Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2002, miðvikudaginn 9. janúar, var haldinn 343. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12. Viðstaddir voru Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Örnólfur Thorsson, Eyþór Arnalds og Guðrún Pétursdóttir. Auk þeirra voru viðstaddir Kjartan Ólafsson og Pjetur Stefánsson fulltrúar BÍL, Eiríkur Þorláksson, Elísabet B. Þórisdóttir, Guðbrandur Benediktsson, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Gunnar Björnsson, María Karen Sigurðardóttir, Signý Pálsdóttir og Anna Margrét Guðjónsdóttir. Fundarritari var Unnur Birgisdóttir.

1. Forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi tillögu að listaverkakaupum: Kristján Guðmundsson: "Kaldi", 1981-83 - (Fresh Breeze (5 on Beaufort scale)) - járn, 137 x 296 x 4 cm "Blekgeymsla", 1982-83 (Ink Deposit) - járn og blek, 182 x 2 cm Poster for "200 pages of Barnett Newman", 2001 (1 af 10 settum) 245 x 543 cm Tillagan var samþykkt. 2. Menningarmálastjóri kynnti erindi Helgu Arnalds og Hallveigar Thorlacius með hugmynd að barnamenningarhúsi. Jafnframt kynnti hún vinnu við lausn húsnæðisvanda Leikbrúðulands. Minnisblöð fylgdu kynningunni. Samþykkt að menningarmálastjóri safni saman efni um barnamenningarhús með drögum að kostnaðaráætlun til kynningar fyrir nefndina síðar.

3. Menningarfulltrúi og borgarminjavörður lögðu fram og gerðu grein fyrir tillögu frá vinnuhópi um sýningarskála við Aðalstræti ásamt greinargerð dags. 8. janúar 2002 um fornminjar í Aðalstræti. Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi bókun:

Menningarmálanefnd leggur ríka áherslu á að endanleg ákvörðun um útfærslu á aðkomu að fornleifum við Aðalstræti verði ekki tekin fyrr en að aflokinni ítarlegri fornleifakönnun í Víkurgarði sem síðan verði forsenda deiliskipulags (útfærslu) garðsins. Þá leggur nefndin áherslu á að kannaðir verði til hlítar möguleikar á því að afleggja umferð ökutækja um Aðalstræti og skipuleggja svæðið með hliðsjón af því. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Ljóst er að hér er um mjög vandasamt verkefni að ræða, uppgröftur, varðveisla og sýning einhverra elstu minja um byggð á Íslandi. Sjálfstæðismenn leggja áherslu á að undirbúningur verksins verði vandaður. Niðurstöður fornleifagraftar í Aðalstræti og Víkurgarði verða forsendur þess sem á eftir kemur. Sjálfstæðismenn leggja til að efnt verði til hugmyndasamkeppni um varðveislu og sýningu fornminjanna í kjölfar fornleifauppgraftarins. Rétt er að benda á að í fjárhagsáætlun er gengið út frá því að fornminjar sem kunni að finnast raski ekki byggingaráformum. Litlar líkur eru á að það gangi eftir, og því varlegra að gera strax ráð fyrir viðbótarkostnaði vegna fornminja sem munu finnast á þessu merka svæði.

4. Lögð fram til afgreiðslu ný gjaldskrá Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Samþykkt með 3 atkv.

5. Lagt fram til kynningar nýtt skipurit fyrir Minjasafn Reykjavíkur. Frestað.

6. Forstöðumenn menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs, Ljósmyndasafns Reykjavíkur, Listasafns Reykjavíkur, Borgarskjalasafns Reykjavíkur og Árbæjarsafns - Minjasafns Reykjavíkur kynntu hvað helst væri á döfinni á stofnunum þeirra á næstunni.

Fundi slitið kl. 14.00

Guðrún Jónsdóttir
Anna Geirsdóttir Eyþór Arnalds
Örnólfur Thorsson Guðrún Pétursdóttir