No translated content text
Menningar- og ferðamálaráð
Reykjavíkurborgar
Ár 2011, mánudaginn 12. desember, var haldinn 156. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ingólfsnausti – Vesturgötu 1 og hófst hann kl. 13:11. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson formaður, Harpa Elísa Þórsdóttir, Stefán Benediktsson, Eva Baldursdóttir, Áslaug Friðriksdóttir og Þór Steinarsson. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Ásmundur Ásmundsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Berglind Ólafsdóttir og Signý Pálsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Formaður vakti athygli á þriggja alda afmæli Skúla Magnússonar og að af því tilefni yrði opnuð sýningin ,,Hinar nýju innréttingar. Skúli Magnússon og Reykjavík 18. aldar“ á Minjasafni Reykjavíkur - Landnámssýningu í Aðalstræti sama dag.
2. Lögð fram tillaga um að gerður verði samstarfssamningur til 3ja ára við rekstraraðila hátíða í kjölfar samþykktar borgarstjórnar þ. 6. des. s.l. um Borgarhátíðasjóð ásamt greinargerð. Jafnframt verði stefnt að því að gera þríhliða samninga við sem flesta af umræddum aðilum í samvinnu við þau ráðuneyti sem með málefni þessara hátíða fara.
Samþykkt sem trúnaðarmál þar til afgreiðslu styrkja vegna ársins 2012 er lokið. (RMF11110010).
- kl. 13.26 mætti Jarþrúður Ásmundsdóttir á fundinn.
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra um skipan stjórnar fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. (RMF09040012)
Lögð fram svohljóðandi tillaga um skipun stjórnar:
• Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar, 2 fulltrúar meirihluta, 1 fulltrúi minnihluta
• Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar, skrifstofa
Menningar- og ferðamálaráð óski að auki eftir tilefningum frá eftirtöldum stofnunum og félagasamtökum:
• Borgarbókasafn Reykjavíkur
• Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
• Menningar- og menntamálaráðuneyti/ Bókmenntasjóður
• Félag íslenskra bókaútgefenda
• Hagþenkir
• Hugvísindasvið Háskóla Íslands
• Rithöfundasamband Íslands
Formaður stjórnar verði annar af fulltrúum meirihluta menningar- og ferðamálaráðs.
Stjórnin sé skipuð til tveggja ára en það sé þó tryggt að aldrei verði öllum fulltrúum skipt út í einu.
Tillagan var samþykkt. Tilnefndir af meirihluta voru Sigurjón Birgir Sigurðsson SJÓN og Oddný Sturludóttir. Sviðsstjóra var falið að óska eftir tilnefningu frá aðilum skv. ofanskráðum lista.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga:
Lagt er til að menningar- og ferðamálaráð samþykki að fela Höfuðborgarstofu að ganga til samstarfs við Icelandair Group og Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu um stofnun nýs samstarfsvettvangs um markaðssetningu og kynningu á Reykjavík sem ráðstefnu- og viðburðaborg. Markmið samstarfsins er að stórefla Reykjavík sem vettvang alþjóðlegra ráðstefna og viðburða, styrkja jákvæða ímynd Reykjavíkur, auka tekjur og arðsemi ferðaþjónustufyrirtækja í Reykjavík og fjölga þar með störfum í borginni. Jafnframt skal stefnt að því að hér verði til verði kröftugur samnefnari sem flestra hagsmunaaðila í þessari tegund ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Framlag Reykjavíkurborgar verði alls 45 m.kr. á ári, sem annars vegar verði fjármagnað af liðnum atvinnumál, 40 m.kr., og hins vegar með tilfærslum verkefnisins Þekkingarheimsóknir frá Höfuðborgarstofu. Tillagan er í samræmi við áherslur Ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar og er sett fram með fyrirvara um samþykki borgarráðs.
Tillögunni fylgdi greinargerð ásamt greinargerð Pricewater House Coopers um mismunandi rekstarform dags. 9. desember 2011, yfirlit yfir helstu verkefni Ráðstefnuskrifstofunnar og umsagnir frá stjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands dags. 9. desember 2011, Samtökum ferðaþjónustunnar dags. 5. desember 2011, Íslandsstofu dags. 1. desember 2011, Icelandair Group dags. 5. desember 2011 og Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi dags. 7. desember 2011. Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu og Ingibjörg Ólafsdóttir verkefnisstjóri kynntu. (RMF1112002)
Samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar og tveimur mótaatkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Í ferðamálastefnu Reykjavíkur er eftirfarandi samþykkt: „Reykjavíkurborg stórauki áherslur sínar og verði leiðandi í kynningarstarfi á ráðstefnu- og viðburðatengdri ferðaþjónustu í borginni. Stofnað verði til formlegs samstarfsvettvangs með helstu hagsmunaaðilum á höfuðborgarsvæðinu á þessu sviði, s.s. Hörpu, flugfélögum, helstu hótelum, fundarstöðum, ráðstefnuskipuleggjendum o.fl. Einnig verði horft til náins samstarfs við Íslandsstofu til að nýta sem best samlegð í erlendri kynningu. Samstarfsvettvangurinn taki til starfa haustið 2011.“ Meirihlutinn hefur túlkað ofangreinda klausu úr ferðamálastefnunni sem ákall um að stofna þurfi sérstaka skrifstofu sem taka mun vænan skerf af þeim útgjöldum sem verkefninu eru sett. Það er því gagnrýnt að hér verður um óþarfa aukakostnað að ræða t.d. vegna þess að ráða verður sérstakan framkvæmdastjóra, leigja þarf sérstakt húsnæði o.fl. Mjög mikilvægt er að pólitískir fulltrúar séu á varðbergi gagnvart því að kerfið belgist út að óþörfu. Líkurnar á því að verkefnið muni vinda upp á sig eru verulegar og miðað við það að mögulegt er að vinna verkefnið innan veggja Höfuðborgarstofu teljum við það ódýrari lausn. Þá er ljóst að ekki er góð sátt um málið þar sem fyrir liggur að Íslandsstofa gerir athugasemdir við hugmyndir um ráðstefnuskrifstofuna.
Meirihluti menningar- og ferðamálaráðs óskaði bókað:
Meirihluti menningar- og ferðamálaráðs fagnar innilega bókun Sjálfstæðismanna en telur hana á misskilningi byggða, því mikil sátt ríkir um þetta verkefni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Í umsögn Íslandsstofu um stofnun Ráðstefnuskrifstofu Reykjavíkur kemur fram að það myndi vissulega ekki ríma vel við þau sjónarmið sem lágu að baki stofnunar Íslandsstofu um að sameina krafta og fjármuni til almennrar kynningar á íslenskum hagsmunum erlendis að stofna sérstaka ráðstefnuskrifstofu fyrir höfuðborgina. Um leið bendir Íslandsstofa á það að slíkt veki hugmyndir um að nauðsynlegt verði þá að stofna ráðstefnuskrifstofur annarra landshluta til mótvægis við Ráðstefnuskrifstofu Reykjavíkur. Sú hugmynd kemur jafnframt fram að þar á bæ telji menn líklegast til árangurs að efla og styrkja Ráðstefnuskrifstofu Íslands og auka vægi Reykjavíkurborgar innan hennar. Að þessu sögðu er ekki hægt að taka undir það að fullkomin sátt sé um fyrirliggjandi tillögur.
Meirihluti menningar- og ferðamálaráðs óskaði bókað:
Um langt árabil hafa ferðaþjónustuaðilar óskað eftir að Reykjavíkurborg komi enn betur að kynningarmálum ferðaþjónustunnar. Samþykkt Ferðamálastefna tekur á þessu. Sú hugmynd að eitthvað sparist við að taka þetta verkefni alfarið inn í Höfuðborgarstofu gengur ekki upp. Höfuðborgarstofa er nú þegar undir miklu álagi í kjölfar hagræðingar síðustu ára, þannig að verkefni af þessari stærðargráðu gæti aldrei alfarið vistast þar. Með þessum nýja samstarfsvettvangi, sem verður sameiginleg fjárfesting Reykjavíkurborgar og fyrirtækja í greininni, opnast nýir möguleikar í markaðsetningu á Reykjavík sem ráðstefnuborg, eins og skilgreint var í Ferðamálastefnu sem samþykkt var í borgarstjórn samhljóða.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Hvergi hafa komið fram gögn um það að ekkert sparist við það að verkefnið verði hýst hjá Höfuðborgarstofu þannig að ekki er hægt að taka mark á staðhæfingum um annað. Ljóst er að Ferðamálastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt samhljóða í borgarstjórn og vilji allra er að vinna ferðamálunum sem bestan farveg. Engu að síður er ekki hægt að gefa afslátt af framkvæmdinni.
5. Lögð fram til kynningar tillaga safnstjóra Listasafns Reykjavíkur um nýtt útilistaverk í stað Vatnsberans sem færður var frá Litluhlíð á horn Bankastrætis og Lækjargötu. Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur kom á fundinn. (RMF11110011)
6. Lagður fram undirritaður samningur við Eldingu-Hvalaskoðun um ferjusiglingar, leigu og veitingarekstur í Viðey og Viðeyjarstofu dags. 9. desember 2012. Berglind Ólafsdóttir skrifstofustjóri rekstrar og fjármála kynnti. Samþykkt. (RMF11010021)
- kl. 14.40 vék Þór Steinarsson af fundi.
7. Betri Reykjavík – Setja upp aðstöðu fyrir unga vegglistamenn – Frestað fá 154. fundi. Lagðar fram að nýju upplýsingar frá Framkvæmda- og eignasviði um málið.
Afgreiðsla ráðsins:
Unnið er áfram að lausnum fyrir vegglistamenn í samvinnu við Framkvæmda- og eignasvið. Vakin er athygli á því að hægt er að sækja um leyfi fyrir vegglistaverk til byggingarfulltrúa.
(RMF11110001)
8. Betri Reykjavík - Þrjár tillögur um torg:
• Betri Reykjavík - Bjóða hljómsveitum að troða upp á Lækjartorgi á laugardögum. Frestað frá 154. fundi. Lagt fram svar frá Margréti Þormar Skipulags- og byggingarsviði 28. nóvember 2011 vegna fyrirspurnar sviðsins. (RMF11110001)
• Betri Reykjavík – Uppákomur, markaðir og tónlist á Ingólfstorgi um helgar. Lögð fram hugmynd úr flokknum menning og listir á Betri Reykjavík dags. 31. nóvember 2011 um betri nýtingu á Ingólfstorgi með uppákomum, mörkuðum og tónlist á torginu um helgar (RMF11110001)
• Betri Reykjavík – Að breyta Ingólfstorgi í skautasvell yfir vetrartímann. Lögð fram hugmynd úr flokknum ferðamál á Betri Reykjavík dags. 31. nóvember 2011 um að breyta Ingólfstorgi í skautasvell yfir vetrartímann. (RMF11110001)
Afgreiðsla ráðsins:
Menningar- og ferðamálaráð fagnar þeim mikla áhuga sem birtist á vefnum Betri Reykjavík á að gæða miðborgina lífi og nýta torgin betur fyrir ýmiskonar viðburðahald. Ingólfstorg hefur á umliðnum árum verið ágætlega nýtt sem viðburðatorg – sérstaklega á sumrin og nú hefur jólamarkaði Miðborgarinnar okkar verið fundinn þar staður. Hvað hugmyndir um skautasvell á Ingólfstorgi varðar þá er það mat menningar- og ferðamálaráðs að reynslan sýni að ekki sé um heppilega nýtingu að ræða og að kostnaður við að koma upp og viðhalda svelli á torginu sé ekki réttlætanlegur. Minni nýting hefur verið á Lækjartorgi fyrir viðburði – en mótuð hefur verið stefna um götu- og torgsölu þar sem leyfismál og nýting m.a. á Lækjartorgi eru sett í skýran farveg. Ýmis önnur torg hafa verið nýtt undir markaði og viðburði og má þar t.d. nefna Óðinstorg og Hjartareit – en skipulagning viðburða hefur verið heldur tilviljunarkennd og aðkoma Reykjavíkurborgar mismunandi mikil. Menningar- og ferðamálaráð beinir því til borgarráðs að settur verði á fót starfshópur til að vinna drög að stefnumörkun um betri nýtingu og fegrun torga í miðborginni. Í starfshópnum sitji fulltrúar þeirra fagsviða sem tengjast umsjón, leyfisveitingum og viðburðahaldi s.s. Skipulags- og byggingasviðs, Umhverfis- og samgöngusviðs, Framkvæmda- og eignasviðs, Menningar- og ferðamálasviðs auk annarra hagsmunaaðila sem tengjast miðborginni.
9. Betri Reykjavík – Matarmarkað á hafnarbakkann. Frestað fá 154. fundi. Lagðar fram að nýju umsagnir frá forstöðumanni Höfuðborgarstofu og deildarstjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Lagt fram svar frá Margréti Þormar Skipulags- og byggingarsviði 28. nóvember 2011 vegna fyrirspurnar sviðsins. (RMF11110001)
Afgreiðsla ráðsins:
Menningar- og ferðamálaráð tekur undir þau sjónarmið sem birtast á Betri Reykjavík að matur sé menning og list og að matarmarkaðir séu borg jafn mikilvægir og tónlistarhús eða leikhús. Hugmyndir um matarmarkað við gömlu höfnina eða annarsstaðar í miðborg Reykjavíkur birtast með reglulegu millibili. Það sem að öllu jöfnu stendur þeim fyrir þrifum er hversu mikið umstang umsýslan er miðað við hversu lítið markaðurinn gefur í aðra hönd, en ekki síður hversu strangar reglugerðir eru hérlendis hvað varðar sölu á matvælum. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur ( HER) eru markaðir með matvæli og sölubásar með matvæli starfsleyfisskyldir skv. lögum um matvæli nr. 93/1995 m.s.b. og reglugerðum settum skv. þeim og flokkast sem matvælafyrirtæki. Sækja þarf um starfsleyfi fyrir markaðnum til HER. Þeir sem ætla að selja þar matvæli þurfa einnig að sækja um starfsleyfi fyrir sölubás með matvæli til HER. Einungis er heimilt að höndla með matvæli frá fyrirtækjum og aðilum sem að hafa starfsleyfi fyrir sinni framleiðslu. Kröfur löggjafarinnar til aðstöðu eru mismiklar eftir því hvort um sé að ræða sölu á pökkuðum matvælum eða hvort verið sé að selja eða vinna með óvarin matvæli. Samkvæmt lögunum skal „matvælafyrirtækið“ sjálft hættugreina fyrirhugaða starfsemi og greina síðan frá því hvernig það hyggst tryggja öryggi matvælanna bæði hvað varðar aðstöðu, búnað og innra eftirlit. Samkvæmt áliti HER er á þessu stigi málsins erfitt að tilgreina hvers konar aðstaða þyrfti að vera til staðar til þess að hægt sé að setja upp matarmarkað við höfnina. En ljóst að miðað við kröfur reglugerða er nauðsynlegt að búa vel að markaðnum frá byrjun svo vel takist til.
Sumarið 2009 var starfræktur matarmarkaður við höfnina með styrk bæði frá Faxaflóahöfnum og Reykjavíkurborg. Styrkur Faxaflóahafna fólst í byggingu á sölubásum og ýmsum útbúnaði en Reykjavíkurborg styrkti tilraunina um hálfa milljón. Markaðurinn gekk ágætlega en umsjónaraðilinn hafði ekki áhuga á að endurtaka verkefnið. Nú er unnið að nýju deiliskipulagi á hafnarsvæðinu sem m.a. mun ganga út frá blandaðri starfsemi og fyrirtækjum sem þjónusta bæði heimamenn og gesti. Það er augljóslega ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að koma á fót eða starfrækja matarmarkað en menningar- og ferðamálaráð felur Höfuðborgarstofu að vera áhugasömum til ráðgjafar og kanna nánar forsendur þess í samvinnu við HER hvaða skilyrði þarf að uppfylla svo koma megi upp föstum matarmarkaði á hafnarsvæðinu.
10. Betri Reykjavík – Endurvekja Laugaveg sem verslunargötu með ferðamenn í huga. Frestað frá 154. fundi. Lagðar fram að nýju upplýsingar frá Skipulags- og byggingarsviði um skipulag á Laugavegi. (RMF11110001)
Afgreiðsla ráðsins:
Miðborg Reykjavíkur er fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi. Menningar- og ferðamálaráð telur því að Laugavegurinn sé nú þegar helsta verslunargata ferðamanna, sem sækja borgina heim, en álítur jafnframt að samsetning verslana og þjónustu í miðborginni eigi að þjóna jafnt heimamönnum sem gestum. Hvað varðar vísanir tengdar tillögunni á Betri Reykjavík um mikilvægi gamalla húsa fyrir miðborgina var leitað upplýsinga hjá Skipulagssviði Reykjavíkurborgar sem sendi eftirfarandi svar:
,,Upp úr 2002 voru unnar deiliskipulagsáætlanir við Laugaveg og voru þær samþykktar, en samkvæmt þeim er heimilt að rífa nokkur gömul hús. Hugarfarsbreyting hefur átt sér stað. Afstaða til gamalla húsa hefur verið að breytast á undanförnum árum. Skipulagsyfirvöld hafa nú meiri áhuga á varðveislu gamalla húsa. Nýlega voru húsin að Laugavegi 4 og 6 gerð upp í samræmi við upprunalegt útlit. Veittir hafa verið styrkir úr húsverndarsjóði til Laugavegs 11 og Laugavegs 29, en samkvæmt gildandi deiliskipulagi mega þessi hús hverfa ásamt fleiri gömlum timburhúsum við Laugaveg. Skipulagsyfirvöld eru að vinna í því að breyta deiliskipulagsáætlunum til að bjarga sem flestum gömlum húsum. M.a. er í gangi vinna við endurskoðun deiliskipulags við Laugaveg austan Vatnsstígs, sem felur í sér að varðveita timburhús á horni Vatnsstígs og Laugavegs og hús með steyptu þaki við ofanverðan Vatnsstíg. Það er því ekki stefna skipulagsyfirvalda í Reykjavík að breyta Laugavegi í gler- og“steinsteypugettó”.
11. Lagt fram að nýju erindi Nýlistasafnsins um endurnýjun samnings um húsnæðisstyrk. Frestað frá 155. fundi. Synjað. (RMF11110004)
12. Lögð fram umsókn Laufeyjar Sigurðardóttur f.h. Mozart-hópsins dags. 25. september 2011 um styrk sem vegna árlegra Mozarttónleika. Jafnframt lagt fram erindi Laufeyjar Sigurðardóttur dags. 16. nóvember 2011 þar sem óskað er eftir að styrkumsóknin verði afgreidd sem fyrst þar sem tónleikar hópsins eru haldnir sem fyrr á afmælisdegi Mozarts 27. janúar. Frestað. (RMF11110002)
13. Skyndistyrkir 2011. Lagðar fram 12 umsóknir um skyndistyrki sem sótt var um fyrir 1. desember, ásamt yfirliti og umsögnum. Frestað. (RMF11010001)
14. Lögð fram yfirlit yfir allar styrkumsóknir vegna ársins 2012. Trúnaðarmál.
Fundi slitið kl. 15:34
Einar Örn Benediktsson
Jarþrúður Ásmundsdóttir Stefán Benediktsson
Áslaug Friðriksdóttir Harpa Elísa Þórsdóttir
Eva Baldursdóttir