Öldungaráð - Fundur nr. 89

Öldungaráð

Ár 2024, fimmtudaginn 20. júní var haldinn 89. fundur öldungaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var aukafundur og haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.02. Fundinn sátu Sara Björg Sigurðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Unnur Þöll Benediktsdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Ingibjörg Sverrisdóttir, Ingibjörg Óskarsdóttir, Elinóra Inga Sigurðardóttir og Eva Kristín Hreinsdóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Anna Sigrún Baldursdóttir með rafrænum hætti. 
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs dags. 14. júní 2024, um tillögu sviðstjóra menningar- og íþróttasviðs varðandi breytingu á gjaldskrá sundlauga í Reykjavík. jafnframt eru  lögð fram drög að umsögn öldungaráðs dags. 19. júní 2024. MIR23100010. 
    Samþykkt. 

    Fulltrúar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu  leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu vilja þakka fyrir samtal og tækifærið til veita umsögn vegna gjaldtöku eldri borgara í sundlaugum borgarinnar. Markmiðið með gjaldtökunni er þríþætt, í fyrsta lagi að fylgja eftir áliti innanríkisráðuneytisins og hætta mismuna fólki eftir búsetu, í öðru lagi að ná í tekjur af erlendu ferðafólki 67 ára og eldri og að lokum afla tekna sem verður meðal annars notað í að efla heilsueflingu eldra fólks í borginni. Sú gjaldtaka sem fyrirhuguð er á ári í gegnum árskort, 4000 þúsund krónur jafnast á við þrjár stakar ferðir í sund, er hófleg að mati ráðsins og verður árskortið ódýrast í Reykjavík miðað við sambærileg árskort annarra sveitafélaga. Vilja fulltrúar samt leggja áherslu á að mikilvægt er að fylgjast með mætingu eldra fólks í sundlaugarnar einmitt til hafa svigrúm til að bregðast við ef breytingar verða á aðsókn þessa hóps. Eftir atvikum finna lausnir og koma með mótvægisaðgerðir fyrir þá þau sem ekki hafa efni á árskortinu. 

    Fulltrúar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar FEB, Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, í öldungaráði, mótmæla harðlega hugmyndum um að innheimta gjald af eldri borgurum í sundstöðum Reykjavíkurborgar. Sundiðkun er mikilvæg fyrir heilsu allra eldri borgara. Fyrir marga er hún að auki veigamikill þáttur í að rjúfa félagslega einangrun. Jafnframt er ef til vill ástæða til að minna borgaryfirvöld á að fjárhagur verulegs hóps eldri borgara er því miður þannig að þá munar um hverja krónu og sund er kannski eina líkamsræktin sem þeim bæði hentar og hafa haft efni á. Einnig er rík ástæða til að minna borgaryfirvöld á að eldri borgarar hafa þegar greitt fyrir uppbyggingu og rekstur umræddra sundstaða með útsvari sínu, fasteignagjöldum og fleiri álögum sem Reykjavíkurborg kýs að leggja á íbúa sína. Þetta er brýnt lýðheilsumál.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Æskilegt væri ef hægt væri að tryggja endurgjaldslausan aðgang 67 ára og eldri að sundstöðum borgarinnar. Fulltrúinn styður því þau sjónarmið sem fram koma í bókun fulltrúa Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Á hinn bóginn telur hann einnig að framkomin tillaga menningar- íþrótta og tómstundaráðs sé reist á skynsamlegum forsendum. Mikilvægt er að sú tillaga sé útfærð þannig að komið sé sem mest til móts við hagsmuni þeirra sem lakast standa í samfélaginu og eru 67 ára og eldri. 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 12. júní 2024, um breytingar á samþykkt öldungaráðs. Jafnframt er lagt fram að nýju svar félags- og vinnumarkaðsráðuneytis dags. 8. apríl 2024, við fyrirspurn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 14. mars s.l. vegna túlkunar á 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og 7.gr. laga um málefni aldraðra, sbr. 4. lið fundargerðar öldungaráðs frá 17. apríl 2024. MSS23010279

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu leggja fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð er formlegur vettvangur samráðs og hagsmunagæslu fyrir eldra fólk í borginni samkvæmt 7. gr laga um málefni aldraða og 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í lögunum kemur fram að öldungaráð skuli skipað að lágmarki þremur fulltrúum tilnefndum af félagi eldri borgara, án þess að kveða á um hvernig skuli bregðast við ef fleiri en eitt félag gætir hagsmuna eldra fólks er starfar í sveitarfélaginu. Samkvæmt áliti félags- og vinnumarkaðsráðuneytis skilgreina lögin ekki sérstaklega hvaða félag skuli eiga sæti í ráðinu, einungs að það skuli vera að lágmarki þrír fulltrúar frá félögum eldri borgara í sveitarfélaginu. Reykjavíkurborg vill tryggja aðkomu fjölbreytts hóps eldra fólks, gæta jafnræðis á milli hagaðila og er því talið brýnt að raddir sem flestra félaga eldra fólks í borginni heyrist á vettvangi ráðsins. Því er talið mikilvægt að að þrjú félög taki sæti í ráðinu í stað eins félags eins og fyrirhugað er samkvæmt drögum af nýrri samþykkt öldungaráðs.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Í þessari bókun er vísað til álits tveggja embættismanna félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Ekki verður séð að báðir þeir embættismenn séu lögfræðimenntaðir. Sá takmarkaði rökstuðningur sem fram kemur í því áliti ber því einnig merkis.

    Fulltrúar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áformum borgaryfirvalda að fækka fulltrúum Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, FEB í ráðinu úr þremur í einn er harðlega mótmælt, enda samræmast þau ekki 2. mgr. 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og 1. mgr. 7. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara, auk eins fulltrúa frá heilsugæslunni. Þegar skoðað er hvaða reglur gilda um val fulltrúa í öldungaráð, þá ber að skoða hvað felst í lögunum. Miðað er við talsmann eldri borgara í hverju sveitarfélagi fyrir sig og í Reykjavík er það óumdeilt að FEB fer með það hlutverk. Samhliða þarf að skoða með hvaða hætti fulltrúar í öldungaráði hafa verið valdir til þessa. Sú skoðun leiðir í ljós að það er FEB sem hefur verið ótvíræður talsmaður eldri borgara í Reykjavík. Frávik frá þessu, með því að fela aðilum, sem aldrei hafa verið í hagsmunabaráttu fyrir eldra fólk, er þegar af þeim ástæðum sem að framan eru nefndar fráleitar og ólöglegar. Hægt er að leysa málið með því að fjölga fulltrúum í ráðinu í stað þess að fækka fulltrúum FEB.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Drög að breytingum á samþykktum öldungaráðs ganga í berhögg við 2. mgr. 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga 40/1991 og 1. mgr. 7. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 en bæði þessi lagaákvæði mæla fyrir um hvernig eigi að skipa öldungaráð í sveitarfélagi og hver hafi rétt til að tilnefna í ráðið. Ákvæðin gera ráð fyrir að það sé eitt félag eldri borgara í sveitarfélagi sem tilnefni að lágmarki þrjá fulltrúa í öldungaráð. Séu hins vegar tvö eða fleiri sveitarfélög í samstarfi um að starfrækja öldungaráð, skulu félög eldri borgara „á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs“. Þegar reglur eru bornar saman, annars vegar þegar eitt sveitarfélag rekur öldungaráð, og hins vegar þegar tvö eða fleiri starfrækja slíkt ráð, er augljóst að það er eingöngu eitt félag eldri borgara sem tilnefnir að lágmarki þrjá fulltrúa í öldungaráð þegar eitt sveitarfélag starfrækir slíkt ráð. Þessi skipan samræmist því að Landssamband eldri borgara hefur félög innan sinna raða sem eru svæðisbundin. Félagið í Reykjavík er Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og hingað til hefur það tilnefnt fulltrúa í öldungaráð Reykjavíkur. Óheimilt er að breyta því nema að lögum sé breytt. Lítt rökstutt álit embættismanna haggar ekki lagabókstafnum. 

    Fulltrúar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) er aðili að Landssambandi eldri borgara (LEB). LEB var stofnað 19. júní 1989 og er í dag með 55 aðildarfélög. Þá þegar voru starfandi félög eldri borgara í mörgum sveitarfélögum. Markmið með stofnun var að vinna að almennum hagsmunum félaganna, en þó skyldi eigi vera fleiri en eitt félag í hverju sveitarfélagi aðili að LEB. Á þessum tíma voru starfandi tvö félög í Reykjavík, Samtök aldraðra og FEB.  Kosið var um það á stofnfundinum hvort þeirra skyldi starfa innan LEB og varð niðurstaðan sú að FEB skyldi vera það félag. Það er því óumdeilt hvert hlutverk FEB er. LEB sinnir fyrir aðildarfélögin samvinnu við Alþingi, ríkisstjórnina, opinberar stofnanir og fleiri aðila um málefni eldri borgara í landinu. LEB hefur komið að gerð og endurbótum laga eins og t.d. lögum um málefni aldraðra og þar er einmitt að finna lög um öldungaráð. Öldungaráðin eru tilkomin fyrir tilstuðlan LEB, en fyrirmyndin kemur frá Norðurlöndunum. Lögin um öldungaráðin komu inn í íslensk lög árið 2018 og eru eldri borgurum mikilvæg. Á haustdögum mun fara fram málþing á vegum LEB um öldungaráðin og mikilvægi þeirra.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins þakkar fyrir þær gagnlegu skýringar sem fram koma í gagnbókun fulltrúa Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 11.19

Sara Björg Sigurðardóttir Unnur Þöll Benediktsdóttir

Helgi Áss Grétarsson Eva Kristín Hreinsdóttir

Ingibjörg Sverrisdóttir Elinóra Inga Sigurðardóttir

Ingibjörg Óskarsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð öldungaráðs frá 20. júní 2024