Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 126

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2022, miðvikudaginn 26. janúar kl. 9:00, var haldinn 126. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Anna Maria Wojtynska, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með rafrænum hætti:
Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Björn Axelsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, Inga Rún Sigurðardóttir og Jóhanna Guðjónsdóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

 1. Áhrif hámarkshraðaáætlunar Reykjavíkur á Strætó, niðurstöður greiningarvinnu, kynning         Mál nr. US220012

  Lögð fram og kynnt skýrsla frá umhverfis- og skipulagssviði, dags. 24. janúar 2022, um áhrif hámarkshraðaáætlunar Reykjavíkur á ferðatíma Strætó.  

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Þökkum ítarlega og vandaða greiningu. Niðurstöðurnar sýna að áhrif nýs hámarkshraða á flestar leiðir strætó eru hverfandi. Sú sviðsmynd sem líklegust er bendir til þess að meðaláhrifin verði á bilinu 0,1 til 2,9% af ferðatíma, sem samsvarar stærðargráðunni 5 til 58 sekúndur á hverja ferð. Það er vel ásættanlegt ef litið er til þess mikla ávinnings sem lægri hámarkshraði hefur í för með sér fyrir nærumhverfið, loftslagið og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Heildaráhrifin fyrir strætó gætu orðið jákvæð að því leyti að þó að ferðatími hugsanlega breytist aðeins þó lítið sé verði það meira aðlaðandi að komast að strætó og þar af leiðandi meira aðlaðandi að nota strætó.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það gefur auga leið að um leið og hámarkshraði er lækkaður þá hægist á Strætó eins og tafirnar séu nú ekki nægar fyrir. Það þurfti ekki að gera skýrslu um það.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Beðið var um þessa vinnu m.a. af Strætó sem hafði áhyggjur af því að lækkun hámarkshraða myndi hægja á Strætó. Rökrétt er að ef hraði ökutækja lækkar aukist ferðatími, fólk er lengur á leiðinni og það er ekki vegna neinna hindrana endilega heldur einfaldlega vegna að við lýði er ákveðinni hámarkshraði. Niðurstaðan er sú að lækkun á hámarkshraða hefur ekki áhrif á ferðatíma Strætó, alla vega ekki mikil áhrif. Þetta kemur ekki á óvart enda er strætó varla að aka um borgina á einhverjum hraða að heitið geti. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort ekki eigi eftir að koma meiri reynsla á þessi mál? Eitt er að gera lærða skýrslu um málið en svo á eftir að reyna á þetta. Ýmsar aðrar breytur gætu átt eftir að spila inn í. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þessi skýrsla flokkast undir „gæluverkefni“ og veltir fyrir sér kostnaði við vinnslu skýrslunnar.

  Höskuldur Rúnar Guðjónsson samgönguverkfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  (A)    Skipulagsmál

  Fylgigögn

 2. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

  Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 14. og 21. janúar 2022.

  Fylgigögn

 3. Miklabraut í stokk, hugmyndaleit, kynning     (01.82)    Mál nr. SN210481

  Kynntar tillögur og hugmyndaleit um uppbyggingu á og við áætlaðan stokk á gatnamótum Miklubrautar og Bústaðavegar.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hönnun á Miklubraut í stokk er enn á frumstigi þó það séu komnar fram hugmyndir um uppbyggingu á yfirborði. Nú er kjörtímabilinu brátt að ljúka án þess að hönnun á stokkalausnum hafi farið fram og er því kostnaður og tími framkvæmda óljós með öllu.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lýst er yfir miklum áhyggjum af umferðarflæði og aðkomu að Landsspítalanum þegar og ef Miklabraut verður lögð í stokk. Engar lausnir eru kynntar varðandi þau mál. Áætlað er að stokkurinn verði 1,4 km. langur. Það sjá það allir í hendi sér að þetta verður gríðarlega flókið verkefni ef af verður. Hér er ekki gætt að öryggissjónarmiðum og er það mikið ábyrgðarleysi. Hvergi er útfært hvernig neyðarakstri að Landspítalanum verði háttað. Á fundinum voru kynntar nýjar hugmyndir um að ný samgöngumiðstöð eigi að koma þar sem mislægu gatnamótin á Hringbraut/Snorrabraut. Það skýrir sannarlega hvað Reykjavíkurborg hefur dregið lappirnar í að skapa umgjörð að byggja nýja samgöngumiðstöð á BSÍ reitnum.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Með því að setja umferðaræð í stokk má minnka helgunarsvæði vega og þar með að auka möguleika á byggingum og svæðum til ýmissa nota. Þar liggja jákvæðir möguleikar. Að leggja veg í stokk er afar dýr framkvæmd.  Ef andstaða gegn  svo mikilli þéttingu er mikil munu ekki koma til tekjur af lóðasölu meðfram Miklubrautinni. Vandséð er að með því að leggja veg í stokk muni umferðarflæði aukast. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir við báða enda stokksins mun umferðarflæði ekki aukast heldur munu biðraðir aðeins færast til. Inni í stokknum munu hundruð bíla bíða. Bílvélar í hægagangi menga loft sem einhvers staðar mun þurfa að vera, en bílarnir komast á sama tíma ekkert áfram. Biðraðir bíla eru stór mengunarþáttur sem ekki er hægt að líta framhjá. Þess vegna verða að vera til áætlanir um hvert á þetta mjög mengaða útblástursloft á að fara. Er ætlunin að setja upp síur til að sía útstreymis loftið? Ef síur virka stíflast þær. Þá þarf að skipta þeim út, eða hreinsa. Einnig er mögulegt að koma menguðum lofttegundum í vatn og leiða brott. Hefur kostnaður við slíkt verið kannaður? Ekki gengur að leyfa menguðu lofti að flæða og vona að  vindar dreifi því? 

  Ólafur Melsted verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

 4. Gufunes, stofnun nýrra lóða     (02.2)    Mál nr. SN210807

  Lagt fram bréf Landupplýsingardeildar, dags. 12. janúar 2022, til skipulagsfulltrúa þar sem óskað er eftir samþykki til að stofna tvær nýjar lóðir, Gufunesveg 19 og Gufunesveg 21. Um er að ræða afmarkanir sem ná utan um núverandi byggingar innan svæðis, að stærð 2.885 fm fyrir Gufunesveg 19 og stærð 5.508 fm fyrir Gufunesveg 21. Umræddar byggingar voru auglýstar til sölu og unnið hefur verið að kaupsamningi í kjölfarið.  Lóðirnar eru teknar úr landi Gufuness. Einnig er lagt fram breytingarblað og lóðauppdrættir dags. 12. janúar 2022 og tillaga/hugmyndir arkitektastofunnar JVST ódags. að lóðamörkum, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa dags. 14. janúar 2022. Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki stofnun framangreindra lóða í samræmi við meðfylgjandi gögn.

  Samþykkt að afmarka lóðirnar við Gufunesveg 19 og 21 á þann hátt sem umsókn og innsendar teikningar sýna.

  Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 5. KR svæðið - Frostaskjól 2-6, 
  nýtt deiliskipulag     (01.516.9)    Mál nr. SN210824

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir KR svæðið. Í tillögunni felast markmið um að bæta aðstöðu KR til íþrótta og félagsstarfsemi með byggingu íþrótta og þjónustubygginga. Auk þess eru áform um að auka fjölbreytni svæðisins með byggingu íbúða á jöðrum lóðarinnar í samræmi við markmið aðalskipulagsins samkvæmt uppdráttum ASK Arkitekta ehf. og Bj. Snæ slf. dags. 5. janúar 2022. Einnig er lagt fram minnisblað Alta dags. 28. desember 2018, drög að húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur ódags. og Samgöngumat Eflu dags. 5. nóvember 2021. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að leggja til þéttingu byggðar á KR-svæðinu. Aðalvelli félagsins er snúið um 90 gráður og við það skapast tækifæri til byggja upp íbúðir og þjónustu á jarðhæð meðfram Flyðrugranda og Kaplaskjólsvegi. Öll viðmið um bílastæði eru í samræmi við bílastæðastefnu borgarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir nýju fjölnota íþróttahúsi á miðju svæðinu, sem er í takt við forgangsröðun ÍTR og ÍBR um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Við fögnum þessum hugmyndum sem nú fara í formlegt umsagnarferli.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er fagnaðarefni að nú séu loks komnar fram hugmyndir um uppbyggingu á KR svæðinu og þær fái þá kynningu hjá íbúum. Það er mikilvægt að innviðir séu tryggðir samhliða fjölgun íbúða, enda er skortur á leikskólarýmum í vesturbænum og skólar aðþrengdir. Þá er nauðsynlegt að næg bílastæði séu til staðar fyrir íbúa og gesti.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Nú stendur til að girða KR völlinn af með íbúðabyggð. Innviðir Vesturbæjarins þola ekki þá uppbyggingu. Fyrirhugað byggingamagn er allt að 20 þúsund fermetrar meðfram Kaplaskjólsvegi og Meistaravöllum í 3-4 hæða háum byggingum sem yrðu áfastar fyrirhugaðri áhorfendastúku. Blanda á saman uppbyggingu á svæðinu við bætingu á núverandi íþróttaaðstöðu. Hér er verið að notast við Vals/Hlíðarendamódelið. Það er meiriháttar óeðlilegt að tengja uppbyggingu íþróttastarfs í borginni við þrengingarstefnu borgarstjóra með tilheyrandi skuggavarpi og skerðingu á lífsgæðum sem af því hlýst.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skipulagsyfirvöld leggja til að samþykkja í auglýsingu tillögur sem snúa að bættri aðstöðu KR og þéttingu byggðar kringum aðstöðuna. Þessi skýrsla fjallar um víðtækar og viðamiklar breytingar á deiliskipulagi. Að sjá myndir virkar þetta nokkuð kraðak, eins og verið sé að troða byggingum á hvern blett. Búið er að ramma völlinn inn með húsum með grænum þökum sem aðeins sjást úr lofti. Hvernig verður með aðgengi/bílastæði þegar eru fjölmennir leikir? Vanda þarf hér til verka, en líta á á þetta sem fyrstu tillögur. Markmið er að bæta félagsaðstöðu sem hlýtur að vera aðalatriðið.  í ljósi tíðrar andstöðu íbúa við þéttingu byggðar má ætla að mikil umræða þurfi að vera um þessar tillögur og nú reynir á samráðsvilja meirihlutans. Nýlega hefur meirihlutinn tilkynnt að falla eigi frá þéttingaráformum við Bústaðaveg. Sama krafa gæti vel komið upp á þessu svæði. Sennilega eru flestir hlynntir einhverri þéttingu en gengið hefur verið of langt í ákafanum að þétta þannig að borgarbúum, mörgum þykir nóg um og vilja að staldrað sé við.

  Páll Gunnlaugsson frá ASK arkitektum, Bjarni Snæbjörnsson frá bj.snæ arkitektum og Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 6. Reykjavíkurvegur 31, skipting lóðar     (01.635.5)    Mál nr. SN210827

  Lögð fram umsókn Arons Inga Óskarssonar dags. 18. mars 2021 um skiptingu lóðarinnar Reykjavíkurvegur 31 í tvær lóðir nr. 31 og 31B. Einnig er lagt fram bréf Landupplýsingadeildar dags. 20. janúar 2022 ásamt breytingablaði umhverfis- og skipulagssviðs dags. 20. janúar 2022, lóðauppdrætti dags. 20. janúar 2022, afsalsbréfi dags. 24. október 1964 og skiptasamningi dags. 8. júní 1989. Þar sem málið varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda er lagt til að fallið verði frá kynningu þess með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 7. Hlemmur, reitur 1.240, umferðarskipulag, breyting á deiliskipulagi     (01.240)    Mál nr. SN210185

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Hlemmur og nágrenni, deiliskipulag stgr. 1.240, Hlemmur og nágrenni og Hlemmur, umferðarskipulag, sem samþykkt var 19. mars 2020 í borgarráði og tók gildi við birtingu auglýsingar í B deild Stjórnartíðinda þann 7. apríl 2020. Í breytingunni felst að greinargerð deiliskipulagsins er uppfærð í samræmi við þessa breytingartillögu og fyrri breytingu, dags. 25. janúar 2021. Deiliskipulagið er samræmt við nýsamþykkt Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Lóðarmörkum Laugavegs nr. 107 er breytt þannig að lóðin nær eingöngu utan um núverandi hús (Hlemmur mathöll) ásamt byggingarreit A (viðbygging). Þremur nýjum lóðum er bætt inn á torgsvæðið, tvær lóðir utan um byggingarreiti C og D auk þess að stofnuð er lóð fyrir dreifistöð rafveitu við Þverholt. Byggingareitir C og D, þar með lóðir þeirra, færðir í sundur. Bætt er við byggingareitum fyrir sorpskýli á borgarlandi og sérskilmálum um nýtingu. Byggingarreitur E fyrir djúpgáma er felldur út. Reitur undir hjólaskýli, H, á norðurhluta Rauðarárstíg stækkaður. Skerpt er á sérskilmálum byggingareita og nú lóða til að endurspegla frekar tillögu hönnuða Hlemmtorgs. Sérrými almenningssamgangna og hjólastígum á Hverfisgötu er hliðrað lítillega til að koma lóðum betur fyrir. Breyttir skilmálar fyrir setsvæði og svið. Reitur biðstöðvarsvæðis almenningssamgangna breytt í byggingareit og reitur stækkaður til austurs. Bætt er við frekari upplýsingum um stöðu fornleifa á svæðinu. Byggingareit R+H við Þverholt breytt í reit R2 fyrir veitumannvirki og tæknibúnað og ný lóð, Laugavegur nr. 122, stofnuð undir reitinn. Bætt er við byggingareit fyrir almenningssalerni norðan við Hlemm, Laugaveg nr. 107. Bætt er við umfjöllun um samræmi við frumdragaskýrslu Borgarlínu lotu 1 samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta ehf. dags. 18. janúar 2022. Einnig er lögð fram greinargerð Yrki arkitekta ehf. dags. 18. janúar 2022 og hönnunarleiðbeiningar Dagný Land Design ehf. dags. janúar 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Verið er að loka á alla umferð á Hlemmsvæðinu. Því er skellt í lás fyrir fjölskyldubílnum. Einungis er hægt að komast inn á Laugaveg frá Snorrabraut eftir þessar breytingar. Einnig er verið er að henda leigubílum af þessu svæði. Því er ekki verið að uppfylla markmið þessara hugmynda um að Hlemmur verði nokkurs konar samgöngumiðstöð þar sem samgöngur fyrir alla en ekki bara sumra/borgalínufarþega séu í heiðri höfð. Verið er að breyta miðbænum í draugabæ skref fyrir skref.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Margt er gott í tillögunum.  Útlitslega séð þykir sitt hverjum þegar horft er á Hlemm út frá fagurfræðilegu sjónarmiði. Götur umhverfis mætti endurbæta með t.d hellulögn. Svæðin mætti gera mun grænna t.d. með trjágróðri í kerjum og afmarka svæði útiveitingar og leiksvæði. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það er fólk sem býr við Hlemm. Stundum er eins og það gleymist því svo mikil áhersla er lögð á að byggja upp „stemninguna“. Það eru t.d. engir djúpgámar fyrir íbúa til að koma frá sér rusli. Fyrir þá íbúa sem eiga bíla er ekki vitað hvort þeir megi aka með þungar og miklar vörur/vistir upp að dyrum sínum. Það eru leiðir og leyfi fyrir fyrirtæki að afferma vörur en hvar er leyfið fyrir íbúana. Talað er um blágrænar ofanvatnslausnir. Ofanvatnslausnir er orðið tískuhugtak. Ofanvatnslausnir eru mikilvægar víða um heim, en að þær séu gerðar að einhverju aðalatriði á svæði eins og við Hlemm er hjákátlegt. Hér er næg úrkoma til að vökva plöntur í beðum og á torgum. Fulltrúi Flokks fólksins sá í gögnum að hætta er á sýkingu vegna miltisbrandsdysjar við Hlemm. Miltisbrandur er alvarlegur dýra- og mannasjúkdómur. Við uppgröft og aðra jarðvinnu á svæðinu þarf að fara mjög varlega.

  Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 8. Mýrargata 21 og 23/Rétttrúnaðarkirkjan, breyting á deiliskipulagi     (01.116)    Mál nr. SN220043

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits vegna Mýrargötu 21 og 23. Í breytingunni felst að sameina lóðirnar í eina lóð. Byggingarmagn helst óbreytt sem og stærð og umfang bygginganna sem helst óbreytt. Nýtingarhlutfall lóðar breytist lítillega þar sem tengigangur, sem þegar er heimilaður í gildandi deiliskipulagi að hámarki 50m2, er talinn með í fermetrum bygginganna. Við sameiningu lóðanna verða fjögur bílastæði á lóðinni, þar af eitt fyrir hreyfihamlaða, samkvæmt uppdr. Arkiteó, dags. 20. janúar 2022. Lagt er til að framangreind tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði samþykkt án auglýsingar eða grenndarkynningar þar sem breytingin varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda. 

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 9.     Staðsetning hjólabrautar í Gufunesi, tillaga         Mál nr. US220020

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að hentugri staðsetningu fyrir hjólabraut í Gufunesi, dags. 20. desember 2021. 

  Samþykkt og vísað til meðferðar skipulagsfulltrúa.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Staðsetning hjólabrautar í Gufunesi hefur verið endurskoðuð eftir að lagst hefur verið yfir staðarvalið í samráði við notendur. Þetta eru fyrirmyndarvinnubrögð og ánægjulegt er að jákvæð lausn sem sátt er um hafi orðið niðurstaðan. Það verður gleðilegt að taka næstu skref í málinu en kallað hefur verið eftir hjólabraut á svæðinu af íbúum, meðal annars í gegnum Hverfið mitt.

  Þórólfur Jónsson deildarstjóri Náttúru og garða og Atli Steinn Árnason frístundafræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  (B)    Byggingarmál

  Fylgigögn

 10. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

  Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1146 frá 11. janúar 2022 og nr. 1147 frá 18. janúar 2022.

  (C)    Ýmis mál

  Fylgigögn

 11. Erindi íbúaráðs Grafarvogs vegna vegtengingar við Gufunes - MSS2110024         Mál nr. US220003

  Lagt fram bréf íbúaráðs Grafarvogs, dags. 17. janúar 2021, um bókun fulltrúa íbúaráðsins um svar umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn íbúaráðs Grafarvogs um afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs á deiliskipulagstillögu um vegtengingu við Gufunes.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ekki þótti unnt að bregðast við ábendingum íbúaráðsins en samgöngutengingarnar inn í hverfið á þessum stað voru taldar skynsamlegasta lausnin. Þær stytta leiðir inn í hverfið og auka t.d. möguleika á almenningssamgöngum sem mikið hefur verið kallað eftir. Eðlilegt er að horft verði til öryggis allra vegfarenda þegar gatnamót hins nýja vegar í Gufunesið og Strandvegar verða endanlega hönnuð.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lögð er fram leiðrétt bókun fulltrúa í íbúaráði Grafarvogs vegna svars við fyrirspurn um afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs á deiliskipulagstillögu um vegtengingu við Gufunes. Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa bókun og hvetur borgaryfirvöld til að endurskoða málið í heild sinni. Þarna er krafist úrbóta og hafa verið lagðar fram tillögur til þess fallnar að bæta öryggi og flæði núverandi vegar og gatnamóta. Í bókun segir að ekkert hafi verð hlustað á framlögð rök. Nú reynir á meirihlutann að gera einmitt það sem hann segist alltaf vera að gera „að hlusta á borgarbúa/íbúa.

  Fylgigögn

 12. Tillaga fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta, um að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem ungmenni leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi og að upplýsingar um útvinnsluferlið verið aðgengilegar         Mál nr. US210372

  Lagt fram til upplýsinga bréf forsætisnefndar Reykjavíkur dags. 9. desember 2021 þar sem fram kemur að samþykkt hefur verið að stytta afgreiðslutíma þeirra tillagna sem fulltrúar í ungmennaráði leggja fram á árlegum borgarstjórnarfundi og að upplýsingar um útvinnsluferlið verið aðgengilegar. Einnig er lögð fram umsögn Forsætisnefndar dags. 2. desember 2021, verklagsreglur skrifstofu borgarstjórnar um fundi og meðferð tillagna Reykjavíkurráðs ungmenna dags. 13. febrúar 2015 og bréf Forsætisnefndar dags. 16. júní 2021.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar tillögu fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta um að stytta afgreiðslutíma tillagna þeirra sem ungmenni leggja fram á árlegum fundi borgarstjórnar og að upplýsingar og úrvinnslu ferlið verði aðgengilegar. Tafir á afgreiðslu mála og ógegnsæi í úrvinnsluferli borgarinnar er stórt vandamál nánast hvert sem litið er innan borgarkerfisins. Þó er þetta einmitt eitt af því sem þessi meirihluti lofaði að laga svo um munaði. Það hefur oft tekið heila eilífð fyrir svið/nefndir  Reykjavíkurborgar að afgreiða umsagnir þannig að málin geta aftur komið á dagskrá til afgreiðslu. Dæmi eru um að meira en eitt ár og jafnvel eitt og hálft ár hafi liðið frá því að tillaga er lögð fram og þar til hún kemur til afgreiðslu á fundi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skilning á að þetta taki einhvern tíma enda mikið af málum sem lögð eru fram en heilt ár og meira er of mikið. Þá eru málin iðulega búin að missa marks, jafnvel orðin úrelt. Vonandi mun afgreiðslutími almennt séð styttast, hvaðan svo sem þau berast,  frá ungmennaráðum, borgarbúum eða frá kjörnum fulltrúum ef því er að skipta.

  Fylgigögn

 13. Bergstaðastræti 81, kæra 168/2021, umsögn     (01.196.4)    Mál nr. SN210788
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 24. nóvember 2021 ásamt kæru dags. 23. nóvember 2021 þar sem kærð er synjun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 16. nóvember 2021 um leyfi til að gera bílageymslu með tilheyrandi innkeyrslu frá götu við suðaustur lóðarmörk, og að þak bílageymslu verði hluti af efri verönd lóðar húss á lóð nr. 81 við Bergstaðastræti. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 7. janúar 2022.

 14. Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga         Mál nr. SN190323

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 22. desember 2021 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 21. desember 2021, með 12 atkvæðum gegn 10 atkvæðum, á 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. desember 2021; uppfærsla á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.

  Fylgigögn

 15. Tillaga fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata, um bættar göngutengingar í Gamla-Vesturbænum         Mál nr. US210257

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 19. nóvember 2021.

  Samþykkt að vísa til fjárhagsáætlunargerðar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Vert er að skoða bættar göngu- og hjólatengingar í Vesturbænum. Í því samhengi er rétt að halda í gönguleið í Vesturbugt við gömlu höfnina. Rétt er að skoða þessar leiðir vandlega þannig að samgöngur verði greiðari í heild fyrir alla fararmáta.

  Fylgigögn

 16. Fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um ýmsan kostnað, 
  umsögn - USK21120114         Mál nr. US210199

  Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. nóvember 2021, ásamt minnisblaði Faxaflóahafna dags. 26. nóvember 2021.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er að finna samantekt á því hvaða verktakar unnu eftirtalin verkefni, hvað þeir fengu greitt og hvað verkin fóru fram úr kostnaðaráætlunum: Bragginn, Nauthólsvegi 100, vitinn Sæbraut, Gröndalshús, endurbætur á Hlemmi – síðar mathöll, Grandinn – síðar mathöll, Fossvogsskóli, húsnæði Adam og Evu og Safamýri 5, sem áætlað er að breyta í leikskóla. Svarið er að finna hér og eru allar slóðir virkar í skjalinu. https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/fyrirspurnir_aheyrnarfulltrua_midflokksins_um_ymsan_kostnad_svar.pdf 

  Fylgigögn

 17. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, 
  um hraðahindranir         Mál nr. US210365

  Í Reykjavík eru hraðahindranir í nokkrum útgáfum, stundum þrenging, stundum einstefna þar sem einn og einn bíll fer í gegn í einu og stundum koddar/bungur í mismunandi gerðum. Farið er eftir norskum leiðbeiningum í þessu efni.  
  Verið er að setja tugi af alls konar hraðahindrunum um þessar mundir.
  Spurt er um fjölda og gerð þeirra hraðahindrana sem verið er að gera núna (sem eru í vinnslu) og kostnað?
  Hvað er fyrirhugað að setja margar hraðahindranir árið 2022?
  Hvernig gerðar eru þær?
  Hver er fyrirhugaður kostnaður?
  Hvað margar af þessum hraðahindrunum eru einskorðaðar við 30 km götur?

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 18. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um byggingarmagn lóða þar sem bensínstöðvar munu víkja         Mál nr. US210345

  Hvert er byggingarmagn á þeim reitum þar sem nú eru bensínstöðvar en fyrirhugað er að íbúðir og önnur þjónusta komi á svæðin? Óskað er eftir yfirliti skipt útfrá þeim lóðum sem tilgreindir eru í minnisblaði nefnt: Fækkun bensínstöðva - áfangaskil samningaviðræðna við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík um uppbyggingu á ýmsum lóðum, lagt fram í borgarráði 24. júní 2021. 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um hæð byggingar á Ægissíðu         Mál nr. US220021

  Í samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar á uppbyggingarsvæðum sem samþykkt er af borgarstjóra er sagt að leggja skuli áherslu á gæði og gott umhverfi og varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar. Telja skipulagsyfirvöld í borginni að allt að 5 hæða fjölbýli í lágstemmdari byggð Ægissíðu falli undir þessi samningsmarkmið Reykjavíkurborgar?

  Frestað.

 20. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um kostnað vegna skýrslu         Mál nr. US220022

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um heildarkostnað greiningarvinnu og skýrslugerðar umhverfis- og skipulagssviðs um áhrif hámarkshraðaáætlunar Reykjavíkur á ferðatíma Strætó. Um var að ræða innanhúsvinnu. Óskað er eftir upplýsingum um  tímafjölda sem fór í verkið og annan kostnað sem og heildarkostnað. Beðið var um verkið af meirihlutanum og  Strætó sem hafði áhyggjur af því að lækkun hámarkshraða myndi hægja á Strætó. 

  Frestað.

 21. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um Smyrilshlíð         Mál nr. US220023

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaðar breytingar á skipulagi í Smyrilshlíð 2 (n.t.t. íbúð 502) og hvernig grenndaráhrif hún muni hafa? Einnig hvaða áhrif mun breytingarnar muni hafa á birtu/skuggavarp. 

  Frestað.

 22. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um skoðanakönnun á meðal íbúa Skerjafjarðar         Mál nr. US220024

  Lagt er til að gerð verði skoðanakönnun meðal íbúa Skerjafjarðar vegna fyrirhugaðrar landfyllingar og uppbyggingaráforma á flugvallarsvæðinu. Skapað hefur verið fordæmi fyrir slíkri könnun á viðhorfi íbúa til skipulagsáforma með Gallup könnun sem gerð var nýlega meðal íbúa í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Til að gæta jafnræðis meðal íbúa borgarinnar er rétt að slík könnun fari einnig fram vegna skipulagsáforma í Skerjafirði.

  Tillögunni fylgir greinargerð
  Frestað.

  Fylgigögn

 23. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um lýsingu við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar         Mál nr. US220025

  Við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar við Kirkjusand eru birtuskilyrði fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur slæm sem kann að hafa leitt hafa til alvarlegra slysa. Í einu slysinu hjólaði ökumaður á rafskútu sem lá þvert á hjólastíginn og sást illa í myrkrinu. Stendur til að bæta öryggi hjólandi og gangandi á þessum slóðum með bættri lýsingu til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda? 

  Frestað.

 24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, varðandi íbúa við Hlemm         Mál nr. US220026

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fundinn verði staður fyrir djúpgáma við Hlemm. Við Hlemm býr fólks sem átt hefur í mesta basli með að koma frá sér sorpi. Einnig er lagt til að íbúum Hlemm verið gefið formlegt leyfi til að aka bíl sínum upp að dyrum til að afferma vörur/vistir eða ef flytja þarf þunga hluti inn á heimilið.

  Tillögunni fylgir greinargerð.
  Frestað.

  Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 12:18

Pawel Bartoszek Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hjálmar Sveinsson

PDF útgáfa fundargerðar
126._fundargerd_skipulags-_og_samgongurads_fra_26._januar_2022.pdf