir þremur tilnefningum í stýrihópinn frá ráðinu.

    Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir og Katrín Atladóttir eru skipaðar í stýrihópinn.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  13. Laugavegur 132, kæra 32/2020     (01.241.0)    Mál nr. SN200269
    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Skuggasundi 3, 101 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags 5. maí 2020 ásamt kæru dags. 4. maí 2020 þar sem kærð er synjun byggingarfulltrúa frá 7. apríl 2020 um byggingu kvista að Laugavegi 132.

    Vísað til meðferðar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðstjóra.

  14. Héðinsreitur, reitur 1.130.1, kæra 89/2019, umsögn, úrskurður     (01.130.1)    Mál nr. SN190551
    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Skuggasundi 3, 101 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 16. september 2019 ásamt kæru dags. 14. september 2019 þar sem kærð er breyting á deiliskipulagi Héðinsreits, reitur 1.130.1, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 28. nóvember 2019. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30. apríl 2020. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, staðgreinireits 1.130.1.

  15. Héðinsreitur, reitur 1.130.1, kæra 90/2019, umsögn, úrskurður     (01.130.1)    Mál nr. SN190552
    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Skuggasundi 3, 101 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 16. september 2019 ásamt kæru dags. 13. september 2019 þar sem kærð er breyting á deiliskipulagi Héðinsreits, reitur 1.130.1, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 28. nóvember 2019. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30. apríl 2020. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, staðgreinireits 1.130.1.

  16. Héðinsreitur, reitur 1.130.1, kæra 91/2019, umsögn, úrskurður     (01.130.1)    Mál nr. SN190550
    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Skuggasundi 3, 101 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 16. september 2019 ásamt kæru dags. 15. september 2019 þar sem kærð er breyting á deiliskipulagi Héðinsreits, reitur 1.130.1, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 28. nóvember 2019. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30. apríl 2020. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, staðgreinireits 1.130.1.

  17. Grandavegur 37, sótt um bílastæði hreyfihamlaða á lóð auk annars hefðbundins bílastæðis - samtals tvö bílastæði     (01.521.6)    Mál nr. SN190752
    190459-6329 Karvel Ögmundsson, Strandgata 39, 600 Akureyri

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 30. apríl 2020 vegna staðfestingar borgarráðs s.d. á synjun skipulags- og samgönguráðs frá 1. apríl 2020 á breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 37 við Grandaveg.

    Fylgigögn

  18. Húsverndarsjóður Reykjavíkur 2020, úthlutun styrkja 2020         Mál nr. US190389

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 2. apríl 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á trúnaðarmerktri tillögu að úthlutun styrkja úr húsverndarsjóði árið 2020. 

    Trúnaði skal aflétt þegar umsækjendum hefur verið tilkynnt um styrkinn.

    Fylgigögn

  19. Rauðhólar, lýsing     (08.1)    Mál nr. SN200198

    Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 30. apríl 2020, vegna samþykktar borgarráðs s.d. lýsingu að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla.

    Fylgigögn

  20. Vesturgata 67, breyting á deiliskipulagi     (01.133.1)    Mál nr. SN200102
    510497-2799 Félagsbústaðir hf., Hallveigarstíg 1, 101 Reykjavík

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 30. apríl 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanaust vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu

    Fylgigögn

  21. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200133

    Í febrúarmánuði 2019 lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg myndi hefja stórsókn í upphitun göngu- og hjólastíga í borginni. Tillagan hefur ekki enn hlotið afgreiðslu. Óskað er eftir upplýsingum um stöðu málsins og hvers vegna það hefur tafist með þessum hætti? Jafnframt er óskað eftir skriflegum svörum um það hver staðan er á hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2015-2020? Hvenær fer vinna af stað við næstu hjólreiðaáætlun og hverjir munu skipa stýrihóp um málefnið?

    Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  22. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200135

    Nöfn þeirra sem sendu inn athugasemdir vegna staðsetninga smáhýsa hafa verið birt í dagskrá fyrir fundinn. Þetta er sagt vera venja í samgöngu- og skipulagsráði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það sé með leyfi aðila? Einnig er spurt hvort þetta rými við persónuverndarlög ? Kærur eru t.d. merktar sem trúnaðargögn. Hver er munurinn á þessu tvennu, kærur vs. athugasemdir þegar kemur að reglum um birtingu nafna í dagskrá? Hvernig er fjallað um nafnabirtingar innsendra mála í reglum og samþykktum borgarinnar? Flokkur fólksins vill árétta að mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki víst að fólk sem sendir inn athugasemdir og umsagnir vilji að nöfn þeirra séu birt í dagskrá eða fundargerðum. Skipulagsmál eru fyrir mörgum afar tilfinningaleg mál.

    Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðstjóra.

  23. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200136

    Lagt til að umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar fari í vinnu við að setja leiðbeinandi yfirborðsmerkingar á sameiginlega stíga sem notaðir eru af gangandi og hjólandi vegfarendum. Síðustu mælingar borgarinnar á umferð hjólandi og gangandi vegfaranda hefur sýnt stóraukna umferð á stígum borgarinnar til að mynda í Elliðaárdal, Nauthólsvík og á Ægissíðu. Nokkrir af þessum stígum eða hluti þeirra eru mjóir og hafa skapast mikil vandræði og slysahætta á þeim. Leiðbeinandi yfirborðsmerkingar eru því nauðsynlegar.

    Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  24. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200142

    Stefnt var að því að fluglest myndi byrja að ganga á milli Keflavíkur og Reykjavíkur árið 2025 og var áætlaður kostnaður 100 milljarðar. Áætlað var að lestin myndi mögulega tengjast borgarlínu. Árið 2017 var búið að veita 300 milljónum í verkefnið. Á fundi borgarráðs þann 19. maí 2016 lagði borgarstjóri fram tillögu um að Reykjavíkurborg yrði stofnaðili og hlutafjáreigandi í hlutafélagi um þróun og byggingu mögulegar "hraðlestar." Lagði borgarstjóri jafnframt til að Reykjavíkurborg myndi eignast 3% hlut í félaginu með því að leggja inn sem stofnfé þegar framlagðan kostnað við frumskoðun verkefnisins. 1. Hvað hefur Reykjavíkurborg lagt þessu verkefni/Fluglestin þróunarfélag, til mikið fjármagn tæmandi talið? 2. Hvernig er eignarhlutur Reykjavíkurborgar færður í bókhaldi borgarinnar? 3. Af hvaða kostnaðarlið var það fjármagn sem lagt var í verkefnið tekið? 4. Hver er framkvæmdastjóri félagsins í dag?
    5. Hverjir skipa stjórn félagsins í dag? 6. Hvenær var síðasti aðalfundur félagsins haldinn?

    Frestað

  25. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200143

    Á fundi skipulagsráðs þann 13. maí var óskað eftir breytingu á deiliskipulagi um að koma fyrir almenningssalernum í borgarlandinu m.a. í landi Mógilsár og Kollafjarðar á Kjalarnesi við Esjurætur og á skilgreindu útivistarsvæði Gufuness. Erindinu fylgdu einnig uppdrættir að almenningssalerni við Bernhöftstorfu, Esjumela, Hljómskálagarð, Ingólfstorg, Lokastíg og Vegamótastíg. 1. Hvað kostar hvert almenningssalerni? 2. Hvað kostar að koma hverju almenningssalerni fyrir? 3. Hver er kostnaður Veitna í hverju almenningssalerni? 4. Voru almenningssalernin boðin út? 5. Ef ekki, hvers vegna var það ekki gert? 6. Eru húsin íslensk smíði eða erlend?

    Frestað

  26. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200144

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að breyta akstursstefnu milli Klapparstígs og Frakkastígs aftur til fyrra horfs, þannig fari öll umferð um Laugaveg í sömu stefnu. 

    Frestað

  27. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200145

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að byggja upp leikaðstöðu fyrir börn á völdum stöðum í miðborg svo gera megi umhverfið fjölskylduvænna. Hér mætti nefna Hjartatorg sem tilvalinn stað.

    Frestað

  28. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200146

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að koma fyrir gróðri á Hafnartorgi svo færa megi torginu aukið líf.

    Frestað

  29. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200147

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að koma fyrir skyggnum (sjá mynd) á stöku stöðum í miðborg. Skyggnin yrðu strengd yfir bekkjum eða annarri setaðstöðu á vegum borgarinnar. Þannig mætti draga úr neikvæðum veðuráhrifum og skapa vænlegra umhverfi til útiveru, þrátt fyrir regn eða aðrar veðuróværur. Tryggt yrði að skyggnin yrðu auðveld í uppsetningu svo hæglega mætti setja þau upp, eða fjarlægja, eftir hentugleik.

    Frestað

  30. Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að kanna möguleika á rekstri kaffihúss í Hljómskálagarði. Kannaðir verði möguleikar á æskilegum útfærslum, svo sem því hvort réttast væri að veita leyfi til að reisa smáhýsi undir slíka starfsemi eða hvort æskilegra væri að starfsemin væri í formi götu- og torgsölu (t.d. matarvagnar). Rekstur verði ætíð í höndum einkaaðila

  31. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200149

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að taka saman tæmandi lista yfir þau skilyrði sem þarf að uppfylla, í réttri tímaröð, svo rekstrarleyfisskyld starfsemi geti hlotið leyfi til sölu gistingar, veitinga og skemmtanahalds í Reykjavík. Allt umsóknarferlið verði gert að fullu rafrænt í samstarfi við sýslumann, undirskriftir verði að fullu rafrænar og leyfisveitingin sjálf verði rafræn. Einnig verði umsóknarferli fyrir tækifærisleyfi gert að fullu rafrænt. Þannig verði allt umsóknarferlið, listi yfir skilyrði og allir eftirfarandi ferlar gerðir rafrænir og aðgengilegir í sömu rafrænu gátt: 
    •    Umsóknareyðublöð um leyfi til sölu gistingar, veitinga eða skemmtanahalds í Reykjavík.
    •    Umsóknareyðublöð fyrir hvers kyns tækifærisleyfi í Reykjavík.
    •    Umsögn Reykjavíkurborgar  um rekstrarleyfi til sýslumanns.
    •    Staðfesting byggingarfulltrúa um að rekstrarleyfisskyld starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála. 
    •    Staðfesting byggingafulltrúa á því að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
    •    Staðfesting skipulagsfulltrúa á því að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag Reykjavíkur segja til um.
    •    Staðfesting Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur á því að starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli.
    •    Staðfesting og mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist.
    •    Staðfesting slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á því að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs.
    •    Starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
    •    Rekstrarleyfi og tækifærisleyfi frá sýslumanni.

    Frestað

  32. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200150

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að móta verklagsreglur vegna framkvæmda á vegum borgarinnar, sem eiga sér stað nærri verslun og þjónustu. Reglurnar tryggi aukið upplýsingaflæði og opið samtal  milli borgar og rekstraraðila. Reglurnar tryggi að rekstraraðilum  í nánasta umhverfi framkvæmdasvæðis hverju sinni, verði gert viðvart um fyrirhugaðar framkvæmdir með 12 mánaða fyrirvara. Komi framkvæmdaþörf upp skyndilega, t.d. vegna óvænts viðhalds, verði rekstraraðilum gert viðvart eins fljótt og auðið er. Jafnframt verði hlýtt á sjónarmið rekstraraðila um nánari útfærslur vegna framkvæmda, t.d. hvernig sé best að tryggja órofið aðgengi að verslun og þjónustu yfir framkvæmdatíma. Þegar verklagsreglurnar hafa verið mótaðar komi þær til endanlegrar afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs. 

    Frestað

  33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200151

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fjölda stæða og sleppistæða við leikskóla og grunnskóla borgarinnar og hvað mörg eru yfirbyggð. Í ljósi þess að borgarmeirihlutinn er að fækka stæðum við einstaka leikskóla í ákveðnu deiliskipulagi er vísað í Reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík.  Í þeim segir m.a. að gera eigi ráð fyrir 0,2 - 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum eða sleppistæðum við leikskóla og lægri deildir grunnskóla þar sem meiri líkur eru á að börnum í neðri deildum er skutlað í skólann. Mælt er með því að helmingur stæða sé yfirbyggð. Fjöldi stæða skal vera 0,4 stæði/starfsmann og 20 stæði/100 börn. Við Grunnskóla er stæði fyrir starfsmenn plús sleppistæði allt að 60 á 100 nemendur. Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist ábendingar frá foreldrum um að stæði fyrir framan suma leikskóla eru of fá og stundum myndist vandræðaástand á álagstímum. 

    Frestað

    Fylgigögn

  34. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200152

    1. Hvaða skipulag er í gildi varðandi svæðið frá Gufunesbæ að Sorpu, væntanlegri Sundabraut og nýju deiliskipulagi við Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi? 2. Eru öll mannvirki Skemmtigarðsins og Reykjavik Domes inni á gildandi skipulagi. 3. Hverjir aðrir en Skemmtigarðurinn hafa aðstöðu og eru með vinnslu á þessu svæði? 4. Hver er staðan á nýju skipulagi fyrir svæðið og hvaða áform eru í vinnslu hvað það varðar? 5. Hvernig verður með þá starfsemi og notkun sem er þarna núna fram að nýju deiliskipulagi?

    Frestað

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200153

    Flokkur fólksins leggur til að settur verði  hámarkshraði hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á gangstígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum. Hjólreiðar hafa aukist og er það vel. Hins vegar hafa kvartanir einnig aukist sem lúta að hættu sem stafar af hjólreiðamönnum sem hjóla fram hjá gangandi vegfaranda eða hjólreiðamanni á mikilli ferð. Heimilt er að hjóla á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum eða liggi sérstakt bann við því. Hjólreiðamaður skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum. Skort hefur á að borgaryfirvöld birti og minni á reglur um hjólreiðar. Skortur er á viðeigandi fræðslu og viðvörunum svo varast megi óhöpp og slys.  Slys hafa orðið og enn oftar legið við slysum þar sem hjólandi ekur fram hjá á miklum hraða og rekur sig í  hjólreiðamann, eða gangandi vegfaranda. 

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

Fundi slitið klukkan 13:34

Alexandra Briem Hjálmar Sveinsson

Hildur Björnsdóttir