No translated content text
Menningar- og ferðamálaráð
MENNINGARMÁLANEFND
Árið 2000, miðvikudaginn 2.ágúst hélt menningarmálanefnd sinn 308. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12.00. Fundinn sátu Guðrún Jónsdóttir formaður, Eyþór Arnalds og Júlíus Vífill Ingvarsson. Jafnframt sátu fundinn Tryggvi M. Baldvinsson, Valgerður Bergsdóttir, Anna Torfadóttir, María Karen Sigurðardóttir, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Sigurbjörg U. Guðmundsdóttir og Signý Pálsdóttir, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagðar voru fram umsóknir um styrk til starfrækslu tónlistarhóps. 11 umsóknir höfðu borist. Samþykkt var að tilnefna í dómnefnd um tónlistarhóp þau Önnu Geirsdóttur, Eyþór Arnalds og Tryggva M. Baldvinsson. Og óskað verði einnig eftir tilnefningu frá FÍH og FÍT um fulltrúa í dómnefndina.
2. Dómnefnd um bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar hefur lokið störfum. 50 handrit bárust. Í erindi til menningarmálanefndar fer dómnefndin þess á leit við borgarstjóra og menningarmálanefnd að fá að veita allt að 5 handritum til viðbótar við verðlaunahandritið viðurkenningarskjöl við verðlaunaafhendinguna þann 18 ágúst. Menningarmálanefnd samþykkti að mæla með því við borgarráð að þessi undantekning verði gerð sbr. greinargerð dómnefndar.
3. Lagðar voru fram umsóknir um starfslaun. 96 umsóknir bárust. Menningarmálanefnd fól embættismönnum og fulltrúum BÍL í menningarmálanefnd að veita umsagnir um umsóknirnar fyrir aukafund nefndarinnar þann 09.08. n.k.
4. Rætt um Höfðaborgina. Menningarmálanefnd samþykkti svohljóðandi bókun: Lagt fram ódags. minnisblað Nikulásar Úlfars Mássonar f.h. Árbæjarsafns og minnisblað borgarminjarvarðar dags. 25.07.2000. Eins og fram er komið er húsið sem hér er til umfjöllunar hluti af Höfðaborginni svonefndu sem reist var við Borgartún árið 1941 og jafnframt sá eini sem eftir er. Hér var um að ræða 104 litlar leiguíbúðir í 16 raðhúsum sem ætlað var að leysa nokkuð úr þeirri miklu húsnæðiseklu sem þá var í borginni. Húsið hefur því mikið menningarsögulegt gildi og hefði verið fengur að því að fá það í Árbæjarsafn. Viðgerðir á húsinu eru hins vegar það langt komnar (sbr. umsögn borgarminjavarðar) að húsið hefur glatað nokkru af minjagildi sínu. Með tilliti til þess og þess kostnaðar sem er samfara kaupum og viðgerð á húsinu treystir nefndin sér ekki til að mæla með því við borgarráð að húsið verði keypt og endurbyggt í Árbæjarsafni.
5. Rædd var tillaga um golfvöll í Viðey. Menningarmálanefnd samþykkti svohljóðandi bókun: Menningarmálanefnd er ráðgjafanefnd í menningarmálum og stjórnarnefnd Viðeyjar. Vegna tillögu sem fram kom í borgarráði 25.07. sl. um athugun á gerð 18 holu golfvallar í Viðey telur menningarmálanefnd nauðsynlegt að óska nú þegar eftir umsögn borgarminjavarðar um þetta mál. Menningarsögulegt gildi Viðeyjar nær til landsins alls og telur nefndin því eðlilegt að óska einnig eftir umsögn Þjóðminjasafnsins um tillöguna. Þá skal vakin athygli á því að menningarmálanefnd vinnur nú að stefnumótun í menningarmálum, meðal annars um framtíð Viðeyjar. Nefndin mun lýsa afstöðu sinni til golfvallar í Viðey þegar ofangreindar umsagnir liggja fyrir. 6. Rætt var um ÍR húsið. Menningarmálanefnd samþykkti svohljóðandi bókun: Samkvæmt samþykktum um menningarmálanefnd Reykjavíkur ber nefndinni að fjalla um húsvernd í Reykjavík. ÍR húsið sem stendur við Túngötu er byggt árið 1897. Það var reist aðeins neðar í götunni en var flutt á núverandi stað árið 1929. Í því húsi var fyrsta kaþólska kirkjan á Íslandi frá siðaskiptum en eftir flutning þess hefur það verið íþróttahús. Í þessu húsi er stór hluti íslenskrar íþróttasögu skrifaður og er það miðpunktur þess sem kölluð hefur verið gullöld íslenskra frjálsíþrótta. Í tillögum húsverndarnefndar Reykjavíkur er lagt til að húsið verði friðað, en tillögur nefndarinnar eru fylgiskjal með gildandi Aðalskipulag Reykjavíkur. Menningarmálanefnd tekur undir þessi sjónarmið og leggst alfarið gegn niðurrifi húsins og leggur til að húsinu veri fundin verðug staðsetning og hlutverk með tilliti til sögu þess.
7. Formaður greindi frá því að niðurstöður dómnefndar í aldamótasamkeppni um útilistaverk voru kynntar í Hafnarhúsinu 27.07. s.l. þar sem þær níu tillögur er valdar voru í lokaðan hluta samkeppninnar eru nú til sýnis.Dómnefndin mælti með útilistaverki eftir Sigurð Guðmundsson til frekari útfærslu og framkvæmda.
8. Samþykkt var að veita kr.100.000. af kostnaðarliðnum tengsl skóla og menningarstofnana til útgáfu á kynningarriti til grunnskólakennara í Reykjavík undir yfrirskriftinni : Menning, listir, saga, náttúra.
Fundi slitið kl.14.00
Guðrún Jónsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Eyþór Arnalds