Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 124

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 15. desember kl. 9:01, var haldinn 124. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Sara Björg Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir og Marta Guðjónsdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Jóhanna Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og starfsmenn tóku sæti með fjarfundarbúnaði: Inga Rún Sigurðardóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

 1. Breytingar á gjaldsvæði bílastæða í Reykjavík, tillaga - USK2021110056         Mál nr. US210367

  Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 13. desember 2021, ásamt fylgigögnum: 

  Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð
  samþykki eftirfarandi tillögu að breytingu á gjaldskyldu fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar. Um er að ræða eftirfarandi breytingar á afmörkun gjaldsvæða:

  1. Gjaldskyld bílastæði:
  a.    Eftirfarandi götur breytist úr gjaldsvæði 2 í gjaldsvæði 1:
  •    Bergstaðastræti, milli Skólavörðustígs og Bjargarstígs.
  •    Bjarnarstígur.
  •    Frakkastígur, milli Njálsgötu og Grettisgötu.
  •    Garðastræti, milli Túngötu og Vesturgötu.
  •    Hallveigarstígur.
  •    Ingólfsstræti, bílaplan norðan við Hallveigarstíg 1.
  •    Ingólfsstræti, milli Amtmannsstígs og Spítalastíg.
  •    Kárastígur.
  •    Mjóstræti.
  •    Njálsgata, milli Klapparstígs og Frakkastígs.
  •    Skólavörðustígur, milli Týsgötu og Njarðargötu.
  b.    Eftirfarandi gata breytist úr gjaldsvæði 4 í gjaldsvæði 3:
  •    Félagstún.
  c.    Eftirfarandi götur verði gerðar gjaldskyldar og verði á gjaldsvæði 2:
  •    Barónsstígur, milli Bergþórugötu og Grettisgötu.
  •    Njálsgata, milli Barónsstígs og Snorrabrautar.
  •    Ægisgata.
  d.    Að eftirfarandi svæði verði gerð gjaldskyld og verði á gjaldsvæði 3:
  •    Bergþórugata, milli Barónsstígs og Snorrabrautar.
  •    Frakkastígur, bílaplan á lóð nr. 1.

  Annað er óbreytt frá gildandi afmörkun gjaldsvæða. Í samræmi við 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, hefur tillagan verið borin undir og hlotið samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

  Samþykkt með með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er um að ræða einfaldar tilfærslur á gjaldskyldu og gjaldsvæðum í samræmi við samþykktar reglur. Gjaldskyldu er komið á á Ægisgötu og austast við Njálsgötu í samræmi við niðurstöður talningar. Þá færist efsti hluti Skólavörðuholts upp um gjaldsvæði en verð lækka hjá Hlemmi og við Höfða. Í næsta áfanga talningar er rétt að skoða sérstaklega bílastæðanýtingu á jöðrum núverandi gjaldsvæðis.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er um gríðarlega hækkun á gjaldskrá fyrir bílastæði í borgarlandinu. Um 100% á sama tíma og opinberir aðilar eiga að gæta hófs á verðbólgutímum. Rökin fyrir hækkuninni er aukin eftirspurn eftir stæðunum. Borgarstjóri sagði í fréttum RÚV þann 3. nóvember síðastliðinn að „ekki verði gripið til gjaldskrárhækkana“. Þau orð stangast algerlega á við þessa miklu hækkun.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Bílastæði í borgarlandinu er takmörkuð auðlind. Þessi tillaga er blaut tuska framan í borgarbúa sem vilja sækja miðbæinn heim og svo við tölum nú ekki um rekstraraðila á þessum svæðum. Stækka á gjaldsvæði og færa þau á milli flokka þannig að það verður dýrara að leggja. Að auki er verið að útvíkka gjaldtökuna til fleiri gatna. Allt þetta miðar að því að hindra för fjölskyldubílsins í miðbæinn og gera verslun og þjónustu erfiða fyrir rekstraraðila eins og það sé nú ekki nóg fyrir. Þessari tillögu er mótmælt harðlega.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skipulagsyfirvöld leggja til að stækka gjaldsvæði 1 sem er dýrasta gjaldskyldusvæðið. Verið er að þrengja sífellt meira að þeim sem þurfa nota bíl til að fara ferða sinna og eiginlega þykir fulltrúa Flokks fólksins nóg komið af álögum á borgarbúa sem í þessu tilfelli koma verst niður á þeim sem búa fjarri miðbænum og langar að heimsækja miðbæinn endrum og sinnum. Tekið er undir að gott er að koma bílum sem mest af götum en fram kemur í gögnum að bílastæðahúsin eru lítið nýtt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bent á að margt má gera til að auka nýtingu bílastæðahúsa t.d. með því að hafa þar meiri þjónustu, aðlaðandi umhverfi og lækka gjaldið. Eldra fólk forðast bílastæðahús. Óttast er að með þessari aðgerð fækki enn frekar þeim sem leggja leið sína í miðbæinn, fólk sem býr í úthverfum og velur frekar að sækja þjónustu þar sem aðgengi er betra og frí bílastæði.

  (A)    Skipulagsmál

  Fylgigögn

 2. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

  Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 3. og 10. desember 2021.

  (E) Samgöngumál

  Fylgigögn

 3. Nýtt leiðarnet strætó, kynning         Mál nr. US210373

  Fulltrúar Strætó bs. kynna fyrirhugaðar breytingar á nýju leiðarneti strætó.

  Ragnheiður Einarsdóttir og Valgerður Gréta Benediktsdóttir frá Strætó bs. taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að breytingar á leiðakerfi séu þannig að ferðatími verði styttri og tíðni verði aukin. Borgarstjórn samþykkti að auka ferðatíðni á helstu leiðum í 7,5 mínútur en það hefur ekki verið gert. Stoppistöðvum hefur fækkað í austurhluta borgarinnar og hlutfall ferða Strætó hefur minnkað. Nauðsynlegt er að bæta leiðakerfið þannig að þessari þróun verði snúið við og almenningssamgöngur verði valkostur fyrir fleira fólk en nú er.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Enn er verið að rótast í leiðaneti Strætó. Það tekur bara ekki enda á þessu kjörtímabili. Í hvert skipti sem leiðarneti er breytt þá fækkar farþegum. Enda flengjast vagnarnir tómir um göturnar. Nú er verið að breyta leiðarneti Strætó í „nýjar borgarlínuleiðir“ Samkvæmt uppdráttum eiga þær að vera komnar til framkvæmda 2023 og enda 2025. Það er einmitt það – búið er að trimma upp einhverjar hugmyndir sem enginn veit hvernig er, hvað mun kosta og hver rekstrarkostnaðurinn verði. Enda varar ríkisendurskoðandi við fjármögnunarhlið borgarlínu og ábyrgð ríkisins á henni. Meðal annars er gert ráð fyrir að Fossvogsbrúin verði komin 2023 og áætlað er að Strætó keyri hana fram og til baka á meðan brúin er lokuð fyrir almennri umferð. Það er ekki heil brú í þessu. Strætó á einungis að nota stóra vagna á morgnana og síðdegis þegar álag er meira en nota litla bíla á öðrum tímum. Til hvers þarf borgarlínu upp á tugi, tugi milljarða ef þessar tillögur um Strætó ná fram að ganga. Strætó er með þessum tillögum búinn að slá allar hugmyndir um borgarlínu. Fyrir það er þakkað.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Borgarlína er ekki að koma næstu misseri og þess vegna þarf að leysa brýnustu vandamál á leiðum strætó. Nefna má Norðlingaholtið. Strætó keyrir ekki inn að skólanum en tillaga í Nýju leiðaneti er að breyta því. Ítrekaðar ábendingar og kvartanir hafa verið lagðar fram sem Strætó bs hefur hunsað. Margar snúa að öryggismálum í kringum skólann. Sagt er að þau mál séu komin inn á borð hjá borginni. En er lausn í sjónmáli? Einnig stendur til að strætó hætti að aka hringinn í Norðlingaholti og að þar verði aðeins ein stoppistöð. Þá verður ansi langt að fyrir þá sem búa fjærst stoppistöðinni að taka strætó. Loks má nefna vanda með tengingar milli Árbæjar og Breiðholts eftir kl. 9 á morgnana. Leið 51 stoppar í Norðlingaholti og keyrir Breiðholtsbraut í Mjódd en hún er ekki á mikilli tíðni. Krakkar sem eru á ferð eftir 9 missa af tengivagni yfir í Breiðholtið og munar nokkrum mínútum. Þetta væri hægt að laga með betri tímastillingu. Almennt er tenging milli þessara stóru hverfa, Árbæ, Grafarholts og Breiðholts slæm en tenging austur, vestur er betri. Ekki er nægilegt að vera með góða tengingu að miðbænum.

  Fylgigögn

 4. Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga         Mál nr. SN190323

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. desember 2021, við afgreiðslu Skipulagsstofnunar á tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna endurskoðunar stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknilega uppfærslu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040. Einnig er lagt fram bréf Skipulagsstofnunar til umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 
  10. desember 2021, umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 8. nóvember 2021, umsögn umhverfis- og skipulagssvið við umsögn Minjastofnunar, dags. 13. desember 2021 og bréf umhverfis- og skipulagssviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 26. október 2021.

  Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata að uppfæra Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, samþykkt í borgarstjórn 19. október sl., sbr. listi yfir lagfæringar í umsögn umhverfis- og skipulagsviðs dagsett 13. desember, sbr. einnig umsögn Skipulagsstofnunar, dagsett 10. desember sl. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn. 
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Aðalskipulag til 2040 er gallað. Ekki síst í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá um vöxt rætist er árleg þörf 1.210 íbúðir á ári til 2040. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram vera undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu á Geldinganesi og möguleikar lítið nýttir á Kjalarnesi. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa er um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Gengið er á græn svæði og er gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 (á reit M2g). Þá er þrengt verulega að þróunarmöguleikum Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Af þessum sökum og öðrum leggjumst við gegn aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands tekur undir gagnrýni um að aðalskipulag sé gallað hvað húsnæðismál varðar og vill bóka áhyggjur sínar um skort á lóðum til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis s.s. á Keldum, á Kjalarnesi og á fleiri stöðum innan borgarinnar, sér í lagi hvað varðar lóðir til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga og lóðir til bygginga raðhúsa og einbýlis og tvíbýlishúsa fyrir stærri fjölskyldur að byggja yfir sig þannig að ekki sé eingöngu um lóðir að ræða sem seldar eru til verktaka. Auka þarf fjölbreytni og sveigjanleika í húsnæðismálum borgarinnar. Staðan er þannig í Reykjavík í dag að ungt fólk flýr í hrönnum til nágrannasveitarfélaganna þar sem húsnæði við hæfi og á viðráðanlegu verði eru einfaldlega ekki í boði og hafa ekki verið lengi.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Verið er að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040 og eru leiðarljós stefnunnar þessi: 80% nýrra íbúða verði innan áhrifasvæðis borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öfluga atvinnukjarna. Minnst 90% nýrra íbúða rísi á röskuðum eða þegar byggðum svæðum og að ekki verði gengið á opin svæði með hátt náttúrufars- og/eða útivistargildi. Yfir 90% starfa í Reykjavík verði innan vaxtarmarka árið 2040 og 80% nýrra starfa til ársins 2040 verði við borgarlínu. Hér er verið að boða massíva þrengingarstefnu sem flestir sjá að gengur ekki upp. Ljóst er að ef 80% nýrra íbúða verði á áhrifasvæði svokallaðrar borgarlínu þá þýðir það mikla röskun í rótgrónum hverfum með tilheyrandi álagi á umhverfið og íbúana. Innviðirnir þola ekki slíka uppbyggingu. Allt þetta miðar að því að gefa leyfi fyrir háum byggingum með tilheyrandi skuggavarpi, sem er heilsuspillandi, í hverfunum ásamt því að útrýma bílastæðum fyrir fjölskyldubílinn. Það er sláandi að ekki er gert ráð fyrir frekari úthlutun lóða í úthverfum Reykjavíkur þar sem möguleiki væri á stórkostlegri uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er ekki á förum næstu áratugi en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar í þessum áformum.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fjallað er um athugasemdir sem komið hafa fram og er þær flestar athugasemdir vegna byggingarmagns, hæð húsa, blandaða byggð svæði fyrir bílastæði. Skipulagsstofnun telur að skerpa þurfi betur á viðmiðum og reiknireglum um hámarksþéttleika eftir svæðum. En þetta er aðalskipulag, í deiliskipulagi er tekin endanleg ákvörðun um byggingarmagn, hæðir húsa og þéttleika að undangengnu samráðsferli. Þá er aftur komið að samráðsferlisumræðunni sem Flokkur fólksins telur að hefjist of seint í ferlinu. Skipulagsyfirvöld ganga fram án viðhlítandi samráðs. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um skotveiðisvæðið á Kjalarnesi. Hagsmunum hverra er verið að berjast fyrir í því sambandi? Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst vantar skýr svör. Í 16 ár hafa íbúar Kjalarness mátt þola hljóðmengun sem svæðinu fylgir auk þess sem blý hefur safnast á ströndina og í sjóinn. Aðalskipulaginu var breytt á síðustu stundu, íbúar höfðu ekkert tækifæri til athugasemda og samráð var ekkert. Ýmsum brögðum er beitt, allt til að skotvellirnir geti opnað að nýju. Fjöldi kvartana hafa borist til lögreglu og HER sl. 16 ár. Tveir hópar kærðu útgáfu starfsleyfanna í vor. Nú hafa íbúar og íbúasamtök Kjalarness sent erindin til Skipulagsstofnunar og niðurstaða er: Það er ekki hlutverk Skipulagsstofnunar að skera hér úr um. Borgin ræður.

  Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 5. Arnarnesvegur, nýtt deiliskipulag     (04.9)    Mál nr. SN210221
  Vegagerðin, Suðurhrauni 3, 210 Garðabær

  Lögð fram tillaga verkfræðistofunnar Eflu f.h. Reykjavíkurborgar og Kópavogs að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga. Deiliskipulagstillagan nær til hluta Arnarnesvegar, nýs 2+2 vegar ásamt tveggja nýrra hringtorga, frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og veghelgunarsvæða hans sem nær að jafnaði 30 metra út frá miðlínu vegarins. Hluti veghelgunarsvæðis Arnarnesvegar er innan sveitarfélagamarka Reykjavíkur, en stærsti hluti vegarins liggur innan sveitarfélagamarka Kópavogs. Samhliða er gert ráð fyrir stofnstíg, aðskildum hjóla- og göngustíg, frá Rjúpnavegi í Kópavogi og að Elliðaárdal ásamt tengistígum með fram Breiðholtsbrautinni og undir fyrirhugaða brú yfir Breiðholtsbraut. Jafnframt er gert ráð fyrir göngubrú/vistloki yfir veginn. Arnarnesvegur sem liggur innan marka skipulagssvæðisins er um 1,9 km að lengd og liggur frá suðaustur hluta Leirdals að grænu opnu svæði norðan Breiðholtsbrautar, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdrætti verkfræðistofunnar Eflu dags. 8. nóvember 2021. Einnig er lögð fram greinargerð dags. 8. nóvember 2021.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Framlenging Arnarnesvegar ásamt gatnamótum við Breiðholtsbraut er hluti af samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir þrennum undirgöngum, tveimur göngubrúm auk heimildar fyrir tvenn vistlok yfir Arnarnesveg. Stærð gatnamótanna er haldið í lágmarki til að ganga sem minnst á svæði Elliðaárdals og tryggja að fyrirhugaður vetrargarður í Seljahverfi fái notið sín. Þétt net stíga fyrir gangandi og hjólandi liggur með fram veginum gatnamótum. Við teljum áfram æskilegt að bætt verði við samfelldum stofnstíg norðan við Arnarnesveg sem yrði hluti af Hverfisskipulagi Breiðholts, til að bæta samgöngur fyrir gangandi og hjólandi á svæðinu enn frekar.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds og Marta Guðjónsdóttir, leggja fram svohljóðandi bókun:

  Því er fagnað að nú verður rofið framkvæmdastopp á lagfæringum stofnvegakerfisins í Reykjavík sem var ákveðið árið 2012. Þessi framkvæmd var þar á meðal ásamt mörgum öðrum. Því miður er besta útfærslan er ekki valin, heldur farið í lausn sem kostar nánast jafn mikið, en skilar mun minni árangri. Í niðurstöðum Eflu og Vegagerðarinnar í september 2020 voru 3 lausnir metnar. Sú sem best kom út fékk meðfylgjandi umsögn. "Með tilliti til umferðaröryggis, afkasta og kostnaðar er lausn 3 ákjósanlegust". Þar er um að ræða mislæg gatnamót með fríu flæði umferðar í allar áttir. Núverandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hafnar þeirri útfærslu. Þar með eykst afkastageta minna, umferðartafir verða áfram og umferðaröryggi er ekki bætt eins og annars væri gert. Því er fjármagn illa nýtt og árangur ekki eins og best væri á kosið.

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Katrín Atladóttir, leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ég fagna framgangi Samgöngusáttmála. Þessi lausn gengur ekki inn á Vetrargarðinn sem verður mikil bót fyrir íbúa borgarinnar og ekki síst íbúa Breiðholtsins. Einnig gengur þessi lausn minna á Elliðaárdalinn en aðrar tillögur en við Sjálfstæðismenn höfum lagt mikla áherslu vernda Elliðaárdalinn sem og önnur græn svæði í borginni.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
   
  Arnarnesvegurinn er afleit framkvæmd og eingöngu gerð til að þjónusta Kópavogsbúa. Eina eðlilega framkvæmdin á þessu svæði er að tvöfalda Breiðholtsbrautina frá Jafnaseli að Rauðavatni. Athyglisvert er að sjá að nú eigi nýr trjágróður að falla að þeirri plöntusamsetningu sem er fyrir í Elliðaárdalnum og val á tegundum skal unnið í samráði við deild Náttúru og garða á Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. Það stefnir í, samkvæmt fyrri reynslu, að þessi framkvæmd verði sögð auka líffræðilega fjölbreytni. Svo er enn bent á að ekki á að gera nýtt umhverfismat. Útskýrt með því að framkvæmdir við Arnarnesveg hafi í raun byrjað árið 2004 og ákvæði 12. gr. laganna því ekki við í þessu máli og “þar með þurfi ekki að gera nýtt umhverfismat vegna framkvæmdarinnar”. Það er mjög sérkennilegt. Sérstaklega þar sem núverandi borgarstjórn vísar sífellt í mikilvægi verndunar umhverfis og grænna áherslna. Eiga svona glufur í lögunum virkilega að ráða skipulagsstefnu borgarinnar? Umferðarspá um Arnarnesveg er augljóslega röng. Núverandi umferð um Vatnsendaveg er 18.000 bifreiðar, en eingöngu er gert ráð fyrir 13.500 bifreiðum um Arnarnesveg sem verður fjögurra akreina stofnbraut. Getur verið að spáin sé viljandi röng til að komast hjá nýju umhverfismati?

  Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 6. Elliðaárdalur, breyting á deiliskipulagi     (04.2)    Mál nr. SN210780

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals. Breytingin felst í að skipulagsmörkum deiliskipulagsmarka Elliðaárdals er breytt og minnkar skipulagssvæðið um 1,7 ha. Breytingin er tilkomin vegna fyrirhugaðra gatnamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar sem verða utan skipulagssvæðis. Minnkunin er til að samræma mörk deiliskipulags Elliðaárdals við nýtt deiliskipulag Arnarnesvegar, samkvæmt uppdr. Landslags dags. 20. september 2021.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lögð er fram tillaga meirihlutans að breytingu á deiliskipulagi sem er tilkomin vegna vegna fyrirhugaðrar gatnamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar sem verða utan skipulagssvæðis. Arnarnesvegurinn verður til þess að minnka þarf skipulagssvæði Elliðaárdalsins. Með öðrum orðum. Það er verið að ganga á Elliðaárdalinn. Arnarnesvegurinn skiptir ekki aðeins máli fyrir þróunarmöguleika fyrirhugaðs Vetragarðs, umhverfi og þróunarmöguleikum Vatnsendahvarfs heldur líka á efri hluta Elliðaárdals. Samt sem áður má ekki gera nýtt umhverfismat. Hverjir eru hagsmunir borgarinnar?

  Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 7. Sörlaskjól og Faxaskjól, nýtt deiliskipulag     (01.53)    Mál nr. SN210784

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir göngu- og hjólastíg við Sörlaskjól og Faxaskjól. Í tillögunni felst aðskilið stígakerfi meðfram strandlengjunni og núverandi götukassa og skilgreindur er áningarstaður á gatnamótum Faxaskjól og Ægissíðu. Með framkvæmdinni er stígakerfi svæðisins styrkt til muna og umferðaröryggi bætt með fyrrnefndum aðskilnaði á göngu- og hjólastíg. Við tillögugerðina var tekið tillit til forskráningar á fornleifum og minjum innan skipulagssvæðisins. samkvæmt uppdr. Landmótunar dags. 25. nóvember 2021.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 8. Reynimelur 66, breyting á deiliskipulagi     (01.524.1)    Mál nr. SN210804
  Arkís arkitektar ehf., Vesturvör 7, 200 Kópavogur
  IREF ehf., Skeifunni 17, 108 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Arkís arkitekta ehf. dags. 1. desember 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Mela vegna lóðarinnar nr. 66 við Reynimel. Í breytingunni felst að heimilt er að fjölga íbúðum úr 3 í 4, þaksvalir eru heimilar á tveggja hæða hluta nýbyggingar og skulu vera inndregnar um að minnsta kosti 2m frá útbrún þaks neðri hæðar ásamt því að heimilt er að gera að hámarki 120 m2 kjallara innan byggingareits, samkvæmt uppdr. Arkís arkitekta ehf. dags. 18. nóvember 2021.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (B)    Byggingarmál

  Fylgigögn

 9. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

  Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1142 frá 30. nóvember 2021 og nr. 1143 frá 7. desember 2021.

  (D) Ýmis mál

  Fylgigögn

 10. Umræða um framlengingu á umsagnar-fresti vegna Hverfisskipulags 
  Háaleitis- og Bústaðahverfis         Mál nr. US210376

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að umsagnarfrestur vegna Hverfisskipulags Háaleitis og Bústaðahverfis verði framlengdur til. 7. janúar.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu: 

  Lagt er til að fallist verði á að framlengja umsagnafrest um málið til 1. apríl næstkomandi eins og samþykkt var einróma á fjölmennum íbúafundi um Bústaðahverfið sem haldinn var í Réttarholtsskóla 13. desember síðastliðinn.

  Breytingartillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

  Tillaga fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata er samþykkt.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Vinnutillögur hverfisskipulags voru upprunalega kynntar 14. október með umsagnarfresti til 12. nóvember. Umsagnarfresturinn hefur verið framlengdur í tvígang, fyrst til 26. nóvember og svo aftur til 15. desember. Sjálfsagt er að verða við óskum um viðbótarfrest framlengja tímann til að skila umsögnum fram yfir áramót. Að því loknu er eðlilegt að vinna úr framkomnum athugasemdum og taka ákvarðanir um einstaka tillögur með hliðsjón af þeim.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hugmyndir um blokkir í kringum Bústaðaveg eru gríðarlega umdeildar. Borgarstjóri sagði orðrétt í gær: „Skipulags- og samgönguráð mun taka afstöðu til óska um frekari framlengingu á fundi sínum á morgun.“ Sá fundur er í dag. Það er því einboðið að ráðið greiði atkvæði um þá tillögu sem samþykkt var samhljóða á fjölmennum fundi íbúa, en hún gerði ráð fyrir að athugasemdafrestur væri framlengdur til 1. apríl næstkomandi.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að kasta fram lítilli og skemmdri gulrót framan í íbúana. Að veita frest til 7 janúar 2022 er ekki frestur eins og beðið hefur verið um. Í fyrsta lagi er Covid og í öðru lagi erum við að ganga inn í hátíðir þar sem allir eru að sinna fjölskyldum sínum. Hér er meirihlutinn að leggja til að hagsmunaaðilar eyði hátíðunum í bréfaskriftir við borgina. Það er ekki eitt hjá þessum borgarstjóra og meirihlutanum – það er allt. Gervi samráð á gervi samráð ofan.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar að umsagnarfrestur vegna tillagna um hverfisbreytinga Bústaða- og Háaleitishverfis verði samþykktur og jafnvel að hann verði mun lengri en rætt er um sem er í byrjun janúar.
  Íbúar í þessu hverfi eru virkilega áhyggjufullir. Þær hugmyndir sem liggja fyrir gefa til kynna að þrengja eigi verulega að þessari gömlu grónu byggð og að Bústaðavegi. Áður en þessi drög lágu fyrir eða vinnutillögur hefði þurft að hafa meira samráð og samtal við íbúanna. Svokallað samráð hefst of seint í ferlinu. Samráð og samtal þarf að vera frá byrjun. Það er mjög sennilegt að fólk vilji ekki að gengið sé svona langt í þéttingunni og þrengingu að Bústaðavegi. Vissulega má víða þétta en þetta er spurning um hóf og skynsemi og varar fulltrúi Flokks fólksins við að farið sé gegn vilja þorra íbúa í þessum málum. Þá er betra að fara sér hægar enda er hvorki himinn né jörð að farast þótt almennilegur frestur verði veittur til að senda athugasemdir. Spurning er hvort ekki sé eðlilegt og réttlátt gagnvart íbúum að lengja frestinn fram yfir kosningar?

 11. Veitingar á fundum ráðsins         Mál nr. US210375

 12. Atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar til 2030, umsagnarbeiðni - USK2021120018         Mál nr. US210370

  Lögð fram umsagnarbeiðni skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. desember 2021, þar sem skipulags- og samgönguráði er gefinn kostur á að senda inn umsögn eða gera athugasemdir við stefnudrögin.

  Frestað.

 13. Skýrsla um úttekt á undirgöngum Reykjavíkur, umsagnarbeiðni         Mál nr. US210371

  Lögð fram umsagnarbeiðni Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 29. nóvember 2021, þar sem óskað er umsagnar skipulags- og samgönguráðs um skýrslu um úttekt á undirgöngum Reykjavíkur.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skýrslan gefur mynd af stöðu undirganga undir umferðaræðar. Göng eru alls 51. Fram kemur að víða má bæta úr, svo sem merkingar, lýsingu, göngurampa. Bæta aðstæður þeirra sem eru með sérþarfir, t.d. þeir sem ekki sjá vel eða eiga erfitt um gang. Víða er skortur á almennu viðhaldi. Mörg dæmi eru um að bratti upp úr og ofan í undirgöng er allt of mikill og kemur það sér sérstaklega illa fyrir þá sem nota hjólastóla og auðvitað þá sem eru á hefðbundnu hjóli. Innkoma í göngin eru oft illa merkt, fólk sér ekki auðveldlega hvar á að fara inn. Undirgöng og viðhald þeirra eru kannski þess leg að auðvelt er að gleyma þeim. Fólk fer í gegn en gerir kannski ekki mikið úr því þótt allt sé útkrotað eða sóðalegt. Mikilvægt er að gera einnig úttekt af þessu tagi á vetrartímanum þegar farið er að rökkva því þá sjást aðrir hlutir betur. Fulltrúi Flokks fólksins vill láta skoða hvort setja ætti öryggismyndavélar í undirgöng. Margir eru hræddir við að nota þau en ef myndavélar væru gæti það skapað öryggiskennd. Myndavélar hafa líka fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu.

  Fylgigögn

 14. Suðurgata 13, kæra 104/2021, 
  umsögn, úrskurður     (01.141.3)    Mál nr. SN210493
  Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 30. júní 2021 ásamt kæru dags. 29. júní 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um að aðhafast ekki varðandi ólögmæta íbúð í kjallara hússins að Suðurgötu 13. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 20. ágúst 2021 og úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 7. september 2021. Úrskurðarorð: Kærumál þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. Jafnframt er lögð fram tilkynning úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 7. september 2021 um framsendingu kærunnar til kærunefndar húsamála. Lagt fram að nýju ásamt erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 1. október 2021 ásamt endurupptökubeiðni á máli nefndarinnar dags. 21. september 2021 er varðar kjallaraíbúð á Suðurgötu 13. Einnig er lagður fram úrskurður umhverfis- og auðlindamála frá 2. desember 2021. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 9. júní 2021 um að aðhafast ekki frekar vegna kjallaraíbúðarinnar á Suðurgötu 13.

 15. Dverghamrar 8, kæra 120/2021, 
  umsögn, úrskurður     (02.299)    Mál nr. SN210573
  Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 14. júlí 2021 ásamt kæru dags. 13. júlí 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa að afhafast ekki frekar vegna óleyfisframkvæmda að Dverghömrum 8. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 10. ágúst 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður umhverfis- og auðlindamála frá 2. desember 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júní 2021 um að aðhafast ekki frekar vegna óuppfyllts rýmis á neðri hæð hússins að Dverghömrum 8 í Reykjavík.

 16. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðgengismál þriggja hjóla barnavagna, umsögn - R21070165, USK2021120031         Mál nr. US210216

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjórna og borgarhönnunar, dags. 10. desember 2021.

  Tillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan er felld með vísan í umsögn sviðsins.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gerðar verði breytingar á slóðum þannig að hægt verði einnig að fara með þriggja hjóla barnakerrur um þær. Tillagan er felld og þykir efni hennar greinilega ekki mikilvægt. Hér er um að ræða hverfi sem er að mörgu leyti í miklum ólestri þrátt fyrir að vera orðið 15 ára. Úlfarsárdalur er langt því frá að vera sjálfbær eins og til stóð. Íbúar þurfa að sækja alla vinnu utan hverfis og ná í mjólkurpottinn einnig í næsta hverfi. Samt er þrýst á að þeir leggi bílum sínum og hjóli eða gangi helst allar leiðir. Nú er verið að steypa slóða sem eru gamaldags, oft lagðir í mikla brekkur og þurfa börn að bera hjól sína upp og niður stigana. Einnig eru brautir steyptar þannig að útilokað að fara um þær með þriggja hjóla kerru. Skipulagsyfirvöld borgarinnar verða að fylgjast með nýjungum en verk ganga svo seint að þegar verkin eru loks framkvæmd eru þau úrelt eða gamaldags.

  Fylgigögn

 17. Fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um ýmsan kostnað, umsögn – USK21120114         Mál nr. US210199

  Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. nóvember 2021, ásamt minnisblaði Faxaflóahafna dags. 26. nóvember 2021.

  Frestað. 

 18. Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um gagnagrunn vegna bygginga sem innihalda asbest - R210900276, USK2021100004         Mál nr. US210362

  Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram í borgarráði 30. september 2021 og vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að skráð verði í sérstakan gagnagrunn hvar asbest er að finna í þeim byggingum sem eru í eigu Reykjavíkurborgar. Töluverð þekking er í dag á því hvar asbest er að finna í byggingum sem eru í eigu Reykjavíkurborgar. Þetta er þekking sem tapast þegar starfsfólk hættir og því er gríðarlega mikilvægt að byrjað sé að skrá það niður á miðlægan stað hvar asbest er að finna. Það er mikilvægt hvort svo það séu leik- eða grunnskólar eða aðrar byggingar sem eru í eigu Reykjavíkurborgar til þess að koma í veg fyrir að einstaklingar komist í snertingu við asbest án þess að vera í viðeigandi hlífðarbúnaði og koma í veg fyrir alvarleg veikindi.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  Fylgigögn

 19. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, varðandi gönguleið við Hallgerðargötu         Mál nr. US210364

  Lagt er til að gönguleiðir og lýsing við Hallgerðargötu, alla leið frá Sundlaugavegi að Kirkjusandi, verði kláruð sem fyrst.

  Tillögunni fylgir greinargerð.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  Fylgigögn

 20. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um lóðir á Kjalarnesi         Mál nr. US210311

  Fyrirspurnir um lóðir á Kjalarnesi? Fulltrúi Flokks fólksins spyr um lóðir á Kjalarnesi. Fulltrúa Flokks fólksins skilst að það hafi verið óskað eftir byggingarleyfum fyrir íbúðasvæði á Kjalarnesi en ekki verið leyft. Einhverjar lóðir eru þar lausar en ekki fengist leyfi. Óskað er eftir upplýsingum um hve mörgum umsóknum hefur verið hafnað um byggingu einbýlis og raðhúsa á Kjalarnesi síðustu misseri. Hafa skal í huga að það vilja ekki allir búa í blokk á þéttingarsvæðum auk þess sem blokkaríbúðir á þéttingarreitum, jafnvel þær minnstu eru dýrar og ekki fyrir námsmenn, fyrstu kaupendur hvað þá efnaminna fólk að fjárfesta í.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa.

 21. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um skipulagsstafir við Vonarstræti 
  og Lækjargötu         Mál nr. US210312

  Fyrirspurnir frá fulltrúa Flokks fólksins um skipulagstafir við Vonarstræti og Lækjargötu. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hverju það sæti að fæst að því sem lagt var upp með á þessu tímabili stenst tímaáætlun. Óskað er eftir að rýnt verði í hvað veldur og fulltrúi Flokks fólksins fái skrifleg svör. Nýlega bárust fregnir að því að Reykjavíkurborg hafi framlengt leyfi til að þrengja að umferð við Lækjargötu og Vonarstræti vegna framkvæmda við byggingu hótels við Lækjargötu 12 fram til 30. apríl 2022. Vestari akrein Lækjargötu var lokað í mars 2019 vegna framkvæmdanna. Þess vegna verða umferð/umferðarþrengingar þarna óbreyttar. Þær aðstæður sem þarna eru skapa slysahættu bæði fyrir gangandi, hjólandi og akandi. Spurt er hvort ekki megi hagræða á þessu svæði með öðrum hætti þrátt fyrir framkvæmdirnar? Sem dæmi mætti minnka vinnusvæðið til muna. Það hótel sem þarna rís opnar tveimur árum síðar en áætlað var. Kórónuveirufaraldur er sagður ein af ástæðum tafa þrátt fyrir að meirihlutinn lagði mikla áherslu á að hraða skyldi framkvæmdum sem aldrei fyrr til að tryggja atvinnu í COVID. 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu.

 22. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um framkvæmdir við Ánanaust         Mál nr. US210357

  Hvaða gatnaframkvæmdir eiga sér stað við Ánanaust og hversu langan tíma eiga þær að taka?

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu.

Fundi slitið klukkan 11:49

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Sara Björg Sigurðardóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_1512.pdf