Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2004, miðvikudaginn 8. desember, var haldinn 402. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands að Dyngjuvegi 8 og hófst hann kl. 16:15. Viðstaddir voru Stefán Jón Hafstein formaður, Ármann Jakobsson, Ásrún Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Rúnar Freyr Gíslason. Auk þeirra voru viðstödd Áslaug Thorlacius og Edda Þórarinsdóttir, fulltrúar BÍL, Gísli Helgason, varafulltrúi F-lista og Signý Pálsdóttir.
Fundargerð ritaði Unnur Birgisdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram til afgreiðslu svohljóðandi tillaga um Tilfinningatorg:

Í samræmi við erindi frá borgarráði um að menningarmálanefnd fjalli um möguleika á að starfrækt verði Tilfinningatorg í Reykjavík samþykkir nefndin að veita 400 þús. kr. styrk til þessa verkefnis í samvinnu við Elísabetu Jökulsdóttur skáld og frumkvöðul. Menningarstjóra er falið að ganga frá samningi um þetta hið fyrsta. Féð komi af styrkjalið nefndarinnar 2004.

Greinargerð fylgdi tillögunni. (R04080073)

Samþykkt með 3 atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu málsins og óskuðu bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vona að Tilfinningatorg komist á laggirnar, en telja að ef borgin vill á annað borð styðja við ágætar hugmyndir borgarbúa til að auðga mannlífið, eigi það að vera í formi verkefnastyrkja sem menningarmálanefnd úthlutar árlega. Hundruð Reykvíkinga hafa á eigin spýtur fengið sambærilegar hugmyndir og hrint þeim í framkvæmd af eigin rammleik. Borgin þarf að gæta sín vel að jafnræðis sé gætt í meðferð mála af þessu tagi.
2. Lagður fram til kynningar endurbættur listi yfir 138 umsækjendur um styrki menningarmálanefndar. Jafnframt var lögð fram tillaga faghóps með greinargerð. Frestað. (R04100091)

3. Lagt fram til kynningar erindi frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur um minnisvarða og skilti með myndum þar sem Melavöllur stóð.
Menningarmálanefnd er fylgjandi erindinu og felur menningarmálastjóra að senda erindi til skipulagsnefndar í þeim tilgangi að fá staðfestan vilja skipulagsnefndar fyrir því að halda megi áfram með málið. (R03030184)

4. Lögð fram til kynningar greinargerð frá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð, dags. 7. desember 2004. (04010163)

5. Lagt fram til kynningar erindi frá Pjetri Stefánssyni f.h. stjórnar Íslenskar Grafíkur, dags. 1. desember 2004, vegna úthlutunar úr Muggi. (R04120031)

6. Kynning á nýju sviði menningar- og ferðamála. Svanhildur Konráðsdóttir nýráðinn sviðsstjóri mætti á fundinn vegna málsins og kynnti hið nýja svið og lagði fram gögn yfir helstu verkefni Höfuðborgarstofu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Sjálfstæðismenn í menningarmálanefnd þakka fyrir kynningu á nýju sviði menningar- og ferðamála. Jafnframt óska þeir Svanhildi Konráðsdóttur til hamingju með ráðningu hennar sem yfirmaður þess sviðs og óska henni velfarnaðar í nýju starfi.
Hjá því verður hins vegar ekki vikist að gagnrýna R-listann fyrir afar litla og lélega kynningu á þeim breytingum sem nú hafa verið samþykktar í skipulagi menningarmála í borginni. Aldrei voru fulltrúar í menningarmálanefnd spurðir hvað þeir teldu best fyrir menningarmálin í borginni, hvorki þegar til stóð að sameina menningarmálin íþrótta- og tómstundamálum, né heldur eftir að stefnan var tekin á sameiningu við ferðamál. Pólitískir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar í menningarmálanefnd hafa góða þekkingu á menningarmálum borgarinnar og hefðu getað lagt gott til, ef áhugi hefði verið á opnum og lýðræðislegum stjórnarháttum eða jafnvel samræðustjórnmálum. Á því var greinilega enginn áhugi.

Fulltrúar R-listans óskuðu bókað:

Fulltrúar meirihluta þakka kynningu og fagna stofnun nýs sviðs sem ber í sér mikla sóknarmöguleika í menningarmálum í Reykjavík.

7. Lagt fram til kynningar erindi borgarráðs, dags. 3. desember 2004 þar sem tilkynnt er samþykkt borgarráðs vegna 2ja ára samnings menningarmálanefndar við Sjálfstæðu leikhúsin um rekstur Tjarnarbíós. (R04100370)

Fundi slitið kl. 17.20

Að loknum fundi var jólakvöldverður í boði menningarmálanefndar. Auk fundarmanna voru gestir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Andri Snær Magnason og Ragnheiður Tryggvadóttir frá Rithöfundasambandi Íslands, Bergþóra Jónsdóttir frá Morgunblaðinu og Svanhildur Konráðsdóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu.

Stefán Jón Hafstein
Ármann Jakobsson Gísli Marteinn Baldursson
Ásrún Kristjánsdóttir Rúnar Freyr Gíslason