Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 134

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2022, miðvikudaginn 6. apríl kl. 9:03, var haldinn 134. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Hjálmar Sveinsson, Ragna Sigurðardóttir og Jórunn Pála Jónasdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Alexandra Briem, Ólafur Kr. Guðmundsson,
Örn Þórðarson og áheyrnarfulltrúarnir Anna Maria Wojtynska,  Kolbrún Baldursdóttir og Vigdís Hauksdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir og Jóhanna Guðjónsdóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Breyting á fundadagatali, tillaga         Mál nr. US210074

    Lagt er til að áætlaður fundur skipulags- og samgönguráðs 11. maí 2022 verði felldur niður.

    Samþykkt.

    (A)    Skipulagsmál

    Fylgigögn

  2. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 25.  mars og 
    1. apríl 2022.

    Fylgigögn

  3. Hólmsheiði/Fjárborg/Almannadalur, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN210665

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Hestamannafélagsins Fáks dags. 22. september um breytingu á deiliskipulagi Hesthúsabyggðar á Hólmsheiði. Í breytingunni felast annars vegar breytingar á framtíðaráætlunum á svæðinu og hins vegar samræming skipulagsins að núverandi stöðu. Um er að ræða breytingar í þrettán liðum, auk fimm lagfæringa á uppdrætti til samræmis við núverandi stöðu, samkvæmt uppdr. Landslags. dags. 16. október 2021, br. 18. febrúar 2022. Tillagan var auglýst frá 1. desember 2021 til og með 12. janúar 2022. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Sveinbjörn Guðjohnsen f.h. stjórnar Fjáreigendafélags Íslands dags. 11. janúar 2022, Ólafur R. Dýrmundsson Ph.D. dags. 11. janúar 2022 og Bjarni Jónsson dags. 12. janúar 2022. Einnig er lagður fram tölvupóstur Veitna dags. 8. febrúar 2022 vegna kostnaðar við dreifikerfi og heimlagnir. Loks er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. febrúar 2022. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 
    Vísað til borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiði/Fjárborg/Almannadalur. Allmargar athugasemdir eru við deiliskipulagstillöguna. Eftir því sem sýnist er tekið vel í þær flestar. Svo virðist sem skipulagsyfirvöld hafi ekki samband við þá sem senda inn athugasemdir eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst alla vega næst. Þeir sem það gera geta því aðeins vonað að tekið verði tillit til þeirra. Fyrir lesanda gagna er ekki gott að átta sig á hvað af þessum athugasemdum og frá hverjum hafa verið teknar til greina. Það væri gott ef þetta væri sett skýrar fram í gögnum með málinu.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  4. Borgartún 34-36, breyting á deiliskipulagi     (01.232.0)    Mál nr. SN210351

    Lögð fram umsókn Gunnars Sigurðssonar dags. 9. maí 2021 ásamt minnisblaði dags. 30. apríl 2021 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 34-36 við Borgartún. Í breytingunni felst að byggingarmagn er aukið og íbúðum fjölgað, samkvæmt uppdráttum (5 uppdr.) Tvíhorfs ehf. dags. 3. júní 2021, br. dags. 28. janúar 2022. Einnig er lögð fram greinargerð Andakt arkitekta dags. 28. janúar 2022 þar sem gerð er grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa síðan tillagan var samþykkt í kynningu m.a. hefur íbúðum fækkað um 2, úr 102 í 100, og salar- og hámarkshæð hækkað um 1-1,65 m. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða lóðina Borgartún 34-36. Fækka á íbúðum um tvær. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort ráðlagt sé að setja svo margar íbúðir í eitt hús. Fordæmi er varla fyrir þessu í Reykjavík nema kannski má finna eitt dæmi. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þéttingarstefna meirihlutans ganga ansi langt hér og óttast þrengsl og umferðarvandamál.

    Lilja Grétarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (B)    Byggingarmál

    Fylgigögn

  5. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1156 og 1157 frá 22. og 29. mars 2022.

    (E) Samgöngumál

    Fylgigögn

  6. Héðinsreitur, sérákvæði fyrir umferð, tillaga - USK22010020         Mál nr. US220084

    Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 16. mars 2022:

    Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð: 1. Að óheimilt verði að leggja ökutækjum við norðurkant Seljavegar milli Nýlendugötu og Vesturgötu. 2. Að á Vesturgötu verði tvístefna milli Ánanausta og innkeyrslna við Vesturgötu 64 og 69. Framangreint verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum í samræmi við reglugerð nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, með áorðnum breytingum. Í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hefur tillagan verið borin undir og hlotið samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr.  84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fylgigögn

  7. Sólvallagata, tvö stæði fyrir hreyfihamlaða við Vesturbæjarskóla, tillaga - USK22010020         Mál nr. US220085

    Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, 
    dags. 28. mars 2022: 
    Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki að tvö bílastæði á Sólvallagötu við Vesturbæjarskóla verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða.
    Bifreiðastæðin verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum í samræmi við reglugerð nr. 289/1995, um umferðarmerki og notkun þeirra, með áorðnum breytingum. Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hefur tillagan verið borin undir og hlotið samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    (C)    Ýmis mál

    Fylgigögn

  8. Bókun íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals, um staðsetningu bensíndælna í
    Grafarholti og Úlfarsárdals - MMS22030195         Mál nr. US220079

    Lagt fram bréf íbúaráðs  Grafarholts og Úlfarsárdals, dags. 22. mars 2022, um staðsetningu bensíndælna í Grafarholti og Úlfarsárdals.

    Fylgigögn

  9. Bókun fulltrúa í íbúaráði Miðborgar og Hlíða, um umferð stærri ökutækja í miðborginni - MSS22030200         Mál nr. US220081

    Lagt fram bréf íbúaráðs Miðborgar og Hlíða, dags. 23. mars 2022, um umferð stærri ökutækja í miðborginni.

    Skipulags- og samgönguráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan er tímabær. Skipulags- og samgönguráð telur rétt að skrifstofa samgöngustjóra hefji undirbúning að áframhaldandi vinnu og samráði vegna breytinga á akstursfyrirkomulagi stærri ökutækja í miðborg Reykjavíkur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir þessa bókun íbúaráðs Miðborgar og Hlíða að samráð  vegna endurskoðunar á akstursfyrirkomulagi stærri ökutækja verði hafið aftur núna strax í vor. Einnig að tillögur liggi fyrir áður en meginþungi sumarumferðar ferðamanna hefst og að íbúaráð og íbúasamtök hafi aðkomu að samráðinu. Umferð stórra bíla í miðborginni þarf að vera í lágmarki að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  10. Bókun íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis, um erindi Foreldrafélags Breiðagerðisskóla - MSS22030167         Mál nr. US220080

    Lagt fram bréf íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis, dags. 25. mars 2022, um erindi Foreldrafélags Breiðagerðisskóla um kröfu um aukið umferðaröryggi við Breiðagerðisskóla.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir erindi Foreldrafélags Breiðagerðisskóla og bréf Íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um að auka umferðaröryggi við Breiðagerðisskóla. Hraðahindranir eru oftast besta leiðin til að draga úr umferðarhraða. Alls staðar þar sem börn eru þarf að tryggja umferðaröryggi með öllum ráðum.

    Fylgigögn

  11. Túngata 36A, kæra 22/2022        Mál nr. SN220172

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 15. mars 2022 ásamt kæru dags. 11. mars 2022 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 8. mars 2022 og athafnaleysi byggingarfulltrúa sem felst í sömu ákvörðun varðandi umsókn eiganda íbúðar í húsinu Túngötu 36A.

  12. Elliðaárdalur - Árbæjarstífla, kæra 24/2022         Mál nr. SN220173

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 15. mars 2022 ásamt kæru dags. 14. mars 2022 þar sem kærð er ákvörðun skipulagsfulltrúa og umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar að hafna kröfu kæranda um að stöðva tafarlaust ólögmæta háttsemi Orkuveitu Reykjavíkur sem fólst í því að fjarlægja lón við Árbæjarstíflu sem gert er ráð fyrir samkvæmt gildandi deiliskipulagi að standi fyrir ofan Árbæjarstíflu.

  13. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, varðandi gönguleið við Hallgerðargötu, umsögn - USK21120131         Mál nr. US210364

    Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi gönguleið við Hallgerðargötu, sbr. 19. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 15. desember 2021, ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 25. mars 2022. 

    Samþykkt.

    (D)    Samgöngumál

    Fylgigögn

  14. Leiðarkerfisbreytingar strætó, kynning         Mál nr. US220082

    Kynning fulltrúa Strætó bs. á leiðarkerfisbreytingum og breytingum vegna framkvæmda við Hlemm.

    Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er miður að sjá tímabundna niðurfellingu á síðustu feðrum Strætó en ljóst er að vegna heimsfaraldurs hefur rekstur Strætó beðið mikið tekjufall sem ekki hefur verið bætt af ríkinu og ekki er mögulegt að brúa það bil öðruvísi en með því að draga saman þjónustu eða eigendur leggi inn aukið fjármagn, en ekki hefur náðst samstaða um það á eigendavettvangi. Við fögnum því hins vegar að framkvæmdir við Borgarlínu eru að hefjast og þökkum Strætó fyrir góðan undirbúning fyrir þær framkvæmdir. Mikilvægt er að tímabundnar endastöðvar þjóni Hlemmi, Lækjargötu og háskólasvæðinu vel og séu staðsettar í borgarumhverfi en ekki á auðum bílaplönum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það lýsir ákveðinni uppgjöf að lagðar séu til svo miklar skerðingar á leiðakerfi Strætó. Nú þegar hefur stoppistöðvum verið fækkað, tíðni minnkuð og síðustu ferðir felldar niður. Hér blasa við frekar þjónustuskerðingar sem farið er í vegna  kostnaðar við borgarlínu. Verri þjónusta mun leiða til þess að færri taki Strætó en sumar breytinganna sem lagðar eru til fela í sér talsverðar þjónustuskerðingar við farþega. Meðal annars er lagt til að færa stoppistöðvar fjær atvinnu- og íbúðasvæðum í miðborginni. Breytingarnar koma sér til að mynda illa fyrir íbúa í austurborginni sem taka almenningssamgöngur í miðbæinn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera kröfu um áreiðanleika í leiðakerfi telja að á eigendavettvangi Strætó þurfi að fara fram umræða um fjárþörf Strætó. Það er pólitísk ákvörðun að skerða þjónustu Strætó og að setja framkvæmdir við borgarlínu framar þörfum farþega Strætó.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er forkastanlegt að skerða þjónustu Strætó. Það bitnar á þjónustuþegum af fullum þunga. Þessar aðgerðir eru vegna skorts á farþegum. Enn einu sinni er verið að hræra upp í leiðakerfinu og loka á endastöðinni á Hlemmi og henda á farþegum út á vergangi á Skúlagötu. Þetta þýðir aðeins eitt: Farþegum á eftir að fækka enn frekar – nógu slæmt er nú ástandið samt. Stjórn strætó ræður ekki við þetta verkefni og hugsa þarf rekstur Strætó alveg upp á nýtt. Reksturinn er í mikilli óreiðu – bæði fjárhagslega og skipulagslega. Verið er að leysa málin frá degi til dags og engin framtíðar – eða lokasýn. Það er stjarnfræðilega ruglað að vera að tala um og skipuleggja hina svokölluðu borgarlínu við þessar aðstæður í almenningssamgöngum. Það er ekkert hægt að tala um „tímabundið millibilsástand“ þar til borgarlína kemur – hún kemur ekki fyrr en eftir áratugi og leysir ekki almenningssamgöngur í nútíðinni og langri næstu framtíð.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú er svo komið að Strætó bs. þarf að minnka  þjónustutíma og þjónustustig Strætó vegna aðhaldsaðgerða í rekstri félagsins. Meðal annars þarf að draga úr tíðni dagferða á einhverjum leiðum og gera breytingar á kvöldferðum á fjölda leiða.  Gert er ráð fyrir að með breytingunum sparist rúmlega 200 milljónir króna í rekstri en Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Í tilkynningu frá Strætó bs. segir að Covid-faraldurinn hafi leikið rekstur Strætó grátt og tekjur hafi minnkað um allt að 1,5 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Ekki er ein báran stök. Í miðju Covid eru teknar fjárfrekar ákvarðanir, fjárfest í nýju greiðslukerfi og fjölgað í flotanum með þeim afleiðingum að draga þarf úr þjónustunni. Það er margt skrýtið í rekstri Strætó bs. sem er byggðasamlag nokkurra sveitarfélaga og á Reykjavík stærsta hluta þess. Reksturinn er óvenjulegur því  fátítt er að bæði stjórn og skipulagning þjónustunnar ásamt akstri vagna sé á sömu opinberu hendinni. Þetta kemur m.a. fram í nýlegri skýrslu sem VSB verkfræðistofa vann fyrir Strætó. Strætó sinnir báðum þessum  hlutverkum í dag án nokkurra skila á milli mismunandi þátta rekstrarins, en fyrirtækið útvistar þó um helmingi af öllum akstri sínum til annarra.

    Sólrún Svava Skúladóttir og Valgerður Gréta Benediktsdóttir frá Strætó bs. og Bjarni Rúnar Ingvarsson ráðgjafaverkfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 10:18 víkur Örn Þórðarson af fundi. 
    -    Kl. 10:18 tekur Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum.

  15. Framkvæmdir við strætóstöðvar 2022, nýjar stöðvar, færsla stöðva og áframhaldandi undirbúningur og verkhönnun, tillaga - USK22030196         Mál nr. US220083

    Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 4. apríl 2022: 

    Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki nýja staðsetningu strætóstöðva á Kringlumýrarbraut í Fossvogi, færslu stöðva á Snorrabraut norður fyrir Flókagötu ásamt því að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna framkvæmda við strætóstöðvar 2022.

    Samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að breyta leiðakerfi og færa stoppistöðvar án þess að þjónusta sé bætt. Á sama tíma er verið að minnka tíðni einhverra leiða og síðustu ferðir ferðir felldar niður. Það er þekkt að hringl með leiðakerfi leiða til þess að farþegar vilja síður nota þjónustuna, hvort sem það eru börn, unglingar eða fullorðnir.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er forkastanlegt að skerða þjónustu Strætó. Það bitnar á þjónustuþegum af fullum þunga. Þessar aðgerðir eru vegna skorts á farþegum. Enn einu sinni er verið að hræra upp í leiðakerfinu og loka á endastöðinni á Hlemmi og henda á farþegum út á vergangi á Skúlagötu. Þetta þýðir aðeins eitt: Farþegum á eftir að fækka enn frekar – nógu slæmt er nú ástandið samt. Stjórn strætó ræður ekki við þetta verkefni og hugsa þarf rekstur Strætó alveg upp á nýtt. Reksturinn er í mikilli óreiðu – bæði fjárhagslega og skipulagslega. Verið er að leysa málin frá degi til dags og engin framtíðar – eða lokasýn. Það er stjarnfræðilega ruglað að vera að tala um og skipuleggja hina svokölluðu borgarlínu við þessar aðstæður í almenningssamgöngum. Það er ekkert hægt að tala um „tímabundið millibilsástand“ þar til borgarlína kemur – hún kemur ekki fyrr en eftir áratugi og leysir ekki almenningssamgöngur í nútíðinni og langri næstu framtíð.

    Bjarni Rúnar Ingvarsson ráðgjafaverkfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    (E)    Ýmis mál

    Fylgigögn

  16. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um bætta þverun yfir Geirsgötu, umsögn - USK22030081         Mál nr. US220042

    Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bætta þverun yfir Geirsgötu, sbr. 12. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 2. mars 2022, ásamt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 25. mars 2022. 

    Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdir á svæðinu eru þegar hafnar og gert ráð fyrir þremur þverunum yfir Geirsgötun á stuttum kafla.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Flokks fólksins að  þverun verði bætt frá Edition hótel og yfir Geirsgötuna vegna mikillar umferðar hefur verið vísað frá. Rökin eru þau að yfir Geirsgötu eru nú þrjár ljósastýrðar gönguþveranir í nágrenni Kolaportsins. Ein gönguþverun er við gatnamót Geirsgötu og Kalkofnsvegar, önnur gönguþverun er við gatnamót Geirsgötu og Reykjastrætis og þriðja gönguþverunin er til móts við Hafnarhúsið /Naustin. Segir í svari að á næstu vikum er gert ráð fyrir að ein ljósastýrð gönguþverun bætist jafnframt við á gatnamótum Steinbryggju, Bryggjugötu og Geirsgötu. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að þetta dugi til að tryggja öryggi vegfarenda.

    Fylgigögn

  17. Fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hraðahindranir, umsögn - USK22010151         Mál nr. US210365

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 25. mars 2022. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að svara meira en  ársgamalli fyrirspurn.   Ef horft er á hraðahindranir í Reykjavík þá eru þær alls konar, en samt er farið eftir norskum  leiðbeiningum. Í íbúðagötum og nálægt skólum þarf að gæta alls umferðaröryggis. Þar eiga tafir rétt á sér enda öryggi barna númer eitt. Á stofnbrautum ætti að gera allt til að valda ekki óþarfa töfum. Ljósastýringar sem virka vel vantar víða. Óþarfa þrengingar mætti sleppa eins og á Grensásvegi og Háaleitisbraut. Af svari að dæma má sjá vandræðagang og er margt óljóst og loðið. Það er eins og borgin hafi engan heildstæða stefnu í hraðahindrunum. Það eru koddar, þrengingar, miðeyja, bungur, upphækkanir. Í svari má víða sjá að hitt og þetta liggur ekki fyrir eða er óákveðið:„ Skrifstofan vinnur nú að tillögu að umferðaröryggis aðgerðum ársins en fjöldi og staðsetning þeirra aðgerða liggur ekki fyrir að svo stöddu“. „Tillögur að umferðaröryggis aðgerðum ársins 2022 liggja ekki fyrir og ekki er búið að ákveða endanlega hvaða lausnir eða gerð hraðahindrana verður notast við“ og „Ekki liggur fyrir hversu stór hluti fyrirhugaðra umferðaröryggis aðgerða mun snúa að hraðahindrunum“. Sem sagt margt sem ekki liggur fyrir. Hvað með hraðamyndavélar sem valkost?

    Fylgigögn

  18. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um umferð um Ártúnsbrekku, umsögn - USK21120068         Mál nr. US210118

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 25. mars 2022. 

    Fylgigögn

  19. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um álit umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötum, umsögn - USK21120055         Mál nr. US210310

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 25. mars 2022. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um viðbrögð skipulags- og samgönguráðs við áliti umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötum? Svar/umsögn hefur borist og er lögð fram á fundi ráðsins 6.4. Það er ánægjulegt að verklag sé nú í samræmi við lög en eftir sem áður er það miður að borgin hafi ekki verið með framkvæmdina á hreinu og að það hafi þurft aðkomu Umboðsmanns Alþingis til að leiðrétta augljóst óréttlæti.

    Fylgigögn

  20. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um bílastæði við Brávallagötu, umsögn - USK21120071         Mál nr. US210318

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 25. mars 2022. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir rökum skipulagsyfirvalda um að taka 12 bílastæði við Brávallagötu undir rafbílastæði án samráðs við íbúa. Framkvæmdir hófust án nokkurs samráðs eða samtals við íbúa. Rök eru fyrir þessum framkvæmdum en þau koma sumum illa svo sem eins og gengur. Í þessu tilfelli hefði átt að ræða við íbúa götunnar í stað þess að hefja verk án nokkurs samráðs. Fólk sem þarna býr þarf að leggja bílum sínum einhvers staðar og þarna eru mikil þrengsli.  Þessi aðgerð sýnir alls enga lipurð. Þarna býr fólk með mismunandi efnahag og það er vitað að rafbílar eru enn í dýrari kantinum og ekki á færi allra að eignast. Í framtíðinni verða rafmagnsbílar eflaust algengir og kostur fyrir efnalítið fólk og þá má að aðlaga bílastæði að þeim veruleika að fullum krafti. Engu að síður er það kurteisi að tala við íbúa um mál af þessu tagi áður en ráðist er í framkvæmdir.

    Fylgigögn

  21. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um yfirlit fyrirspurna og tillaga á kjörtímabilinu         Mál nr. US220075

    Lögð fram að nýju svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram á fundi skipulags- og samgönguráðs 23. mars sl.: Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir yfirlit yfir öll mál, tillögur og fyrirspurnir sem Flokkur fólksins hefur lagt fram í skipulags- og samgönguráði á kjörtímabilinu. Gott er að fá upplýsingar um hvað ef þessum málum eru afgreidd og þá hvenær og hvað mörg mála eru enn í ferli  eða frestun.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  22. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um viðgerð á göngustíg         Mál nr. US220088

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í viðgerð á göngustíg sem liggur í gegnum Fellin frá Rjúpufelli að Yrsufelli. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingar um að þarna þarf viðhald og almenna hreinsun. Reynt hefur verið að vekja athygli borgarinnar á þessu en ekki tekist. Um er að ræða stíg sem liggur í gegnum eitt þéttbyggðasta svæði í Reykjavík. Það nota mjög margir þennan göngustíg og þarfnast hann viðgerðar og hreinsunar þegar sú tíðin er. Oft hefur verið glerbrot á stígnum, rusl og lauf á haustin. Líklegt þykir að þessi stígur hafi hreinlega gleymst  hjá borginni því enginn kemur og sópar hann hvað þá lagfærir hann.

    Frestað.

  23. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
    um Klappkort          Mál nr. US220089

    Hvernig geta einstaklingar sem eiga ekki snjallsíma eða nettengda tölvu nálgast upplýsingar um stöðu á Klappkorti sínu sem notað er í strætó? Hér er t.d. átt við 10 miða spjald. Strætófarþegar með slíkt þurfa að reiða sig á minnið til að muna hversu mörg skipti eru eftir á kortinu þar sem það er einungis sýnilegt á skjá sem er aðgengilegur þeim í strætó.

    Frestað

  24. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
    um leiðarkerfisbreytingu strætó         Mál nr. US220090

    Það vantar strætó sem fer í gegnum Hringbraut alla leið að Granda. Væri mögulegt að láta leið 3 fara frá Háskóla Íslands til Granda, í gegnum Hringbraut en ekki gegnum Lækjartorg eins og er núna í tillögu?

    Frestað

Fundi slitið klukkan 10:55

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson

PDF útgáfa fundargerðar
134._fundargerd_skipulags-_og_samgongurads_fra_6._april_2022.pdf