No translated content text
Menningar- og ferðamálaráð
Ár 2013, mánudaginn 8. apríl var haldinn 187. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13.48. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson formaður, Margrét Kristín Blöndal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Eva Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir og Þór Steinarsson. Áheyrnarfulltrúi BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Auður Halldórsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur kom á fundinn og kynnti fyrirhugaða gjöf Hallsteins Sigurðssonar til Reykjavíkurborgar á sextán álskúlptúrum í landi Gufuness. Lagður fram endurskoðaður gjafagjörningur ásamt minnisblaði skrifstofustjóra menningarmála. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagsráðs dags. 13. febrúar 2013, umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. febrúar 2013 og umsögn hverfisráðs Grafarvogs dags. 12. febrúar. (R05050198)
Menningar- og ferðamálaráð samþykkir að leggja til við borgarráð að gjöfin verði þegin og vísar erindinu áfram til borgarráðs.
2. Lögð fram umsögn safnstjóra Listasafns Reykjavíkur dags. 15. mars 2013 um uppsetningu umhverfislistaverks í Reykjavíkurtjörn er vísað var úr borgarráði til umsagnar ráðsins 13. febrúar 2013. (RMF13020011)
Menningar- og ferðamálaráð tekur samhljóða undir umsögn safnstjóra Listasafns Reykjavíkur. Ráðið vekur einnig athygli á að vernda þarf lífríki tjarnarinnar, hvers konar inngrip geta sett það úr jafnvægi.
3. Lögð fram umsögn innkaupanefndar Listasafns Reykjavíkur dags. 5. apríl 2013 um fyrirhugaða listaverkagjöf CCP til Reykjavíkurborgar. Safnstjóri Listasafnsins kynnti umsögnina. (RMF13010037)
Menningar- og ferðamálaráð tekur undir umsögn innkaupanefndar Listasafns Reykjavíkur, þó einkanlega með tilliti til fyrirvara vegna stærðar verksins og staðsetningar. Ráðið vísar erindinu ásamt umsögninni til umhverfis- og skipulagsráðs til umsagnar.
4. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM kom á fundinn og kynnti starfsemi og rekstur sjónlistamiðstöðvarinnar á Korpúlfsstöðum. Lögð fram greinargerð SÍM um sjónlistamiðstöðina á Korpúlfsstöðum dags. 21. mars 2013, drög að samstarfssamningi um rekstur Listamiðstöðvar á Korpúlfsstöðum frá febrúar 2012 og drög að húsaleigusamning, um hluta Korpúlfsstaða Thorsvegi 1 dags. 12. maí 2012, (RMF13010014)
5. Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir verkefnastjóri barnamenningar kom á fundinn og kynnti Barnamenningarhátíð 2013. (RMF13010032)
? Kl. 14.55 kom Þór Steinarsson á fund.
6. Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir kynnti Menningarbakpokann sem er verkefni á sviði listfræðslu barna og ungmenna víða á Norðurlöndum.
Menningar- og ferðamálaráð felur verkefnastjóra barnamenningar að vinna minnisblað og tillögur um næstu skref í mögulegu samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.
7. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra menningarmála dags. 3. apríl 2013 um barnamenningu á Menningar- og ferðamálasviði sem svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar frá 186. fundi. (RMF13040001)
8. Lagðir fram undirritaðir samstarfssamningar Menningar- og ferðamálasviðs f.h. Reykjavíkurborgar við Heimili kvikmyndanna vegna rekstrar Bíós Paradísar dags. 23. jan. 2013; við Hinsegin daga í Reykjavík – Gay Pride dags. 28. jan. 2013;
við Reykjavík Dance Festival dags. 22. jan. 2013; við Lókal, leiklistarhátíð dags. 28. jan. 2013; við Nýlistasafnið dags. 12. mars; við Kling og Bang gallerí dags. 31. jan. 2013; við Samtök um danshús v. rekstrar dansverkstæðis dags. 24. jan. 2013; við Myndhöggvarafélagið dags. 25. jan. 2013 og við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík dags. 14. mars 2013 til staðfestingar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka bókun sína frá 180. fundi menningar- og ferðamálaráðs þann 14. janúar sl. varðandi samningsgerð við Heimili kvikmyndanna.
9. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 31. janúar um meiri veggjalist og skrautlegri borg. (RMF13010001)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Umræðan um veggjalist annars vegar og veggjakrot hins vegar hefur verið mikil undanfarin ár og Reykjavíkurborg gert margt til að takast á við þetta flókna verkefni. Nú standa yfir kosningar um verkefni í Betri hverfi, og er verkefni sem snýr að veggskreytingum meðal þeirra. Ef um veggi í einkaeigu er að ræða verða húseigendur allir í öllum tilfellum að veita leyfi fyrir því að á eignir þeirra sé málað. Menningar- og ferðamálaráð þakkar góðar ábendingar og verður þeim komið í réttan farveg.
10. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum ferðamál dags. 31. janúar 2013 um að auka upplýsingar á götuskiltum. (RMF13010001)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Menningar- og ferðamálaráð þakkar góða ábendingu. Umhverfis- og skipulagssvið ber höfuðábyrgð á merkingum á vegum Reykjavíkurborgar, en menningar- og ferðamálaráð samþykkti árið 2007 að koma upp menningarmerkingum í borginni í samstarfi við þáverandi Umhverfis- og samgöngusvið. Almenningi var gefinn kostur á að koma með ábendingar um hvaða staði innan borgarinnar mætti merkja betur. Margar hugmyndir bárust að merkingum. Þegar eru komnar merkingar við Bernhöftstorfu, í Mæðragarði, Hallargarði, Hljómskálagarði, á Austurvelli, Klambratúni, Ingólfsnausti, Breiðholtsbæinn gamla og Viðey, svo nokkrar séu nefndar. Aðrir aðilar, td. Orkuveitan og við Faxaflóahafnir hafa notað sömu fyrirmynd í merkingum. Skiltin eru á íslensku öðru megin og ensku hinu megin, orðafjöldi er um 250 orð á hvorri hlið og a.m.k. tvær ljósmyndir á hvorri hlið. Með tilkomu Reykjavíkur – bókmenntaborgar UNESCO var verkefninu haldið áfram og hefur Bókmenntaborgin þegar merkt eða með í vinnslu níu staði sem tengjast bókmenntum við borgarmyndun. Þær merkingar byggja á upphaflegum grunni en eru fyrirferðarminni en hinar. Ætlunin er að halda áfram kortlagningu menningarsögu borgarinnar og að huga sérstaklega að þeim sagnaarfi sem tengist landnámi, tíma Íslendingasagna og goðafræði. Markmið þessa verkefnis er að þétt net merkinga tengi menningu, listir og sögu miðborgarinnar í eina samstæða heild, og að ferðamenn jafnt sem borgarbúar eigi þannig kost á að kynna sér hinar ýmsu hliðar á sögu, list og bókmenntum þjóðarinnar á göngu sinni um bæinn.
11. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 28. febrúar um gosbrunn eða annað vatnslistaverk á Klambratún. (RMF13010001)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Þetta er góð ábending og verður hún send áfram til Umhverfis- og skipulagssviðs til að hafa í huga við framtíðarhönnun á Klambratúni. Benda má á þær áherslur í menningarstefnu Reykjavíkurborgar á að listamenn hafi aðkomu að mótun mannvirkja á vegum borgarinnar og að stuðlað sé með ýmsum hætti að listsköpun í opinberu rými.
Fundi slitið kl. 15.32
Einar Örn Benediktsson
Eva Baldursdóttir, Margrét Kristín Blöndal
Ósk Vilhjálmsdóttir Þór Steinarsson
Áslaug Friðriksdóttir Marta Guðjónsdóttir