Öldungaráð - Fundur nr. 94

Öldungaráð

Ár 2025, miðvikudaginn 15. janúar var haldinn 94. fundur öldungaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.03. Fundinn sátu Sara Björg Sigurðardóttir, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Sigurður Ágúst Sigurðsson, Jóhann Birgisson og Eva Kristín Hreinsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Helga Margrét Marzellíusardóttir og Viðar Eggertsson. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning Múlabæ á dagþjálfun eldra fólks. MSS25010077

    Þórunn Bjarney Garðarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar fyrir góða kynningu á dagþjálfun eldra fólks hjá sjálfseignastofnunni Múlabæ. Dagþjálfun eldra fólks er stuðningsúrræði við þau sem að staðaldri þurfa eftirlit og aðstoð til að geta búið áfram heima en þeim er skipt í almenna dagvöl, sérhæfða og endurhæfingardagvöl. Um mjög mikilvæga þjónustu er ræða fyrir viðkvæman hóp bæði fyrir þjónustuþega og aðstandendur. Mikilvægt er að sjá að pláss sé fyrir 130-150 einstaklinga sem nýta 70 dagdvalarrými, þar af 18 til endurhæfingar. Mikið öryggi felst í því að bjóða upp á hjúkrunarstýrða heilbrigðisþjónustu innan dagdvala. Öldungaráð vill leggja mikla áherslu á að sú þjónusta sé veitt í öðrum dagvalarýmum innan borgarinnar, líka þegar þeim verður fjölgað í nýjum rýmum í samstarfi heilsugæsluna og samþætta þjónustu við eldra fólk. Mikilvægt er að skoðað verði að opnunartími verði sveigjanlegur á þann veg að opið verði um kvöld og helgar. 

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á greinagerð starfshóps um skipulagsvinnu og samninga vegna lífsgæðakjarna. USK24050285

    Margrét Lára Baldursdóttir og Valný Aðalsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar fyrir góða kynningu. Mikilvægt er að skima aldursdreifingu og félagslega blöndun innan hverfishlutanna sem og tengingu við innviði sem íbúar þurfa eins og heilsugæslu, heilsueflandi mannvirki séu í göngufæri. Vill ráðið vekja athygli á að skilalýsing íbúða fyrir þarfir þessa tiltekna hóps liggja ekki opinberlega fyrir, hvorki í byggingareglugerð né á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS. Í ljósi þessa vill ráðið hvetja borgarráð til að láta útbúa þarfagreiningu í samtali við hagaaðila þannig að til verði viðmiðunar skilalýsing sem hægt verði að styðjast við þegar deiliskipulag er unnið eins og hefur verið gert við uppbyggingu íbúða fyrir fatlað fólk. Margt er hægt að notast við úr þeirri vinnu en svo eru aðrir þættir sem eingöngu snúa að hópi 60 ára og eldri.

    Fylgigögn

  3. Lagðar fram umsagnarbeiðnir Skjóls og Eirar dags. 12. janúar 2025 og Grundarheimilanna og Mörk dags. 10. janúar 2025 til öldungaráðs vegna styrkumsókna í Framkvæmdarsjóð aldraðra 2025. MSS25010075

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð gagnrýnir það verklag að veita umsagnir við styrkumsóknir í Framkvæmdarsjóð aldraðra. Öldungaráð hefur ekki forsendur til að meta umfang þeirra verkefna sem verið er að sækja um styrk fyrir né kostnaðaráætlun. Ársreikningar sjálfseignastofnana þarf ekki að birta og því ógerningur fyrir ráðsmenn að meta fjárhagslega skiptingu þeirra og efnahagsreikning. Öll verkefnin snúa að viðhaldi og nýfjárfestingu í umgjörð rekstrar en ekki þróun þjónustu við eldra fólk, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga um málefni aldraðra nr.1999/125, og það finnst öldungaráði miður. Öldungaráð ítrekar erindi sitt dags. 14. febrúar 2024 til stjórnar framkvæmdarsjóðs aldraðra þar sem kallað er eftir að verklag um veitingu umsagna í Framkvæmdarsjóð aldraðra sé endurskoðað, svo ráðið geti uppfyllt lagaskyldu sína við veitingu umsagna.

    Samþykkt að senda bókun öldungaráðs til stjórnar Framkvæmdarsjóðs aldraðra og viðeigandi ráðuneyti. 

    Fylgigögn

  4. Lagt fram svar Strætó bs, dags. 9. janúar 2025, við fyrirspurn öldungaráðs um ferðavenjur eldra fólks og Strætó Klapp, sbr. 4. lið fundargerðar öldungaráðs frá 20. nóvember 2024 . MSS24110136

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Samtaka aldraðra, U3A í Reykjavík og heilsugæslunnar á Höfuðborgarsvæðinu leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skilvirkar, aðgengilegar og góðar almenningssamgöngur er lykill að hversdagsleika fólks. Það er mikilvægt fyrir Strætó að setja sig í spor ólíkra notendahópa til að vita hvernig er hægt að þjónusta þá betur. Þess vegna fór öldungaráð fram með fyrirspurnina, til að kalla eftir upplýsingum um ferðavenjur eldra fólks hjá Strætó og tölfræðiupplýsingum um fjölda notanda eftir greiðslukerfi Strætó.Í ljósi þessa undrast öldungaráð svar Strætó. Á heimasíðu fyrirtækisins eru upplýsingar um ólíkar greiðsluleiðir ætlaðar eldra fólki s.s. stök fargjöld, mánaðarkort, árskort og 10 skipta kort. Það er umhugsunarvert að fyrirtæki eins og strætó geti ekki áttað sig á ferðavenjum markhópa sinna eins og eldra fólki, hvar það kemur inn í vagnana, hvar það fer út, hvaða leggir eru fjölsóttari en aðrir, með það fyrir augum að reyna þjónusta þennan hóp betur. Þetta er sérstaklega mikilvægt út frá aðgengi, með því að þekkja hvar eldra fólk kemur inn í vagnanna er hægt að tryggja vetrarþjónustu á þeim svæðum og setja í forgang. Þessa afgreiðsla á fyrirspurn ráðsins til Strætó eru því mikil vonbrigði,og óásættanleg að mati öldungráðs af jafn góðu og öflugu fyrirtæki sem Strætó bs er.

    Samþykkt að senda bókun á Stjórn strætó.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12.15

Sara Björg Sigurðardóttir Unnur Þöll Benediktsdóttir

Viðar Eggertsson Sigurður Á. Sigurðsson

Jóhann Birgisson Eva Kristín Hreinsdóttir

Helga Margrét Marzellíusardóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð öldungaráðs frá 15. janúar 2025