Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 113

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 8. september kl. 09:05, var haldinn 113. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Eyþór Laxdal Arnalds, Katrín Atladóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson og áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: áheyrnarfulltrúinn Vigdís Hauksdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Ólafur Melsted, Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

 1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

  Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 3. september 2021.

  Fylgigögn

 2. Fiskislóð 16-32 og Grandagarður 39-93, breyting á deiliskipulagi     (01.115.004)    Mál nr. SN210466
  Andri Klausen, Tómasarhagi 27, 107 Reykjavík
  ASK Arkitektar ehf., Geirsgötu 9, 101 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Andra Klausen f.h. eigenda dags. 22. júní 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Örfiriseyjar vegna lóðanna nr. 16-32 við Fiskislóð og 39-93 við Grandagarð.  Í breytingunni felst að lóð B er stækkuð til að umlykja núverandi hús að Fiskislóð 28 og lóð C minnkar því sem um nemur. Einnig er lagður fram uppdr. ASK Arkitekta ehf. dags. 27. ágúst 2021.

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 3. Háskólinn í Reykjavík - Nauthólsvegur 81, breyting á deiliskipulagi     (01.751)    Mál nr. SN210611

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Háskólans í Reykjavík vegna lóðar nr. 81 við Nauthólsveg (reits F). Í breytingunni felst breyting á byggingarreit 1. hæðar. Reiturinn er stækkaður til að skapa svigrúm fyrir útfærslu en byggingarmagn er óbreytt. Þá er skerpt á landnotkunarskilgreiningu lóðarinnar og henni breytt úr "Grunnskóli" í "Grunnskóli/Leikskóli", samkvæmt uppdr. Trípólí arkitekta, dags. 31. ágúst 2021. 

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 4. Rökkvatjörn 6, (fsp) samþykki á vikmörkum     (05.052.3)    Mál nr. SN210614
  Einar Brynjarsson, Gerplustræti 13, 270 Mosfellsbær

  Lögð fram fyrirspurn Einars Brynjarssonar dags. 1. september 2021 ásamt bréfi dags. sama dag um að vikmörk verði látin gilda um íbúafjölda á lóð nr. 6 við Rökkvatjörn, en óskað er eftir að vera með 12 íbúða fjölbýlishús á lóð. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. september 2021.

  Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 3. september 2021.

  Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (B)    Byggingarmál

  Fylgigögn

 5. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

  Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1129 frá  31. ágúst 2021. 

  (E) Samgöngumál

  Fylgigögn

 6. Niðurstöður könnunar um viðhorf til göngugatna         Mál nr. US210249

  Lagðar fram niðurstöður árlegrar skoðunarkönnunar um viðhorf til göngugatna.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:  

  Könnunin sýnir að 69% Reykvíkinga eru jákvæðir í garð göngugatna og 16% neikvæðir. Þá eru alltaf fleiri að sem telja að göngusvæðið sé of lítið. Jákvæðir eru fleiri en neikvæðir í öllum hverfum, öllum aldurshópum og á öllum tekjubilum. Niðurstaða könnunarinnar er skýr: Borgarbúar eru hrifnir af göngugötum.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Svona er farið með útsvarsgreiðslur Reykvíkinga. Keyrð er könnun eftir könnun um sama efni um gæluverkefni meirihlutans og allt af sama fyrirtækinu, Maskínu. Það er orðið rannsóknarefni hvað það fyrirtæki er samantvinnað í útgjaldahlið Reykjavíkur. Það samstarf hófst þegar Viðreisn kom inn í viðreistan meirihluta. Það eitt og sér er rannsóknarefni. Svo virðist að ákveðin fyrirtæki séu á spena hjá borginni.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:  

  Sama fyrirtæki hefur mælt afstöðu til göngugatna síðan 2017. Innkaup á ráðgjafarþjónustu er á ábyrgð sviðsins og í fullu samræmi við innkaupareglur. Dylgjum fulltrúa Miðflokksins er hafnað.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

  Staðreyndir eru ekki dylgjur og það eru dylgjur að dylgja um það.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Meirihlutinn leggur fram niðurstöður árlegrar skoðunarkönnunar um viðhorf til göngugatna, gerð af Maskínu. Þótt almennur stuðningur sé við göngugötur kemur fram að andstaðan er mest í úthverfum.  Gera má því skóna að það tengist m.a. slökum almenningssamgöngum, að ekki sé auðvelt að komast á þessar göngugötur nema á bíl og erfitt sé að finna honum stæði. Meirihluti telur að áhrif á verslun séu neikvæð, en jákvæð á veitingarekstur. Er það ásættanlegt? Margar kannanir hafa verið gerðar í þessu máli og er ákveðinn rauður þráður í þeim að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þeir sem búa á miðbæjarsvæðinu eru ánægðir, vilja ekki sjá bílana. Þeir sem stunda skemmtanalífið og ferðamenn eru líka ánægðir. Aðrir eru neikvæðir og leita eftir þjónustu annars staðar en í miðborginni. Þeir sem eru neikvæðir kvarta yfir því augsýnilega, aðgengi er slæmt að svæðinu, þeir sem eru hreyfiskertir geta ekki gengið langt. Sumir nefna veður; göngugötur fyrir fáa sólardaga; að sjarmi miðbæjarins sé horfinn; að þetta hefði alls ekki átt að vera forgangsmál o.s.frv. Meirihlutinn leggur á sama tíma fram tillögu að bjóða þeim sem glíma við hreyfiskerðingu að leiga af borginni rafskutlur og telja að með því sé verið að koma á móts við þá sem finnst aðgengi slæmt og eiga erfitt um gang.

  Fylgigögn

 7. Nýi Skerjafjörður, hönnunarleiðbeiningar         Mál nr. US210234

  Kynntar hönnunarleiðbeiningar fyrir borgarland í nýja Skerjafirði.

  Rebekka Guðmundsdóttir deildarstjóri borgarhönnunar og Martin Arfalk frá Mandaworks, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hönnunarleiðbeiningarnar eru metnaðarfullar og setja gangandi og hjólandi umferð og mannlíf milli húsanna í algjöran forgang þar sem gert er ráð fyrir óskertu göngurými, sérstöku svæði fyrir götugögn og félagslegar athafnir sem og hjólastígum. Það fer vel á því að bílar fái í mesta lagi um þriðjung af götukassanum eins og hér er lagt til. Meðal hugmyndanna eru rými þar sem bílar eru algjörlega víkjandi nema vegna vöruflutninga eða slíks sem er ánægjulegt. Hér er um framúrskarandi borgarhönnun að ræða sem taka mætti til fyrirmyndar á uppbyggingarsvæðum.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Enn ein glærusýningin sem sýnir bara sumar og sól. Allir vita að sólardagar eru mjög fáir í Reykjavík á sumrin sbr. sumarið í sumar. Fólk býr ekki í glærusýningum. Allt í sambandi við uppbyggingu hjá Flugvellinum í Reykjavík er skemmdarverk á öryggishlutverki hans á landsvísu. Það er mikið ábyrgðarleysi að hálfu borgarstjóra og meirihlutans.

  (D) Ýmis mál

  Fylgigögn

 8. Urðarbrunnur 58, kæra 140/2021     (05.054.5)    Mál nr. SN210616
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 1. september 2021 ásamt kæru dags. sama dag þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans um útgáfu vottorðs 9. júní sl. vegna lokaúttektar við Urðarbrunn 58.

 9. Frakkastígur - Skúlagata, kæra 20/2021, umsögn, úrskurður     (01.15)    Mál nr. SN210160
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 26. febrúar 2021 ásamt kæru dags. 26. febrúar 2021 þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs frá 10. desember 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Frakkastíg - Skúlagötu vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar við Frakkastíg 1. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 10. maí 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 2. september 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Skúlagötusvæði, Skúlagötu/Frakkastíg.

 10. Erindi íbúaráðs Grafarvogs, vegna gönguþverana á Hallsvegi og víðar - R20010388, USK2021090006         Mál nr. US210248

  Lagt fram bréf íbúaráðs Grafarvogs, dags. 2. september 2021, um bókun íbúaráðsins vegna gönguþverana á Hallsvegi og víðar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Erindi íbúaráðs Grafarvogs, vegna gönguþverana er lagt fram á fundi skipulags- og samgönguráðs. Enn er kvartað yfir því að hægt gengur að klára einföld atriði svo sem að gera almennilegar aðstæður fyrir gangandi vegfrendur. Nú hafa skipulagsyfirvöld gefið út yfirlýsingar um að gangandi vegfarendur skuli alltaf hafa forgang en samt virðist ekki vera hægt að tryggja öryggi þeirra, ekki einu sinni á gangbrautum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að brýnt sé að ganga í málið án tafar.

  Fylgigögn

 11. Tillaga fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata, um tilraunaverkefni um útleigu á rafskutlum, umsögn - USK2021070008         Mál nr. US210180

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 20. ágúst 2021.

  Tillögunni er vísað til fjárhagsáætlunargerðar. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillaga meirihlutans snýr að því að hefja undirbúning tilraunaverkefnis vegna leigu á rafskutlum sem sérstaklega verði ætlað að þjóna fólki sem á erfitt með að ganga lengri vegalengdir í miðbænum.  Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvaða hóp meirihlutinn er að vísa hér til. Fatlaðs fólks, fólks með skerta hreyfigetu eða þeirra sem eru með léttvægari fótameiðsl? Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til aðra lausn sem mætti skoða samhliða rafskutluleigu þess vegna og hún er sú að skutluvagn  æki um göngugötur. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að ekki megi fjölga bílum á göngugötum og að á Hverfisgötu séu frábærar strætótengingar.  Víða erlendis, á sólarströndum sem dæmi má sjá fólk sem á erfitt um gang aka um á litlum rafskutlum, sennilega svipað því og meirihlutinn hefur í huga. Það fólk býr á hótelum á staðnum og rafskutlurnar til taks fyrir utan hótelin. Þegar reynt er að yfirfæra þetta yfir á miðbæ Reykjavíkur er fyrsta hugsunin að fólk sem ekki býr þar þarf að komast þangað sem rafskutlan er?

  Fylgigögn

 12. Loftslagsbreytingar, kynning         Mál nr. US210232

  Kynning á helstu atriði úr 6. skýrsla vinnuhóps sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Árleg heildarlosun koltvíssýringsgilda á heimsvísu er samtals um 50 milljarðar tonna. Ísland losar árlega samtals um 6 milljónir tonna af CO2 gildum eða 0.012% af heildarlosuninni og er því ekki tölfræðilega mælanleg. Losun CO2 gilda af mannavöldum á heimsvísu er eftirfarandi: þá er það svona: Iðnframleiðsla - sement, stál, ál, plast, o.fl. 31%, raforkuframleiðsla 27%, landbúnaður - húsdýr, plöntur, o.fl. 19%, samgöngur - flug, bílar, skip, o.fl. 16%, upphitun og kæling húsnæðis 7%. Allt tal um að við séum umhverfissóðar eru staðlausir stafir. Svandís Svavarsdóttir gaf losunarkvótann sem við fengum í gegnum „íslenska ákvæðið“ á altari ESB-umsóknarinnar. Það er rétt að rifja það upp og Vinstri grænir eru mestu umhverfishræsnarar á Íslandi sbr. líka það að Íslendingar byrjuðu á ný að brenna kol þegar Vinstri grænir gáfu leyfi fyrir kísilverksmiðjum á Íslandi. Ekki þarf að taka fram að kolin eru innflutt með tilheyrandi mengun. Tölum um umhverfismál með staðreyndum en ekki tilfinningum.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fram fer kynning á helstu atriðum úr 6. skýrsla vinnuhóps sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Ef horft er til Íslands og Reykjavíkur þá er rafvæðing bílaflotans sjálfsögð aðgerð svo og að nota vistvæna orku til skipa og framleiðsla  á endurnýjanlegri orku og nýtingu hennar. Nýta þarf t.d. það metan sem safnað er  í stað þess að brenna því á báli.  Þetta eru allt  mótvægisaðgerðir sem liggur beinast við að ráðast í og hefði mátt vera búið að virkja fyrir all löngu. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá að skógrækt verði stóraukin í upplandi Reykjavíkur. Ekkert virðist því til fyrirstöðu að rækta skóg allt frá Heiðmörk og upp að Bláfjöllum og Hengli. Slík skógrækt hefði mun meiri áhrif á loftlagsjöfnuna en endurheimt þess litla votlendis sem er í Reykjavík.

  Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 13. Loftlagsbókhald Reykjavíkurborgar 2020, kynning         Mál nr. US210231

  Kynning á loftlagsbókhaldi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikil sóknarfæri eru í orkuskiptum á höfuðborgarsvæðinu og er miður að hleðslustöðvar borgarinnar séu óstarfhæfar vegna þess að ekki var farið í útboð. Mikilvægt er að auka aðgengi almennings að hleðslustöðvum, ekki síst við fjölbýlishús. Þá ætti að fara strax í markvissa gróðursetningu eins og samþykkt var á fundi borgarstjórnar 18. júní 2019.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fram fer kynning á loftlagsbókhaldi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020. Stærstur hluti útblásturs í loftslagsbókhaldi Reykjavíkurborgar á sér stað vegna samgangna. Þess þá heldur er brýnt að flýta orkuskiptum. Rafbílar hafa lækkað í verði en þurfa að lækka enn meira til að fleiri hafa ráð á að kaupa þá. Því fleiri sem aka um á vistvænum ökutækjum því jákvæðari útkoma í loftslagsbókhaldi borgarinnar Aðgerðir svo sem að auka hlutdeild hjólreiða er jákvætt og ætti skipulag stíga að miðast við að hjólreiðar verði mikilvægur samgöngumáti fyrir þá sem geta og vilja notað þann samgöngumáta.  Það þarf að búa til betri innviði fyrir hjól í borginni fyrir örflæði líkt og erlendis. Fram kemur að  vegna landbúnaðar í borginni sé talsverð losun gróðurhúsalofttegunda (vísað er í svínabú innan Reykjavíkur). Varla getur það nú talist mikið í stóra samhenginu að mati fulltrúa Flokks fólksins og hvað mega þá mörg önnur sveitarfélög segja?

  Stefán Þór Kristinsson frá Eflu tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 14. Tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um leikvelli algildrar hönnunar         Mál nr. US210171

  Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um leikvelli algildrar hönnunar, dags. 10. júní 2021, sem vísað var til skipulags- og samgönguráðs, dags. 18. júní 2021:    

  Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð beinir því til skipulags- og samgönguráðs að láta yfirfara gátlista fyrir leiksvæði og opin svæði sem er hafður til hliðsjónar við hönnun og framkvæmd svæðanna og bæta inn atriðum til að tryggja að svæðin uppfylli hugmyndafræði algildrar hönnunar. Lagt er til að við hönnun og/eða breytingar á leikvöllum, fjölskyldurýmum eða opnum svæðum í borgarlandinu verði ávallt litið til hugmyndafræði algildrar hönnunar (Universal Design). Er þar meðal annars átt við að svæðin og leiktækin sem valin eru henti sem flestum hópum óháð aldri og fötlun. Við hönnun og útfærslu verði haft í huga að leita lausna í takt við Græna planið svo sem umhverfisvæn leiktæki og að hugað verði að kolefnisfótspori og endurnýtingu efnis.

  Tillagan er samþykkt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lögð er fram á fundi skipulags- og samgönguráðs tillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um leikvelli algildrar hönnunar sem er samþykkt umsvifalaust enda tillaga meirihlutans. Fulltrúi Flokks fólksins styður allt sem felst í því að svæði/tæki á leikvöllum, fjölskyldurými eða opin svæði í borgarlandinu verði hönnuð og tæki valin sem henti sem flestum hópum óháð aldri og fötlun. Segir í greinargerð með tillögunni að leiktæki eiga einnig að geta rúmað ömmur og afa, ungmenni sem og lítil börn. Hugmyndin er að öll fjölskyldan geti komið saman og leikið sér. Mitt í þessu öllu vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu fyrst og fremst á öryggisþáttinn. Minnt er á að það hafa orðið alvarleg slys á börnum í leiktækjum borgarinnar. Sem betur fer eru þau fátíð. Stöðug  vitundarvakning þarf að vera í gangi að mati fulltrúa Flokks fólksins, sinna þarf viðhaldi og reglubundnu eftirliti á tækjum og svæðum þar sem börn eru á leik og skoða þarf hin minnstu frávik. Fulltrúi Flokks fólksins vil nota tækifærið hér að leggja áherslu á að myndavélar verði settar upp á öllum leikvöllum í ljósi nýlegs atviks þar sem maður reyndi að hrifsa barn á brott sem var við leik á leikvelli.

  Fylgigögn

 15. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðgengismál þriggja hjóla barnavagna - R21070165, USK2021080011         Mál nr. US210216

  Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 22. júlí 2021 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 12. ágúst 2021:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á slóðum þannig að hægt verði einnig að fara með þriggja hjóla barnakerrur um þær. Þessir slóðar (brautir) sem verið er að steypa í nýjum hverfum eru hefðbundnir með tveimur steyptum brautum og tröppum á milli og er því útilokað að fara um þær með þriggja hjóla kerru.

  Tillögunni fylgja tvær myndir.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  Fylgigögn

 16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála         Mál nr. US210228

  Borist hefur kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna samþykkts deiliskipulags fyrir nýtt hverfi í Skerjafirði. Hefur umhverfis- og skipulagssvið skilað umbeðnum gögnum sem óskað hefur verið eftir vegna kærunnar fyrir tilskilinn frest? 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 17. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um gangbrautaframkvæmdir við Melaskóla         Mál nr. US210229

  Óskað er upplýsinga um hvenær gangbrautaframkvæmdum lýkur við Melaskóla. Það er áhyggjuefni að þeim hafi ekki verið lokið fyrir skólabyrjun en það ógnar umferðaröryggi barna við skólann.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 18. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um lagfæringar á gangstéttarbrúnum við gönguþveranir í Breiðholti         Mál nr. US210188

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær til standi að lagfæra gangstéttarbrúnir sem og aflíðandi halla frá gangstétt út á gönguþveranir í Efra Breiðholti. Þetta er sérstaklega slæmt við gatnamót  Breiðholtsbrautar og Jafnasels en einnig víða annars staðar í Breiðholti.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um Steindórsreit         Mál nr. US210224

  Fyrirspurn um aðstæður við Steindórsreitinn sem er vestast í vesturbænum. Um er að ræða  frágang á athafnasvæði við Steindórsreit. Vakin hefur verið athygli fulltrúa Flokks fólksins á að þar sé slysahætta. Um er að ræða vestast á Sólvallagötunni og vestast á Hringbrautinni við hringtorgið við J.L. húsið.  Kringum Steindórsreit er búið að setja krossviðarplötur yfir gangstéttar sem veldur því að ökumaður sem keyrir vestur eftir Hringbraut og beygir til hægri út á Granda, hægra megin á hringtorginu getur með engu móti séð, gangandi, hjólandi fólk hvorki á vespum né  hlaupahjólum sem fara yfir gangstétt beint séð frá vestri inn á Sólvallagötuna. Þarna hefur orðið slys.  Hvað hyggjast skipulagsyfirvöld gera í þessu máli? Þarna er búið að byggja stóran grjótgarð, taka gangstéttir í burtu og er aðgengi slæmt. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa haft eftirlit með að framkvæmdir séu í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi, þ.m.t. hvort að ásigkomulagi, frágangi, notkun eða umhverfi framkvæmdar sé ábótavant eða hvort að af henni stafi hætta.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu, afnotaleyfadeildar.

 20. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um samráðsfund vegna skipulagshugmynda við Arnarbakka         Mál nr. US210238

  Vegna áformaðra skipulagshugmynda við Arnarbakka er lagt til að haldinn verði samráðsfundur sem fyrst með íbúum í Stekkja- og Bakkahverfi. Íbúar hafa nú þegar mótmælt fyrirhuguðum hugmyndum um  uppbyggingu við Arnarbakka sem þau telja ekki vera í samræmi við þá byggðaþróun sem fyrir er í hverfinu. Mikilvægt er að sátt skapist um skipulag og þéttingu í grónum hverfum og er alvöru samráð við íbúa þar lykilatriði.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 21. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, um könnun um ferðavenjur         Mál nr. US210243

  1. Hver var kostnaðurinn við könnun sem Maskína gerði fyrir Reykjavíkurborg um ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu og hvernig þeir ferðast úr og í vinnu og hvernig þeir myndu helst vilja ferðast úr og í vinnu? 2. Hvers vegna varð Maskína fyrir valinu?

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 22. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Laugarveg í 9 skrefum         Mál nr. US210244

  1. Hver er kostnaðurinn frá upphafi til 1. september 2021 við teymin sem vinna að "Laugavegur í 9 skrefum" með auglýsingakostnaði og öllu tæmandi talið? 2. Hvernig voru teymin valin? 3. Hver eru starfsheiti þeirra sem í teymunum sitja? 4. Hver er áætlaður heildarkostnaður við verkefnið "Laugavegur í 9 skrefum" við verklok?  5. Hvers vegna var eigendum og rekstraraðilum á Laugaveginu ekki boðið að vera í teymunum? 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 23. Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata, leggja fram svohljóðandi tillögu um bættar göngutengingar í Gamla-Vesturbænum         Mál nr. US210257

  Skipulags og samgönguráð felur umhverfis- og skipulagssviði að skoða leiðir til að bæta tengingar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli Gamla-Vesturbæjarins og Kvosarinnar. Skoðaðar verða bættar göngutengingar í austur-vesturátt, til dæmis meðfram Mýrargötu, Nýlendugötu, Vesturgötu sem og meðfram ströndinni. Möguleikar til að gera götur á svæðinu að göngu- eða vistgötum verða kortlagðir og gerð verði áætlun um eflingu og endurhönnun borgargatna.
   
  Tillögunni fylgir greinargerð.
   
  Frestað.

  Fylgigögn

 24.     Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hvort leitað var til sérfræðinga þegar viðmið um þéttleika og hæðir húsa voru ákvörðuð í Breiðholti         Mál nr. US210252

  Breiðholtið er mörgum kært enda gott og barnvænt að búa í Breiðholti. Núverandi  skipulag, sem er verðlaunaskipulag, þarf að skoða nánar með tillit til útsýnis, skuggavarps og umferðaröryggi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi í ljósi þess að skipulagsyfirvöld leita mikið til utan að komandi sérfræðinga: Var leitað til sérfræðinga í byggðu umhverfi og áhrif byggðs umhverfis á fólk þegar viðmið um þéttleika og hæðir húsa voru ákvörðuð? Sérfræðingarnir gætu verið sálfræðingar, félagsfræðingar, veðurfræðingar, arkitektar, landslagsarkitektar og skipulagsfræðingar. Ef svo er, hverjir voru sérfræðingarnir og var farið að ráðum þeirra þegar viðmið voru ákvörðuð?

  Frestað.

 25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um þéttleika í nýju skipulagi í Breiðholti         Mál nr. US210253

  Fulltrúi Flokks fólksins telur að nýbyggingar sem kynntar hafa verið í nýju skipulagi í Breiðholti verði að vera í  takti og tilliti við núverandi byggð. Í tillögu að aðalskipulagsbreytingu virðist mikill þéttleiki og há hús á sumum stöðum svo sem í Mjódd og tengist  áformum um Borgarlínu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi: Voru áhrif á nærliggjandi byggð m.t.t.  skuggavarps, umfangs, útsýnis og veðurfars skoðuð með þar til bærum sérfræðingum? Um þetta er spurt vegna þess að við eigum því miður vond dæmi um veðurfarsleg áhrif á nærliggjandi byggð og skuggavarp sem dæmi í nágrenni Höfðatorgs í Reykjavík. Er tryggt að ný viðmið um hæðir húsa og þéttleika rýri ekki gæði núverandi byggðar í nágrenni þéttingarreita t.d. í nýju skipulagi í Breiðholti?

  Frestað

 26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um innviði leikskóla til að taka við mikilli fjölgun         Mál nr. US210254

  Leikskólar í Mjódd eru þétt setnir og sumir sprungnir. Útreikningar sýna að 800 íbúða fjölgun í neðra Breiðholti er 53% fjölgun íbúða. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi: Ráða innviðir við svona mikla fjölgun á stuttum tíma? Er gert ráð fyrir nýjum grunn- og leikskólum í Mjódd? 

  Frestað.

 27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um kynningar á nýju skipulagi í Breiðholti         Mál nr. US210255

  Fulltrúa Flokks fólksins finnst kynning á svo stórri fyrirhugaðri breytingu á hverfisskipulagi í Breiðholti ábótavant og má telja víst að ekki nema brot af þeim sem búa í Breiðholti hafa áttað sig á hvað til stendur. Fulltrúi Flokks fólksins spyr eftirfarandi: Hvernig stendur á að farið hafi svo lítið fyrir kynningu á svo stórri fyrirhugaðri skipulagsbreytingu í nærumhverfi fjölda fólks? Í tilfelli Mjóddar, þar sem hægt er að lesa sér til í fleiri en einni rúmlega 200 bls. skýrslum að gert sé ráð fyrir að byggja 800 nýjar íbúðir og 60.000 fermetra atvinnuhúsnæðis á 5-8 hæðum, er ekki einu sinni minnst á þessa meiriháttar breytingu í 4 bls. kynningarbæklingi um helstu breytingar aðalskipulagstillögunnar?

  Frestað.

 28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um innstig í strætó í tengslum við þéttingu byggðar í Mjódd         Mál nr. US210256

  Fram kom í skýrslu um ferðavenjur sem unnin var fyrir SSH, sem liður í undirbúningi Borgarlínu, að flest innstig í strætó eru núna í Mjódd, 4000 talsins en á Hlemmi eru 3400 innstig á sólarhring. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi: Hvers vegna þarf að þétta byggð svona mikið í Mjódd? Við hvaða innstigsfjölda er miðað við þegar tekin er ákvörðun um þéttleikaviðmið? 

  Frestað.

 29. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um fræðslu rafhlaupahjóla fyrir börn         Mál nr. US210258

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulags- og samgönguráð beitir sér fyrir því, t.d. í samstarfi við skóla- og frístundaráð að börn og unglingar fái sérstaka fræðslu um rafhlaupahjól og hvernig þeim beri að hjóla þeim þegar hjólað er nálægt gangandi vegfarendum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt frá fólki sem kvartar yfir tillitsleysi þegar ungt fólk, sumt hvert, hjólar á gangstéttum. Fræða þarf börn og ungt fólk um mikilvægi þess að nota bjölluna. Fjölmörg dæmi eru um að bjalla sé ekki notuð þegar komið er hjólandi aftan að vegfaranda sem er að ganga eða hlaupa. Sumir hjólendur hjóla á hraða allt að 25 km/klst hraða, jafnvel með aðeins aðra hendi á stýri og símann í hinni hendinni og eru þar að leiðandi ekki að horfa fram fyrir sig. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé aðeins tímaspursmál hvenær slys verður, að ekið verði á gangandi vegfaranda. Börn sem verða fyrir hjóli á þessum hraða geta stórslasast. Einnig eru komin rafhjól sem komast enn hraðar, upp í 45 kmh. Velta má fyrir sér þeirri spurningu hvort setja ætti aldurstakmark á þau hjól sem komast svo hratt og hvort rafhlaupahjól eigi kannski heima á hjólastígum frekar en gangstéttum.

  Frestað.

 30. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um stöðu tillögu sem lögð var 2. október 2021         Mál nr. US210259

  2. október 2019 var eftirfarandi tillögu Sjálfstæðisflokks vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar:
   
  Tillaga um rafknúin farartæki í miðborg. Nýleg könnun meðal íbúa sýnir að borgarbúar myndu helst nýta sér þjónustu miðborgar oftar ef þar væri aðgengilegur einhvers konar miðborgarvagn. Með umbreytingu og endurhönnun Laugavegs er yfirlýst markmiðið borgarinnar að glæða götuna enn meira lífi með það fyrir augum að veita gangandi og hjólandi vegfarendum aukið rými. Lagt er til að umhverfis- og skipulagssvið bjóði út rekstur smárra rafknúinna farartækja sem gætu ferjað viðskiptavini frá bílhúsum að verslun og þjónustu í miðborg. Eins er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið hlutist til um gott aðgengi að reiðhjólum, rafskútum og öðrum sambærilegum farartækjum nærri bílhúsunum. Þannig megi gera verslun og þjónustu enn aðgengilegri fyrir gesti miðborgar og skapa sátt um útfærslu göngugatna.
  Hvar er þessi tillaga stödd?

  Frestað.

Fundi slitið klukkan 11:00

Pawel Bartoszek Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hjálmar Sveinsson

PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_0809.pdf