Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 123

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 8. desember kl. 11:02, var haldinn 123. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Aron Leví Beck og áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúinn Vigdís Hauksdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Jóhanna Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og starfsmenn tóku sæti með fjarfundarbúnaði: Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir og Inga Rún Sigurðardóttir

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

 1. Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 1, deiliskipulag, tillaga     (04.0)    Mál nr. SN170899

  Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 1. - Krossamýrartorg á Ártúnshöfða. Svæðið er um það bil 16 ha að stærð. Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu um 1570 íbúða, skóla, verslunar- og þjónustusvæði við Krossamýrartorg, almenningsrýmum, borgarlínu og borgarlínustöð. Samhliða skipulagsgerðinni er unnið að vistvottun skipulagsins samkvæmt forsendum vistvottunarkerfisins BREEAM Communities.
  Tillagan er lögð fram til afgreiðslu í samræmi við eftirfarandi gögn ráðgjafa frá Arkís arkitektum og ASK arkitektum: Almenn greinargerð fyrir svæði 1 (og svæði 2), Arkís arkitektar, dags. 4. júní 2021 og síðast uppfærð 3. desember 2021. Skilmálar fyrir húsbyggingar og mannvirki á lóð  fyrir svæði 1, ASK arkitektar, dags. 4. júní 2021 og síðast uppfærðir 3. desember 2021. Deiliskipulags- og skýringaruppdrættir, ASK arkitektar, dags. 4. júní 2021 og síðast uppfærðir 3. desember 2021. Einnig  er lögð fram Hönnunarhandbók fyrir opin svæði, inngarða og almenningsrými dags. 4. júní 2021, unnin af Landslagi, samgöngumat Verkís dags. júní 2021 og síðast uppfært 1. desember 2021, Húsakönnun fyrir Ártúnshöfða svæði 1-4 dags. apríl 2021, hljóðvistarskýrsla Verkís dags. maí 2021, umhverfisskýrsla Verkís dags. maí 2021 og mengunarrannsókn Verkís dags. maí 2020. Tillagan var auglýst frá 7. júlí 2021 til og með 31. ágúst 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Veitur dags. 18. ágúst 2021, Stefán Auðólfsson f.h. Tak-Malbik ehf. dags. 31. ágúst 2021, Samtök um bíllausan lífsstíl dags. 31. ágúst 2021 og Árni Davíðsson dags. 31. ágúst 2021. Einnig er lögð fram fornleifaskráning Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla nr. 212, dags. september 2021 og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. desember 2021.

  Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. desember 2021.
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Við samþykkjum í dag deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða, svæði 1. Á svæðinu verður til nýtt torg, Krossarmýrartorg, umkringt íbúðum, verslum, þjónustu og menningartengdri starfsemi. Skipulagið allt hvetur til fjölbreyttra ferðamáta. Við Krossarmýrartorg verður upphafsstöð fyrsta áfanga Borgarlínu, gert er ráð fyrir mikilli samnýtingu bílastæða í sameiginlegum bílastæðahúsum og kjöllurum, hjólastígar beggja vegna gatna í flestum götum og gönguleiðum gert hátt undir höfði. Við leggjum áherslu á að endanleg hönnun gatnamóta í húsagötum hvetji til hægaaksturs og setji öryggi og þægindi gangandi og hjólandi í forgang. Þá er mikilvægt að öll hönnun komi í veg fyrir hringsól bíla um hverfið. Jafnframt leggjum við áherslu á að samsíða stæði eru meginregla nema þegar aðgengisrök mæla með öðru. Mælst er til þess að tryggt verði að auðvelt verði að selja bílastæði frá íbúðum þar sem þau fylgja. Hér munu 1570 nýjar íbúðir rísa, í grænu, umhverfisvænu og nútímalegu hverfi. Við fögnum þessu skipulagi.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Heimatilbúinn lóðaskortur er staðreynd í Reykjavík. Meirihlutinn notfærir sér það ástand til að þrengja að fjölskyldubílnum. Hér er verið að skipuleggja heilt hverfi án þess að gert sé ráð fyrir að hver fjölskylda notar a.m.k. einn bíl. Það er verið að búa til algjöra ringulreið. Gangandi og hjólandi njóta forgangs í hverfinu ásamt hinni svokölluðu borgarlínu. Borgarlína er bara lína niður í miðbæ. Ekki er hægt að sjá hvernig borgarlína komi þessu hverfi til góða. Boðað er að verslun- og þjónusta verði í hverfinu auk skóla á efri stigum. Hvað á að gera við þá bíla sem þeir aðilar nota sem ætla að sækja þjónustu eða nám í hverfið. Skipulagsmál í Reykjavík eru komin á sama stað og fjármál borgarinnar – það er allt í klessu sama hvert litið er.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Byggja á allt að  8.000 íbúðir þegar allt er komið. Fram kemur að ,,Markmið deiliskipulagsins er að sjá til þess að uppbygging svæðisins hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki svæðisins” og: ,,Mikilvægt er að varðveita og vernda lífríki og lágmarka sjónmengun frá ofanvatnskerfinu í viðtaka, við árbakka Elliðaáa og strandlengju Elliðaárvogs. Hér er um öfugmæli að ræða. Uppbyggingin eins og hún er hér framsett mun hafa mikil áhrif á lífríkið. Rústa á dýrmætasta svæðinu sem eru fjörurnar. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Það á að vera hægt að skipuleggja án þess að þurfa alltaf að ganga á fjörur. Hætta ætti því við landfyllingar. Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Alltof mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Fáar ósnortnar fjörur eru eftir í Reykjavík. Árbakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt og sá möguleiki því ekki lengur til.  

  Verkefnastjórarnir Sólveig Sigurðardóttir, Ólafur Melsted og Birkir Ingibjartsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  -    Kl. 11:07 tók Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum.

  Fylgigögn

 2. Hverfisskipulag, Breiðholt 6.1 Neðra Breiðholt, tillaga     (06.1)    Mál nr. SN160263

  Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.1 Neðra Breiðholt, dags. 30. apríl 2021, br. eftir auglýsingu, ásamt almennri greinargerð og stefnu, dags. 30. apríl 2021, br. 26. nóvember 2021, og skipulagsskilmálum, dags. 30. maí 2021, br. 26. nóvember 2021. Einnig er lögð fram skýrsla um íbúaþátttöku og samráð dags. 23. nóvember 2021 og byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur fyrir borgarhluta 6, Breiðholt, skýrsla 216 frá árinu 2021. Tillagan var auglýst frá 29. júní 2021 til og með 31. ágúst 2021. Eftirtaldir sendu inn athugasemdir/umsögn: Guðmundur Svafarsson dags. 21. júní 2021, Heiðdís Schell Traustadóttir dags. 26. júní 2021, bókun fulltrúa í íbúaráði Breiðholts dags. 20. ágúst 2021, Vegagerðin dags. 24. ágúst 2021 og svarbréf frá skipulagsdeild Kópavogs 26. ágúst 2021 ásamt umsögn umhverfissviðs Kópavogsbæjar 13. ágúst 2021. Einnig eru lögð fram svör við athugasemdum dags. 26. nóvember 2021.

  Samþykkt sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. nóvember 2021.
  Vísað til borgarráðs.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Í þessum gagnapakka er að finna bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ um Arnarnesveginn. Athugasemdir beggja aðila valda áhyggjum. Vegagerðin bendir á að skv. Vegalögum nr. 80/2007 er veghelgunarsvæði stofnvega 30 m til hvorrar handar frá miðlínu vega en 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega. Framkvæmdir innan veghelgunarsvæða eru háðar leyfi frá Vegagerðinni. Hér er líklega verið að hnýta í fyrirhugaðan Vetrargarð og þetta segir að Arnarnesvegurinn mun skerða þróunarmöguleika hans. Og svo er athyglisvert að Kópavogur vill einnig hafa áhrif á skipulagið við Arnarnesveg og heimtar óbeint að sá vegur eigi að geta stækkað verulega frá núverandi meingölluðu skipulagi. Er það eðlilegt að annað sveitarfélag sé að stýra skipulagi í Reykjavík? Verður Arnarnesvegurinn að umferðarþungri umferðaræð sem hindrar útivist, rústar Vatnsendahverfinu og efsta hluta Elliðaárdals? Kópavogur ætlar sér að stýra hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag mun fara yfir mörkin í umferðarspá í umhverfismatinu frá 2003. Verður ekki að gera nýtt umhverfismat? Einnig má spyrja af hverju það hafi aldrei verið skoðað að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins?

  (D) Ýmis mál

  Fylgigögn

 3. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, varðandi gönguleið við Hallgerðargötu         Mál nr. US210364

  Lagt er til að gönguleiðir og lýsing við Hallgerðargötu, alla leið frá Sundlaugavegi að Kirkjusandi, verði kláruð sem fyrst.

  Tillögunni fylgir greinargerð.
  Frestað.

  Fylgigögn

 4. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, 
  um hraðahindranir         Mál nr. US210365

  Í Reykjavík eru hraðahindranir í nokkrum útgáfum, stundum þrenging, stundum einstefna þar sem einn og einn bíll fer í gegn í einu og stundum koddar/bungur í mismunandi gerðum. Farið er eftir norskum leiðbeiningum í þessu efni. Verið er að setja tugi af alls konar hraðahindrunum um þessar mundir. Spurt er um fjölda og gerð þeirra hraðahindrana sem verið er að gera núna (sem eru í vinnslu) og kostnað? Hvað er fyrirhugað að setja margar hraðahindranir árið 2022? Hvernig gerðar eru þær? Hver er fyrirhugaður kostnaður? Hvað margar af þessum hraðahindrunum eru einskorðaðar við 30 km götur?

  Frestað.

Fundi slitið klukkan 12:02

Pawel Bartoszek Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hjálmar Sveinsson Marta Guðjónsdóttir