Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 88

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2023, þriðjudaginn 28. febrúar var haldinn 88. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 13:00.  Viðstödd voru: Skúli Helgason, Friðjón R Friðjónsson varamaður fyrir Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson.  Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson, María Rut Reynisdóttir, Guðbrandur Benediktsson og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar f.h. borgarráðs dags. 21. febrúar sl. þar sem óskað er eftir umsögn menningar-, íþrótta og íþróttaráðs um tillögu borgarstjóra um framtíðarhögun á starfsemi Borgarskjalasafns. Einnig er lögð fram tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar að umsögn menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 23. febrúar 2023 ÞON23010028

  Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram breytingartillögu vegna umsagnar menningar- íþrótta- og tómstundaráðs. 

  Breytingartillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar gegn 3 atkvæðum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins.

  Tillaga að umsögn menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs er samþykkt með fórum atkvæðum Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar gegn 3 atkvæðum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins.

  Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihluti menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs leggur áherslu á að horft sé til framtíðar varðandi varðveislu gagna og aðgengis að þeim fyrir almenning. Það samræmist ágætlega hlutverki Borgarsögusafns og Borgarbókasafns, að sinna fræðslu- og miðlunarstarfi og skapa aðstöðu fyrir íbúa til að nálgast gögn. Tillaga borgarstjóra er í góðu samræmi við áherslur samtímans á stafræna umbreytingu og varðveislu gagna og mætir að auki kröfum samtímans um hagkvæma nýtingu fjármagns umfram aðrar þær sviðsmyndir sem unnar hafa verið á framtíðarskipan Borgarskjalasafns. Tillagan kallar á gott samstarf og samninga milli Borgarsögusafns Reykjavíkur og Borgarbókasafns Reykjavíkur annars vegar og Þjóðskjalasafns hins vegar og að aðgengi sé gott að umræddum gögnum hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Meirihlutinn áréttar eins og fram kemur í tillögu borgarstjóra að mikilvægt sé að vanda vel allan undirbúning varðandi breytt fyrirkomulag Borgarskjalasafns í góðu samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands þar sem tryggð verði áframhaldandi söfnun, varðveisla og miðlun gagna sem tengjast menningararfi borgarinnar og samtímagögnum sem gildi geta haft fyrir komandi kynslóðir og fræðimenn.

  Fulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði leggja á það áherslu að vandað sé betur til verka í ákvarðanatöku um framtíðartilhögun starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur.  Tekið er undir með umsagnartillögu  meirihluta ráðsins að mikilvægt sé að huga að samráði við hagaðila og skýrri upplýsingagjöf um þá framtíðarsýn. Einnig má taka undir að það geti samræmst ágætlega hlutverki Borgarsögusafns og Borgarbókasafns, að sinna fræðslu- og miðlunarstarfi og skapa aðstöðu fyrir íbúa til að nálgast gögn. En öll meðferð málsins í heild og flumbrugangur meirihlutaflokkana í borgarstjórn gefur tilefni til að staldra við og vinna málið betur í samráði við alla hagaðila og þá sérstaklega hvernig möguleg viðtaka Þjóðskjalasafns væri, enda skortir verulega á þá sviðsmynd. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að beðið sé með umsögn menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs þar til trúverðug lýsing komi fram á hvað felist í að færa verkefni Borgarskjalasafns til Þjóðskjalasafns og hver raunverulegur kostnaður af því hljótist.

  Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Vinstri grænna í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði gagnrýnir að í umsögn ráðsins um málefni Borgarskjalasafns sé ekki fjallað efnislega um meginniðurstöður valkostagreiningar þeirrar sem fyrir liggur og framkomna tillögu borgarstjóra. Hlutverk ráðsins er að standa vörð um menningarstofnanir borgarinnar og því ber að stíga fast til jaðrar þegar til álita kemur að slá 70 ára gamla meginstofnun af nánast með pennastriki.Þó má fagna þeim áherslum sem birtast í umsögninni um mikilvægi þess að vanda undirbúning málsins og að vinna skuli það í góðu samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og að hugað verði að samráði við hagaðila með skýrri upplýsingagjöf. Þetta verður vart skilið á annan hátt en sem skilaboð til borgarráðs, veikluleg þó, um að taka skref til baka og vinna málið betur. Hugmyndir um niðurlagningu Borgarskjalasafns hafa kallað fram gríðarlega hörð viðbrögð fagaðila og notenda. Má þar nefna ályktanir frá stjórn Sagnfræðingafélagsins, aðalfundi Sögufélags, Félagi héraðsskjalasafna og gagnrýni frá einstökum fræðimönnum úr háskólasamfélaginu, auk stjórnenda og starfsfólks safnsins sjálfs. Er það til marks um að ekki hafi nægilega vel tekist til um samráð og kynningu, en nú gefst færi á að bæta um betur.

 2. Lagt fram minnisblað Guðbrands Benediktssonar, Gerðar Róbertsdóttur og Eiríks Björns Björgvinssonar dags. 20. febrúar 2023 um fjargeymslur Borgarsögusafns. Óskað er eftir heimild til að ganga til samninga um leigu á húsnæði við Koparsléttu á Esjumelum.
  Samþykkt.

  Fulltrúar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs leggja fram svohljóðandi bókun:

  Nauðsynlegt er á að tryggja Borgarsögusafni nýtt geymsluhúsnæði fyrir muni safnsins þar sem núverandi húsnæði mun ekki standa lengur til boða og fullnægir ekki gæðakröfum að auki. Leit að nýju húsnæði hefur skilað ákjósanlegum kosti í Koparsléttu á Esjumelum sem mun mæta þörfum safnsins betur, uppfylla gæðakröfur og auka rýmið fyrir muni safnsins. Við tökum undir þau faglegu rök sem fram koma í minnisblaðinu.

  -    Kl. 13:35 víkur Guðbrandur Benediktsson af fundi.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 23. febrúar 2023 vegna samnings við Skáksamband Íslands.
  Samþykkt og vísað til borgarráðs.

  Fylgigögn

 4. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Vinstri grænna í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði óskar eftir því að stjórnendur sviðsins geri grein fyrir stöðu mála varðandi listaþorpið í Gufunesi og fyrirsjáanlegar framtíðarhorfur þess á fundi ráðsins eins fljótt og auðið verður.

 5. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hver verður kostnaður Reykjavíkurborgar af því að fela Borgarsögusafni og Borgarbókasafni að sinna fræðslu og miðlunarstarfi og skapa aðstöðu fyrir íbúa til að nálgast gögn verði af þeirri ráðstöfun að leggja niður Borgarskjalasafn?
   

 6. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hver er áætlaður sundurliðaður rekstrarkostnaður Borgarskjalasafns í sviðsmyndum í skýrslu KPMG og hver er áætlaður sundurliðaður fjárfestingakostnaður af sömu sviðsmyndum?

Fundi slitið kl. 13:43.

Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson

Pawel Bartoszek Sabine Leskopf

Stefán Pálsson Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir

Friðjón R. Friðjónsson

PDF útgáfa fundargerðar
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð 28.2.2023 - Prentvænt útgáfa