Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 103

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 5. maí kl. 11:04, var haldinn 103. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Alexandra Briem, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Mörtudóttir.

 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn Ólöf Örvarsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Sigurjóna Guðnadóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Björn Axelsson.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 30. apríl 2021.

    (E) Samgöngumál

    Fylgigögn

  2. Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025, drög         Mál nr. US210119

    Kynning á drögum að Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er metnaðarfull áætlun og virðist hafa verið hugsað fyrir flestu. Í hjólreiðaáætlun er markmiðið að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá megin stofnleiðum borgarinnar. Tekið er undir mikilvægi þess að hvetja börn og ungmenni til að hjóla og samhliða verður að tryggja öryggi þeirra sem best. Fram kemur að drengir hjóla meira en stúlkur. Orsakir þess eru fjölþættar að mati fulltrúa Flokks fólksins og væri áhugavert að skoða þær nánar. Hér er um langtíma verkefni að ræða sem mun taka sinn tíma. Forvitnilegt væri að fá flokkun á hjólastígum eftir öryggi þeirra og „gæðum“. Víða eru stígar blandaðir, hjóla- og göngustígar sem eru upphaflega hannaðir sem göngustígar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur viljað skerpa á reglum á þessum stígum, taka fræðslu um reglur á hjólastígum (hjólakennslu) inn í skólana sem dæmi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á blönduðum stígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum farartækjum. Á sínum tíma var lögð lína þar sem gangandi fengu tvo metra og hjól einn metra. Sú lína er ekki lengur þar sem umferð á stígum hefur aukist mikið.

    Katrín Atladóttir, formaður stýrihópsins, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  3. Tillaga Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Bústaðavegi., USK2021040088         Mál nr. US210120

    Lögð fram tillaga Vegagerðarinnar um lækkun hámarkshraða á Bústaðavegi dags. 23. apríl 2021 til afgreiðslu. Einnig er lögð fram umsögn Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 28. apríl 2021.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. og 3. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður að hámarkshraðinn verði minnkaður úr 60 km/ klst í 50 km/klst. 60 kílómetrar á klukkustund er of mikill hraði á götu sem sker íbúðahverfi. Bústaðavegur þarf ekki að vera meginstofnbraut.

    Fylgigögn

  4. Frakkastígur, vöruafhendingarstæði, USK2021020121         Mál nr. US210121

    Lögð fram tillaga Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 28. apríl 2021 þar sem lagt er til við skipulags- og samgönguráð að samþykkt verði að:
    - stæði á Frakkastíg, vestan götunnar, við Njálsgötu 23 og Frakkastíg 16, verði merkt sem stæði fyrir vöruafhendingu.
    - stæði austan Frakkastígs, á sama svæði, verði felld niður til að tryggja aðgengi sorphirðu- og neyðarbíla.
    Ofangreind ráðstöfun verði merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það á við, í samræmi við reglugerð 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra ásamt áorðnum breytingum.
    Tillögunni fylgir greinargerð.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. og 3. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    (B)    Skipulagsmál

    Fylgigögn

  5. Reykjavíkurvegur 31B, skipting lóðar     (06.355)    Mál nr. SN210222
    190488-2689 Aron Ingi Óskarsson, Laugalækur 1, 105 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Arons Inga Óskarssonar dags. 18. mars 2021 um skiptingu lóðarinnar nr. 31B við Reykjavíkurveg. Einnig er lögð fram drög að lóðarblaði dags. 31. mars 2019 og afsalsbréf dags. 10. ágúst 1988. Jafnframt er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 30. apríl 2021.

    Synjað er beiðni um breytingu á skiptingu lóðar með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 30. apríl 2021. 
    Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  6. Hraunbær 133, breyting á deiliskipulagi     (04.341.1)    Mál nr. SN210046
    531200-3140 Teiknistofa ark Gylfi G/fél ehf, Vegmúla 2, 108 Reykjavík
    490916-0670 Bjarg íbúðafélag hses., Kletthálsi 1, 110 Reykjavík

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Teiknistofunnar Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf. dags. 18. janúar 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Hraunbæjar-Bæjarháls vegna lóðarinnar nr. 133 við Hraunbæ. Í breytingunni felst að íbúðum er fjölgað um 6 úr 58 íbúðum í 64 íbúðir, bílastæðakrafa er lækkuð lítillega úr 1 stæði pr. íbúð í 0,9 stæði pr. íbúð, skilgreindur er nýr byggingarreitur fyrir sorpgerði milli byggingarreita A3 og A1 og gerðar eru breytingar á sérskilmálum til samræmis við reit C, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf. dags. 12. janúar 2021. Einnig eru lagðir fram fyrirspurnarteikningar dags. 15. og 18. janúar 2021. Tillagan var auglýst frá 2. mars 2021 til og með 13. apríl 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Ingi B. Erlingsson f.h. bílastæðasjóðs Hraunbæjar 118-140 dags. 8. apríl 2021, Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir f.h. húsfélagsins í Hraunbæ 144 dags. 8. apríl 2021 og Tómas Hansson dags. 13. apríl 2021. Erindinu var vísað til umsagnar verkefnisstjóra á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 16. apríl 2021 og er nú lagt fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa dags. 30. apríl 2021.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
    Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  7. Stjörnugróf 7-11, breyting á deiliskipulagi     (01.8)    Mál nr. SN210310

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfis, með síðari breytingum, vegna lóðarinnar nr. 7-11 við Stjörnugróf. Í breytingunni felst breikkun á göngu- og hjólastíg vestan við Stjörnugróf og niðurfellingu kvaðar um snjóbræðslu á stígnum norðan við Stjörnugróf 7 innan lóða á reit A og B, samkvæmt uppdr. A2F arkitekta ehf. dags. 16. apríl 2021.

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fylgigögn

  8. Blikastaðavegur 2-8, breyting á deiliskipulagi     (02.4)    Mál nr. SN200629
    531107-0550 Arkís arkitektar ehf., Kleppsvegi 152, 104 Reykjavík
    581011-0400 Korputorg ehf., Tunguhálsi 6, 110 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Arkís Arkitekta ehf. dags. 8. október 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 2-8 við Blikastaðaveg. Í breytingunni felst að leiðrétta lóðastærð, bæta við tveimur byggingarreitum og auka byggingarmagn um 12.500 m2. Þá eru bílastæðakröfur uppfærðar. Við útfærslu bygginga skal gæta að heildar samræmi á lóðinni og ásýndum bygginga og brjóta upp lengd húshliðar sem vísa að Vesturlandsvegi. samkvæmt uppdr. Arkís Arkitekta ehf. dags. 5. október 2020. 

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  9. Pósthússtræti 3 og 5, breyting á deiliskipulagi     (01.140.3)    Mál nr. SN210240
    440703-2590 THG Arkitektar ehf., Faxafeni 9, 108 Reykjavík
    530117-0730 Reitir - skrifstofur ehf., Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík

    Lögð fram umsókn THG Arkitekta ehf. dags. 26. mars 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, með síðari breytingum, vegna lóðanna nr. 3 og 5 við Pósthússtræti. Í breytingunni felst færsla á lóðamörkum lóðanna um 1,5 metra þannig að lóð nr. 3 minnkar og lóð nr. 5 stækkar sem því nemur, samkvæmt uppdr. THG Arkitekta ehf. dags. 29. apríl 2021. 

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fylgigögn

  10. Mýrargata 18, breyting á deiliskipulagi     (01.116.3)    Mál nr. SN210194
    440703-2590 THG Arkitektar ehf., Faxafeni 9, 108 Reykjavík

    Lögð fram umsókn THG Arkitekta ehf. dags. 11. mars 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Vesturbugtar vegna lóðarinnar nr. 18 við Mýrargötu. Í breytingunni felst að lóðarmörk Mýrargötu eru rýmkuð um 2 metra til norðurs og 3 metra til austurs auk þess að kvöð um göngustíg á milli Mýrargötu 18 og Mýrargötu 16 er felld niður, samkvæmt uppdr. THG Arkitekta ehf. dags. 2. mars 2021. 

    Samþykkt að taka 10. mál, Mýrargötu 18, breyting á deiliskipulagi, á dagskrá. 

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að halda þessari gönguleið opinni fyrir almenning. Víða er þrengt að aðgengi fólks að gömlu höfninni meðal annars með fyrirhuguðum byggingum í nágrenninu. Mikilvægt er að ekkert sé í vegi fyrir fólki, hvorki ruslageymslur eða annað þar sem þessi gönguleið er þröng en mikilvæg til að halda flæði gangandi fólks.

    (C)    Byggingarmál

    Fylgigögn

  11. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1112 frá 27. apríl 2021.

    Fylgigögn

  12. Naustabryggja 31-33, kæra 39/2021, umsögn     (04.023.2)    Mál nr. SN210247
    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 26. mars 2021 ásamt kæru dags. 22. mars 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að hafna kröfu húsfélags Naustabryggju 31-33 um að tryggja aðgengi hreyfihamlaða að húsinu. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 27. apríl 2021.

  13. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins,          Mál nr. US210118

    Hversu mikið mun umferð um Ártúnsbrekku aukast við nýja byggð við Ártúnshöfða án áhrifa Sundabrautar? Stórt nýtt hverfi við Höfðann mun auka enn frekar á umferðarþunga við Ártúnsbrekku, en bygging Sundabrautar mun létta á umferðinni og því brýnt að hún verði að veruleika sem fyrst.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  14. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um lóðirnar Jöfursbás 11 Gufunesveg 34 Þengilsbás 1 og Jöfursbás 5 og 7 - R21040331         Mál nr. US210124

    Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem barst borgarráði 29. apríl 2021 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs dags. 30. apríl 2021: 

    BORGARRÁÐ 29. apríl 2021: Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lóðirnar Jöfursbás 11 Gufunesveg 34 Þengilsbás 1 og Jöfursbás 5 og 7 - R21040331 Tvær breytingar hafa verið gerðar á Jöfursbás 11, ein breyting á Gufunesvegi 34 og Þengilsbás 1 og ein breyting á Jöfursbás 5 og 7. Óskað er eftir upplýsingum um hvenær var óskað eftir breytingunum. Þá er óskað að upplýst verði um tafir og hvers vegna þær tafir hafa orðið. 

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

    Fylgigögn

  15. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um málun bílastæða/gatna í miðbænum         Mál nr. US210116

    Fyrirspurn um málun bílastæða/gatna í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um stöðu mála um málun bílastæða/gatna í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr einnig hver hefur umsjón með málningu gatna/bílastæða hér í miðbænum? Ástæða fyrirspurna er að borið hefur á því að hlaupið hefur verið frá óloknu verki með þeim afleiðingum að ökumenn eiga erfitt með að sjá hvar stæði enda og byrja. Skort hefur á eftirliti með verkum eða þau hreinlega eftirlitslaus? Tryggja þarf ábyrgt eftirlit með málum af þessu tagi eins og öðrum málum.

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  16. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um úttekt á götuþrifum Norðurlandanna         Mál nr. US210117

    Sjálfstæðisflokkurinn óskar að gerð verði úttekt á fyrirkomulagi götuþrifa í öllum höfuðborgum Norðurlandanna. Niðurstöðunni verði skilað til skipulags- og samgönguráðs fyrir 15. ágúst 2021.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu.

  17. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um bætt umferðaröryggi við Álmgerði, umsögn- USK2021040030         Mál nr. US210081

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 27. apríl 2020. 

    Tillögunni synjað með vísan í umsögn samgöngustjóra, dags. 27. apríl 2020, með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tekið er undir að æskilegt er að ráðast í aðgerðir við Álmgerði í því skyni að lækka hraða í götunni og auka þar umferðaröryggi. Aðgerðir í umferðaröryggismálum eru valdar á hverju ári og þeim forgangsraðað þannig að þær sem auki öryggi gangandi mest fyrir það fé sem til staðar eru valdar. Því miður er þó ekki unnt að forgangsraða þessum aðgerðum á kostnað annarra umferðaraukandi framkvæmda sem á dagskrá eru. Tillagan er því felld þótt vonir standi til að hægt verði að ráðast í aðgerðir við Álmgerði í framtíðinni.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er dapurlegt að meirihlutinn skuli fella þessa umferðaröryggistillögu. Hér er lagt til að bæta öryggi gangandi vegfarenda og ef fjárskortur er ástæðan væri rétt að vísa henni til fjárhagsáætlunargerðar.

    -    Kl. 12:49 Víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi.

    Fylgigögn

  18. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um leiksvæði         Mál nr. US210114

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur það til við skipulagsyfirvöld að huga sérstaklega að leiksvæðum barna þegar verið er að þétta byggð. Þéttingarstefna meirihlutans í borgarstjórn tekur of mikinn toll bæði á græn svæði og leiksvæði barna. Í fyrsta sinn í sögu Reykjavíkur mótmæla börn með skipulögðum hætti. Þéttingarstefnan virðist engu eira því byggja skal á hvern blett, stóran og smáan í þeirri von að borgarlína nýtist. Fólk á vissum svæðum í Reykjavík mun reyndar ekki eiga annan valkost en að nota almenningssamgöngur eða hjól þar sem að við íbúðabyggð á vissum stöðum í Reykjavík verða fá bílastæði. Börn hafa mótmælt þéttingu byggðar við Vatnshólinn í nágrenni Sjómannaskólans, vinsælt leiksvæði barna. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að Reykjavík er líka borga barnanna sem þar búa. Í allri þessari þéttingu má ætla að skólar þurfi ýmist að stækka eða byggja verði nýja. Varla verða eftir reitir fyrir slíkar framkvæmdir ef heldur sem horfir.

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Fulltrúum Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata, gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem sitja hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillagan er ekki eiginleg tillaga um aðgerðir sem stjórnsýsla borgarinnar getur gripið til heldur lýsing á skoðun kjörins fulltrúa. Erindinu er vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagsyfirvöld hugi sérstaklega að leiksvæðum barna þegar verið er að þétta byggð. Tillögunni hefur verið vísað frá með þeim rökum að hér sé um að ræða skoðun kjörins fulltrúa. Það er sérkennileg að mati fulltrúa Flokks fólksins að þegar lagt er til að leiksvæðum barna sé hlíft sé sagt að það sé skoðun kjörins fulltrúa. Öllu má nú nafn gefa. Það er miður að þéttingarstefna meirihlutans í borgarstjórn gangi svo langt að skorið sé af leiksvæðum barna. Þetta á einnig við um græn svæði einnig sem ýmist er byggt á eða þau manngerð. Slíkur er ákafi þessa meirihluta að byggja á hverjum bletti. Það mætti vel fara einhvern milliveg, nóg er af landi og með tíð og tíma mun borgina verða að dreifast meira. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að Reykjavík er líka borga barnanna sem þar búa. Í allri þessari þéttingu má ætla að skólar þurfi ýmist að stækka eða byggja verði nýja. Varla verða eftir reitir fyrir slíkar framkvæmdir ef heldur sem horfir.

  19. Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag     (01.1)    Mál nr. SN200577

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 23. apríl 2021 vegna samþykktar borgarstjórnar 20. apríl 2021 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Laugaveg sem göngugötu.

    Fylgigögn

  20. Skerjafjörður Þ5, deiliskipulag         Mál nr. SN170833

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 23. apríl 2021 vegna samþykktar borgarstjórnar 20. apríl 2021 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Skerjafjörð.

    Fylgigögn

  21. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins,          Mál nr. US210129

    Hver var áætlaður kostnaður við nýja hverfastöð við Fiskislóð? Hver var raunkostnaður við nýja hverfastöð við Fiskislóð? Hversu margir fermetrar voru malbikaðir?

    Frestað

  22. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, Húsverndunarsjóður Reykjavíkur.         Mál nr. US210127

    Húsverndunarsjóður Reykjavíkur. Þetta ár bárust 39 umsóknir og engin frá úthverfum, flestar í miðbæ og vesturbæ enda þar flest gömul hús, friðuð hús. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja fram fyrirspurn um hvort ekki væri rétt að skoða að tengja hverfisvernd Húsverndunarsjóði? Nú eru mörg úthverfi að komast á það stig að þau spegla tíðaranda þess tíma þegar þau voru byggð. Það ber að varðveita. Nú söknum við t.d bensínstöðva,-Nesti- sem aldrei urðu 100 ára. Með því að tengja hugmyndina um hverfisvernd við húsverndun (Húsverndunarsjóðs) opnast möguleikar á að vernda ákveðin stíl eða tíðaranda þess tíma þegar hverfið var byggt.

    Frestað

  23. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins,          Mál nr. US210128

    Lagt er til að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni í Vesturbænum við Ánanaust. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að koma með tillögu að útfærslu fyrir 15. júní næstkomandi. Nú standa yfir endurbætur á sjóvarnargarði við Eiðsgranda og Ánanaust sem verður mun stærri á eftir. Gert er ráð fyrir áningarstað fyrir ofan garðinn við Eiðsgranda en aðgengi að ströndinni verður mjög takmarkað. Á bak við sjóvarnargarðinn leynist nærri kílómetra löng falleg strönd með einstöku útsýni. Mikil gæði felast í því að geta setið við ströndina, enda er mikil upplifun að sjá sólsetrið og horfa á öldurnar við Ánanaust. Það myndi auka gæði þessa fallega útivistarstaðar að gera gott aðgengi fólks að þessum fallega stað þannig að unnt sé að ganga með öruggum hætti yfir garðinn og niður fyrir hann. 

    Frestað

Fundi slitið klukkan 12:53

Pawel Bartoszek Hjálmar Sveinsson

Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_0505.pdf