Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 83

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2022, mánudaginn 28. nóvember var haldinn 83. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu, borgarráðsherbergi og hófst kl. 13:32.  Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek,  Sabine Leskopf, Friðjón R Friðjónsson, Birna Hafstein varamaður fyrir Kjartan Magnússon og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Steinþór Einarsson starfandi sviðsstjóri íþrótta- og tómstundaráðs, Signý Leifsdóttir verkefnastjóri hjá menningar-, og ferðamálasviði, María Rut Reynisdóttir skrifstofustjóri menningarmála hjá menningar- og ferðamálasviði og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra ÍTR sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á Frístundakortinu m.t.t. skólahverfa.
    Jóhanna Garðarsdóttir ÍTR situr fundinn undir þessum lið.

        Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Frístundastyrkurinn er mikilvægt verkfæri til að virkja börn og ungmenni til þátttöku í íþróttum, listnámi og formlegu tómstundastarfi. Eitt mikilvægasta markmið hans er að auka jafnræði og ná til barna og ungmenna sem ekki taka þátt í formlegu tómstundastarfi. Um áramótin hækkar frístundastyrkurinn um helming og verður þá 75 þús. kr. á ári fyrir hvert barn 18 ára og yngri í samræmi við tillögu sem samþykkt var samhljóða í Menningar-, íþrótta og tómstundaráði í júní sl. Af því tilefni er mjög mikilvægt að sú hækkun skili sér fyrst og fremst til barnafjölskyldna í borginni og óskar ráðið eftir góðu samstarfi við ÍBR og íþróttafélögin í borginni um verðlagseftirlit með að hækkunum á iðkendagjöldum verði stillt í hóf.

    -    kl. 13:50 víkur María Rut Reynisdóttir af fundi. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram eftirfarandi tillaga að bréfi til Íþróttabandalags Reykjavíkur um samstarf í tengslum við hækkun frístundastyrks.

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir samstarfi við Íþróttabandalag Reykjavíkur og íþróttafélögin í borginni um verðlagsaðhald varðandi iðkendagjöld þar sem þess verði gætt þegar frístundastyrkur vegna barna 18 ára og yngri hækkar um 50% um áramótin í 75 þúsund krónur að sú hækkun skili sér fyrst og fremst til foreldra og forráðamanna viðkomandi barna. Sú aðgerð byggir á tillögu sem samþykkt var einróma í Menningar,- íþrótta- og tómstundaráði og hefur það að markmiði að auka þátttöku og virkni barna og ungmenna í íþróttum og tómstundastarfi. Eðlilegt er að iðkendagjöld taki mið af hækkun verðlags á hverjum tíma en mikilvægt er að menningar- íþrótta og tómstundaráð fyrir hönd Reykjavíkurborgar, ÍBR og íþróttafélögin standi saman um að halda hækkun iðkendagjalda innan hóflegra marka, í takti við verðlagsbreytingar.

    Samþykkt samhljóða.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram gjaldskrá fyrir hundahald í Reykjavíkurborg fyrir árið 2023.

    Lagt er til að gjaldið verði 15.700 kr. og gefin verði 30% afsláttur fyrir þá sem hafa lokið námskeiði.  Auk þess verði ekkert gjald fyrir fyrsta árið þegar hundur er skráður.

    Samþykkt og vísað til borgarráðs með 5 atkvæðum.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Eftir stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur hefur ásókn í þjónustu, símtöl og ráðgjöf aukist mikið, en tölfræðin sýnir að langflest erindi snúa að hundum. Ánægja er með þjónustuna, samtal við hagsmunasamtök hefur batnað og hundasvæðin í borginni hafa verið stórbætt, m.a. leiktæki sett upp víða til að bæta þessa mikilvægu frístundaiðkun borgarbúa. Til að ná markmiði um aukningu skráðra hunda í borginni fellur skráningargjaldið niður á sama tíma og er hækkun gjalda hófleg, bæði í samræmi við verðlagshækkanir og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram drög að umsögn til borgarráðs um uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá Fjölni, sbr. 78. fund menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs liður 12.  MSS22020089.   
    Frestað.

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. fundur ráðsins 19. september 2022 liður 12. ITR22100003

    Tillögunni er vísað til borgarráðs með fjórum atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata.  

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma seinagang og framtaksleysi við afgreiðslu á tillögu Fjölnis um uppbyggingu á Íþróttamannvirkjum. Nú eru rúmir 2 mánuðir síðan borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að Menningar- íþrótta- og tómstundaráð beini því til borgarráðs að fallist verði á framkomna hugmynd Fjölnis um lagningu keppnisvallar og uppbyggingu áhorfendaaðstöðu við Egilshöll og leigusamning um þau mannvirki. Nægur tími hefur gefist til að skoða fjárhagslegar forsendur verkefnisins. menningar-, íþrótta- og tómstundaráð er fagráð sem er borgarráði til ráðgjafar varðandi íþróttamál. Ráðið er meðal annars til að vera borgarráði til ráðgjafar um íþróttamál og á að taka afstöðu í þessum málum.

    -    kl. 14:35 víkur Steinþór Einarsson af fundi.
    -    kl. 14:36  taka sæti á fundinum María Rut Reynisdóttir skrifstofustjóri menningarmála hjá menningar- og ferðamálasviði, Huld Ingimarsdóttir starfandi sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs og Erling Jóhannesson áheyrnarfulltrúi BÍL.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram tillaga meirihluta Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar um að ráðist verði í tilraunaverkefni um samrekið almennings- og skólabókasafn á Kjalarnesi dags. 20. nóvember 2022.  MOF22110011

    Lagt er til að sett verði á fót samrekið almennings- og skólabókasafn í Klébergsskóla, bókakostur bókabílsins Höfðingja verði lagður til safnsins og Borgarbókasafnið og Klébergsskóli geri með sér samkomulag um bókasafnsþjónustu fyrir almenning og Klébergsskóla á Kjalarnesi.  Um verði að ræða tilraunaverkefni til eins árs þar sem fyrirkomulagið verði metið og síðan tekin ákvörðun um framhaldið.

    Samþykkt samhljóða.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarbókasafnið rekur 7 útibú í hverfum borgarinnar og hefur að auki haldið úti rekstri bókabílsins og Sögubílsins um árabil. Um áramót hættir Borgarbókasafn rekstri bókabílsins sem m.a. hefur þjónað íbúum á Kjalarnesi undanfarin ár þó aðsóknin hafi reyndar minnkað til mikilla muna. Á þessu ári var opnað glæsilegt bókasafn í menningarmiðstöðinni Úlfarsárdal sem þjónar bæði skólunum í hverfinu og íbúum á öllum aldri. Hér er lagt til að sett verði á fót samrekið skóla- og almenningsbókasafn á Kjalarnesi sem þjóni bæði Klébergsskóla, leikskólanum Bergi og íbúum hverfisins. Þarna er á ferðinni spennandi tilraunaverkefni til eins árs sem vonandi mun falla í góðan jarðveg og verða lyftistöng fyrir menntun og fræðslu í samfélaginu.

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram tillögur og greinargerð faghóps um styrkveitingar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til menningarmála dags. 17. nóvember 2022. Trúnaðarmál fram að úthlutun.  MOF22110010
    Samþykkt samhljóða.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Faghópur um styrkjamál menningar- og ferðamálasviðs hefur lokið störfum og leggur fram tillögu um að alls verði samþykktar 66 umsóknir um styrki að fjárhæð 43,4 m.kr. alls. Þá er lögð fram tillaga um 6 samstarfssamninga til þriggja ára að fjárhæð alls 15 m.kr. Loks er lagt til að Ungmennadanshópurinn Forward verði Listhópur Reykjavíkur 2023. Faghópnum er þakkað kærlega fyrir vel unnin störf sem einkennst hafa af fagmennsku og vandvirkni.

    -    kl. 15:09 víkur Kristinn Jón Ólafsson af fundi.

  8. Lagt fram svar menningar og ferðamálasviðs dags. 18. nóvember 2022, við fyrirspurn menningar-, íþrótta og tómstundaráðs um þróun á fjölda umsókna og árangurshlutfalls styrkjapotts sbr. 7. lið fundargerðar 82. fundar ráðsins 14. nóv. 2022.  MOF22110003

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Almennir styrkir til menningarmála í Reykjavík er mikilvægur farvegur nýsköpunar í málaflokknum og til að viðhalda þeim þrótti sem einkennir listir og menningu í höfuðborginni. Í samræmi við óskir úr geiranum og nýja menningarstefnu borgarinnar var tekin sú ákvörðun að auka áherslu á færri en hærri styrki sem geti skipt sköpum við að koma verkefnum á legg. Því lækkar árangurshlutfallið milli áranna 2021 og 2022, en á móti kemur að meðaltalsstyrkur hækkar um rúmlega helming og fer úr tæpum 460 þús. kr. í 719 þús. kr. Verkefnið til framtíðar verður að hækka almenna styrkjapottinn svo hann haldi betur í við verðlag.

     

    Fylgigögn

  9. Skipun tveggja fulltrúa menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs í stjórn Kjarvalsstofu. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarmála dags. 23. nóvember 2022. MOF22110012
    Samþykkt samhljóða að Sindri Freysson og Eirún Sigurðardóttir taki sæti í stjórninni.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:31

PDF útgáfa fundargerðar
83. Fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. nóvember 2022.pdf