Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 87

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2023, föstudaginn 10. febrúar var haldinn 87. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:33.  Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson, Kjartan Magnússon og Erling Jóhannesson áheyrnarfulltrúi BÍL.  Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, María Rut Reynisdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfsemi Tjarnarbíós. MOF23010075 

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ráðið þakkar fyrir góða kynningu á starfsemi Tjarnarbíós. Tjarnarbíó hefur verið heimili sjálfstæðra sviðslista í borginni og haldið uppi afar fjölbreyttu og öflugu starfi undanfarin ár. Metnaður stjórnenda stendur til frekari landvinninga og Reykjavíkurborg er í viðræðum við menningarmálaráðuneytið um að taka þátt í þarfagreiningu á aðstöðumálum Tjarnarbíós og sjálfstæðra sviðslista almennt á höfuðborgarsvæðinu. Vonast er til að sú vinna skili niðurstöðum síðar á árinu svo kortleggja megi frekari sókn í þessum geira.

    -    kl. 10:15 víkur Erling Jóhannesson af fundi.

    Sara Martí Guðmundsdóttir og Sindri Þór Sigríðarson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga styrkjahóps íþrótta- og tómstundasviðs dags. 3. febrúar 2023 vegna styrkja menningar-, íþrótta-, og tómstundaráðs fyrir árið 2023. ITR22090025
    Samþykkt.

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íþróttastyrkir menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs eru mikilvægir til að efla skapandi og fjölbreytta íþróttamenningu borgarinnar. Styrkjahópur ÍTR leggur fram tillögu um að 15 umsóknir af þeim 27 sem sóttu um hljóti styrk fyrir sín verkefni árið 2023, samtals að fjárhæð 8 m.kr. Hlökkum við til að sjá afrakstur vinnu styrkhafa á árinu við að auðga líkamlega og andlega heilsu borgarbúa á öllum aldri. Styrkjahópnum er þakkað kærlega fyrir vel unnin störf sem einkennst hafa af fagmennsku og vandvirkni.

    -    kl. 10:30 tekur Ingvar Sverrisson, áheyrnarfulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur, sæti á fundinum.

  3. Fram fer umræða um æfingagjöld Íþróttabandalags Reykjavíkur.  ITR23020002

    -    kl. 11:05 víkur Ingvar Sverrisson af fundi.  

  4. Fram fer kynning á valkostagreiningu fyrir framtíðarhögun Borgarskjalasafns Reykjavíkur – trúnaðarmál. 
    Óskar Sandholt, Hjálmur Hjálmsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Helena W. Óladóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  5. Fram fer umræða um réttindi afreks- og íþróttafólks.

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt og nauðsynlegt að komin sé af stað umræða um réttindi íþróttafólks, ekki síst réttindi íþróttakvenna í tengslum við barneignir. Jafnrétti er mikilvægt leiðarstef í allri stefnumótun Reykjavíkurborgar. Í samþykktri íþróttastefnu til 2030 er jafnframt stefnt að því að “bæta fjárhagslegt öryggi íþróttafólks”. Það ætti því að vera okkur kappsmál að Reykjavík og reykvísk íþróttafélög verði til fyrirmyndar á heimsvísu í þessum efnum. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð bindur miklar vonir við þá vinnu sem hafin er á vegum mennta- og barnamálaráðuneytis og telur Reykjavíkurborg og fulltrúa reykvískt íþróttafólks eigi að taka virkan þátt í þeirri vinnu.

    Örvar Ólafsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  6. Fram fer kynning á framgangi vinnu við sameiningu á nýju sviði. ITR23020003  

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 7. febrúar 2023 um vinnu vegna hagræðingartillagna. ITR23020004.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 18 janúar þar sem fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 12. janúar 2023, um starfsemi Sigluness er send menningar-, íþrótta- og tómstundaráði til meðferðar. MSS23010123.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar dags, 2. september  2022 þar sem fram kemur að borgarráð hafi óskað eftir umsögn menningar-, íþrótta-, og tómstundaráðs um erindi borgarstjóra varðandi hugmynd Regins og Fjölnis um uppbyggingu keppnis- og áhorfendaaðstöðu við Egilshöll og leigusamning um það mannvirki. Einnig eru lögð fram drög að umsögn menningar, íþrótta- og tómstundaráðs ódags.. MSS22020089
    Frestað.

    Fylgigögn

  10. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Á dögunum birti hópur félagasamtaka og einstaklinga opinbera áskorun þess efnis að komið yrði upp fjölskylduklefa í Sundhöllinni sem nýst gæti fjölbreyttum hópi fólks, til viðbótar við kynjuðu klefana sem fyrir eru. Jafnframt hefur verið efnt til undirskriftarsöfnunar til að knýja á um málið. Lagt er til að við undirbúning þeirra framkvæmda sem nú standa fyrir dyrum í Sundhöllinni verði tekið tillit til þessara eindregnu og sanngjörnu óska.

    Frestað.

  11. Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Meðal þeirra sértæku aðgerða sem stjórnvöld gripu til í tengslum við Covid-faraldurinn var sérstakur frístundastyrkur sem miðaði að því að gera börnum af efnaminni heimilum kost á að stunda íþróttir og tómstundir. Var þar m.a. verið að bregðast við ábendingum Velferðarvaktarinnar frá árinu 2019 um nauðsyn þess að hugað væri að stöðu þessa hóps. Útfærsla verkefnisins var flókin en að lokum tókst Velferðarsviði að þróa ágæta rafræna lausn til útgreiðslu styrksins sem ætti að geta nýst til framtíðar. Óskað er eftir mati Menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs á reynslunni af sérstaka frístundastyrknum frá 2021 og hvort ekki væri rétt að stefna á að koma slíkum stuðningi á til frambúðar.

Fundi slitið kl. 12:13.

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. febrúar 2023