Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 82

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2022, mánudaginn 14. nóvember var haldinn 82. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu, borgarráðsherbergi og hófst kl. 13:32.  Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek,  Sabine Leskopf, Birna Hafstein varamaður fyrir Friðjón R Friðjónsson, Þorkell Sigurlaugsson varamaður fyrir Kjartan Magnússon og Stefán Pálsson.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Erlingur Jóhannesson áheyrnarfulltrúi BÍL, Signý Leifsdóttir verkefnastjóri hjá menningar-, og ferðamálasviði, María Rut Reynisdóttir skrifstofustjóri menningarmála hjá menningar- og ferðamálasviði, Huld Ingimarsdóttir starfandi sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra ÍTR sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram til kynningar stefnumótunarvinna Borgarsögusafns ásamt tillögu að breyttum samþykktum Borgarsögusafns.  Einnig lögð fram greinargerð starfshóps um stefnu og framtíðarsýn fyrir Viðey.

  Guðbrandur Benediktsson forstöðumaður Borgarsögusafns sat fundinn undir þessum lið.

  Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ráðið þakkar góða kynningu á vandaðri stefnumótunarvinnu safnsins þar sem áherslan er á fagmennsku, áhugaverða upplifun gesta, tengingu við nærsamfélagið, virkt samtal við skólasamfélagið og ólíka hópa. Borgarsögusafn er lykilstólpi í menningarlífi borgarinnar og er ánægjulegt að sjá að safnið sinnir vel því hlutverki með áherslu á að efla starfið og auka aðgengi að menningararfinum í borginni.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarmála dags. 15. ágúst 2022 með tilnefningum fulltrúa STEFs og FÍH í faghóp Úrbótasjóðs tónleikstaða. Óskað er eftir skipun fulltrúa ráðsins í faghópinn. Til samþykktar. Trúnaðarmál fram að úthlutun.

 3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarmála dags. 10. nóvember 2022 með tilnefningum fulltrúa Rithöfundasambands Íslands og Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO um skipun í dómnefnd Barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur. Óskað er eftir skipun fulltrúa ráðsins í faghópinn. Til samþykktar. Trúnaðarmál fram að úthlutun.

 4. Samþykkt að Eiríkur Björn Björgvinsson og María Rut Reynisdóttir sitji í stjórn Menningarsjóðs Imagine Peace - Reykjavík.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs við tillögu fulltrúa Vinstri grænna frá 80. fundi liður 6 um að að skipaður verði starfshópur undir forystu Borgarsögusafns til að kortleggja stöðu safna og sýningarsetra í borginni, greina hana og gera eftir atvikum tillögur um úrbætur.
  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum gegn einu atkvæði Vinstri grænna.

  Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Vinstri grænna í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði fagnar þeim markmiðum sem fram koma í aðgerðaráætlun menningarstefnu Reykjavíkurborgar um úrbætur í varðveislumálum safnkosts lykilsafna borgarinnar. Brýnt er að fjármagna áætlun þessa og hrinda henni í framkvæmd sem fyrst. Vinstri græn árétta mikilvægi þess að ráðist verði í kortlagningu á stöðu sjálfstæðra safna og sýningarstaða í Reykjavík og telja ekki rétt að bíða með hana þar til aðgerðaráætlunin er komin til framkvæmda, enda er markmið tillögunnar einmitt það að gera borgina betur undirbúna til að bregðast við beiðnum frá slíkum aðilum sem yfirleitt berast ekki fyrr en allt er komið í óefni. Góð kortlagning er forsenda skynsamlegra ákvarðana. Samþykkt tillögunnar hefði jafnframt sent jákvæð skilaboð til þeirra hópa og félagasamtaka sem leitað hafa til borgarinnar vegna slíkra mála upp á síðkastið.

  Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:

  Tillaga VG um stofnun starfshóps um kortlagningu safna og safnakosts í borginni er í ágætu samræmi við markmið nýrrar menningarstefnu um aðgengi að menningararfinum en forgangsmál í málaflokknum er hins vegar að innleiða og fjármagna aðgerðaáætlun stefnunnar. Tillögunni er því vísað frá en efni hennar gæti komið til álita við endurskoðun stefnunnar sem framundan er á komandi ári.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram svar borgarbókavarðar frá 19. október 2022 við fyrirspurn íbúaráðs Kjalarness um starfsemi bókabílsins frá 13. október 2022 sbr. 17. lið fundargerðar ráðsins sama dag.
  Einnig lögð fram bókun íbúaráðs Kjalarness frá 11. nóvember 2022 um svar borgarbókavarðar.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram samantekt menningar- og ferðamálasviðs dags. 10. nóvember 2022 með yfirliti á þróun styrkjapotts menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs til menningarmála ásamt uppreikningi á verðlagsþróun.

  Ráðið óskaði eftir gögnum um fjölda umsókna og þróun árangurshlutfalls fyrir sama tímabil og lagt er fram í samantektinni.

  Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Samantekt á þróun fjárveitinga á styrkjum til menningarmála í borginni leiðir í ljós að undanfarin fjögur ár vantar um 33 milljónir til að fjárveitingarnar hafi haldið í við verðlag. Á móti kemur að fjárveitingar voru auknar um 43 m. kr á árinu 2020 til að mæta neikvæðum áhrifum COVID faraldursins. Það verður eitt af verkefnum ráðsins þegar betur árar í fjárhag borgarinnar að auka fjárveitingar til almennra styrkja enda eru þeir mikilvæg leið til að efla grasrótarstarf og nýsköpun í menningarlífi borgarinnar.

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 14:49.